Unnur Svava Jónsdóttir Cannada fæddist í Hnífsdal 10. apríl 1927. Hún lést á heimili sínu, Fífumóa 7 í Reykjanesbæ, 5. nóvember 2015.

Foreldrar Unnar voru Jón Jóhannesson, f. 1889, og Guðríður Aðalbjörg Óladóttir, f. 1896. Unnur var yngst sex systkina og hétu systkini hennar Jóhannes Jónsson, Jónína Margrét Jónsdóttir, Ólöf Steinunn Jónsdóttir, Jens Guðmundur Jónsson og Guðrún Þorbjörg Jónsdóttir Kratsch. Hálfsystir þeirra var Maggý Elísa Jónsdóttir. Á fyrsta aldursári Unnar lést Jón faðir hennar og fór hún þá í fóstur til móðursystur sinnar, Guðrúnar Ingibjargar Óladóttur, og eiginmanns hennar, Halldórs Guðmundssonar. Þar ólst hún upp ásamt uppeldissystkinum sínum, þeim Björgu Elísabetu Halldórsdóttur, Guðmundi Samúel Halldórssyni, Þórdísi Halldórsdóttur og Halldóri Þóri Halldórssyni.

Unnur bjó fyrstu árin fyrir vestan en fluttist til Reykjavíkur um 11 ára aldurinn. Unnur kynntist manni sínum Thomas Cannada ung að árum og gengu þau í hjónaband í desember 1955. Fyrstu fimm ár hjónabandsins bjuggu þau saman í Keflavík. Árið 1960 fluttust þau saman til Bandaríkjanna og hófu 32 ára barnlausan búskap þar.

Unnur nam fót- og handsnyrtingu hjá snyrtistofu í Reykjavík sem og nudd. Unnur starfaði lengst af sem innkaupastjóri við sjúkrahús í Norður-Karólínu. Þegar eiginmaður hennar lést árið 1992 fluttist hún aftur til Íslands.

Útför hennar fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, 19. nóvember 2015, klukkan 13.

Ástkæra Unnur mín.

Aldrei hef ég saknað eins og nú, enginn hefur leitt mig í lífinu líkt og þú. Líf þitt hefur markað hamingjuspor í hjörtu okkar allra.

Mér finnst ég stödd í tímaskekkju, ég er nokkrum sinnum búin að keyra í áttina að heimili þínu og man svo að enginn er heima. Ég tek upp símann og ætla að heyra í þér hljóðið og man þá að það verði ekki svarað.

Þú varst mögnuð kona sem hefur verið elskuð af öllum sem þér hafa kynnst, allt líf þitt. Frá okkar fyrstu kynnum hefur alltaf verið stutt í grínið, hrekkina og hláturinn. Þú hefur alltaf lagt áherslu á kurteisi, ást og elju sem og verið lausnamiðuð og hagsýn. Þú sagðir oft við mig ef einhver er þér erfiður, ósanngjarn eða hreinlega vondur „then meet them with more love“ eða mættu þeim með meiri ást. Þú lifðir eftir þessu sjálf og varst alltaf góð við alla, sýndir öllum virðingu og áttir enga óvini. Þetta hef ég reynt að hafa að leiðarljósi í mínu lífi líka.

Þú hefur alltaf verið til staðar fyrir mig, þú hefur kennt mér svo margt. Fyrst og fremst sýnt hamingju og húmor í öllum okkar samskiptum. Þú sást gleðina í flestu og leystir málin. Þú hafðir einstakt lag á að láta mér líða eins og ég væri mikilvæg. Þú sagðir mér til dæmis alltaf að brauðbrettið sem ég smíðaði handa þér í afmælisgjöf væri besta og fallegasta brauðbretti sem þú hefðir nokkurn tíma átt, allt öðruvísi en öll þau sem þú hefðir áður notað.

Undanfarin ár höfum við varið ómetanlegum tíma saman sem ég er mjög þakklát fyrir. Það var svo gott að vera með þér, hlýja þín og góðmennska hafa alltaf umvafið mig og okkur öll. Að sitja með þér yfir heitum kaffibolla og ræða ameríska drauminn, skoða myndir af þér og Tom ungum, skoða skírteinin þín og þakkarbréfin frá vinnuveitendum, rifja upp minningar að vestan og ættarsöguna og allt það sem var – bara okkar á milli. Allt eru þetta samverustundir sem ég mun alltaf sakna. Það hvernig þú ávarpaðir börnin okkar sem himnesk er ómetanlegt og sakna stelpurnar þín líka mikið.

Þegar einhverjar breytingar lágu fyrir í lífi mínu þá stóðst þú alltaf mér við hlið, studdir mig í öllu og varst alltaf til staðar. Fyrir skemmstu varð stærsta breytingin í lífi mínu til þessa. Þú kvaddir þennan heim. Þegar ég kom að þér á heimili þínu þá hélt ég að raunveruleikinn væri að bregðast mér. Ég tók í hönd þína og kallaði til þín, ég kallaði hærra og hærra þar til ég sat og öskraði og grét, Jói sagði mér með svipnum að þú værir farin, leiddi mig frá og hringdi á aðstoð. Það var ekkert hægt að gera. Þeir leyfðu mér, að rannsókn lokinni, að dvelja hjá þér og eiga síðasta samtalið – okkar á milli. Mig langar svo að leita til þín með þetta. Mig langar svo að geta sest niður með þér og rætt þetta. Við áttum alveg eftir að ræða hvernig maður lifir áfram eftir að missa haldreipi lífs síns.

Þín mun ég sakna lengur en ég lifi sjálf, elsku Unnur frænka, amma Unnur.

Um leið og ég óska þess að ljósið lýsi þér þína hinstu för og umlyki þig að eilífu, bið ég þig að snerta hörpu mína áfram, himinborna dís.

Þín,

Unnur Svava Sverrisdóttir.

Þá er Unnur vinkona mín dáin. Það var einhvern tíma um miðjan tíunda áratuginn sem fundum okkar bar fyrst saman. Það kom til af gleðilegum endurfundum innan fjölskyldunnar sem hafa gefið okkur æði margt síðan. Ég hafði ekki skipst á mörgum orðum við Unni þegar persónuleiki hennar varð mér ljós í öllu sínu veldi.

Unnur hafði skoðanir á mönnum og málefnum og var óhrædd við að láta þær í ljós, stundum þannig að manni þótti nóg um. Hún var einhver glettnasta, skemmtilegasta og fyndnasta kona sem ég hef kynnst. Það sem upp úr henni rann var oftar en ekki eftirminnilegt í meira lagi, enda hafði hún frá mörgu skemmtilegu að segja. Hún hafði þá gáfu að vera góður sögumaður, ýkti og færði í stílinn eftir því sem sagan krafðist hverju sinni. Hún vissi vel að sumar sögurnar hafði ég heyrt tíu sinnum eða oftar, en gerði sér þá bara far um að hafa hverja sögu nokkuð öðruvísi en síðast, kannski aðeins meira krassandi. Af litlu tilefni gat hún spunnið besta sagnabálk.

Ég átti margar skemmtilegar stundir með henni í gegnum árin. Ef ég heimsótti hana ekki sjálf suður með sjó töluðum við saman í símann lengi dags. Við töluðum um hvað hún saknaði áranna í Ameríku, um hvað hún saknaði öðlingsins Toms, eiginmannsins ameríska sem dó frá henni allt of ungur, og við skiptumst á alls kyns kjaftasögum. Þá lét hún vaða á súðum og ég hló og hló.

Unnur var aldrei til viðtals um það að nokkur maður ætti neitt inni hjá henni. Þegar hún var sótt heim blasti við dúkað borð, hlaðið smurbrauði og kökum, nóg til að fæða her manns. Verst þótti henni að fá heimsókn án þess að gestir gerðu boð á undan sér, því að þá gafst ekki tími til að undirbúa veisluna. Ef þann möguleika bar á góma að hún heimsækti okkur mátti hún aldrei heyra á það minnst að haft væri fyrir sér. Þegar hún kom til Reykjavíkur í búðaráp og kaffihúsaferðir með mér vildi hún koma með rútunni og fara heim með henni aftur. Þegar hins vegar var boðist til þess að keyra hana heim þurfti helst að læsa hana inni í bíl til að hún stykki ekki út og flýði. Hún vildi síður þiggja af öðrum, aðrir skyldu njóta góðgerða hennar.

Unnur var öðrum mönnum skemmtilegri. Það var mér gleði og ánægja að eiga hana að vinkonu.

Ég kveð Unni með þakklæti og söknuði. Eftir lifa góðar minningar.

Jóhanna Jónsdóttir.