Íslenskt viðskiptalíf fylgist grannt með því sem kann að heyra til tíðinda í viðræðum lífeyrissjóðanna og Kaupþings, núverandi eigenda Arion banka.
Íslenskt viðskiptalíf fylgist grannt með því sem kann að heyra til tíðinda í viðræðum lífeyrissjóðanna og Kaupþings, núverandi eigenda Arion banka. — Morgunblaðið/Júlíus
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Hluturinn í Arion banka sem lífeyrissjóðirnir freista þess nú að kaupa er stór á alla mælikvarða. Bókfært eigið fé hans er 70% hærra en heildarfjárhæð allra almennra útboða á hlutabréfamarkaði frá 2011.

Bókfært eigið fé að baki 87% hlut Kaupþings í Arion banka er rúmir 152 milljarðar króna. Það er nærri 70% hærri upphæð en heildarfjárhæð allra þeirra útboða sem haldin hafa verið í aðdraganda skráningar 12 fyrirtækja í Kauphöll Íslands frá árinu 2011. Heildarvirði þeirra viðskipta allra nam tæpum 90 milljörðum króna.

Enn er ekki ljóst hvort af kaupum lífeyrissjóðanna verður og sömuleiðis liggur ekki fyrir hvert söluandvirði hlutarins verður en þó er ljóst að viðskiptin yrðu einhver umfangsmestu viðskipti í sögu Íslands.

Lífeyrissjóðirnir hafa nú þegar gefið út að ef af kaupunum verði sé það ætlun þeirra að selja umtalsverðan hlut til almennings og annarra fjárfesta. Kemur það einkum til af því að kaup á hinum stóra hlut reyna mjög á þanþol sjóðanna í fjárfestingum. Ljóst er að þrír stærstu sjóðirnir munu ekki eignast meira en 30% í bankanum en þeir halda á helmingi allra eigna lífeyrissjóðakerfisins. Aðrir sjóðir, sem allir eru mun minni í sniðum, munu ekki líklegir til að standa að kaupum á mun stærri hlut en sjóðirnir þrír. Því munu sjóðirnir að öllum líkindum stefna að sölu á 17-27% hlut í bankanum. Verði af því gæti útboð til almennings og annarra fjárfesta orðið mun stærra en nokkurt þeirra útboða sem áður var minnst á.

Þau hafa verið mjög misstór, hvort sem litið er á fjölda þátttakenda eða heildarfjárhæð þeirra viðskipta sem útboðin leiddu til.

Misumfangsmikil útboð

Stærsta útboðið til þessa fór fram í apríl árið 2013 þegar 70% hlutur var boðinn út í tryggingafélaginu VÍS. Viðskiptin í því útboði hljóðuðu upp á 14,3 milljarða og þátttakendur voru 5.000 talsins. Næststærsta útboðið fór fram ári síðar þegar 27% hlutur í Granda var seldur á 13,6 milljarða. Þá tóku tæplega 3.000 fjárfestar þátt. Mesta þátttakan var hins vegar í útboði Sjóvár í apríl 2014 þegar 7.800 skráðu sig fyrir hlut í félaginu.

Á miðopnu ViðskiptaMoggans í dag er fjallað um fyrirætlaða sölu Kaupþings á hlutnum í Arion banka. Stærð bankans og hinna viðskiptabankanna er sett í samhengi við stærð lífeyrissjóðakerfisins. Þá er ljósi varpað á ólíka verðlagningu nokkurra bankastofnana í Evrópu.