Guðbjörg Gunnarsdóttir, landsliðsmarkvörður í knattspyrnu, stóð í ströngu í Meistaradeild Evrópu í gærkvöldi.

Guðbjörg Gunnarsdóttir, landsliðsmarkvörður í knattspyrnu, stóð í ströngu í Meistaradeild Evrópu í gærkvöldi. Guðbjörg varði mark norsku meistaranna Lilleström þegar liðið heimsótti ríkjandi Evrópumeistara í Frankfurt í seinni leik liðanna í 16-liða úrslitum keppninnar.

Þjóðverjarnir unnu fyrri leik liðanna 2:0 í Noregi og eflaust hafa margir sparkspekingar talið að síðari leikurinn í Þýskalandi yrði formsatriði. Sú varð aldeilis ekki niðurstaðan. Frankfurt komst þó áfram í 8-liða úrslit keppninnar, en ekki fyrr en eftir framlengingu og vítaspyrnukeppni þar sem þær þýsku skoruðu úr öllum sínum spyrnum.

Lokatölur í venjulegum leiktíma í gærkvöldi urðu 2:0 Lilleström í vil. Marita Skammelsrud Lund skoraði fyrra mark Lilleström á 12. mínútu leiksins og Emma Linea Lund skoraði síðara mark Lilleström á 70. mínútu leiksins. Frábær frammistaða hjá norska liðinu.

Staðan í rimmu liðanna var því samtals 2:2 og því þurfti að grípa til framlengingar til að fá fram úrslit. Þar var ekki skorað og vítaspyrnukeppnin réð þar af leiðandi því hvort liðið kæmist áfram í keppninni. Þar brenndi norska liðið einu sinni af.

Guðbjörg hefur jafnað sig á meiðslum á rifbeini sem hún varð fyrir í sigri íslenska landsliðsins gegn Slóveníu fyrir tæpum mánuði. Eftir að hafa haldið marki sínu hreinu í 120 mínútur gegn þessum firnasterka andstæðingi gekk henni illa að lesa skyttur þýska liðsins þegar í vítaspyrnukeppnina var komið. Valdi hún fjórum sinnum rangt horn en var nokkuð nálægt því að verja fjórðu spyrnuna. kris@mbl.is/hjorvaro@mbl.is