Amerískt „Útkoman er kremaður, þykkur og yndislegur drykkur á köldum vetrardegi,“ segir Ólafur Ágústsson um eggjapúnsina.
Amerískt „Útkoman er kremaður, þykkur og yndislegur drykkur á köldum vetrardegi,“ segir Ólafur Ágústsson um eggjapúnsina. — Morgunblaðið/Eva Björk
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hátíðlegt andrúmsloft er á Kex hosteli í kringum jólin og eggjapúns á ameríska vísu lagað á veitingastaðnum Sæmundi í sparifötunum.

Desember er annasamur tími á Kex hosteli og á veitingastaðnum Sæmundi í sparifötunum í sama húsi. Gististaðurinn er opinn öll jólin og veitingastaðurinn líka, og segir Ólafur Ágústsson, rekstrarstjóri veitingastaðarins, að líflegt og hátíðlegt andrúmsloft skapist í húsinu í aðdraganda jóla.

„Við erum umfram allt að hugsa um hvernig við getum komið til móts við okkar kúnnahóp og leyft þeim að njóta sín á aðventunni. Djasstónleikar eru að vanda á þriðjudögum og í desember bætum við við hádegistónleikum á föstudögum allan mánuðinn,“ segir Ólafur. „Ofan á það erum við með það sem við köllum heimilislega sunnudaga sem er fjölskylduvæn skemmtun. Hefst dagskráin kl. 13 og gæti vel farið svo að þegar dregur nær jólum kíki jólasveinarnir í heimsókn. Er þessi skemmtun góð afsökun til að eiga notalega samerustund, fá sér kökusneið og kakóbólla.“

Á Sæmundi í sparifötunum verður matseðillinn færður í jólabúning og sérstakur jólamatarpakki í boði fyrir stærri hópa sem er þá komið fyrir inni í veislusalnum Gym og tonic, sem er gamall leikfimisalur. „Við búum til smá jólastemningu í matnum án þess að fara alla leið og ætlum okkur ekki í slag við jólahlaðborðin á hinum veitingastöðunum í miðborginni,“ útskýrir Ólafur.

Púns eins og í bíómyndunum

Ein af skemmtilegu hefðunum sem orðið hafa til á veitingastaðnum er að þar er blandað eggjapúns á ameríska vísu. Íslendingar þekkja þennan forvitnilega drykk úr bandarísku kvikmyndunum en margir hafa aldrei smakkað þennan sæta, áfenga og hitaeiningaríka jóladrykk.

Eins og nafnið gefur til kynna leika egg mikilvægt hlutverk í blöndunni en eins og vera ber eru eggin í púnsinu hrá og þeytt saman við sykur eftir kúnstarinnar reglum. „Áfengi er stór hluti af blöndunni. Við setjum amerískt búrbon-viskí og ljóst romm út í púnsið og kryddum með múskati. Útkoman er kremaður, þykkur og yndislegur drykkur á köldum vetrardegi.“

Púnsið er drukkið úr fallegum glösum og segir Ólafur að þrátt fyrir áfengismagnið sé drykkurinn ekki nema til þess að gefa fólki rétt í tána. Bragðið minnir suma á hamingjustundir í eldhúsinu með mömmu, sem þeytti saman egg og sykur sem litlir puttar stálust í að smakka. „Við erum með smákökur á boðstólum allan desember og tilvalið að narta í nokkrar slíkar með púnsinu. Sumum þykir líka gott að fá sér væna flís af reyktum sauð eða reyktum fiski með drykknum.“

ai@mbl.is

Sérstakar vaktir á háheilögum dögum

Það getur verið merkilegt að koma inn á hótel þá daga sem flestir Íslendingar verja heima með ættingjum sínum. Á meðan ástvinir koma saman yfir hangikjöti og rjúpu eru ófáir erlendir gestir á landinu sem una sér afskaplega vel á hótelherbergi í framandi landi yfir jólin. Ólafur segir magnaða stemningu á veitingastaðnum og gott andrúmsloftið verði til þess að auðvelt sé að fá starfsfólkið til að manna vaktirnar á allra helgustu tímum jólanna. „Starfsfólkið hreinlega sækir í þessar vaktir enda geta þær verið mjög skemmtilegar og gaman að upplifa í gegnum ferðalanginn hvernig hann sér Ísland um jólin. Við reynum samt að klára snemma á aðfangadag og jóladag svo fólk komist fyrr en síðar í faðm fjölskyldunnar.“

Sígilt eggjapúns

Hráefni

4 egg

110 g sykur

110 ml ljóst romm

3 dl nýmjólk

235 ml amerískt bourbon

235 ml léttþeyttur rjómi

múskathneta

Egg og sykur þeytt saman þar til blandan verður létt og ljós.

Romminu bætt saman við ásamt mjólkinni.

Bourbon bætt út í.

Léttþeyttum rjóma blandað varlega saman við.

Borið fram með klaka og hellingur af fersku múskati rifinn yfir.