Miðpunkturinn Þetta tilkomumikla tré gnæfir yfir jólagarðinn í Haukanesinu og umhverfis það sindra falleg jólaljósin.
Miðpunkturinn Þetta tilkomumikla tré gnæfir yfir jólagarðinn í Haukanesinu og umhverfis það sindra falleg jólaljósin.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Klassískar ljósaseríur með glærum perum eru sívinsælar og áberandi bæði í görðum og húsum en meðal nýjunga hjá Garðlist má nefna hátíðlegar ljósar útiseríur sem tindra.

Klassískar ljósaseríur með glærum perum eru sívinsælar og áberandi bæði í görðum og húsum en meðal nýjunga hjá Garðlist má nefna hátíðlegar ljósar útiseríur sem tindra. Fyrirtækið veitir viðskiptavinum faglega ráðgjöf við val á jólaljósum og hannar skreytingar og sér jafnframt um uppsetningu á jólaseríum, úti sem inni.

Hvítar ljósaseríur eru langvinsælastar þegar skreyta á garða og hús að utan, en líka þegar kemur að innanhússskreytingum, og þannig hefur það verið undanfarin ár,“ segir Brynjar Kjærnested, framkvæmdastjóri Garðlistar. „Við bjóðum upp á gott úrval af jólaseríum til notkunar úti og inni, bæði litlar og stórar perur og í alls kyns litum, en langflestir vilja þó klassískt yfirbragð og velja hvítt.

Nýtt hjá okkur núna, sem mjög margir eru hrifnir af, eru ljósar útiseríur sem tindra. Þær eru þannig úr garði gerðar að hluti af perunum blikkar á látlausan hátt. Þegar seríurnar eru komnar upp í tré glitra þær og gefa frá sér ákaflega fallega milda birtu og allt umhverfið, tré, garðar og hús, er baðað ævintýraljóma.“

Kveikt í október

Garðlist hefur í tæpan áratug boðið einstaklingum og fyrirtækjum upp á ráðgjöf og uppsetningu jólaljósa og hefur eftirspurnin eftir þeirri þjónustu aukist jafnt og þétt, að sögn Brynjars. „Við skreytum langmest utandyra, setjum upp ljósaseríur í tré og utan á hús, en tökum þó líka að okkur að skreyta innandyra, þá aðallega hjá fyrirtækjum.“

Aðspurður segir Brynjar meira um ljósaskreytingar hérlendis en áður var, bæði í íbúðarhverfum og hjá verslunum og fyrirtækjum. „Við Íslendingar skreytum mun meira en við gerðum áður og setjum meiri metnað í jólaskreytingarnar, sérstaklega utandyra. Það verður líka æ algengara að fólk noti hvít ljós til að lýsa upp skammdegið og leyfi þeim að loga mun lengur en bara yfir aðventuna og jólin, oft frá október eða byrjun nóvember og vel fram eftir vetri.“

Skreyttur trjástofn

Talið berst að grýlukertunum, sem lengi hafa notið vinsælda, og Brynjar er spurður hvort þau séu enn í tísku. „Grýlukertaseríurnar eru alltaf vinsælar. Þær koma sérstaklega vel út á þakköntum og við setjum talsvert upp af þeim. Grýlukertin hafa að sjálfsögðu þróast í gegnum árin og núna bjóðum við til dæmis upp á nýjung, þar sem seríurnar eru með fleiri ljósum og fyrir vikið mun þéttari en eldri týpur.

Við erum annars mikið í því að setja seríur í tré og beitum við það ýmsum aðferðum. Áður en hafist er handa förum við vandlega yfir verkefnið með viðskiptavininum og gefum góð ráð, til dæmis hvaða tré eða húshluta sé best að skreyta. Stundum á fólk jólaseríur sem hægt er að nota, en jafnframt höfum með okkur sýnishorn af jólaseríum úr Garðlist og sýnum hvernig þær koma út á mismunandi hátt.

Því næst er ákveðið hver útfærslan verður við uppsetningu, en ýmsir möguleikar eru fyrir hendi. Ein aðferð, sem verður æ vinsælli, er til dæmis að vefja trjástofninn með seríum og sömuleiðis greinarnar, hverja fyrir sig. Með því móti teiknast útlínur trjánna í birtunni frá ljósunum þegar fer að rökkva. Þessi aðferð er flóknari en að smella seríum einfaldlega utan á trén en útkoman er mjög falleg.“

Stigar og kranar

Garðlist er til húsa á Tunguhálsi og þar er sýningarsalur með ljósaseríum þar sem viðskiptavinir geta kynnt sér breitt vöruúrvalið, að sögn Brynjars. „Við erum með mjög flotta línu frá Quality LED, en það eru led-seríur í háum gæðaflokki sem henta vel fyrir einstaklinga, húsfélög og minni fyrirtæki. Við bjóðum jafnframt seríur frá MK Lumination, sem ætlaðar eru fyrir fyrirtæki, bæjarfélög og stærri húsfélög.

Þegar fyrirtæki óska eftir sérhannaðri skreytingu frá okkur er hún hönnuð og sýnd á tölvumynd, þannig að viðskiptavinurinn geti gert sér grein fyrir heildarútlitinu áður en hafist er handa. Við getum til dæmis búið til stórar sérhæfðar skreytingar, þar sem skírskotað er til merkis fyrirtækisins eða ákveðinnar vöru. Þegar kemur að uppsetningu jólaljósa og skreytinga, hvort heldur er fyrir fyrirtæki eða einstaklinga, notum við svo trausta stiga og krana eins og þörf krefur, þar sem ekkert tré eða hús er of hátt.“

Jólunum bjargað

Brynjar bætir við að Garðlist annist ekki aðeins uppsetningu jólaljósa heldur sjái jafnframt um að taka seríur og skreytingar aftur niður. „Við byrjum á fullu í október að setja upp jólaljósin og erum að mestu búin fyrir 10. desember. Í sumum tilvikum kveikir fólk ekki endilega strax á seríunum, heldur bíður þangað til jólaandinn færist yfir og stingur þá í samband. Við mætum líka til að fjarlægja jólaljósin en það tímabil er mun lengra; sumir vilja seríurnar niður í janúar en aðrir leyfa ljósunum að loga fram í febrúar og mars, eða jafnvel lengur. Það hefur aukist með meiri notkun á hvítum perum.

Annars eru alltaf einhverjir sem gleyma sér þegar kemur að því að setja upp jólaseríurnar, þannig að við erum á vaktinni fram að jólum. Á hverju ári lendum við í því að fólk „gleymir næstum jólunum“ og hringir í áfalli á Þorláksmessu. Við höfum tekið á móti símtölum frá fólki í miklu uppnámi og oft byrjað aðfangadag með heitu kakói í heimahúsi, áður en við klifrum upp í stiga og björgum jólunum.“ beggo@mbl.is