Kærleikur Bolli Pétur Bollason, sóknarprestur í Laufásprestakalli: „Ég kann svo vel við það hvað jólin virðast draga það besta fram í manneskjum og hef reyndar mikinn áhuga á breyttu hegðunarmynstri mannfólksins.“
Kærleikur Bolli Pétur Bollason, sóknarprestur í Laufásprestakalli: „Ég kann svo vel við það hvað jólin virðast draga það besta fram í manneskjum og hef reyndar mikinn áhuga á breyttu hegðunarmynstri mannfólksins.“ — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
Faðir minn setti alltaf Bing Crosby á fóninn.

Ég hef alltaf hrifist af jólum og man að þegar ég var drengur leið aðventutíminn óskaplega hægt, sem segir það eitt að tilhlökkunin hefur verið mikil. Foreldrar mínir voru bæði stemmningsfólk og nutu þess að undirbúa jólin, maður er mótaður af því öllu. Ég kann svo vel við það hvað jólin virðast draga það besta fram í manneskjum og hef reyndar mikinn áhuga á breyttu hegðunarmynstri mannfólksins þegar kemur að jólum. Sögur fara af því að vopn hafi verið lögð niður á vígvöllum þegar jólin voru hringd inn hér áður fyrr.

Það er einhver sérstakur friður og helgi sem myndast í samskiptum fólks og hvort sem horft er til Jesúbarnsins eða fornrar sólstöðuhátíðar þá virðist eitthvað gerast innra með okkur sem fær okkur til að leggja niður öll vopn, ef þannig má að orði komast. Hins vegar verður neyðin líka meira áberandi á jólum og sárari og vilji okkar til að aðstoða náungann einhvern veginn skýrari; enginn skal vera einn á jólum, enginn skal líða skort á jólum. Auðvitað á umræðan um neyðina að vera vakandi árið um kring, en það er bjargföst trú mín að saga Jesúbarnsins, svona líka vanmáttugt í ógnvænlegum aðstæðum, dragi ekki úr þessum þætti mennskunnar heldur þvert á móti örvi hann.“

Ævintýralegt umhverfi

Bernskujólin í Laufási, margar góðar minningar?

„Ég held að viðhorf fólks til jóla mótist töluvert af uppvexti þess. Ég var lánsamur, átti góðan uppvöxt og sjarmerandi æskujól. Fyrir það fyrsta ólst ég upp á kirkjustað sem er ævintýralega jólalegur. Það var alltaf mikill snjór heima í Laufási á þessum árum. Litla krúttlega sveitakirkjan á staðnum með rauðu þaki var jafnan snævi þakin og inni í henni varð nú eftirlætis jólasálmurinn minn, Sjá himins opnast hlið, frumfluttur forðum daga því hann er eftir Laufásklerk, sr. Björn Halldórsson, sem þjónaði í Laufási er kirkjan reis fyrir 150 árum.

Svo væri aldeilis hægt að sjá fyrir sér Rúdolf með allt sitt í eftirdragi uppi á kirkjuþakinu. Við hlið kirkjunnar er gamall torfbær frá ofanverðri 19. öld. Þar inni er meðal annars hlóðaeldhús og þegar maður hafði farið í gegnum kverið Jólin koma eftir Jóhannes úr Kötlum var og er tilvalið að fara út í þennan gamla torfbæ, líta upp í rjáfrið í eldhúsinu og sjá þar fyrir sér Ketkrók teygja sig eftir hangikjötinu.

Umhverfið jók verulega á jólaeftirvæntingu bernskunnar, að ekki sé talað um allt umstangið á heimilinu, og eldri systkini komu heim í jólafrí úr framhaldsskólum með tilheyrandi tilhlökkun. Faðir minn setti alltaf Bing Crosby á fóninn á meðan við skárum saman út laufabrauðið. Sjálfum leiddist mér ekki að sendast fyrir móður mína í búrið í kjallaranum; þvílíkar jólakræsingar, konfekt og kokteilber og hangikjötið með sinn sterka ilm.“

Taska með kjólum

Eftirminnileg jólagjöf?

„Ein jólaminning kemur ósjaldan upp í hugann. Ég átti ömmusystur sem bjó ein og var ævinlega hjá okkur yfir jól. Hún kom á Þorláksmessu með töskur tvær, önnur var full af kjólum og hin full af jólapökkum. Hún kom sér vel fyrir í herberginu sínu, setti koppinn sinn undir rúm, fór í sitt fínasta púss hvern dag, settist í gamla ruggustólinn í stofunni og las ljóð og missti aldrei af veðurfréttum í útvarpinu.

Jólagjöfin frá ömmusystur minni var iðulega bók eftir Indriða Úlfsson sem var skólastjóri á Akureyri og skrifaði barnabækur; það klikkaði ekki enda starfaði hún í bókaprentsmiðju á Akureyri. Síðustu jólin þakkaði þessi gamla kona alveg sérstaklega vel fyrir sig, hún þakkaði fyrir allt og allt eins og hún orðaði það sjálf, og gekk svo hæglátlega inn í himnarann fáeinum mánuðum síðar.“

Ógleymanleg uppákoma á jólum?

„Ég var ekki alltaf prúður krakki og ekki einu sinni á jólum. Stundum gat ég einmitt verið mikill prakkari, auk þess að vera annálaður sælgætisgrís, og ég naut mín yfir hátíðina þegar fleira fólk og meira nammi var komið í hús. Við systkinin fengum Lionssúkkulaðidagatöl á aðventunni og töldum niður – nema ég, því ég var alltaf búinn úr mínu í upphafi aðventu. Ég sá nú oftast nær eftir því og eitt árið lagði ég það á mig að stilla klukkuna, vakna um miðja nótt, læðast inn í herbergi systur minnar, sem gerði eins og átti að gera og fékk sér einn mola á dag, og kláraði úr dagatalinu hennar. Morguninn eftir vaknaði ég ekki við fyrsta hanagal, heldur skerandi óp úr næsta herbergi. Þetta jafnaði sig síðan þegar ég var búinn að biðjast fyrirgefningar og þá gátu jólin komið.“

Kveikjur í bókaflóði

Þínar jólahefðir – fullorðinsárin í Laufási?

„Ég held í jólahefðirnar, það er eitt af því sem gerir jólin svo sérstök. Ég sæki til dæmis jólasteikina ævinlega sjálfur upp á fjöll, hef veitt rjúpur frá því að ég var unglingur. Svo förum við fjölskyldan upp í Laufásskóg og veljum jólatré og skreytum það saman nokkrum dögum fyrir jól, þá er Bing settur á fóninn. Ég er ekki mikill jólaseríukarl, horfi iðulega á myndina Christmas Vacation fyrir jólin með fjölskyldunni til að minna mig á að vera ekkert að standa í því að brölta uppi á þaki. Aftur á móti fara aðventuljósin út í glugga og við hengjum upp jólaóróa Georgs Jensen; við hjónin eigum jafnmarga óróa og árin sem við höfum verið samferða í tilvistinni.“

Bóklestur á jólum, tilhlökkunarefni?

„Bækur eru ómissandi þáttur jólanna, nú er það reyndar ekki lengur Indriði Úlfsson sem ég bíð spenntastur eftir. Það er gaman að segja frá því að ég tek sjálfur þátt í jólabókaflóðinu með bók eftir mig sem kom út síðastliðið vor hjá Bókaútgáfunni Hólum og nefnist Kveikjur. Þetta eru stuttar sögur sem er ætlað að vekja hjá fólki hugrenningatengsl við eitt og annað er snertir lífið og lífsins tilgang. Í bókinni eru tvær kveikjur sem tengjast jólum. Önnur þeirra er byggð á æskuminningu minni, þegar ég komst í jólakonfektið sem pjakkur; það var ekki bara klárað úr súkkulaðidagatali. Hin kveikjan er helber skáldskapur þar sem lítil, hógvær jólakveðja getur haft svo sterk áhrif á djúpstæðan ágreining tveggja einstaklinga.“

Rjúpa og grautur

Veislumaturinn á þínu heimili?

„Matur er mannsins megin, við fjölskyldan erum alveg á þeirri línu. Þegar ég finn ilminn af rjúpunum á aðfangadagskvöld finnst mér jólin vera komin. Á jóladag matreiðum við oftast lamb og annan í jólum bjóðum við í jólahlaðborð og þar er það einkum villibráð og svo blessað hangikjötið. Kalkúnn gælir við bragðlauka á gamlárskvöld, það er siður úr fjölskyldu frúarinnar sem er þjónandi prestur við Akureyrarkirkju og heitir Sunna Dóra Möller. Við eigum þrjú mannvænleg börn og saman hefjum við nýtt ár með sitt lítið af hverju, helst góðum matarafgöngum, enda ætti nýtt ár að fela í sér sitt lítið af hverju eins og gengur og gerist.“

Eftirlætisréttur á jólum?

„Tvennt er sérstaklega vinsælt hjá okkur fjölskyldunni. Ungverska kakan, sem er möndlukaka með smjörkremi og súkkulaðibitum, og jólagrauturinn með krækiberjasaft en hann samanstendur af stífþeyttum rjóma, grjónum og vanillu. Ég læt kökuuppskriftina fylgja og færi um leið landsmönnum öllum gleðiríkar jólaóskir héðan úr Laufásbæ.“ beggo@mbl.is

Ungversk kaka

Botn

7 eggjahvítur

300 g sykur

300 g hakkaðar möndlur

Eggjahvítur og sykur stífþeytt saman, möndlum bætt rólega saman við. Hellt í tvö smelluform og bakað í sirka 30-40 mín., ég stilli ofninn á 150 gráður með blæstri (fylgist svo vel með þannig að brenni ekki).

Krem

150 g smjör (ekki of kalt)

7 eggjarauður

2 msk. sykur

3 tsk. instant kaffiduft

125 g suðusúkkulaði, brytjað

Smjörið hrært sér í skál. Eggjarauður, sykur og kaffiduft þeytt saman. Smjörinu bætt varlega út í blönduna.

Súkkulaði loks sett saman við (til að drýgja kremið er allt í lagi að bæta við einni eggjarauðu). Örþunnu lagi smurt á milli botna og kakan að endingu þakin með kreminu.