Kjarabarátta Lögreglumenn mótmæltu við Stjórnarráðið í haust.
Kjarabarátta Lögreglumenn mótmæltu við Stjórnarráðið í haust. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
Ísak Rúnarsson isak@mbl.is Kosningu um nýjan kjarasamning Landssambands lögreglumanna við ríkið er nú lokið og niðurstöðurnar liggja fyrir. Hins vegar hefur birtingu þeirra verið frestað þangað til klukkan fjögur í dag.

Ísak Rúnarsson

isak@mbl.is

Kosningu um nýjan kjarasamning Landssambands lögreglumanna við ríkið er nú lokið og niðurstöðurnar liggja fyrir. Hins vegar hefur birtingu þeirra verið frestað þangað til klukkan fjögur í dag. Í frétt á vef sambandsins kemur fram að ástæðan sé lagatæknilegt atriði sem lögmaður Landssambands lögreglumanna fer nú yfir. Heimildir Morgunblaðins herma að mikil þátttaka hafi verið í kosningunum.

SFR semur við Reykjavík

Kjarasamningur SFR - stéttarfélags í almannaþágu við Reykjavíkurborg var undirritaður í gær og mun hann verða kynntur meðal félagsmanna á næstu dögum áður en hann verður borinn undir atkvæði. Í tilkynningu frá SFR segir að samningurinn gildi frá 1. maí 2015 til loka mars 2019. Hann sé á svipuðum nótum og kjarasamningur Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og borgarinnar sem undirritaður var í síðustu viku.

Þar með hefur SFR gert samninga við þrjá af átta samningsaðilum sínum; ríki, ISAVIA og Reykjavíkurborg.

Fundað í deilu sveitarfélaga

Í gær var haldinn fundur í húsakynnum ríkissáttasemjara vegna kjaradeilu bæjarstarfsmannafélaga og Sambands sveitarfélaga. Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar sveitarfélaganna, segir að viðræður þokist áfram og að annar fundur verði haldinn í dag. Hún segir þó að ekki sé gott að spá um hvenær samningar náist.