Rannsókn Tæknimenn lögreglunnar í París að störfum á vettvangi átaka við hryðjuverkamenn í fyrrinótt.
Rannsókn Tæknimenn lögreglunnar í París að störfum á vettvangi átaka við hryðjuverkamenn í fyrrinótt. — AFP
Bogi Þór Arason bogi@mbl.is Yfirvöld í Frakklandi telja að lögreglan í París hafi komið í veg fyrir hryðjuverk þegar hún lagði til atlögu við hóp meintra hryðjuverkamanna í borginni í fyrrinótt.

Bogi Þór Arason

bogi@mbl.is

Yfirvöld í Frakklandi telja að lögreglan í París hafi komið í veg fyrir hryðjuverk þegar hún lagði til atlögu við hóp meintra hryðjuverkamanna í borginni í fyrrinótt.

Kona með sprengjubelti sprengdi sig í loft upp þegar sérsveit lögreglunnar réðst inn í íbúð í París og félagi hennar beið bana í árásinni. Átta menn voru handteknir í íbúðinni, að sögn lögreglunnar.

„Nýr hryðjuverkahópur var gerður óvirkur og í ljósi fjölda vopnanna sem við fundum og skipulags hópsins er ljóst að hann hefði getað framið hryðjuverk. Við fundum heilt stríðsvopnabúr, með Kalashníkov-rifflum, skotfærum og sprengiefni,“ sagði franski saksóknarinn Francois Molins.

Ekki vitað um örlög höfuðpaursins

Saksóknarinn skýrði einnig frá því að farsími hefði fundist í ruslatunnu bak við Bataclan-tónleikahöllina þar sem ein árásanna var gerð á föstudaginn var. Úr símanum voru send skilaboðin: „Við erum komnir og erum að byrja“. Lögreglan rannsakar nú hverjum skilaboðin voru ætluð. „Hryðjuverkamennirnir skutu fimm þúsund skotum,“ sagði Molins um harðan skotbardaga sem hófst þegar sérsveitin réðst inn í íbúðina. Hætta er á að byggingin hrynji vegna skemmda sem urðu á henni í sprengingunum, að sögn fréttavefjar breska ríkisútvarpsins. Grunur lék á því að Abdelhamid Abaaoud, sem talinn er hafa skipulagt hryðjuverkin í París, hefði verið í íbúðinni en saksóknarinn sagði að hann hefði ekki verið á meðal þeirra sem voru handteknir og ekki væri vitað um örlög hans.

Stjórnvöld í Danmörku og Svíþjóð skýrðu frá því í gær að ákveðið hefði verið að auka öryggisviðbúnaðinn þar eftir hryðjuverkin í París. Hann er nú í næsthæsta stigi af fimm. Öryggislögregla Danmerkur, PET, sagði að viðbúnaðurinn hefði verið aukinn vegna „óvissuástands í nokkrum Evrópuríkjum“.

Sænsk yfirvöld skýrðu einnig frá því að lögreglan væri að leita manns sem væri eftirlýstur vegna gruns um að hann væri að undirbúa hryðjuverk. Gefin hefur verið út handtökutilskipun á hendur manninum, að sögn Anders Thornberg, sem stjórnar baráttu sænskra yfirvalda gegn hryðjuverkastarfsemi. Sænskir fjölmiðlar segja að maðurinn sé Íraki og hafi barist í Sýrlandsstríðinu, en Thornberg vildi ekki staðfesta það. Sænska öryggislögreglan Säpo sagði að ekki væri vitað hvort maðurinn tengdist hryðjuverkunum í París.

Gíslar teknir af lífi

Samtökin Ríki íslams, sem lýstu hryðjuverkunum í París á hendur sér, sögðust í gær hafa líflátið tvo gísla, Norðmann og Kínverja, á yfirráðasvæði sínu. Að sögn fréttaveitunnar AP höfðu íslömsku samtökin krafist lausnargjalds fyrir gíslana fyrir tveimur mánuðum. Tímarit samtakanna, Dabiq , birti myndir af líkum mannanna tveggja, Kínverjans Fans Jinghu og Norðmannsins Ole-Johans Grimsgaard-Ofstad.