Bogi Þór Arason bogi@mbl.is Abdelhamid Abaaoud, sem er talinn hafa skipulagt hryðjuverkin í París á föstudaginn var, er 28 ára Belgi, ættaður frá Marokkó, og talinn hafa gengið til liðs við Ríki íslams, samtök íslamista, fyrir tæpum tveimur árum.

Bogi Þór Arason

bogi@mbl.is

Abdelhamid Abaaoud, sem er talinn hafa skipulagt hryðjuverkin í París á föstudaginn var, er 28 ára Belgi, ættaður frá Marokkó, og talinn hafa gengið til liðs við Ríki íslams, samtök íslamista, fyrir tæpum tveimur árum. Síðan þá hefur hann verið einn af höfuðpaurum belgískra liðsmanna íslamistanna, lagt á ráðin um hryðjuverk og fengið unga menn úr röðum múslíma til liðs við öfgasamtökin. Hann fór til Sýrlands í byrjun síðasta árs og tók með sér þrettán ára bróður sinn, Younes, sem belgísk dagblöð hafa kallað „yngsta djíhadista heimsins“.

Abaaoud ólst upp í Molenbeek, úthverfi Brussel, í fjölskyldu sem flutti til Belgíu frá Marokkó fyrir um 40 árum. „Hann var smávaxinn skíthæll,“ hefur belgíska dagblaðið La Derniere Heure eftir Brusselbúa sem kynntist Abaaoud í barnaskóla. Hann sagði að Abaaoud hefði lagt aðra nemendur skólans í einelti, hrellt kennara og verið staðinn að því að stela veskjum.

Sótti ekki mosku

Faðir Abaaouds neitar því að hann hafi verið ódæll í æsku. „Abdelhamid var ekki erfitt barn og varð slunginn í viðskiptum. Svo fór hann allt í einu til Sýrlands. Ég hef velt því fyrir mér á hverjum degi hvers vegna hann varð að öfgamanni en aldrei fundið svar við því,“ hefur fréttaveitan AFP eftir föðurnum. „Í Guðs nafni, hvers vegna vildi hann drepa saklausa Belga? Fjölskylda okkar á þessu landi allt að þakka. Abdelhamid hefur kallað skömm yfir fjölskyldu sína. Líf okkar hefur verið eyðilagt... ég vil aldrei sjá hann framar.“

The New York Times hefur eftir systur Abaaouds að hann og Younes bróðir þeirra hefðu ekki sýnt neinn áhuga á trúmálum áður en þeir fóru til Sýrlands. „Þeir sóttu ekki mosku.“

Abaaoud var viðriðinn glæpagengi í Molenbeek og var saksóttur fyrir aðild að þjófnuðum og öðrum glæpum fyrir fimm árum, að því er fréttavefur CNN hefur eftir belgískum sérfræðingi í baráttunni gegn hryðjuverkastarfsemi.

„Gjöf frá Allah“

Eftir að bræðurnir fóru til Sýrlands var birt myndskeið þar sem Abaaoud sást flytja illa útleikin lík í fjöldagröf með því að festa þau aftan á bíl og draga þau eftir götunni.

Belgíska lögreglan setti Abaaoud á lista yfir eftirlýsta íslamista eftir skotbardaga í bænum Verviers í janúar sl. þegar lögreglan réðst inn í húsakynni hóps sem tengdist Ríki íslams. Tveir liðsmenn samtakanna biðu bana og þrettán voru handteknir. Aðgerðin beindist einkum að þremur mönnum, sem höfðu gengið til liðs við samtökin í Sýrlandi og snúið aftur til Belgíu.

Óljóst er hvar Abaaoud var þegar lögreglan lét til skarar skríða í Verviers, en hermt er að hann hafi dvalið um tíma í Grikklandi og farið aftur til Sýrlands. Hann sagði í viðtali við Dabiq , tímarit Ríkis íslams, í febrúar að hann hefði skipulagt hryðjuverk í Belgíu, meðal annars árásir á lögreglumenn. Hann var dæmdur í 20 ára fangelsi í réttarhöldum sem fóru fram í Brussel í júlí að honum fjarstöddum. Franskar herþotur gerðu árásir á þjálfunarbúðir Ríkis íslams í Raqqa í Sýrlandi í síðasta mánuði með það að markmiði að drepa Abaaoud, að því er CNN hefur eftir frönskum sérfræðingum í baráttunni gegn hryðjuverkastarfsemi.

Abaaoud sagði í viðtalinu við Dabiq að stundum hefði munað litlu að lögreglan næði honum þegar hann flúði til Sýrlands eftir skotbardagann í Verviers en Allah hefði haldið verndarhendi yfir honum. Eitt sinn hefði lögreglumaður stöðvað hann, virt hann fyrir sér og borið saman við mynd af honum en leyft honum síðan að fara. „Allah blindaði hina vantrúuðu... Þetta var ekkert annað en gjöf frá Allah.“

Hann gortaði sig einnig af því að hafa komist hjá handtöku í Belgíu þótt hann væri eftirlýstur þar. „Nafn mitt og myndir af mér voru út um allt í fréttunum og ég gat samt verið í heimalandi þeirra, lagt á ráðin um árásir á þá og síðan farið þaðan þegar það var nauðsynlegt.“

Tengir saman leiðtogana og vígamenn í Evrópu
» Talið er að Abeldhamid Abaaoud sé í nánum tengslum við Abu Bakr al-Baghdadi, leiðtoga Ríkis íslams, samtaka íslamista sem hafa náð svæðum í Sýrlandi og Írak á sitt vald.
» Líklegt er að Abaaoud sé tengiliður milli æðstu forystumanna Ríkis íslams og þeirra vígamanna samtakanna sem hafa snúið aftur til Evrópu, að því er CNN hefur eftir evrópskum sérfræðingum í baráttunni gegn hryðjuverkastarfsemi.