Snúningur Í verki sínu Not About Everything snýst Daniel Linehan stöðugt í hringi meðan hann talar til áhorfenda.
Snúningur Í verki sínu Not About Everything snýst Daniel Linehan stöðugt í hringi meðan hann talar til áhorfenda. — Ljósmynd/Jason Somma
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is „Þetta nýja fyrirkomulag hefur reynst okkur afar vel, en það gefur okkur tækifæri til að sinna mismunandi þáttum í hvert sinn.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Þetta nýja fyrirkomulag hefur reynst okkur afar vel, en það gefur okkur tækifæri til að sinna mismunandi þáttum í hvert sinn. Með því að fjölga viðburðum er dansinn líka orðið sýnilegri í listalífinu, sem er mjög jákvætt,“ segir Ásgerður G. Gunnarsdóttir, sem er annar tveggja listrænna stjórnenda Reykjavík Dance Festival (RDF) ásamt Alexander Roberts, en fjórða og lokaútgáfa ársins af RDF hefst í Tjarnarbíói í dag og stendur til laugardags. Í ár var tekin upp sú nýbreytni að halda RDF fjórum sinnum á ári í stað einu sinni áður og segir Ásgerður að stefnan sé sett á að hafa fyrirkomulagið með sama sniði a.m.k. á næsta ári líka.

Nýjar vinnuaðferðir kynntar

„Við ætlum að bjóða upp á sannkallaða dansveislu nú í lok nóvember. Á hátíðinni að þessu sinni gefst dansáhugafólki meðal annars tækifæri til að sjá frumsýningu á verkinu The Valley eftir þær Rósu Ómarsdóttur og Ingu Huld Hákonardóttur. Danshópurinn Rebel Rebel mun endurflytja verkið A Retrospective eftir Snæbjörn Brynjarsson og Ragnheiði Sigurðardóttur Bjarnason sem frumsýnt var á RDF í ágúst sl. en aðeins sýnt einu sinni. Því var svo gríðarlega vel tekið að okkur langaði að bjóða upp á það aftur. Í verkinu er Snæbjörn að reyna að dansa óbirtar skáldsögur sínar og er þannig að takast á við hvernig miðla megi hinu skrifaða orði á annan hátt en með lestri,“ segir Ásgerður og bendir á að hátíðin bjóði einnig upp á erlend dansverk.

„Þar er um að ræða hágæða verkin Not About Everything eftir Daniel Linehan og Black og No Title eftir Mette Edvardsen, en bæði vinna þau á mjög áhugaverðan hátt með tungumálið í tengslum við kóreógrafíu,“ segir Ásgerður og tekur fram að gaman sé að kynna nýjar vinnuaðferðir fyrir áhorfendum.

„Daniel Linehan starfaði sem dansari og danshöfundur í Brooklyn í New York í fjögur ár og vann til dæmis með Michael Helland að fjölda verkefna. Hann lauk námi frá P.A.R.T.S. í Brussel, þar sem hann býr nú og starfar sem danshöfundur,“ segir Ásgerður og bendir á að sólóverkið Not About Everything var frumsýnt í Dance Theater Workshop í nóvember 2007.

„Mette Edvardsen er fædd í Noregi en hefur verið búsett í Brussel síðan 1996, þar sem hún hefur starfað sem dansari og flytjandi fyrir fjölda danshópa og höfunda. Frá árinu 2002 hefur hún starfað að eigin verkefnum og sýnir hún verk sín um allan heim og hefur sýnt á helstu dans- og sviðslistahátíðum Evrópu.“

Í tengslum við samfélagið

Að sögn Ásgerður leggja skipuleggjendur áherslu á að hátíðin sé í tengslum við samfélagið. „Sem liður í því munum við leggja okkar af mörkum til hins gríðarlega flóttamannavanda sem hinn vestræni heimur stendur frammi fyrir. Við munum þannig gefa 50% af innkomu nóvemberhátíðarinnar til samtakanna Lighthouse Refugee Relief, en þau samtök starfa á eyjunni Lesbos, þar sem vandinn er sem mestur,“ segir Ásgerður og bendir á að hátíðin sé einnig í samstarfi við Rauða krossinn á Íslandi sem mun setja upp söfnunarstöð í Tjarnarbíói, þar sem bæði verður hægt að styrkja með fjárframlögum og/eða fatagjöfum. „Einnig verður blásið til málþings um málefnið í Tjarnarbíói laugardaginn 21. nóvember milli kl. 16 og 18. Meðal þátttakenda eru Arndís Gunnarsdóttir frá Rauða krossinum og Helga Tryggvadóttir sem unnið hefur með No Borders.“

Allar frekari upplýsingar um hátíðina í nóvember má finna á vefnum reykjavikdancefestival.is, en miðasala fer fram á midi.is.

Mörkin eru horfin nú á tímum

The Valley er fyrsta dansverkið í fullri lengd eftir Ingu Huld Hákonardóttur og Rósu Ómarsdóttur sem þær sýna hérlendis, en verkið verður frumsýnt í Tjarnarbíói í kvöld kl. 19.30.

Samstarf Ingu Huldar og Rósu hófst fyrir fimm árum í dansskólanum P.A.R.T.S. í Brussel, en verkið unnu þær í vinnustofum víðs vegar um Belgíu. Tónlistina gerir Sveinbjörn Thorarensen, betur þekktur sem Hermigervill.

Dalurinn er staður þar sem manneskja og vél hafa runnið saman og mörkin á milli hins náttúrulega og þess gervilega eru horfin. Dalurinn er staður tvöföldunar og afrita, þar sem tveir verða að einum áður en þeir klofna og margfaldast aftur, svo óljóst verður hvar einn hluti endar og annar hefst. Hvað er afrit og hvað upprunalegt? Flytjendurnir leika sér á línu þess náttúrulega og ónáttúrulega, þess gervilega og upprunalega, og nota ýmis tæki til að skapa hljóð og hljóðin til að skapa hreyfingu, á meðan þær leita svara við því hvað ræður ferðinni. [...] Við lifum á tímum þar sem mörkin á milli þess lífræna og tæknilega hafa máðst út. Þegar skilin á milli þess sem er ekta og þess sem er falskt verða óskýr, þá dýpkar dalurinn, hugtök verða óljós og ýmislegt kynlegt á sér stað,“ segir m.a. í tilkynningu frá höfundum.