Heimagerð Sigrún Hjartadóttir, systkini hennar og frændfólk hafa gaman af að senda hvert öðru heimagerð jólakort, hér eru nokkur slík.
Heimagerð Sigrún Hjartadóttir, systkini hennar og frændfólk hafa gaman af að senda hvert öðru heimagerð jólakort, hér eru nokkur slík.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Við höfum fyrir sið í stórfjölskyldunni að koma saman einhvern tíma fyrir jólin og föndra. Það eru skemmtilegar stundir, jafnt fyrir fullorðna sem börn. Mikið spjallað og hlegið.

Það er gamall og góður siður að senda vinum og ættingjum jólakort. Sigrún Hjartardóttir sérkennari hefur um langt árabil búið sjálf til jólakortin og fengið mörg heimagerð send til sín í staðinn.

„Ég byrjaði á að búa til jólakort þegar ég var í barnaskóla, þar vorum við krakkarnir alltaf látnir búa til kort,“ segir Sigrún Hjartardóttir kennari.

„Ég var í Kópavogsskóla. Þar var gerður póstkassi sem oftast var fyrir utan stofuna eða inni í henni og í hann settum við kortin sem við vildum senda til skólasystkina.“

Hvernig kort bjugguð þið til?

„Ýmist teiknaði maður á kortin eða límdi glansmyndir á þau, ef maður átti þær til. Ef einhverjir skrifuðu eitthvað ljótt á kortin þá voru þau tekin í burtu. Það gerði kennarinn, hann fór yfir kortin áður en þau voru afhent. Þetta var passað vel.“

Hvernig pappír var notaður í kortin?

„Bara venjulegur pappír. Skólinn lét okkur fá pappírinn en við krakkarnir notuðum liti sem við áttum. Við systkinin, sem vorum átta sem ólumst upp saman, notuðum vaxliti til þess að búa til jólakortin okkar. Við gerðum svo eins vel og við gátum. Við fengum líka jólakort frá frændsystkinum okkar.

Fór aftur að búa til kort fullorðin

Þegar ég var orðin fullorðin og flutt að heiman þá fór ég aftur að búa til jólakort og senda vinum og ættingjum. Ég gerði þetta mest að gamni mínu, fannst þetta hlýlegur siður. Ég fór að láta strákana mína tvo hjálpa mér. Ég hef alltaf haft gaman af að föndra og strákunum fannst þá skemmtilegt að við gerðum þetta saman.“

Hvenær útskrifaðist þú sem kennari?

„Árið 1979 útskrifaðist ég frá Kennaraháskóla Íslands með handavinnu sem sérsvið og hef því góðan grunn undir jólakortagerðina. Svo lauk ég sérkennaraprófi árið 1993. Ég hef mjög gaman af að kenna. Ég hef oft látið nemendur mína búa til jólakort fyrir jólin. En stelpurnar eru miklu áhugasamari um slíka iðju en strákarnir. Sumir hafa þó látið sig hafa það að gera kort en eru fljótir að hespa það af.“

Dundar við kortagerðina á kvöldin

Hefur þú búið til jólakort öll jól síðan þú fluttir að heiman?

„Fyrir flest jól en ekki öll. Það er óskaplega misjafnt hvað ég legg mikið í jólakortagerðina hverju sinni. Það fer eftir því hvað ég hef mikinn tíma og hversu snemma ég fer að hugsa um þetta. Ef ég hef góðan tíma þá legg ég heilmikla umhugsun í kortagerðina en síður ef ég er sein fyrir. Þá fer ég stutta leið, vel eitthvað auðvelt. Ég kaupi ekki mikið af bókum með klippimyndum en á þó tvær sem hafa dugað mér vel, þær eru með góðum skýringarmyndum. Svo geymi ég vel það sem afgangs verður af efni hverju sinni.

Núna hef ég góðan tíma og hef valið frekar erfitt kort sem kostar talsverða vinnu að gera. Þá sit ég við á kvöldin og dunda mér við þetta, hlusta kannski á útvarpið á meðan. Ég bý til svona um tuttugu og fimm kort. Fyrsta kortið tekur langan tíma en maður er ekki lengi að gera þau sem á eftir koma.

Jólakortið í ár er með jólakarli sem er klipptur út, ég lími hann saman allan áður en ég lími hann svo á kartonið. Síðan geri ég með reglustiku og hvítum blýanti utarlega mjóan ramma í kringum myndina. Í föndurverslun fann ég svo fallega græna grein sem ég klippi sundur og lími inn í kortið og í gegnum gat utan á það. Í ár stytti ég mér leið með því að prenta út áletrunina gleðileg jól. En ég skrifa líka inn í kortið eitthvað persónulegt fyrir hvern og einn. Oftast með gullpenna. Það kemur vel út.“

Fjölskyldan föndrar saman á aðventunni

Hefur þú farið út í að vera með mismunandi kort fyrir hvern og einn sömu jólin?

„Nei, ég geri alltaf eins kort fyrir alla. Hitt tæki svo langan tíma. Oftast hef ég klippimyndir eða ég mála gegnum skapalón. Hvort tveggja kemur vel út. Systkini mín búa líka til kort og systkinabörn. Oftast sýnum við ekki kortin fyrirfram, án þess þó að jólakortagerðin sé neitt leyndarmál. Ég myndi sýna mitt kort ef ég væri beðin um það.

Við höfum fyrir sið í stórfjölskyldunni að koma saman einhvern tíma fyrir jólin og föndra. Það eru skemmtilegar stundir, jafnt fyrir fullorðna sem börn. Mikið spjallað og hlegið. Strákarnir mínir eru ekki eins gefnir fyrir föndur og ég er. Pabbi minn var mikill föndrari og saumaði mikið út. Honum datt margt í hug til að gera og var mjög handlaginn. Mamma mín var líka handlagin en hafði lítinn tíma fyrir föndur. Hún saumaði aftur á móti öll föt á okkur systkinin, oft upp úr gömlu.“

Hvenær sendir þú kortin?

„Ég reyni að senda þau kort sem fara með pósti fyrir 10. desember, en ég sendi ekki kortin sem fara til systkina minna, ég læt þau fylgja pökkunum sem ég gef þeim. Við höfum haldið þeim sið systkinin að gefa hvert öðru litlar gjafir. Það er svo notalegt. Helst eitthvað sem við búum til sjálf, eitthvað persónulegt. Oft gefum við eitthvað matarkyns eða þá blóm. Ég er enn að velta fyrir mér hvað ég á að gefa systkinum mínum þessi jólin. Mér dettur ábyggilega eitthvað sniðugt í hug.“

gudrunsg@gmail.com