Gleðigjafar Verkefnið „Jól í skókassa“ gengur út á að safna gjöfum í skókassa á svæðum þar sem fólk hefur meira á milli handanna til að gleðja fólk, á svæðum þar sem fátækt, sjúkdómar eða aðrir erfiðleikar hrjá íbúa. „Þetta verkefni er hjá sumum einn af mjög fáum ljósum punktum í erfiðri tilveru og það er gaman og gjöfult að fá að taka þátt í því,“ segir Mjöll Þórarinsdóttir.
Gleðigjafar Verkefnið „Jól í skókassa“ gengur út á að safna gjöfum í skókassa á svæðum þar sem fólk hefur meira á milli handanna til að gleðja fólk, á svæðum þar sem fátækt, sjúkdómar eða aðrir erfiðleikar hrjá íbúa. „Þetta verkefni er hjá sumum einn af mjög fáum ljósum punktum í erfiðri tilveru og það er gaman og gjöfult að fá að taka þátt í því,“ segir Mjöll Þórarinsdóttir. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þetta er ellefta árið í röð sem verkefnið Jól í skókassa er leitt af KFUM og KFUK á Íslandi. Safnað er fyrir börn í Úkraínu er þar er ýmislegt sem hrjáir íbúana.

Þetta er ellefta árið í röð sem verkefnið Jól í skókassa er leitt af KFUM og KFUK á Íslandi. Safnað er fyrir börn í Úkraínu er þar er ýmislegt sem hrjáir íbúana. Atvinnuleysi er víða mikið, mikið er um fötluð og langveik börn sem oft eru yfirgefin af öðru eða báðum foreldrum og ekki bætir stríðsástandið í austanverðu landinu úr skák. Gjöfunum er tekið af mikilli og ósvikinni gleði og þakklæti.

Á fyrri hluta ársins 2004 fréttu nokkrir félagar í KFUM og KFUK af alþjóðlega verkefninu Jól í skókassa sem gefið hafði góða raun í nokkrum löndum. Verkefnið gengur út á að safna gjöfum í skókassa á svæðum þar sem fólk hefur meira á milli handanna til að gleðja fólk á svæðum þar sem fátækt, sjúkdómar eða aðrir erfiðleikar hrjá íbúa. Einn úr hópnum kynntist föður Yevheniy, presti í rétttrúnaðarkirkjunni í Úkraínu og ákveðið var að útfæra Jól í skókassa þar sem Íslendingar myndu safna gjöfum í fyrir íbúa Úkraínu. Þetta samstarf hefur varað samfellt síðan.

Tíföldun á umfangi

Fyrsta árið var eingöngu safnað innan KFUM og KFUK og söfnuðust um 500 kassar. Árið eftir var verkefnið víkkað út, var vel tekið og kössunum fjölgaði hratt en undanfarin ár hafa safnast á bilinu 4.500 til 5.000 skókassar á ári. Einu sinni varð fjöldinn talsvert yfir 5.000 en þá varð verkefnið fullstórt í sniðum og erfiðara reyndist að halda utan um það. Með reynslunni hefur því komið í ljós að heppileg stærð á verkefninu er að taka á móti á bilinu 4.500-5.000 kössum. Þá er verkefnið viðráðanlegt fyrir takmarkaðan fjölda sjálfboðaliða, passar vel til pökkunar í gám o.s.frv.

Fimm flokkar í kassa

Verkefnið fer þannig fram að fólk er beðið að útbúa skókassa með lausu loki og setja í þá hluti í fimm flokkum: Í fyrsta lagi skóladót og skriffæri, penna, blýanta, stílabækur, litabækur og fleira þess háttar.Í öðru lagi sælgæti, í þriðja lagi föt s.s. húfur, vettlinga, sokka eða eitthvað hlýtt, því það verður talsvert kalt á þessum slóðum yfir veturinn. Leikföng er fjórði flokkurinn og loks eru hreinlætisvörur, tannbursti, tannkrem og sápa. Fólk er duglegt að fylla kassana vel, setja ekki bara eitt af hverju í kassann heldur nýta plássið í kassanum og hafa nokkrar einingar af hverju í þessum fimm flokkum. Þá er líka mun líklegra að það skili sér í meiri gleði hjá viðtakendum, það er mun skemmtilegra að opna fullan kassa. „Við viljum endilega fólk opni fullan kassa af gleði,“ segir Mjöll Þórarinsdóttir sem er ein þeirra sem tekið hafa þátt í verkefninu í nokkur ár. Auk varanna lætur fólk fylgja 500 til 1.000 krónur í kassanum til að standa undir flutningskostnaði frá Hamborg til Kirovohrad í Úkraínu. Ef afgangur hefur verið af því hafa geðsjúkrahús og munaðarleysingjahæli notið góðs af en þau hafa fengið styrk til að kaupa sængurfatnað, ljósaperur, salernispappír og aðrar nauðsynjavörur auk þess sem nauðstaddar fjölskyldur og önnur verkefni hafa verið styrkt.

Móttökustöðvar um allt land

Verkefni sem hefur verið svona stórt í svona mörg ár er orðið nokkuð „þroskað“. Það hafa þróast dreifileiðir og hefðir í kringum það. Um allt land eru móttökustöðvar fyrir kassana sem flestar hafa verið í gangi lengi og margir líta á það sem fastan lið í jólaundirbúningnum að taka þátt í verkefninu. Söfnun kassa hefst um mánaðamótin október/nóvember og lýkur um miðjan nóvember en þá berast kassarnir í höfuðstöðvar KFUM og KFUK við Holtaveg í Reykjavík. Í ár var lokadagur í móttöku kassa 14. nóvember. Þá tekur við vinna við að fara yfir kassana, þeir eru allir opnaðir og flokkaðir eftir aldri og kyni og hagrætt í þeim eftir því sem þurfa þykir.

Gleðigámur gerður klár

Þegar flokkunarvinnunni lýkur er kössunum raðað í gám og hann gerður tilbúinn til flutnings. Eimskipafélag Íslands er þátttakandi í verkefninu og gefur flutning gámsins til Hamborgar þaðan sem hann er sendur til Kirovohrad í Úkraínu. Gámurinn kemst á leiðarenda á milli jóla og nýárs en þá fara þrír til fjórir fulltrúar frá Íslandi til Úkraínu til að taka þátt í dreifingu gjafanna. Það fer svolítið eftir því hvernig hittist á hvenær fulltrúarnir koma til landsins en yfirleitt er það á bilinu 29. desember til 1. janúar. Gjafirnar koma samt í tæka tíð fyrir jólin en í Úkraínu eru jólin haldin hinn 7. janúar. Þegar fulltrúarnir mæta til Úkraínu er faðir Yevheniy búinn að skipuleggja hvert farið verður með gjafir það árið og allt er til reiðu.

Gjöfular og krefjandi ferðir

Sjálf hefur Mjöll farið þrisvar sinnum til Úkraínu til að fylgja verkefninu alla leið. Hún fór um síðustu og þar síðustu jól og einnig fyrir nokkrum árum. Hún segir það vera gaman og gjöfult að sjá gleðina og þakklætið í andliti fólks og brosið hjá börnunum þegar þau fá gjafirnar. Auðséð er að fólk er þreytt eftir langvarandi erfiðleika. Atvinnuleysi er mikið í landinu eða allt að 80% að sögn Mjallar og ekki bæta stríðsátökin í austanverðu landinu úr skák, þannig að fólk er áhyggjufullt. „En brosið sem kemur á andlit barnanna þegar þau opna pakkana er óviðjafnanlegt og að sjá ósvikna gleðina í andliti þessa þreytta fólks sem alla jafna lætur ekki tilfinningar sínar í ljós er eitthvað sem hreyfir virkilega við manni,“ segir Mjöll.

Langveik börn, einstæðar mæður

Undanfarin ár hafa fulltrúarnir og faðir Yevheniy gert talsvert af því að heimsækja langveik börn sem og börn sem eru fædd mjög fötluð. Í Úkraínu eru langvarandi veikindi og fæðingargallar algengari en víða annars staðar en það eru mögulega síðbúnar afleiðingar kjarnorkuslyssins í Tjernobil. Algengt er að feður langveikra og fatlaðra barna í Úkraínu yfirgefi fjölskylduna og mæður langveikra barna eru því oft einstæðar. Þakklæti þessara mæðra er sérstaklega minnisstætt í huga Mjallar. Það skín úr andlitinu gleðin yfir því að ókunnugt fólk frá fjarlægu landi sé að gefa börnunum þeirra gjafir og sýna þeim kærleika. Þessu er einfaldlega mjög erfitt að lýsa. Ferðirnar eru því virkilega gjöfular en um leið mjög lýjandi því átakanlegt er að horfa upp á margt af því sem fólk þarf að búa við.

Átakanleg heimsókn í unglingafangelsi

Sú heimsókn sem mest hreyfði við Mjöll er heimsókn sem hún fór ásamt hinum fulltúunum og föður Yevheniy í unglingafangelsi. Húsakynnin eru gömul og illa einangruð og vegna kuldans úti fyrir er ekki hægt að opna glugga. Þar voru 6-8 ungir piltar, á að giska 15-18 ára, allir krúnurakaðir, í klefa sem er í mesta lagi 20 fermetrar. Eins metra hár veggur í horni herbergisins afmarkar salernið, í kojunum voru slitnar hálmdýnur og óþefurinn slíkur að það gleymist seint. Í þessu herbergi dvöldu þeir allan sólarhringinn alla daga fyrir utan að einu sinni í viku fá þeir að fara í sturtu. Alvarlegustu brotin sem þessir ólánsömu drengir höfðu framið var að stela skellinöðru en þung refsing er við slíkum glæp í Úkraínu. Ef brotin eru framin við 17 ára aldur dvelur ungmennið í unglingafangelsinu til 18 ára aldurs en þarf þá að fara í fullorðinsfangelsi sem munu vera ennþá verri, en þau skilyrði segir Mjöll vart hægt að ímynda sér.

Nægjusemi og þakklæti

Mjöll dáist að jákvæðu viðhorfi og þrautseigju fólksins í Úkraínu. Það er nægjusamt og sátt við hlutskipti sitt, þrátt fyrir erfið skilyrði og mjög þakklát fyrir gjafir og veitta hjálp. Þó að ferðirnar séu á köflum átakanlegar vega þakklætið og gleðin hjá þeim sem taka við gjöfunum það margfalt upp. „Þarna finnst mér í raun vera komin ástæða þess að ég tek þátt í þessu starfi. Þetta verkefni er hjá sumum einn af mjög fáum ljósum punktum í erfiðri tilveru og það er gaman og gjöfult að fá að taka þátt í því,“ segir Mjöll að lokum.

halldorbach@gmail.com