Meistarar hugans Elvar (t.v.) og Jón Gunnar sem unnu síðasta „Mind Games“-mót, en þá er keppt í skák, brids, póker og kotru.
Meistarar hugans Elvar (t.v.) og Jón Gunnar sem unnu síðasta „Mind Games“-mót, en þá er keppt í skák, brids, póker og kotru. — Ljósmynd/Aðalsteinn Jörgensen
Elvar Guðmundsson er sérfræðingur í áhættugreiningu hjá Fjármálaeftirlitinu, en hann er tölvunarfræðingur með MBA- og MSc-gráðu í fjárfestingarstjórnun. „Ég er að greina helstu áhættuþætti fjármálamarkaðar og fylgjast með þróun á honum.

Elvar Guðmundsson er sérfræðingur í áhættugreiningu hjá Fjármálaeftirlitinu, en hann er tölvunarfræðingur með MBA- og MSc-gráðu í fjárfestingarstjórnun. „Ég er að greina helstu áhættuþætti fjármálamarkaðar og fylgjast með þróun á honum. Það hefur mikið breyst frá því fyrir hrun og vonandi að menn hafi lært af reynslunni.“

Elvar er núverandi óopinber Íslandsmeistari í „Mind Games“, en þá er keppt í skák, brids, póker og kotru. „Það eru tveir saman í liði þótt þetta sé allt einstaklingskeppni fyrir utan brids og við Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins, sigruðum á mótinu síðast.

Ég fylgist mikið með skákinni þótt ég tefli ekki mikið, fór á opnunarathöfnina á Evrópumóti landsliða í skák og ætla að mæta á þrjár síðustu umferðirnar. Annars fylgist maður með mótinu á netinu þegar ég er ekki í vinnunni,“ en Elvar er FIDE-meistari í skák.

Önnur áhugamál Elvars eru matseld og ferðalög utanlands sem innan.

Elvar er í sambúð með Halldóru Pálsdóttur, forstöðumanni Vinjar. Dóttir Elvars er Hólmfríður, nemi í heilbrigðisverkfræði í Háskólanum í Reykjavík, og fósturdóttir hans er Elísa Þórhildur, nemi í Valhúsaskóla.

„Ég verð staddur á vinnufundi í Kaupmannahöfn á afmælisdaginn, með samnorrænum vinnuhópi um fjármálaeftirlit og flýg heim um kvöldið.“