Skipulag Sigurlaug reynir að undirbúa jólin snemma svo hún hafi tíma til að njóta aðventunnar, og afmælisins.
Skipulag Sigurlaug reynir að undirbúa jólin snemma svo hún hafi tíma til að njóta aðventunnar, og afmælisins. — Ljósmynd / Hilmar Bragi Bárðarson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Heimili Sigurlaugar Pétursdóttur fyllist af fólki um hádegisbil á aðfangadag enda vilja vinir og ættingjar ómögulega missa af afmælisboðinu hennar.

Sigurlaug Pétursdóttir segir að sem barn hafi sér fundist skemmtileg sú athygli sem fylgir því að vera jólabarn. Margir hafi verið forvitnir um afmælisdaginn. „Ég held að ég hafi mun frekar verið montin af þessu en að þykja þetta óheppilegur tími til að eiga afmæli.“

Sigurlaug er snyrtifræðingur, býr í Grindavík og kom í heiminn 24. desember 1981. „Foreldrar mínir pössuðu alltaf vandlega upp á það að ég fengi örugglega bæði afmælisgjafir og jólagjafir, og var það regla að ég fengi að bjóða tveimur eða þremur vinum í heimsókn í hádeginu til að smakka á afmælisköku. Vanalega útbjó mamma súkkulaðikökukarl sem hún mótaði úr skúffuköku og skreytti. Var svo haldið stærra afmælisboð á hentugum degi, ýmist milli jóla og nýárs eða í janúar, eftir því hvernig frídagarnir röðuðust á dagatalið.“

Keiludraumurinn rættist

Eitt smáatriði angraði Sigurlaugu þó, og það var að geta ekki gert sömu skemmtilegu hluti og önnur börn á afmælisdaginn. Sá hún það hér um bil í hillingum að geta skotist í keilu á afmælisdaginn, en á aðfangadag eru vitaskuld allir keilusalir lokaðir.

„Er skemmtilegt frá því að segja – og ein af mínum ánægjulegustu afmælisminningum – að þetta barst í tal í spjalli við vin minn úr Sandgerði. Hann hafði spurt mig hvernig það væri að eiga afmæli á jólunum og ég nefndi við hann að það væri einmitt helsti gallinn að maður neyddist alltaf til að gera það sama 24. desember; borða matinn og opna pakkana. Var aðfangadagur næsta dag, og birtist hann þá heima hjá mér með bolta og nokkrar keilur, sem hann stillti upp og leyfði mér að fella, með þeim orðum að ég fengi í það minnsta að fara í keilu heima hjá mér! Fékk ég svo kanínubangsa og rós í verðlaun fyrir felluna.“

Sigurlaug á líka vinkonu sem hefur það fyrir sið að gefa henni afmælisgjöfina í júní. „Þetta gerir hún svo ég sé ekki að fá alla pakka ársins á sama deginum,“ útskýrir Sigurlaug. Fleiri hugsa vel um afmælisbarnið: „Frá því ég man eftir mér voru alltaf afmælispakkar tilbúnir á stól við hliðina á rúminu mínu þegar ég vaknaði og maðurinn minn hefur haldið því áfram. Þannig að það passa allir upp á að ég fái alltaf afmælisgjöf sér og jólagjöf sér enn þann dag í dag.“

Bröns og opnar dyr

Núna hefur Sigurlaug þann háttinn á að halda lítinn afmælis-bröns í hádeginu. „Við erum með opið hús og fjölskylda og vinir á ferðinni inn og út. Virðist mörgum það góður siður að líta inn hjá okkur og fá kökusneið eða súpu að smakka. Þrátt fyrir annríkið sem fylgir jólunum virðist öllum takast að muna eftir afmælinu, nema reyndar eitt árið að pabbi gleymdi sér.“

Sigurlaug viðurkennir að það sé ekki alveg fyrirhafnarlaust að þurfa á sama deginum að halda upp á jólin og halda lítið afmælisboð. Hún skipuleggur sig því vel og byrjar jólaundirbúninginn mjög snemma. „Ég er nú þegar búin að kaupa flestallar jólagjafirnar. Ég vil geta notið aðventunnar í rólegheitum og leyft mér að skreyta húsið í makindum og baka með strákunum.“

Segir Sigurlaug að það sé góður siður að halda upp á afmælið, þó ekki væri nema með litlu kaffisamsæti. Gildir einu þótt fólk sé komið á fullorðinsár og breytir engu þótt komu jólanna sé fagnað sama dag. „Það á að fagna svona hlutum,“ segir hún og bætir við að fleira fólk í fjölskyldunni eigi afmæli í kringum jólin. Móðir Sigurlaugar heldur upp á afmælið annan dag jóla og mágur hennar á afmæli 21. desember. „Það er því alveg nóg af veislum á þessum tíma árs.“ ai@mbl.is