Guðmundur Ingi Kristinsson
Guðmundur Ingi Kristinsson
Eftir Guðmund Inga Kristinsson: "Að skattleggja strax við 140.000 krónur um 38,9% er ekkert annað en skattur á fátækt og því er fátæktarskatturinn um 30 þúsund krónur á mánuði í dag."

Árið 2012 voru fátæktarmörk á Íslandi um 180.000 krónur á mánuði. Þetta kom fram í skýrslu um nægjanleika lífeyrissparnaðar frá 2014, útgefinni af fjármálaráðuneytinu. Til að fá þessa tölu voru heimili þar sem annar eða báðir einstaklingar fengu örorkulífeyri undanskildir. Með þessari brellu náðu þeir lægstu lífeyðissjóðgreiðslum 11% yfir fátæktarmörkin.

Í dag er þessi tala ekki undir 220.000 krónum eftir um 30% launahækkanir sem samið hefur verið um í vor. Að skattleggja strax við 140.000 krónur um 38,9% er ekkert annað en skattur á fátækt og því er fátæktarskatturinn um 30 þúsund krónur á mánuði í dag. Síðan er skatturinn og skerðingin á lífeyrissjóðgreiðslunum frá 63% og yfir 100%. Þetta er skattur og skerðingar upp á um 63-100 þús. krónur af hverjum 100 þús. króna greiðslum úr lífeyrissjóði eða bara hrein og klár eignaupptaka.

Til hvers að borga í lífeyrissjóðssparnað sem er að stórum hluta skattur? Er það er til þess að útvaldir ráðamenn, ráðherrar, þingmenn og verkalýðsforkólfar hafi góðan lífeyri ásamt öðrum hálaunamönnum?

Skattalækkun á síðasta ári var fyrir þá sem eru með um 700.000 krónur á mánuði. Þeir fengu 13.000 króna lækkun og fá 11.000 króna lækkun í viðbót eða 24.000 króna lækkun. Þarna er kominn skatturinn á fátæktina og hann fer beint í vasa þeirra ríku og hálaunuðu.

Að verða að lifa á um 140-180.000 krónum á mánuði og borga húsaleigu, mat, hita, rafmagn er ekki hægt. Það er ekki hægt að tóra á þessari hungurlús. Þetta er ávísun á svelt, bæði líkamlega og andlega. 10-20.000 þúsund börn lifa við fátækt á meðan ráðherrar kaupa ráðherrabifreiðir fyrir tugi milljóna króna og eyða hundruðum milljóna í utanlandsferðir, dagpeninga og annan óþarfan lúxus. Verkalýðsforustan tekur svo á fullu þátt í spillingunni með því að samþykkja eignaupptöku á lífeyrissjóðunum hjá öryrkjum og öldruðum sem leiðir okkur í fátækt.

Sem betur fer eiga málleysingjarnir sér málsvara í lögum og reglum um dýravernd. Ill meðferð á dýrum hefur verið í umræðunni að undanförnu og það að svelta dýr og að þau fái ekki lyf og lækningu er skammarlegt.

En má fara illa með eldri borgara og öryrkja á Íslandi? Eru ekki lög og reglur sem banna að svelta og neita fólki um lyf og læknisþjónustu á Íslandi? Jú, það gerir stjórnarskráin. Með brotum á henni er verið að beita eldri borgara og öryrkja fjárhagslegu ofbeldi með skerðingum og sköttum. Að sparka fjárhagslega í afa, ömmu og veikt fólk með því að gera eignaupptöku á lífeyrissjóðnum, sparnaði og öðrum eignum þess er ekki bara brot á stjórnarskránni heldur siðferðisbrestur af verstu gerð.

Hvað er það há tala sem ríkið fær í sinn hlut með eignaupptöku á lífeyrinum í gegnum skatta og skerðingar? Stendur hún ekki undir vélferðarkeflinu og meira en það? Er ekki verið að láta okkur halda uppi kerfinu með þessum sköttum og skerðingum?

Frá 2008 hafa bætur mínar verið skertar um 100.000 krónur eða 60.000 krónur eftir skatt. Þetta gerðu Samfylkingin og Vinstri-grænir í stjórnartíð sinni. Sjálfstæðisflokkur og Framsókn lofuðu í kosningum að leiðrétta þetta, en sviku það og bæta á okkur í staðinn sköttum og kostnaði. Ekkert í átta mánuði fyrir okkur og síðan minna en helmings hækkanir láglaunaþega um áramótin.

Eru ríkið og verkalýðshreyfingin í samstarfi við að skatta og skerða bætur eldriborgara og öryrkja? Er í lagi að koma fram við eldri borgara og (veika) öryrkja á verri hátt en dýr, með því að koma í veg fyrir að þeir eigi fyrir mat, læknisþjónustu og lyfjum? Skammast sín enginn fyrir þetta eða er siðblindan við völd?

Fjölgun öryrkja

Að setja fólk á biðlista eftir aðgerðum í allt að þrjú ár er ávísun á örorku. Að hafa fólk á biðlista svo árum skiptir eftir geðheilbrigðishjálp er ávísun á örorku. Því er það ríkið með sinni röngu forgangsröðun (nýir ráðherrabílar) sem er með fjársvelti til heilbrigðisþjónustunnar að stórfjölga öryrkjum. Meira að segja börn með geðraskanir eru árum saman á biðlista. Hvað er að hjá þeim sem stjórna hér og láta þetta viðgangast eða er önnur þjónusta fyrir þá?

Það er sannað að þeir sem eru á biðlistum eftir aðgerðum lengur en í þrjá til sex mánuði verða örorku að bráð, falla af vinnumarkaði eða verða stofnanamatur til frambúðar og þetta á einnig við um börn með geðraskanir. Þarna er verið að henda krónunni og spara aurinn á kostnað veiks fólks sem endar síðan í fátækt og örorku.

Er þá fátæktin ekki í ykkar boði og þá bara fyrir okkar börn, en ekki ykkar?

Höfundur er öryrki og formaður BÓTar.