Víkverji er nýskriðinn úr bæli sínu eftir tveggja vikna „veikindafrí“. Svo er mál með vexti að Víkverji brá sér í hálskirtlatöku og hefur hann því eytt síðustu tveimur vikum heima hjá sér að bryðja frostpinna.

Víkverji er nýskriðinn úr bæli sínu eftir tveggja vikna „veikindafrí“. Svo er mál með vexti að Víkverji brá sér í hálskirtlatöku og hefur hann því eytt síðustu tveimur vikum heima hjá sér að bryðja frostpinna. Aðgerðin sem slík var lítið mál, en þegar Víkverji rankaði við sér eftir svæfinguna sá læknirinn ástæðu til þess að nefna það að nú væru tveir „stórir og ljótir“ hálskirtlar farnir. Víkverja sárnaði í eitt andartak fyrir hönd hins brottnumda líkamsparts. Hann langaði til að segja að þeir væru ekkert ljótir, þeir fylgdu bara aðeins öðruvísi fegurðarstöðlum en venjulegir hálskirtlar.

Líklega hefur aðgerðin þó verið til mikilla bóta fyrir Víkverja. Alltént segir Frú Víkverji allt annað hljóð vera í sínum manni, ekki síst á nóttunni, nú þegar kirtlarnir óásjálegu eru farnir á brott. Víkverji hrýtur mun minna og líður ekki lengur eins og hann sé að kafna í svefni. Þetta tvennt eitt og sér myndi gera aðgerðina þess virði, sem og aukin almenn vellíðan Víkverja.

Þá leiddist Víkverja svo sem ekki að vera í fríi, jafnvel þó að hann gæti ekki gert mikið annað en að svífa um heima hjá sér á rósrauðu parkódín-skýi. Þó fylgdi sá böggull skammrifi að Víkverji fann harla glöggt til þess þegar hann hafði gleymt að taka lyfin sín. Gat biðin eftir því að þau færu að virka á ný verið helst til löng. Dugði þá ekkert minna en einn eða tveir frostpinnar, stundum þrír, til þess að slá á sársaukann. Sér Víkverji pínu eftir að hafa ekki fjárfest í Kjörís áður en hann fór í aðgerðina, svona miðað við magnið af frostpinnum sem enn leynast í frystinum.

Í ljósi umræðu um bágborna stöðu heilbrigðiskerfisins vill Víkverji því velta því upp, þótt ekki sé nema í gríni, hvort ísgerðarfyrirtækin og mjólkursamsalan gætu ekki tekið það upp hjá sér að niðurgreiða hálskirtlatökur? Miðað við reynslu Víkverja myndu þau fá það borgað margfalt til baka.