Eiginfjárhlutfall bankastofnana er mjög mismunandi en hlutfallið hjá íslenskum bönkum er með því hæsta sem þekkist í heiminum. Af þeim sökum kann að vera villandi að nota eigið fé sem viðmiðun um verðlagningu á fjármálastofnunum.

Eiginfjárhlutfall bankastofnana er mjög mismunandi en hlutfallið hjá íslenskum bönkum er með því hæsta sem þekkist í heiminum. Af þeim sökum kann að vera villandi að nota eigið fé sem viðmiðun um verðlagningu á fjármálastofnunum. Þar ræður einnig miklu hver vænt arðsemi af viðkomandi stofnun er og einnig að hversu miklu leyti búið er að hreinsa viðkomandi stofnun af mögulegum fortíðarvanda. Hins vegar kann að vera áhugavert að skoða verðlagninguna í nágrannalöndunum. Yngvi Harðarson, framkvæmdastjóri Analytica, bendir á að verðlagningin, sem hlutfall af bókfærðu eigin fé sé æði misjöfn.

„Hægt er að taka dæmi af Deutsche Bank, en reksturinn þar hefur gengið misjafnlega á undanförnum misserum. Þar er verðlagningin rétt rúmlega 0,5 sem hlutfall af eigin fé þegar hlutfallið er reiknað að meðtöldum óefnislegum eignum. Sama staða er um 0,72 hjá Barclays bankanum í Bretlandi. Annað er uppi á teningnum hjá Nordea-bankanum en bréf í bankanum seldust á genginu 1,34 af bókfærðu eigin fé í lok þriðja árfjórðungs.“

Þá bendir Yngvi einnig á að nú hyggst hollenska ríkið selja um 23% hlut sem það heldur á í ABN Amro.

„Hollenska ríkið ætlar með sölunni að ná til baka einhverju af því mikla fé sem það lagði til við björgun bankans fyrir um sjö árum. Miðað við verðbilið í söluferlinu, sem gefið er upp, og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum, gæti bankinn selst á genginu 1,1 af bókfærðu eigin fé hans. Þetta dæmi, eins og hin sem ég hef nefnt, sýnir að það er mjög erfitt að átta sig á „réttri“ verðlagningu banka og það er allt frá því að vera lágt sem hlutfall af eigin fé og upp í það að vera nokkuð hátt.“