Samhent Skarphéðinn Hjartarson og Guðrún Sigríður Loftsdóttir eru dugleg að gera allt saman, meðal annars að búa til gómsætt konfekt fyrir jólin.
Samhent Skarphéðinn Hjartarson og Guðrún Sigríður Loftsdóttir eru dugleg að gera allt saman, meðal annars að búa til gómsætt konfekt fyrir jólin. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hjónin segjast búa til um tvö hundruð konfektmola til jólanna, bæði í gjafir og til eigin nota. „Við erum svona tvö kvöld að búa þetta til. Við spjöllum saman á meðan við vinnum.“

Samhent hjón sem búa við Löngubrekku í Kópavogi hafa um langt árabil búið til gómsætt konfekt fyrir jólin. „Við gerum flestallt saman,“ segja þau Guðrún Sigríður Loftsdóttir og Skarphéðinn Þór Hjartarson meðan þau móta glæsilegar súkkkulaðikúlur frammi fyrir aðdáunarfullum blaðamanni.

„Við byrjuðum á þessu fljótlega eftir að við fluttum suður eftir að hafa verið búsett í nokkur ár á Ísafirði og Akranesi,“ segir Skarphéðinn Þór Hjartarson tónmenntakennari. Kona hans Guðrún Sigríður Loftsdóttir kinkar kolli. „Er virkilega orðið svona langt síðan, yfir tuttugu ár?“ segir hún. „Það var ævintýri að fara svona langt frá fjölskyldunni og hafa bara hvort annað, en það hefur orðið til þess að við gerum sem mest saman enn í dag. Konfektgerðin er eitt af því sem við höfum mjög gaman af.“

Búið þið alltaf til sama skammt af sælgætinu?

„Nei, við höfum búið til misjafnlega mikið af konfekti eftir efnum og ástæðum,“ svara hjónin einum rómi.

„Pabbi var alltaf að gera þetta,“ bætir Skarphéðinn við. Faðir hans átti ekki langt að sækja áhuga sinn á súkkulaðigerð því afi Skarphéðins, Guðmundur Rósinkar Magnússon bakarameistari, rak súkkulaðigerðina Fjólu á Vesturgötu frá 1927 og fram undir 1965. „Ég fékk áhuga á konfektgerðinni vegna þessa. Þetta lá svona í loftinu að við myndum prófa og þegar við Gunna Sigga höfðum búið saman í nokkur ár tókum við að gera tilraunir.“

Þær hafa greinilega heppnast vonum framar. Fyrir framan okkur á borði eru einar fimm tegundir af konfekti, hver tegundin annarri bragðbetri. Þarna eru Mozart-kúlur, piparmyntumolar, trufflur, kaffikúlur og hjartalagað konfekt með fyllingu. Ég fæ kaffi í bolla og konfekt að smakka.

„Við erum búin að prófa ýmsar uppskriftir sem við höfum rekist á í gegnum árin. Ef konfektið er gott þá búum við það til aftur, ef ekki þá hugsum við ekki meira um það. Við þurfum alltaf að vera að gera eitthvað nýtt. Svo er gaman að gefa heimagert konfekt, setja það í krukku eða poka með fallegum skreytingum,“ segir húsmóðirin.

Ísgerð í báðum ættum

En er dýrt að búa til konfekt sjálfur?

„Nei, ekki nema maður reikni inn í þetta tíma og vinnu. Hráefnið kaupir maður mestallt í Bónus en líka förum við í sérbúðir, svo sem í Allt í köku við Smiðjuveginn. Þar höfum við keypt skraut og sérhönnuð súkkulaðimót,“ segir Skarphéðinn. Hann bendir á tvær stórar járnvélar. „Þetta er karamelluklippa og brjóstsykurvél sem afi var með í súkkulaðigerð sinni, Fjólu. Þar var hann líka með á boðstólum ís og líka var þar lítið kaffihús. Við höfum ekki ennþá lagt í að búa til brjóstsykur en það endar líklega með því að við látum á það reyna,“ bætir hann við.

Hjónin segjast búa til um tvö hundruð konfektmola til jólanna, bæði í gjafir og til eigin nota. „Við erum svona tvö kvöld að búa þetta til. Við spjöllum saman á meðan við vinnum,“ segir Skarphéðinn. „Það er ágætt að hafa þögn eða hlusta á talað mál þegar maður lifir og hrærist í músík og þeim hávaða sem slíku fylgir,“ bætir hann við. Kona hans kinkar kolli. „Ég vil líka helst hafa þögn, ég kveiki aldrei á útvarpi. Finnst nóg að hafa fjögur hundruð hávaðasöm börn yfir mér alla daga,“ segir Guðrún Sigríður, en hún er þroskaþjálfi og starfar sem slíkur.

„Ég vandist því sem barn að búa til piparkökur með ömmu og skreyta þær og gerði þetta líka með krökkunum okkar þremur meðan þau voru lítil. Seinni árin hef ég skreytt piparkökur með börnum úr fjölskyldunni og barnabarni okkar sem nú býr í Hollandi en kemur heim um jólin,“ segir Gunna Sigga.

En skyldi vera bakað mikið á heimilinu?

„Við bökum ekki eins mikið og við gerðum, svona fjórar tegundir, súkkulaðibitakökur, sörur, lakkrístoppa og spesíur. Ég bakaði súkkulaðibitakökurnar sem krakki með ömmu og spesíurnar eru eftir uppskrift frá mömmu,“ segir húsmóðirin.

Hvernig undirbýr maður sig við súkkulaðigerð?

„Maður byrjar á að velja uppskriftir og kaupa það sem til þarf. Stundum dettur manni þó í hug eitthvað sniðugt meðan verið er að versla. Gott er svo að hafa einnota hanska, það er þrifalegra. Svo er gott að gefa sér tíma og hafa nægilegt pláss í ísskápnum. Við setjum konfektið í ísskáp og látum það vera þar þangað til það er borðað eða gefið,“ segja þau hjón.

Er vandi að bræða súkkulaðið?

„Við bræðum það í vatnsbaði í skál frá ömmu sem ég sá á netinu að er fræg, dönsk hönnun. Hún passar svo vel í pottinn. Gott er að bræða fyrst tvo þriðju af súkkulaðinu og setja svo það sem eftir er í það sem þegar er bráðið. Þannig kemur fallegur glans á súkkulaðið,“ segir Gunna Sigga.

Hefur konfektgerðin misheppnast?

„Já, það kemur stundum fyrir. Maður sér kannski spennandi uppskrift og langar til að prófa, en það gengur ekkert alltaf. Ég er einstaklega ánægður með trufflurnar núna. Við höfðum prófað þessa uppskrift áður en þá urðu þær of linar. Núna eru þær alveg mátulega stífar, höfum sennilega haft þær nægilega lengi í ísskápnum,“ segir Skarphéðinn.

„Einu sinni lásum við um aðferð til að bræða súkkulaði í örbylgjuofni. Það misheppnaðist hræðilega. Ef súkkulaðið brennur, sem oft gerist í örbylgjuofni ef ekki er mjög vandlega fylgst með, þá er það beinlínis ónýtt. Það má ekki vera sekúndu of lengi til að slíkt geti gerst,“ bætir hann við. Konfektið sem við gæðum okkur á er eins fallegt og konfekt getur orðið.

„Okkur finnst mjög skemmtilegt að vinna saman að konfektgerð fyrir jólin,“ segja hjónin og það er ekki erfitt að skilja það. Sameiginleg vinna í notalegu eldhúsi getur ekki annað en gefið gleði og hlýju. Einmitt það sem við, sem búum á norðlægum slóðum, þurfum á að halda í miðju skammdeginu.

„Jólin hjá okkur markast auðvitað af því að ég er organisti í Fríkirkjunni í Hafnarfirði og þess vegna borðum við ekki fyrr en eftir messuna. Tónlistin skipar veglegan sess í lífi okkar og jólahaldi,“ segir Skarphéðinn.

Jólahátíðin með öllu sínu annríki og umhyggju fyrir fjölskyldunni varpar jafnan kærkominni birtu inn í hugann. Og ekki er verra að sameinast við konfektgerð meðan hennar er beðið. gudrunsg@gmail.com

Uppskriftir að konfekti

Kaffikúlur

2 dl rjómi

2 msk. kaffi

500 g suðusúkkulaði

40 g smjör

Suðusúkkulaði til að hjúpa

Kakó til að velta upp úr

Rjómi og kaffi er hitað að suðu og hellt yfir saxað súkkulaðið og smjörið. Hrærið varlega saman. Kælið blönduna vel þar til hægt er að gera kúlur. Hjúpið kúlurnar með súkkulaði og veltið þeim upp úrkakói.

Trufflur

500 g hvítt súkkulaði

125 msk. rjómi

50 g smjör

2 msk. líkjör (t.d. Amaretto)

Möndlur eða hnetur utan á kúlurnar.

Allt brætt saman og sett í ísskáp í tvo tíma. Síðan settir upp hanskar og mótaðar kúlur sem velt er upp úr möluðum möndlum eða hnetum. Trufflurnar síðan settar í ísskáp að minnsta kosti í þrjá tíma. Best að geyma í ísskáp fram að notkun.

Piparmyntuskildingar

1 eggjahvíta

500 g flórsykur

Piparmyntudropar eftir smekk.

Eggjahvítan þeytt (ekki stífþeytt). Hnoðað með flórsykrinum, flatt út og skornar út litlar, kringlóttar kökur úr massanum, t.d. með litlu glasi eða staupi. Hjúpaðar með súkkulaði og skreyttar að vild.