Nýjungagjarn Viðar Eggertsson: „Ég hef aldrei viljað hafa jólin í föstum skorðum siða og reglna. Mér finnst skemmtilegt að upplifa eitthvað nýtt, það á jafnt við um jólin og aðra daga ársins.“
Nýjungagjarn Viðar Eggertsson: „Ég hef aldrei viljað hafa jólin í föstum skorðum siða og reglna. Mér finnst skemmtilegt að upplifa eitthvað nýtt, það á jafnt við um jólin og aðra daga ársins.“ — Morgunblaðið/Eggert
Stundum hef ég farið í miðnæturmessu.

Fyrir mér eru jólin tími ljósa og ég fagna þessari hátíð ljóssins. Því gríp ég hvert tækifæri sem gefst til að kveikja á fallegum kertum og njóta birtu og yls. Ég er ekki trúaður maður en finn sterkt fyrir þeim fögnuði sem hækkandi sól vekur með mér. Þegar birtan læðir sér smátt og smátt inn og hrekur burt myrkrið.

Ég nýt aðventunnar í angurværri gleði og eftirvæntingu. Mér finnst einstakt og ljúft að ganga um götur í drifhvítum snjó og virða fyrir mér jólaskreytingar; skoða marglit ljós í gluggum og upplýst stræti. Sjálfur er ég lítilþægur að því leyti að ég þarf ekki sjálfur að skreyta mikið á jólum til að njóta. Með árunum hefur enda dregið allverulega úr jólaskreytingum á heimilinu, en í staðinn vanda ég valið þegar skrautið er sótt í geymsluna.“

Hreindýr frá Gerði

Jólaskrautið sem fær að njóta sín?

„Ómissandi um hver jól eru lifandi jólastjarna á borði og kerti í stjökum. Sama má segja um skemmtilegt og undurlistrænt lítið, rautt hreindýr úr pípuhreinsurum sem vinkona mín, jólabarnið og þulurinn Gerður G. Bjarklind, bjó eitt sinn til og gaf mér. Ég kem því alltaf fyrir á besta stað í húsinu, sem er breytilegur á milli ára. Ekki má heldur gleyma „jólatrénu“ sem prýðir heimili okkar hver jól. Þetta er stórmerkilegt „tré“ því það er úr málmi, kringlótt með hillum fyrir aragrúa af jólakúlum og á hverri hillu eru kertastjakar. Það er um 70 cm á hæð og fær stundum að standa á gólfi og stundum á litlu borði, það tekur innan við þrjár mínútur að skreyta það.“

Jólin á þínum yngri árum?

„Í nokkur ár bjó ég einn og það var eilíft stríð að fá að vera heima hjá mér á jólunum. Fólkið í kringum mig, vinir og ættingjar, höfðu yfirleitt lítinn skilning á því að mér fyndist í raun ljúft og gaman að vera einn með sjálfum mér á jólum og að ég upplifði mig ekki afskiptan eða einmana. Ég hef aldrei átt erfitt með að vera einn og leiðist ekki neitt að eiga bara félagsskap við sjálfan mig, ekki einu sinni á jólum. Það fór þó oft svo að ég lét tilleiðast og þáði heimboð hjá vinafólki á jólum, bara til að friða aðra.“

Tölva undir trénu

Eftirminnileg jól?

„Eitt eftirminnilegasta aðfangadagskvöldið mitt var árið 1992. Ég bjó þá einn og var boðinn í mat til vinkonu minnar sem bjó í næsta húsi. Ég gerði við hana samning um að ég myndi mæta í kvöldverðinn klukkan sex og mætti svo fara heim. Ég man að það voru allir svo glaðir þegar þeir fréttu að ég yrði ekki einn heima hjá mér á aðfangadagskvöld, fólk mátti auðvitað ekki til þess vita að ég væri bara í eigin félagsskap.

Að kvöldverðinum loknum fór ég heim, eins og um var samið. Þar beið mín splunkunýja tölvan mín, sem ég gaf sjálfum mér í jólagjöf og kunni ekkert á. Þetta var fyrir 23 árum og tölvur voru þá rétt að hefja innrás á heimili fólks. Þetta aðfangadagskvöld lærði ég upp á eigin spýtur á tölvu. Kvöldið leið eins og örskot og ég sofnaði sæll og glaður þegar liðið var þó nokkuð á jólanótt, búinn að kenna sjálfum mér nýjustu tækni.“

Helgileikur jóla

Heldurðu í jólahefðir?

„Ég hef aldrei viljað hafa jólin í föstum skorðum siða og reglna. Mér finnst skemmtilegt að upplifa eitthvað nýtt, það á jafnt við um jólin og aðra daga ársins. Ég viðurkenni þó að mér finnst gaman að fara á tónleika á aðventunni, þá sérstaklega kirkjutónleika, þó að ég sé ekki kristinn. Stundum hef ég meira að segja farið í miðnæturmessu á jólanótt, bæði í lútherska kirkju og kaþólska, en það hefur verið vegna hátíðleikans og tónlistarinnar því slíkar messur eru auðvitað í sjálfu sér eins og leiksýningar eða helgileikir.

Þá verð ég að nefna að mér finnst afar gaman að fara á jólafrumsýningu Þjóðleikhússins annan dag jóla. Það er frábær hápunktur á jólahaldinu. Annar hápunktur hefur verið jólaboðið á jóladag hjá nánustu fjölskyldu mannsins míns, Sveins Kjartanssonar matreiðslumeistara, þar sem hefðbundinn íslenskur jólamatur, eins og hann gerist bestur, er á borðum.“

Tilraunaeldhúsið

Veislumaturinn á þínu heimili?

„Aðventan einkennist af mikilli matarveislu, sem stendur fram á nýtt ár. Matreiðslumeistarinn eiginmaðurinn er þá önnum kafinn við að undirbúa kræsingarnar fyrir veitingastaðinn sinn, AALTO Bistro í Norræna húsinu. Staðurinn er afar vinsæll hjá þeim sem elska góðan mat og ég nýt góðs af og fæ að smakka sælkeramat úr tilraunaeldhúsi jólanna.

Það er allur gangur á því hvað er á borðum hjá okkur á aðfangadagskvöld, líkt og í öðru finnst mér gott að festa mig ekki í einhverjum ófrávíkjanlegum hefðum. Ég er heppinn því þegar við Sveinn hófum sambúð kom í ljós að hann er jafn laus við hefðir og ég. Stundum eldar hann fyrir okkur dýrðlega jólarétti og stundum höfum við farið út að borða á aðfangadagskvöld. Það er frábært að sitja að margrétta kræsingum á fallegum veitingastað og koma svo heim að máltíð lokinni og þar er allt hreint og fágað. Engin óhrein eldhúsáhöld eða matardiskar í stöflum, heldur kyrrð og fegurð. Þá er notalegt að kveikja á kertum og lömpum, fara í náttföt og lesa góða skáldsögu fram á morgun.“ beggo@mbl.is