Bára Sigurbergsdóttir fæddist í Reykjavík 7. janúar 1943. Hún lést á krabbameinsdeild Landspítalans 6. nóvember 2015.

Útför Báru fór fram 16. nóvember 2015.

Það hefur verið erfitt að meðtaka undanfarna daga að elsku fallega amma mín sé dáin. Síðustu tveir mánuðir í lífi ömmu voru strembnir en hún kvartaði ekki og tók öllu með stóískri ró enda var amma afar róleg og virðuleg kona.

Þegar ég hugsa til baka um ömmu er mér fyrst og fremst þakklæti í huga. Amma mín átti örugglega ekki von á að verða amma þegar ég fæddist enda var pabbi ekki nema tæplega 19 ára unglingur og ekki í sambúð. Amma var rétt rúmlega 37 ára gömul á þeim tíma, alveg ótrúlegt að hugsa til þess að hún hafi einungis verið um tveimur árum eldri en ég er í dag. Þrátt fyrir að vera kannski ekki tilbúin að verða amma strax tók hún mér ótrúlega vel og þegar pabbi fór út í nám þegar ég var mjög ung og ég var á Íslandi með mömmu vildi hún vera til staðar fyrir mig. Pabbi ílengdist í Danmörku en amma passaði alltaf upp á að missa ekki samband og eyddi ég því mörgum helgum og hátíðisdögum heima hjá ömmu og afa. Hún var líka alltaf tilbúin að hjálpa og létta undir, alltaf að athuga hvort ég hefði allt til alls, útigalla, úlpur, föt og hverskyns sem börn vantar. Mest er ég þó henni þakklát fyrir að hafa alltaf látið mér finnast ég velkomin og að ég væri mikilvægur hluti af fjölskyldunni.

Ég á svo ótal margar góðar minningar heima hjá ömmu og afa og ég man bara alls ekki eftir að mér hafi leiðst heima hjá þeim. Við amma gátum alltaf spjallað, hún kenndi mér að spila og leggja kapal og svo sátum við stundum bara saman, hún með handavinnuna sína og ég að lesa bók. Svo í boðum og veislum fannst mér best að vera inn í eldhúsi þar sem amma var að stússast.

Amma var einstaklega hjartahlý og gjafmild. Hún kom til dæmis alltaf með eitthvert smáræði fyrir mig þegar hún kom heim eftir að hafa verið erlendis og laumaði að mér pening í ófá skiptin. Þá bauð hún líka allri fjölskyldunni til Kanarí þegar hún varð sextug.

Ég vildi alltaf að amma væri stolt af mér og er mér sérstaklega minnisstætt að þegar ég fékk einkunnir afhentar í grunnskóla og menntaskóla var hún fyrsta manneskjan sem ég vildi sýna einkunnirnar og voru ófá skiptin þegar ég tók strætó beint frá einkunnaafhendingunni í Fjöðrina til ömmu til þess að sýna henni.

Amma hafði einlægan áhuga á því sem var að gerast í lífi manns á hverjum tíma og hringdi ef það var of langt síðan hún hafði heyrt í mér. Ég gat talað við ömmu um allt, hún skildi mig og dæmdi aldrei.

Elsku amma, þín er sárt saknað en ég veit að þér líður betur núna og þú fylgist áfram með okkur. Ég er stolt af því að bera nafnið þitt og hef svo margt að læra af þér.

Hvíl í friði. Þín,

Bára Björk.

Við úrvinnslu greinarinnar var efni hennar breytt og er hún því birt aftur. Hlutaðeigandi eru beðnir afsökunar á þessu.