Jóladúkur Jólapoki saumaður upp úr gömlum dúk.
Jóladúkur Jólapoki saumaður upp úr gömlum dúk.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hafdís Bjarnadóttir, tónlistarkona og áhugamanneskja um umhverfisvernd og endurvinnslu, býr til persónulegar jólagjafir sem hitta í mark og pakkar þeim inn af hugvitssemi, þar sem hún endurnýtir umbúðir og skreytir með könglum, berjum og öðru fallegu sem til fellur.

Langoftast bý ég til jólagjafirnar, prjóna til dæmis sokka eða vettlinga, og þannig varð einmitt geisladiskurinn minn, Jólin hennar Hafdísar, til fyrir nokkrum árum,“ segir Hafdís Bjarnadóttir, tónlistarkona og áhugamanneskja um umhverfisvernd og endurvinnslu. „Diskurinn var upprunalega hugsaður sem jólagjöf handa ættingjum og vinum, hann féll í góðan jarðveg og þegar kom í ljós að fleiri vildu eignast tónlistina ákvað ég að gefa hana út.

Fyrir mér er endurvinnsla og endurnýting skemmtilegt hobbí. Ég hef ofsalega gaman af föndri og handverki, og fæ mikla ánægju af því að sauma upp úr gömlum fötum, endurnýta umbúðir og annað slíkt. Aðalfjörið við að föndra felst í endurvinnslu hráefnisins. Ég er hugfangin af hugmyndafræðinni „zero waste“, þar sem er spornað gegn sóun og lögð áhersla á að skilja eftir sem minnst rusl, og hef tileinkað mér minimaliskan lífsstíl.

Í ár ætla ég að setja metnað í að útbúa jólagjafir sem litlar líkur eru á að endi sem drasl sem enginn hefur not fyrir, og hef aðallega hugsað mér að gefa heimalagað góðgæti. Það er líka mjög sniðugt að gefa samveru, upplifun eða þjónustu; fólki með ung börn er til dæmis hægt að gefa barnapössun í jólagjöf. Svo er ég með í kollinum hugmynd að tónlistargjöf, sem er hvorki geisladiskur né vínylplata heldur gjafakort sem geymir vefslóð og kóða fyrir niðurhal á tónlistinni minni.“

Safnað allt árið

Hafdís býr ekki bara til jólagjafirnar, heldur hannar hún líka umbúðirnar og endurnýtir alls kyns efni sem hún safnar samviskusamlega allan ársins hring. „Ég hef mjög gaman af því að nota það sem til fellur og pakka gjöfum oft inn í dagblöð og tímarit. Það er alltaf góð hugmynd að geyma heillegan pappír og borða utan af gjöfum, ásamt skrauti frá síðustu jólum, og sjálf hendi ég engu slíku sem berst inn á heimilið.

Ein sniðug hugmynd er að geyma alltaf snakkpoka, þessa sem eru silfurlitaðir að innan, þrífa þá vel og snúa á rönguna og úr verða gjafapokar úr flottum silfurpappír. Pakkar utan af morgunkorni eru líka frábærir, ég tek þá í sundur og set þá aftur saman á röngunni og nota sem gjafaöskjur.

Svo skreyti ég jólapakkana með könglum úr garðinum og þurrkuðum reyniberjum frá haustinu. Stundum fórna ég jafnvel einhverju úr jólaskrautssafninu mínu og nota utan á pakkana. Ég er svo heppin að tengdamamma gerir þetta líka, þannig að ég fæ á hverju ári nýtt jólaskraut frá henni í safnið mitt. Þetta er auðvitað skemmtileg leið til að rótera jólaskrautinu sínu og láta það ganga manna á milli.

Náttföt og konfekt

Önnur leið er að kaupa gamlan jóladúk, eða bara dúk af hvaða tagi sem er, í verslunum Rauða krossins, sauma úr honum nokkra poka með höldum, pakka gjöfunum inn í þá og skreyta. Þannig fær viðtakandinn margnota poka með gjöfinni sinni, sem leysir plastpokana af hólmi. Ég geymi alltaf kassana undan mandarínum, það er tilvalið að nota þá í matargjöf til dæmis. Í fyrra gáfum við vinahjónum okkar fullan mandarínukassa af ostum, sultum, kexi og góðgæti í jólagjöf og það hitti beint í mark.“ Hafdís er spurð út í jólahefðirnar, hvað einkenni hennar jólahald? „Hjá mér er það mikið metnaðarmál að lágmarka allt stress í kringum jólin, eins og mögulegt er. Ef við hjónin náum að þrífa, elda jólasteik og redda jólapökkum þá erum við góð. Allt hitt skiptir minna máli, en er skemmtilegt ef maður hefur tíma til að stússa í því. Á jóladag vil ég helst ekki þurfa að fara úr náttfötunum, þá langar mig bara til að vera heima, lesa bækur og borða konfekt.

Á jóladag borðum við fjölskyldan alltaf humarsúpu, sem ég kaupi tilbúna hjá Fylgifiskum á Þorláksmessu. Ég man að þegar þessi góða hefð var að mótast benti mamma, sem er sannkölluð ofurhúsmóðir, mér góðfúslega á að hún ætti fína uppskrift að humarsúpu handa mér. Hún áttaði sig ekki alveg á því að súpan sem slík væri ekki aðalmálið, heldur frelsið að þurfa ekki að standa yfir pottunum og elda á jóladag. Í mínum huga snúast jólin um hvíld, bóklestur, ró og kyrrð og samveru með mínum allra nánustu. Ég forðast jólaboð eins og heitan eldinn, nema Þorláksmessuskötuna með foreldrum mínum og systkinum, og jólakósíkvöldið með nánustu fjölskyldu eiginmannsins.“

Hún segist hvorki stressa sig á því að skrifa jólakort né baka til jólanna. „Ég hef ekki verið dugleg í jólakortunum og það er best að segja eins og er, ég sleppi því að baka fyrir jólin. Kaupi einn piparkökudall í Bónus og málið er dautt. Ég skreyti heimilið smávegis á Þorláksmessu, aðallega með gömlu jólaskrauti sem ég hef erft frá ömmu og stundum líka skrauti sem mamma hefur verið að losa sig við.

„Kitsch“ jólanna

Ég nýt þess að hafa þetta gamla jólaskraut uppi við, það minnir mig á ættingja mína sem sumir eru ekki lengur á meðal okkar. Svo hef ég sérstaklega gaman af skrautinu sem við fjölskyldan höfum föndrað sjálf á liðnum áratugum. Líka þessu sem er klunnalegt og klúðurslegt og „kitsch“, enda eru jólin í eðli sínu pínulítið kitsch, sem gerir þau svo dásamleg.

Mér finnst jólin einmitt frábær tími til að líta til baka og rifja upp gamlar, góðar stundir og hlusta á Þrjú á palli eða Ellý og Vilhjálm syngja jólalögin. Á aðfangadag setjum við svo mína eigin jólaplötu á fóninn, hún samanstendur af pollrólegum jólalögum sem ég spila á gítar. Hugmyndin á bak við þessa plötu mína var einmitt að fanga jólaandann eins og ég upplifi hann með ró, hugleiðslu og hvíld.

Nánari upplýsingar um jóladiskinn og aðra tónlist sem ég hef gefið út má finna á hafdisbjarnadottir.com.“ beggo@mbl.is