Eins og litlir konfektmolar „Frímerkin urðu bara miklu fallegri heldur en við höfðum þorað að vona,“ segir Hörður Lárusson.
Eins og litlir konfektmolar „Frímerkin urðu bara miklu fallegri heldur en við höfðum þorað að vona,“ segir Hörður Lárusson. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Göngutúrar, samvera fjölskyldunnar og önnur notalegheit virðist vera það sem hvað flestir láta sig hlakka til um jólin. Þetta er a.m.k. mat þeirra Harðar Lárussonar og Ránar Flygenring sem eiga heiðurinn að jólafrímerkjunum í ár.

Við töluðum við fólkið í kringum okkur til að heyra hvað því fannst vera best við jólin og í ljós kom að flestir sögðu það sama – það voru notalegheitin í kringum jólin sem fólk kunni að meta – að hafa tíma með fjölskyldu og vinum, geta farið í göngutúra eða jafnvel bara að liggja uppí sófa og horfa á vídeó án þess að vera með samviskubit,“ segir Hörður Lárusson sem hannaði frímerkin í samstarfi við Rán Flygenring.

„Okkur langaði því að taka þann snúning við gerð jólafrímerkjanna og þetta var hugmyndin sem við kynntum í upphafi fyrir Vilhjálmi Sigurðssyni, forstöðumanni Frímerkjasölu Póstsins.“

Hörður hefur hannað frímerki fyrir Póstinn í nokkur ár og hann segir áhugann á að gera jólafrímerki hafa vaknað strax í janúar þegar Pósturinn auglýsti eftir hugmyndum, en tæplega 1,3 milljónir seldust af jólafrímerkjum síðasta árs. „Þetta er það frímerki sem flestir taka eftir og mér datt strax í hug að heyra í Rán. Við höfum unnið mikið saman í gegnum tíðina, unnum t.d. á sömu hönnunarstofu um tíma og höfum eftir það reglulega unnið að einhverjum verkefnum saman.“ Hann nefnir sem dæmi bókina Bjór sem kom út í fyrra. „Nú í ár sendum við svo frá okkur bókina Vín, sem byggist á sama grunni og bjórbókin, en fjallar um vín eins og nafnið gefur til kynna.“

Vildu nálgast jólin með öðrum hætti

Þau Rán voru sammála um að þau langaði að gera jólafrímerki sem nálgaðist inntak jólanna með öðrum hætti. „Ef við skoðum jólafrímerki síðustu ára þá hefur venjulega verið horft til hátíðleikans og þó að trúin sé vissulega stór hluti af jólunum þá eru annað sem skipta fólk ekkert minna máli.“ Viðræður þeirra við vini og ættingja hafi sannfært þau um að svo væri – kósíheit og samvera skiptu fólk miklu á þessum árstíma“.

Sú hugmynd kviknaði hjá Herði að blanda saman ljósmyndum og teikningum Ránar, en grunnur frímerkjanna er myndir frá ljósmyndaranum Sebastian Ziegler og svo skapa teikningar Ránar kósíhluta myndanna. „Fyrir mér lýsa myndirnar hversdagslegum en dýrmætum augnablikum í aðdraganda jóla,“ segir Rán. „Svona aðventustundum sem flestir kannast við. Þær tengjast ekki endilega trú né sérstökum hátíðleika, en eru gullnar stundir sem gera skammdegið bærilegt og jólin kósí.“

Teiknaðar voru 10-15 mismunandi senur sem komu til greina, m.a. ein með kirkju sem Hörður var mjög hrifinn af. „Hún hafði hins vegar verið nýlega á öðru frímerki og því hurfum við frá þeirri hugmynd,“ segir hann. Rán bætir við að þau hafi endalaust getað velt fyrir sér ljósmyndavali. „Við Hörður, ásamt Vilhjálmi frímerkjakóngi, fórum um víðan völl í þeirri leit, en þegar maður blandar saman teikningu og ljósmynd verða báðir hlutar að hjálpast að við að segja sömu söguna og því ljóst að maður vill finna myndefni þar sem teikningin getur bætt við einhverju sem ljósmyndin ýjar að.“ Myndefnið endaði því mun hversdagslegra en fyrstu hugmyndir þeirra Harðar gáfu til kynna. „En þetta er nokkuð sem ég er mjög ánægður með í dag,“ segir Hörður og Rán er sama sinnis, „mér þykir okkur hafa tekist vel til, en jólakisan í óumbúna rúminu er þó uppáhaldið mitt“.

Auk jólakisu sýna jólafrímerkin fólk á göngu yfir frosna Reykjavíkurtjörn og piparkökur og kakóbolla á eldhúsborði. „Við höfum verið að hlæja svolítið að því að við höfum náð að koma óuppbúnu rúmi með tölvu uppí á jólafrímerki, en það sýnir kannski líka hvað tíðarandinn hefur breyst,“ segir Hörður. „Þó að hátíðleikinn sé alltaf mjög stór hluti jólanna þá, þegar maður horfir yfir jólin í heild sinni, er þetta kannski það sem við flest hlökkum til – að geta bara kúrt einhvers staðar og haft það kósí.“

Hlakkar til að tóna með prestinum

Spurð hvort þau séu jólabörn segir Rán það besta við jólin að sínu mati vera að njóta þess að borða góðan mat, súkkulaði og drekka gott rauðvín í faðmi fjölskyldunnar. „Svo bíð ég reyndar alltaf spennt eftir að geta tónað jólamessuna með prestinum í útvarpinu.“

„Ég hlakka alltaf til jólanna,“ segir Hörður. „Þetta er þessi tími sem maður fær til að vera með fjölskyldunni og hafa það kósí og ég eins og flestir aðrir er sammála því að það er eitthvað við jólin sem maður fílar og það þarf ekkert endilega að vera það að fara í kirkju, eða jólasteikin. Það getur verið eitthvað allt annað og það var þetta sem við komumst að. Það getur nefnilega verið rosaleg jólastemning falin í því að fara í labbitúr með vinum sínum í snjónum.“

Eins og litlir konfektmolar

Hörður og Rán eru ánægð með endanlega útkomu frímerkjanna sem skarta fallegri gylltri, silfraðri og koparlitri fólíu sem mun gefa jólaumslögunum í ár hátíðlegan blæ.

„Við vissum fyrirfram hvað við vorum að fara gera og það var alltaf meiningin að teikningin yrði með þeim hætti að svo hún skæri sig úr – en þó að hefðum verið búin sjá fyrir í huganum hvernig þetta yrði, þá vorum við eiginlega öll þrjú sammála um að þau urðu bara miklu fallegri heldur en við höfðum þorað að vona,“ segir Hörður. „Frímerkin eru langsamlegast best í „eigin persónu“ ef svo má segja,“ segir Rán. „Á þeim eru brjálæðislega fallegar fólíur sem glansa og glitra eins og litlir jólakonfektmolar. Ég mæli samt ekki með því að borða þau og þau þarf raunar heldur ekki að sleikja.“

aseinars@gmail.com