Ólöf Nordal
Ólöf Nordal
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Ólöf Nordal innanríkisráðherra segir að meta þurfi heildarkostnað íslensks samfélags við að taka á móti hælisleitendum og flóttamönnum.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Ólöf Nordal innanríkisráðherra segir að meta þurfi heildarkostnað íslensks samfélags við að taka á móti hælisleitendum og flóttamönnum. Kominn sé tími til að móta heildarstefnu í málefnum útlendinga þegar horft er til lengri tíma, þá sérstaklega í menntakerfinu og heilbrigðiskerfinu.

Haft var eftir Kjartani Magnússyni, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, í Morgunblaðinu í gær að þeim tveimur milljörðum sem ríkisstjórnin samþykkti í haust að verja til hælisleitenda og flóttamanna hefði að mestu verið ráðstafað.

Telur Kjartan mikilvægt að metið verði hvaða þjónustu þarf að veita börnum foreldra með stöðu flóttafólks og hælisleitenda. Þá til dæmis varðandi sálfræðimeðferð, sértæka aðstoð og túlkaþjónustu. Mörg barnanna hafa ekki notið menntunar í allt að fjögur ár og þurfi að auki öflugan félagslegan og sálfræðilegan stuðning. Spurð um þetta mat Kjartans segir Ólöf að það eigi eftir að koma í ljós hvert umfang aðstoðar við hælisleitendur og flóttamenn verður. Fjárþörfin sé því ekki ljós.

Aukningin umfram spár

„Við gerðum ráð fyrir töluvert mikilli aukningu og þess vegna fengum við viðbótarfé á þessu ári. Það er reyndar svo að þegar við lögðum upp með fjárlagagerðina í maí áttum við von á aukningu sem síðan varð mun meiri en við þá ráðgerðum. Þannig að við vitum að það þarf töluverða fjármuni í þetta,“ segir Ólöf.

Hún bendir á að erfitt sé að áætla fjárþörf þessa málaflokks fyrirfram. Það sé enda ekki vitað hver þróunin verður. Stuðst sé við áætlanir.

Alls 290 hælisleitendur höfðu komið til Íslands í ár til og með 17. nóvember.

Ólöf segir mikilvægt að reyna að áætla heildarkostnaðinn við móttöku hælisleitenda og flóttamanna.

„Ég er á því að við þurfum síðan að meta það mjög vel hver heildarkostnaður verður við að taka á móti fólki. Það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir okkur að það takist vel að aðlaga fólkið að íslensku samfélagi. Íslenskukennsla er lykilatriði í því efni. Við erum að feta okkur áfram í þessum málum núna. Þannig að ég held að það sé komið að því að menn líti til stefnumótunar til lengri tíma, þá sérstaklega til aðkomu menntakerfisins og jafnvel heilbrigðiskerfisins líka.“

Spurð hvort hún horfi til missera í þessu efni kveðst Ólöf hugsa í árum. Þetta verði viðfangsefni okkar til „töluverðrar framtíðar“.