Skilningur Verkefnið kallar á umræður.
Skilningur Verkefnið kallar á umræður.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Börnin á leikskólanum Rjúpnahæð leggja mikinn metnað og vinnu í að smíða piparkökuhús. Ferlið byrjar strax að hausti og er fylgt lýðræðislegum reglum þar sem kosið er um allar ákvarðanir.

Það fylgir undirbúningi jólanna að innbyrða kynstrin öll af piparkökum. Flestir láta sér nægja að kaupa eins og eina eða tvær piparkökuöskjur úti í búð en þeir sem eru metnaðarfullir og una sér best í eldhúsinu baka piparkökurnar sjálfir og gera jafnvel skrautlega piparkökukarla og -kerlingar. Enn meiri er svo metnaðurinn hjá þeim sem smíða piparkökuhús, sem nostra þarf við og skreyta hátt og lágt.

Á leikskólanum Rjúpnahæð í Kópavogi er löng hefð fyrir piparkökuhúsagerð í aðdraganda jóla og sendir leikskólinn afraksturinn í árlega piparkökuhúsakeppni Kötlu. Hrönn Valentínusdóttir leikskólastjóri segir ferlið hefjast strax í september og markmiðið með bakstrinum meðal annars að kenna börnunum á lýðræðið.

Hvað er hús?

„Þetta byrjar með því að börnin fá það heimaverkefni að teikna það hús sem þeim myndi hugnast að smíða. Er hugsunin sú að foreldrarnir taki þátt á þessu stigi og börnin skoði vel það hús sem þau búa sjálf í. Um leið veltum við upp ýmsum opnum spurningum með börnunumm, eins og „hvað er hús?“ og „hvað hefur hús margar hliðar?“, „úr hverju eru húsin gerð?“ og „eiga allir heima í húsi?“.

Næst tekur við ferli þar sem börnin kynna eigin teikningar og hugmyndir og ræða í bak og fyrir hvort og hvernig skuli standa að piparkökuhúsagerðinni. „Haldnar eru kosningar þar sem lýðræðislegur meirihluti ákveður hvort piparkökuhús verði bakað, og hversu mörg hús á að baka. Í gegnum ferlið fræðast börnin um byggingar, hvernig hús verða til og hverjir koma þar við sögu. Við fáum til okkar gesti, s.s. byggingameistara, múrarameistara eða málara, sem segja okkur frá sínum hlutverkum. Börnin fá að láta sína rödd heyrast og stjórna fundinum þegar málin eru rædd,“ segir Hrönn.

Ábyrgð og virðing

Í gegnum undirbúningsvinnuna læra börnin að tjá sig og hlusta á aðra. „Verkefnið byggist á þeirri stefnu sem kölluð er hugsmiðjuhyggja þar sem unnið er með sjálfræði barnsins, ábyrgð og virðingu einstaklingsins fyrir sjálfum sér og öðrum,“ útskýrir Hrönn en á piparkökuhúsafundunum taka þátt allt að 40 börn í einu og hafa þeir að sögn Hrannar farið mjög vel fram.

Í gegnum kosningakerfið nær hópurinn að komast að niðurstöðu t.d. um það hvort á að baka einbýlishús eða blokk, og hvort húsið verður sent í keppni Kötlu. Segir Hrönn að undantekningalaust sé mikill samhljómur um að hefja verkefnið en síðan geti baksturinn þróast á ýmsa vegu. Stundum eru piparkökuhúsin jafnmörg og börnin, og í fyrra var mjög mjótt á mununum þegar kosið var um það hvort húsið yrði sent í piparkökuhúsakeppnina þar sem það fengi að vera til sýnis í Smáralind.

Sköpunarverk barnanna

Að byggja piparkökuhús getur verið heilmikil áskorun fyrir fullorðna og þegar hér er komið sögu grunar suma lesendur eflaust að kennararnir á leikskólanum sjái um sjálfan baksturinn. En raunin er að börnin baka húsin sjálf, með sáralítilli hjálp frá kennurunum. „Börnin gera leirmót af húsinu sem byggjast á grunnteikningunum, og mótin liggja síðan til grundvallar þegar deigið er skorið. Leirmótin verða aftur á móti að krúttlegri jólagjöf fyrir fjölskyldumeðlimi. Við útbúum súkkulaðibráð fyrir börnin til að festa piparkökueiningarnar saman og börnin sjá um að skreyta húsið, yfirleitt með nammi. Jafnvel skrautið er keypt eftir nákvæmum fyrirmælum barnanna.“

Útkoman er iðulega stórglæsileg og vekur jafnan mikla athygli á piparkökuhúsasýningunni í Smáralind, þó svo að börnin á leikskólanum hafi ekki enn orðið hlutskörpust í keppninni. „Við höfum það síðan fyrir hefð á þrettándanum að brjóta húsið og smakka piparkökur enn á ný til að ljúka jólahátíðinni,“ segir Hrönn.

ai@mbl.is

Syngja piparkökulagið

Það er merkilegt að heyra hversu prúð og almennileg börnin eru í öllu piparkökuhúsaferlinu. Vel gengur að láta þau temja sér góðar lýðræðisvenjur og virða skoðanir annarra. Þá fer baksturinn líka fram vandræðalaust, þó að von sé á að ögn meira sé af sykri í litlum mallakútum sem stelast til að smakka deigið og sælgætið sem notað er til skrauts. „Það myndast hátíðleg stemning í húsinu. Er vaninn að syngja piparkökulagið úr Dýrunum í Hálsaskógi á meðan á bakstrinum stendur.“