Jógaiðkun „Og þá getur hugurinn orðið rólegri. Þá getur komið þessi smástund þar sem allt er í kyrrð og ró og þú skilur tilganginn með þessu öllu saman, segir Ásta María, hér fyrir miðju, ásamt þeim Viridiönu og Ásu Sóleyju.
Jógaiðkun „Og þá getur hugurinn orðið rólegri. Þá getur komið þessi smástund þar sem allt er í kyrrð og ró og þú skilur tilganginn með þessu öllu saman, segir Ásta María, hér fyrir miðju, ásamt þeim Viridiönu og Ásu Sóleyju. — Morgunblaðið/Eva Björk
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er kunnara en frá þurfi að segja að þegar hátíð ljóss og friðar nálgast eru flest okkar eins og útspýtt hundsskinn við að tryggja að jólin verði fullkomin. Væri ef til vill meira um vert að finna kyrrð og ró og eiga í framhaldinu gleði- og...

Það er kunnara en frá þurfi að segja að þegar hátíð ljóss og friðar nálgast eru flest okkar eins og útspýtt hundsskinn við að tryggja að jólin verði fullkomin. Væri ef til vill meira um vert að finna kyrrð og ró og eiga í framhaldinu gleði- og friðarjól? Vinkonurnar sem kenna jóga við stöðina Amarayoga í Hafnarfirði mæla með því.

Taka það rólega fyrir jólin? Ég held að það væri margt vitlausara en það,“ segir Ásta María Þórarinsdóttir, stofnandi og eigandi Amarayoga. Þegar blaðamanni verður hugsað til þess hversu margir verja síðustu dögunum fyrir jólin, vansvefta, strekktir af streitu og með blóðhlaupin augu á harðahlaupum til að bjarga síðustu „lífsnauðsynjunum“ þá er ómögulegt annað en að samsinna Ástu Maríu.

Lítil og persónuleg jógastöð

Ásta María kenndi í upphafi aðeins í einu herbergi í líkamsræktarstöð einni í Hafnarfirði þar sem vart var pláss fyrir annað en einkatíma. Starfsemin vatt hins vegar upp á sig fyrr en varði og umfangið óx meðfram því. Í dag er Amarayoga í húsnæði við Strandgötu í Hafnarfirði og hefur verið þar síðan í mars 2014. Þar kenna Ásta María og samstarfskonur hennar, þær Ása Sóley, Sólveig Krista og Viridiana, og margs konar jóga er í boði.

„Ég er sjálf aðallega að kenna mjúkt, rólegt og gamaldags hatha-jóga,“ segir Ásta María og brosir við. „Það er reyndar bara samnefnari yfir líkamsæfinga-jóga svo í raun er það samnefnari yfir hinar jógategundirnar. Svo erum við með vinyasa-jóga þar sem meira er verið að flæða úr einni stöð í aðra og allt tengt við öndunina. Svo er hún Ásta Sóley með ashtanga-vinyasa, sem er flæði en í raun alltaf sama serían. Maður æfir sig áfram og með tímanum lærir maður nýjar æfingar og bætir við þegar maður hefur náð hinum.“

Aðspurð hvort einhverjar af framangreindum tegundum jóga séu líkamlega krefjandi svarar Ásta María því til að þetta sé allt jóga sem allir geti verið með í. „Það er ekki ætlast til þess að neinn geri eitt eða neitt, í rauninni,“ bætir hún við. „Málið er bara að hlusta á sjálfan sig og taka mið af því í hvaða formi líkaminn er akkúrat núna. Æfingarnar fara fram á gólfinu svo eina krafan er í raun sú að fólk geti sest niður í upphafi og staðið upp aftur að loknum tíma.“

Jóga fyrir jólin

Aftur að jólunum. Ásta María er ekki í nokkrum vafa um það að jóga sé einmitt til þess fallið að hjálpa fólki í stressinu og yfirsnúningnum sem sem margir eiga til að missa sig í þegar styttist í jólin. En hvernig myndi hún segja að jóga geti hjálpað þeim sem þess þurfa, með hliðsjón af jólastreitunni?

„Ég myndi segja að hugurinn verði bara að fá aðeins að kyrrast,“ svarar Ásta María. „Af því að þegar hugurinn er kyrr, þá verður allt svo skýrt. Þá veistu fyrst hvað þú þarft, og hvað þú þarft ekki.“

Er það ekki einmitt sá fókus sem við þurfum hvað helst fyrir jólin? Svei mér þá, ef ekki.

„Það er endalaust utanaðkomandi áreiti og alltaf verið að segja okkur hvað við þurfum að kaupa og eiga og gera, og sé að gáð þá er meirihlutinn af þessu vitleysa. En af því að áreitið er svo mikið þá náum við ekki að stoppa hugann og vinda ofan af honum. En fari maður í jógatíma, þá nær líkaminn að róa sig. Líkami sem er órólegur og pirraður og kannski með verki í ofanálag, hann er athyglissjúkur – gersamlega. Þú situr ekkert í ró og næði og hlustar á kyrrðina þegar þannig er komið fyrir líkamanum og þú ert að drepast í bakinu eða hvað sem vera skal. Þannig að við verðum að taka þetta saman, líkamann og hugann. Í jógaæfingunum, þegar þú stillir þér upp í það sem við köllum asana, sem einfaldlega merkir jógastaða, og leiðbeinandinn spyr hvernig þér líður í stöðunni, þá er hugurinn alltaf að fylgjast með því sem fram fer. Hann andar rétt, inn á þessari æfingu og út á hinni, og þá nærðu að einbeita þér. Svo ferðu inn í slökun og þá er líkaminn orðinn rólegri. Og þá getur hugurinn orðið rólegri. Þá getur komið þessi smástund þar sem allt er í kyrrð og ró og þú skilur tilganginn með þessu öllu saman. Um leið skilurðu betur hvað það er sem þú vilt og hvað þú þarft.“

Að gefa ekki hlutunum vald

Þegar ég spyr Ástu Maríu hvort þetta sé eitthvað sem hún hafi meðvitað í huga þegar jólahátíðin nálgast, og spennustigið í þjóðfélaginu eykst, segist hún ekki frá því að svo sé. „Já, ég held það. Svo held ég að jógaástundun í gegnum tíðina hafi gert það að einhverju leyti ósjálfrátt hjá mér. Maður er einhvern veginn betur búinn undir þetta allt saman. Hlutir eru bara hlutir, og þó að það geti verið mjög gaman að fá og eignast góða og fallega hluti þá er rétt að hafa það í huga að hlutir hafa ekkert vald, ekki nema við gefum þeim það. Okkur hættir svo til að gefa hlutunum vald yfir tilfinningum okkar og á endanum fer svo að í staðinn fyrir að þeir auðveldi okkur lífið eða gleðji augað, þá förum við að passa þá. Og þá verður nánast óbærilegt að missa þá eða að komast yfir það ef þeir skemmast. Ef bíllinn okkar rispast, til dæmis, þá er stundum hreinlega eins og hjartað hafi rispast,“ segir Ásta María og kímir við. „Peningarnir geta þannig farið að eiga mann ef öll orkan fer í að setja þá á rétta staði, í stað þess að átta sig á því að þetta eru bara hlutir, og þeir eiga að þjóna okkur, alveg eins og hugurinn á að þjóna okkur. Hann á ekki að spæna okkur og tilfinningar okkar upp, heldur eigum við að beisla hann og hann á að þjóna okkur. Mér finnst því að fyrir jólin sé rétt að hafa í huga að við erum að sigla inn í dimmasta tímann og þá eigum við að hvílast og finna ró. Við fáum nokkurra daga frí í kringum jólin og það væri svo fínt ef við gætum nýtt þetta frí í ró og kyrrð, með okkar nánustu í kringum okkur, eitthvað gott að borða og kertaljósin kveikt. En í staðinn er búið að snúa þessu á hvolf með áreiti og hamagangi, næstum eins og ef við ættum að takast á við hlaupaæfingar um miðja nótt. Svo að ég myndi segja að besta jólagjöfin okkar væri að kyrra okkur og gefa okkur nokkra jógatíma í desember. Einhver gamall spekingur sagði sem svo að fátækur er sá sem vill meira en hann hefur, og ríkur er sá sem veit að hann hefur nóg.“

Betri orð er vart hægt að taka með sér inn í aðventuna. jonagnar@mbl.is