Ásýnd Mörgum þykir sígilda útlitið eiga best við jólin.
Ásýnd Mörgum þykir sígilda útlitið eiga best við jólin.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Díana Allansdóttir í Blómavali segir mjög einfalt fyrir fólk að föndra fallegan bakka með kertum, greinum og jólaskrauti.

Hefðbundni grenikransinn heldur vinsældum sínum hver jól. Rautt, hvítt og silfur er ríkjandi og hlýlegt, náttúrulegt skraut eins og könglar, sveppir og mildir litir í bland. Grenikransar fást tilbúnir í Blómvali og ætti ekki að vefjast fyrir neinum að skreyta þannig hring. Hreindýr af öllum stærðum og gerðum eru mjög vinsæl um þessi jól, fara vel í skreytingum og eru líka til prýði ein og sér.“

Þannig lýsir Díana Allansdóttir tískustraumunum í jólaskrautinu í ár. Díana er deildarstjóri í Blómavali Skútuvogi.

Skreytingar á bakka eru mjög vinsælar og að sög Díönu er á allra færi að gera þannig skreytingar. „Bakkann má síðar nota sem grunn að skreytingum fyrir allar árstíðir og auðvelt að breyta með kertaglösum, pottaplöntum og blómum í vasa, ímyndunaraflið er einu takmörkin.“

Ef notuð eru kerti í skreytingu á bakka er nauðsynlegt að festa þau vel niður til að tryggja öryggi og koma í veg fyrir bruna. Einnig eru til rafhlöðukerti sem henta mjög vel í skreytingar en ýmsar stofnanir s.s. leikskólar og hjúkrunarheimili leyfa eingöngu þannig kerti. „Síðan má leyfa sköpunargleðinni að ráða ferðinni og getur t.d. verið fallegt að raða lifandi greni á bakkann til að fá jólaskreytingu sem ilmar vel,“ útskýrir Díana.

Gervitrén verða flottari

Það er fleira sem gerir heimilið jólalegt en kransar og bakkar. Fallegt jólatré setur sterkan svip á heimilið en þar segir Díana að gervitrén séu hægt og rólega að sækja meira á. „Hjálpar þar til að úrvalið er orðið fjölbreyttara og gervitrén vandaðri og flottari.

En lifandi trén standa alltaf fyrir sínu og margir taka ekki annað í mál en að öll fjölskyldan fari saman að velja fallegasta tréð. „Fjölskyldan eignast þannig minningar, skapar jólahefðir sem endurteknar eru árum og jafnvel áratugum saman,“ bætir Díana við. „Falleg ljós skipta miklu máli og eru LED-ljós með smágerðum ljósum mjög vinsæl á jólatré, eru til í mörgum litum og koma einstaklega vel út. Að sjálfsögðu skiptir annað skraut ekki minna máli og alltaf hægt að bæta í safnið.“ ai@mbl.is