Myndarleg Marianne Skovgaard Nielsen heldur í gamlar hefðir frá æskuheimili sínu á Jótlandi. „Við erum með laufabrauð og jólaöl eins og Íslendingar en hinn jólamaturinn er að dönskum sið. Á borðum var bæði fyllt önd og einnig svínakambsteik, pabbi vildi borða svínakjöt,“ segir hún um æsku sinnar jól.
Myndarleg Marianne Skovgaard Nielsen heldur í gamlar hefðir frá æskuheimili sínu á Jótlandi. „Við erum með laufabrauð og jólaöl eins og Íslendingar en hinn jólamaturinn er að dönskum sið. Á borðum var bæði fyllt önd og einnig svínakambsteik, pabbi vildi borða svínakjöt,“ segir hún um æsku sinnar jól. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Mamma og pabbi lögðu mikla áherslu á að vera sjálfbjarga á sem flestum sviðum. Ég hef stundum á tilfinningunni að þau hafi haldið meira í gamlar hefðir en almennt gerðist þá. Það var nánast allt gert á heimilinu.

Dúkað borg með kræsingum mætir auganu í stofu Marianne Nielsen, formanns Dansk kvindeklub i Island. Hún deilir með lesendum jólablaðsins endurminningum um æskujólin á Jótlandi, en þar fæddist hún og ólst upp á bóndabæ.

Marianne Nielsen hefur undanfarin ár verið formaður Dansk kvindeklub i Island, eins og það heitir upp á dönsku.

„Dansk kvindeklub var stofnaður hér árið 1951. Við erum um fjörutíu sem myndum þennan klúbb en vildum gjarnan fá fleiri konur tengdar Danmörku í hann, við reynum að hittast fimm sinnum á ári,“ segir Marianne meðan hún hellir jólaöli í glösin á dúkuðu jólaborði í stofunni sinni. Á borðinu liggur á diski steikt jólaönd með öllu tilheyrandi, kertaljós logar og stundin nálgast hátíðleika sjálfra jólanna.

„Ég kom til Íslands árið 1989,“ segir Marianne. „Ég hitti manninn minn í Háskólanum í Álaborg, þar sem við vorum bæði við nám, ég í félagsráðgjöf en hann í rafmagnsverkfræði. Eftir að ég kom til Íslands hefur ég unnið við þýðingar og dönskukennslu og einnig starfað sem sjálfboðaliði við félagsráðgjöf hjá Rauða krossinum hér,“ bætir hún við.

En hvernig skyldi henni líka vistin á Íslandi?

„Þegar ég kom hérna fyrst í byrjun september 1989 rigndi í þrjár vikur. Mér leist ekki á blikuna og langaði aftur heim til Danmerkur. Var næstum búin að taka fram ferðatöskuna. En maðurinn minn hafði fengið hér draumastarfið og við áttum lítinn son svo ég harkaði af mér og hér er ég búin að vera síðan. Eftir að hafa lokið háskólanámi í Álaborg höfðum við búið og starfað í Kaupmannahöfn í þrjú ár og vorum næstum búin að kaupa hús þar. En svo datt okkur í hug að athuga með Ísland. Við ætluðum fyrst að vera hér stutt en hér erum við enn. Viðbrigðin voru í fyrstu talsverð. Það eru í sjálfu sér ekki miklu fleiri sólardagar í Danmörku en hér, en það er svo miklu hlýrra á sumrin. Nú erum við búin að búa hér í tuttugu og sex ár.“

Svíninu slátrað í nóvember

Hvernig voru fyrstu jólin eftir að þú komst hingað?

„Fyrstu jólin eftir að við fluttum til Íslands fór ég út til Danmerkur, til mömmu, og hélt þar jól með mínu fólki. Næstu jól vorum við hér á Íslandi, héldum jólin hjá tengdaforeldrum mínum. Það var skemmtilegt. En hvað jólahald Íslendinga snertir fannst mér það markast af meiri streitu en ég var vön frá æskuheimilinu. Ég er jú sveitastelpa frá Ravnholt á Jótlandi, þar sem ég fæddist 1958 og ólst upp. Næsta þorp í nálægð við Ravnholt er Vejen.“

Hvernig var jólahaldið í sveitinni þinni?

„Mamma og pabbi lögðu mikla áherslu á að vera sjálfbjarga á sem flestum sviðum. Ég hef stundum á tilfinningunni að þau hafi haldið meira í gamlar hefðir en almennt gerðist þá. Það var nánast allt gert á heimilinu. Svíninu var slátrað í nóvember, kjötið tekið inn og verkað. Þann fyrsta í aðventu fór mamma mín alltaf til nágrannans til að ná í greni, köngla og fleira. Svo bjuggum við öll saman til skreytingar. Þá byrjaði jólaundirbúningurinn, sem síðan hélt áfram í rólegheitum fram að hátíðinni. Mamma bakaði talsvert mikið, smákökur og alls kyns aðrar kökur. Við erum fjögur systkinin svo að heimilið var nokkuð stórt. Pabbi var bóndi og var með kúabú en hafði líka svín, þá var meira um blandaðan búskap en nú er í Danmörku. Seinni árin var pabbi ekki með svín lengur.“

Var mikið tilstand fyrir jólin hjá ykkur?

„Mamma stóð ekki í stórhreingerningum fyrir jólin heldur lagði sig fram um að hafa jólaundirbúninginn á rólegum nótum. Hún tók allan jólamánuðinn til þess að sinna þessum undirbúningi en gerði hreint á öðrum tímum. Hér fer fólk gjarnan á fullt viku fyrir jól og þá á að gera allt. Mér fannst þetta undarlegt.“

Fléttuð jólahjörtu

Hvernig var húsið sem þú ólst upp í?

„Við áttum heima í ágætu steinhúsi sem var byggt 1923. Foreldrar mínir komu úr sveit. Áður en pabbi hóf búskapinn lærði hann járnsmíði. Afi vildi að hann lærði handverk áður en hann byrjaði búskapinn. Mamma er handavinnukennari. Ég er elst af systkinum mínum og fór snemma að hjálpa mömmu. Hún lagði metnað sinn í að heimilið væri sjálfbært, hún ræktaði margar tegundir af grænmeti, saumaði og prjónaði föt á heimilisfólkið. Það var ekki mikið aðkeypt á okkar heimili. Jólaskrautið bjuggum við til sjálf, svo sem fléttuð jólahjörtu. Foreldrar mínir voru börn í stríðinu og lærðu að nýta og fara vel með alla hluti.“

Hvernig eru jólin þín hér núna?

„Við hjónin eigum þrjú börn og ég haga jólunum okkar að flestu leyti eins og ég var vön frá mínu æskuheimili, hef „dönsku jólin hennar mömmu“. Ég reyni að hafa aðventuna rólegan tíma. Þegar krakkarnir voru litlir bjuggum við til jólaskreytingar saman. Maðurinn minn er sáttur við að ég haldi dönsk jól, við ræddum þetta auðvitað og ákváðum í sameiningu hvernig jólahaldinu yrði hagað. Við erum með laufabrauð og jólaöl eins og Íslendingar en hinn jólamaturinn er að dönskum sið.

Á æskuheimili mínu var borðað um klukkan sex. Mamma átti fallegt sparistell frá Rosenthal. Á borðum var bæði fyllt önd og einnig svínakambsteik, pabbi vildi borða svínakjöt. Hann var mikill kartöflukarl, mamma hafði bæði brúnaðar kartöflur á jólum og líka soðnar kartöflur. Hún var mikið fyrir hollustu og þegar við krakkarnir fengum okkur brúnaða kartöflu sagði hún gjarnan: „Hafðu eina hvíta með.“ Meðlæti var grænmeti sem mamma ræktaði í garðinum og sólberjasulta sem hún bjó alltaf til sjálf. Eftirmaturinn var jafnan ris a‘lamande og ég hef alltaf þann eftirmat líka á jólunum hjá okkur. Við drukkum heima á Jótlandi appelsíngos með matnum. Aldrei var drukkið áfengi á jólunum heima hjá okkur.

Mamma bjó til mikinn mat fyrir aðfangadag og hafði svo afganga á jóladag sem við borðuðum ef við fórum ekki í jólaboð, sem við oft gerðum. Ef við fórum í jólaboð var maturinn frá aðfangadag bara geymdur fram á annan í jólum og borðaður þá. Mamma lagði áherslu á að hafa allt rólegt og auðvelt á jólunum. Við fengum auðvitað öll jólagjafir og fórum í sparifötin. Ný föt fengum við krakkarnir í jólagjöf. Þá var ekki þetta pakkaflóð sem nú er, bæði hér og í Danmörku. Svo fórum við í kirkju á jóladagsmorgun.“

Saknar þú Danmerkur?

„Já, ég geri það – en ekki eins mikið og áður, það er mjög gott að vera hér. Ég fer til Danmerkur að minnsta kosti tvisvar á ári, á sumrin og veturna, til að heimsækja mömmu og systkini mín.“

gudrunsg@gmail.com

Uppskrift að jólamatnum

Önd með fyllingu

1 aliönd 2½-3 kíló

salt

pipar

Fylling:

2-3 epli, kjarnhreinsuð og skorin í bita

150 g steinlausar sveskjur

100 g valhnetur

5 sneiðar af fínt skornu beikoni

1 tsk engifer

Blandið öllu saman

Þvoið öndina upp úr köldu vatni og þerrið vel með eldhúspappír. Núið hana innan og utan með salti og pipar. Öndin er fyllt og lokað með kjötnálum eða tannstönglum, látin með bringuna niður á grind yfir ofnskúffu.

Steikingartími: 40 mínútur á kíló miðað við 160°C. Öndin skal bíða í 15 mínútur í ofninum að lokinni steikingu.

Sósa

Notið soðið frá öndinni. Þykkið það með hveiti og matarrjóma. Látið salt, pipar og (heimalagaða) sólberjasultu út í eftir smekk. Berið einnig sólberjasultuna fram með öndinni.

Meðlæti

Hvítar og brúnaðar kartöflur. Gufusoðnar baunir og rósakál borið fram með kaldri dijonsósu.

Dijonsósa

½ dl olía

1 msk dijonsinnep

sítrónusafi

salt

pipar

Hrærið/hristið vel saman og berið strax fram.

Heimagert rauðkál

U.þ.b. 1 kíló rauðkál

2 epli

75 g smjör

2 dl heimagerður rauður berjasafi (Ribena ef heimagerður er ekki til)

1 dl borðedik

salt, sykur e.t.v. engifer og kanill eftir smekk

Sneiðið rauðkálið fínt. Afhýðið eplin og skerið í litla bita. Setjið kál, epli, smjör, safa og edik í pott og látið malla undir loki við vægan hita u.þ.b. 35 mínútur. Fjarlægið lokið og látið malla 10 til viðbótar.

Engin eru jólin

án ris à l'amande!

Uppskriftin er fyrir 4

65 g stuttkorna grautargrjón

½ l mjólk

korn af ½ vanillustöng, látið hýðið sjóða með

1-2 msk sykur

3-5 dl rjómi

100 g hakkaðar möndlur

1 heil mandla

Berist fram með heitri kirsuberjasósu.

Hitið mjólk, hrísgrjón, vanillukorn og stöng að suðu, lækkið og látið malla undir loki við lágan hita u.þ.b. 45 mínútur. Hrærið oft í grautnum svo hann brenni ekki við. Fjarlægið vanillustöngina og hrærið sykurinn út í. Látið kólna. Hrærið möndlur og þeyttan rjóma saman við og látið standa í kæli.

Kirsuberjasósa

400 g niðursoðin kirsuber

½ dl vatn

1 msk maizena (maíshveiti)

Hitið kirsuberin að suðu. Blandið vatni og maizena saman og hrærið út í. Hrærið í sósunni í u.þ.b. eina mínutu. Berist fram heit.

Ekki gleyma möndlugjöfinni!