Úr Eventyrland Silje Salomonsen fer með aðalhlutverkið í norsku kvikmyndinni Eventyrland sem stendur til að endurgera vestanhafs.
Úr Eventyrland Silje Salomonsen fer með aðalhlutverkið í norsku kvikmyndinni Eventyrland sem stendur til að endurgera vestanhafs.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is Kvikmyndavefurinn Hollywood Reporter greindi frá því á mánudaginn sl.

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Kvikmyndavefurinn Hollywood Reporter greindi frá því á mánudaginn sl. að Brad Turner myndi leikstýra spennumyndinni Penance , bandarískri endurgerð norsku kvikmyndarinnar Eventyrland , og að þeir Davíð Óskar Ólafsson og Árni Filippusson hjá fyrirtækinu Mystery Productions myndu framleiða myndina í samstarfi við kanadískt fyrirtæki, Brightlight Pictures. Turner hefur hlotið Emmy-verðlaun sem meðframleiðandi og leikstjóri spennuþáttanna 24 og hefur áður starfað með Brightlight, að sjónvarpsþáttunum Second Chance .

Penance , sem á íslensku þýðir yfirbót eða betrun, mun fjalla um unga konu og móður sem reynir að fóta sig í samfélaginu eftir að hafa afplánað fangelsisdóm. Það reynist þrautin þyngri því fyrrverandi samstarfsmenn hennar í undirheimum eru ekki á því að sleppa af henni takinu og ógna henni og dóttur hennar.

Hófst í Cannes

Eventyrland var framleidd af Gary Cranner sem verður meðframleiðandi endurgerðarinnar og segist Davíð Óskar hafa hitt hann á kvikmyndahátíðinni í Cannes fyrir þremur árum.

„Ég var einn af þeim sem voru fengnir til þess að tala á Young Producers Club í Cannes fyrir þremur árum út af endurgerðinni okkar á Á annan veg . Þegar ég var síðan búinn með fyrirlesturinn kom Gary upp að mér og lét mig fá mynd sem hann hafði gert, Eventyrland , og ég horfði á hana á leiðinni heim. Ég sá strax að þarna var mynd sem væri hægt að endurgera, sendi hana á nokkra aðila í Bandaríkjunum sem ég hef verið að vinna með og Jessica Petelle stökk á hana strax,“ segir Davíð Óskar um Eventyrland en Petelle er einn framleiðenda endurgerðarinnar, Penance . „Hún kynnti hana fyrir Brad Turner, sem heillaðist af henni, og við byrjuðum að vinna að nýju handriti. Það hefur tekið okkur um eitt og hálft ár að koma því á þann stað sem við vildum og eftir það byrjuðum við að skoða hugsanlega samstarfsaðila í þetta,“ rifjar Davíð Óskar upp.

Bitastætt kvenhlutverk

Turner hafi þá verið að vinna að nýrri sjónvarpsþáttaröð sem Brightlight framleiddi fyrir sjónvarpsstöðina Fox og kynnt handritið fyrir Brightlight. Þeir hafi verið yfir sig hrifnir og viljað taka þátt í verkefninu.

„Þeir gerðu nýlega samning um fimm mynda pakka við Voltage Pictures um dreifingu og við erum hugsanlega að kynna Penance sem eina af þeim fimm. Voltage framleiddi t.d. Hurt Locker og Dallas Buyers Club . Við erum núna að vinna í fjármögnun og að finna réttu leikarana í myndina. Við erum vongóð um að ná góðum leikurum, sérstaklega í aðalhlutverkið þar sem við erum að tala um mjög bitastætt hlutverk fyrir leikkonu og sérstaklega í kjölfar umræðunnar um skort á sterkum kvenpersónum í kvikmyndum vestanhafs. Við vonumst til að koma myndinni í tökur í mars eða apríl á næsta ári, ef allt gengur upp,“ segir Davíð Óskar.