Styrkur Erna Reynisdóttir segir forvarnir gegn einelti einn af áhersluþáttunum í starfi Barnaheillar innanlands.
Styrkur Erna Reynisdóttir segir forvarnir gegn einelti einn af áhersluþáttunum í starfi Barnaheillar innanlands.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jólakortasalan er mikilvægur liður í fjáröflun Barnaheilla. Samtökin vinna að málefnum barna, t.d. með átaki gegn einelti á Íslandi og aðstoð við börn í flóttamannabúðum sem hrakist hafa undan átökunum í Sýrlandi.

Ekki er seinna vænna að fara að huga að jólakortunum. Jólaösin er á næsta leiti og gott að vera búinn að skrifa í kortin, merkja umslögin og líma frímerkin á í tíma svo kortin berist tímanlega til vina og ættingja.

Það er líka gott að vanda valið á jólakortunum og upplagt að haga jólakortakaupunum þannig að um leið sé stutt við gott málefni. Bíða margir spenntir eftir jólakortunum frá Barnaheillum – Save the Children á Íslandi, en löng hefð er fyrir að samtökin gefi út falleg kort sem myndskreytt eru af íslenskum listamönnum. „Jólakortasalan er mjög mikilvægur liður í fjáröflun okkar og erum við svo heppin að eiga allstóran hóp dyggra kaupenda sem panta hjá okkur kort á hverju einasta ári,“ segir Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla. Reiknast Ernu til að á bilinu 10-15% af því fjármagni sem félagið hefur til að standa straum af verkefnum hvers árs komi í gegnum jólakortasöluna.

Kaupa má jólakort Barnaheilla í verslunum Eymundsson/Pennans og A4 sem og á skrifstofu félagsins á Háaleitisbraut 13. Einnig er hægt að panta kortin í s. 5535900 og í gegnum vefsíðuna www.barnaheill.is. Kostar hvert kort 300 kr. og eru þau seld saman sex í búnti í verslunum en á skrifstofunni er hægt að fá þann fjölda sem óskað er eftir og einnig eldri kortin. Kortin fást bæði með hefðbundinni jólakveðju og án texta.

Í ár er það Sigrún Eldjárn sem myndskreytir kortið. Hefur jólakort Barnaheilla 2015 fengið nafnið Þröstur á grein og skartar teikningu af myndarlegum þresti úti í desembernóttinni og börnum sem fylgjast með honum út um glugga. „Okkur þykir sérstaklega vænt um að á teikningunni má sjá Blæ bangsa sem er táknmynd Vináttu, forvarnarverkefnis okkar gegn einelti í leikskólum,“ útskýrir Erna.

Vernd gegn ofbeldi

Af listamönnum sem hafa komið að gerð kortanna á undanförnum árum má nefna Karl Jóhann Jónsson, Þuríði Sigurðardóttur, Kristínu Gunnlaugsdóttur, Eggert Pétursson og Þorvald Þorsteinsson. „Við höfum allt frá því fyrstu jólakortin komu út lagt á það mikla áherslu að fá til liðs við okkur virta listamenn sem gera falleg og eiguleg kort og alltaf hefur okkur verið vel tekið þegar við höfum leitað til listafólksins,“ segir Erna.

Það fjármagn sem tekst að safna með jólakortasölunni kemur í góðar þarfir og er notað til að bæta líf barna bæði á Íslandi og úti í hinum stóra heimi. Save the Children eru með starfsemi í 120 löndum. Aðaláherslan í starfinu á Íslandi er að vinna gegn hvers kyns ofbeldi á börnum, berjast gegn fátækt barna og stunda öflugt fræðslu- og forvarnarstarf. „Við tökum einnig þátt í neyðaraðstoð á þeim svæðum þar sem náttúruhamfarir og stríð hafa sett samfélagið úr skorðum. Um þessar mundir beinist mikið af kröftum Save the Children að börnum sem hafa orðið fórnarlömb stríðsátakanna í Sýrlandi, s.s. með því að reka skóla í flóttamannabúðum, halda þar úti barnvænum svæðum og dreifa helstu nauðsynjum. Mestar áhyggjur höfum við af þeim börnum sem eru á flótta án fylgdar fullorðinna.“ Á Íslandi hafa Barnaheill beint kastljósinu að baráttu gegn einelti og standa fyrir metnaðarfullu verkefni í leikskólum landsins. Eins og fyrr var getið leikur Blær bangsi þar mikilvægt hlutverk en verkefnið byggist á danskri fyrirmynd. „Við höfum prufukeyrt forvarnarverkefnið í sex leikskólum og eftir áramót bætast við 25 leikskólar til viðbótar. Námsefnið kennir börnunum að eiga í fallegum samskiptum sín á milli og stuðlar að því að þau tileinki sér umburðarlyndi, virðingu, umhyggju og hugrekki,“ segir Erna.

Lesendur kunna að staldra hér við enda er einelti í leikskólum oft frekar sakleysislegt, og ekki fyrr en á seinni stigum skólagöngunnar að einelti fer að taka á sig sínar ljótustu myndir. Erna segir reynsluna í Danmörku sýna að það sé vænlegast til árangurs að byrja snemma og undirbúa jarðveginn áður en börnin verða eldri. „Ræturnar má oft rekja allt aftur til leikskólans þar sem fyrstu eineltiseinkennin geta farið að koma fram í samskiptum barnanna, jafnvel þótt birtingarmyndirnar séu sakleysislegar eins og að eitt barnið vilji ekki bjóða öðru í afmælisveisluna sína. „Meðal þess sem námsefnið tæpir á er að börnin sýni hvert öðru umhyggju, kunni að bregðast við ef einhver er beittur ranglæti og hafi hugrekkið til að þora að stíga fram ef þau sjálf eða einhver annar lendir í einelti.“

Gera má enn betur

Á Íslandi er þróunin í málefnum barna að þokast í rétta átt. Í kjölfar öflugs forvarnarstarfs hefur t.d. notkun vímugjafa meðal barna og ungmenna stórminnkað. Heimsóknir barna á heilsugæslustöðvar hafa verið gerðar gjaldfrjálsar og unnið er að því að gera tannlæknisþjónustu einnig gjaldfrjálsa fyrir yngstu borgarana. Erna segir að enn sé þó pottur víða brotinn og hafa Barnaheill m.a. beint athygli að aðstæðum þeirra barna sem alast upp á fátækum heimilum. Eins segir hún áhyggjuefni hvernig búið sé að börnum og ungmennum með sérþarfir og allt of langir biðlistar í heilbrigðiskerfinu fyrir þennan hóp. „En jákvætt er, að á síðustu árum hefur tekist að opna mjög umræðuna um kynferðisofbeldi gegn börnum. Börn og fullorðnir eru líka í vaxandi mæli meðvituð um Barnasáttmálann og þau réttindi barna sem þar eru tíunduð.“ ai@mbl.is