Slökun „Á jóladag höldum við fjölskyldan náttfatadaginn heilagan, slöppum af og förum ekki úr náttfötunum,“ segir Auður Ögn Árnadóttir, veitingakona í 17 Sortum.
Slökun „Á jóladag höldum við fjölskyldan náttfatadaginn heilagan, slöppum af og förum ekki úr náttfötunum,“ segir Auður Ögn Árnadóttir, veitingakona í 17 Sortum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Auður Ögn Árnadóttir, veitingakona í kökusjoppunni 17 Sortir og eigandi kennslueldhússins Salts Eldhúss, heldur mikið upp á litlu bókina sem geymir gamlar smákökuuppskriftir úr móðurfjölskyldunni og þegar tími gefst til bakar hún ljúffengar gyðingakökur og mömmukökur sem bráðna í munni.

Í gegnum árin hef ég bakað töluvert og haft mikið fyrir jólunum; ég skreytti alltaf snemma, eldaði mikið af jólakræsingum og fannst mjög gaman að búa til matarjólagjafir handa mínu fólki, en það breyttist allt þegar ég stofnaði Salt Eldhús fyrir tæpum fjórum árum,“ segir Auður Ögn Árnadóttir veitingakona, en hún opnaði á dögunum kökusjoppuna 17 Sortir við Grandagarð og býr sig undir annasöm kökujól.

„Ég held mikið upp á smákökurnar sem ég ólst upp við, þó ég nái ekki endilega alltaf að baka þær sjálf. Mér finnst því voðalega gott að fá bauk frá mömmu fyrir jólin með uppáhaldssortunum og ligg á honum eins og ormur á gulli. Þar er að finna mömmukökur, gyðingakökur, kúrenukökur, bóndakökur og vanilluhringi, svo eitthvað sé nefnt. Þessar kökur eru bakaðar eftir gömlum fjölskylduuppskriftum sem flestar eru frá langömmu minni, aðrar koma úr safni ömmu og mömmu.“

Dýrmæt jólagjöf

Fyrir nokkrum árum fékk Auður Ögn persónulega gjöf á jólum, sem hefur að hennar sögn mikið tilfinningalegt gildi. „Þorbjörg systir mín tók sig til og safnaði öllum þessum gömlu kökuuppskriftum saman, útbjó litla bók og gaf okkur systkinunum í jólagjöf. Með bókinni er tryggt að uppskriftirnar haldast innan fjölskyldunnar og falla ekki í gleymskunnar dá, þó svo að við bökum kannski ekki allar sortirnar í einum rykk fyrir hver jól. Þetta er með skemmtilegri gjöfum sem ég hef fengið og dýrmætur fjölskylduarfur, sem mun hafa enn meira gildi eftir því sem árin líða.“

Smákökuuppskriftirnar sem Auður Ögn deilir með lesendum Morgunblaðsins eru einmitt úr bókinni góðu. „Þetta eru ljúffengar, gamaldags smákökusortir og það eina sem ég breyti er að skipta smjörlíki út fyrir smjör. Af kökunum held ég mest upp á gyðingakökur og mömmukökur og hef aðallega bakað þær. Börnin mín eru reyndar ekki mikið fyrir smákökur svo ég baka ekki mikið af hverri sort. Ég hef svo jólabakkelsið á boðstólum á aðventunni, þannig að það klárist helst áður en jólin ganga í garð.“

Heilagur dagur

Talið berst að veislumat og jólasiðum og Auður Ögn er spurð hvort allt sé í föstum skorðum heima yfir hátíðirnar. „Ég er ekki mjög vanaföst á jólum en er þó alltaf með purusteik á aðfangadag eins og mamma, brúnaðar kartöflur og heimalagað rauðkál, sem er ómissandi með. Svo erum við með ris a la mande í eftirrétt, þetta er allt svolítið danskt, auðvitað.

Á jóladag höldum við fjölskyldan náttfatadaginn heilagan, slöppum af og förum ekki úr náttfötunum. Við borðum egg Benedict í bröns og látum okkur svo nægja afganga af jólasteikinni, smákökur og mjólk, lesum nýjar bækur og spilum. Á annan í jólum eru tvö jólaboð, annað þeirra oftast kaffiboð en hið seinna að kvöldi til og þá er meðal annars hangikjöt og hefðbundið meðlæti á borðum. Mér finnst hangikjötið ómissandi, enda er þetta eina skiptið á árinu sem ég borða það.

Um áramótin er allt annað í gangi hvað veislumatinn varðar og þá finnst mér gaman að prófa nýja forrétti, bjóða jafnvel upp á nokkra litla. Við erum oftast með kalkún á gamlárskvöld og í eftirrétt útbý ég það sem mér finnst mest spennandi þá stundina, eða þá að einn af mínum gestum kemur með desert að heiman.“

Fjólublá jól

Aðspurð kveðst hún njóta þess að breyta til þegar kemur að því að skreyta heimilið fyrir jólin. „Ég er ekki vanaföst varðandi jólaskreytingar og við fjölskyldan höfum ekki komið okkur upp neinum hefðum í þeim efnum. Ég var sjálfstætt starfandi stílisti í nokkur ár og mér finnst ofsalega gaman að skreyta húsið og búa til hátíðlega stemningu.

Eðli málsins samkvæmt er ég mjög nýjungagjörn. Ég hef haldið fjólubláu jólin, rauðu og gylltu jólin, silfurlituðu jólin og piparkökujólin, þar sem ég bakaði piparkökufígúrur og -skraut og hengdi á jólatréð og um allt hús. Síðustu árin hef ég reyndar haldið mig meira við hvítt þema, ásamt einhverju lifandi og grænu, þannig að ég býst við að ég sé aðeins að róast.“

Smjör og rjómi

Í október opnaði Auður Ögn kökusjoppuna 17 Sortir á Granda, þar sem hugmyndafræðin er heimabakstur. „Við notum óspart af smjöri og rjóma, ekta sítrónu og annað í þeim dúr. Kökurnar eru úr úrvals hráefni, við notumst ekkert við duft eða dropa, vinnum allt frá grunni og leggjum mikinn metnað í að kökurnar líti út og smakkist eins og þær séu bakaðar heima. Þess vegna útbúum við til dæmis alltaf litla skammta í einu og sendum nýbakað úr vinnueldhúsinu í kökusjoppuna tvisvar til þrisvar á dag, alla daga vikunnar.

17 Sortir hefur fengið ótrúlega góðar viðtökur, miklu betri en ég þorði að vona. Það er svo gaman að sjá þessa sýn mína verða að veruleika og hitta beint í mark, það er greinilegt að það vantaði kökusjoppu í íslensku matarflóruna. Ég hlakka til aðventunnar í búðinni, þar munum við skapa notalega jólastemningu og gleðja viðskiptavini með alls kyns góðgæti. Ég er vön að fá jólafiðringinn þegar fólk byrjar að flykkjast á jólagaldranámskeiðin hjá Salti Eldhúsi, og er sannfærð um að það verður ekki síður yndislegt og hátíðlegt í 17 Sortum.“

beggo@mbl.is

Mömmukökur

8 bollar hveiti (1 kg)

1 ½ bolli smjörlíki (300 g)

1 ½ bolli sykur (300 g)

2 bollar síróp

4 tsk. engifer

2 tsk. natron

2 stk. egg

Krem

125 g smjörlíki

125 g flórsykur

1 stk. egg

vanilludropar

Hitið smjör, síróp og sykur saman í potti. Kælið. Hrærið eggin saman við. Sigtið saman hveiti, natron og engifer og vætið í með sírópsblöndunni. Hnoðið. Látið deigið bíða á köldum stað yfir nótt. Fletjið deigið út og mótið úr því kringlóttar kökur. Bakið við 200°C þar til kökurnar eru fallega brúnar. Leggið kökurnar saman tvær og tvær með smjörkremi. Það þarf að tvöfalda eða þrefalda krem-uppskriftina, það fer eftir því hver setur kremið á milli!

Gyðingakökur

250 g hveiti

150 g sykur

190 g smjörlíki

1 stk. egg

¼ tsk. hjartarsalt

Myljið saman hveiti og smjör, hnoðið sykur og hjartarsalt saman við. Vætið með egginu. Kælið. Fletjið deigið þunnt út og skerið út litlar kringlóttar kökur. Penslið þær með eggi og þrýstið ofan í blöndu af grófsöxuðum möndlum og muldum molasykri. Setjið á plötu og bakið við 200°C ofarlega í ofni í 5-7 mín. Kælið á grind.

Bóndakökur

400 g hveiti

200 g smjörlíki

200 g sykur

4 msk. síróp

1 tsk. natron

1 stk. egg

Allt hnoðað saman. Deigið rúllað í litlar kúlur og þrýst laust á með gaffli. Bakað við 180°C í u.þ.b. 8 mín. eða þar til þær eru ljósbrúnar á lit.

Kókostoppar

3 stk. egg

225 g sykur

300 g kókosmjöl

100 g súkkulaði

vanilludropar

Þeytið egg og sykur vel saman, blandið kókosmjöli, súkkulaðibitum og vanilludropum saman við hræruna. Sett á smurða plötu með teskeið í litla toppa. Bakað við vægan hita (170°C) í ca 10 mín. Látið kólna aðeins á plötunni áður en þið færið yfir á grind.

Ástinkökur

500 g hveiti

225 g smjör

500 g púðursykur

1 ½ tsk. engifer

1 tsk kanill

1 tsk natron

6 tsk lyftiduft

1 tsk negull

1 stk. egg

½ bolli kúrenur

Blandið þurrefnunum saman, myljið síðan smjörið saman við. Vætið með egginu. Hnoðið deigið mjög vel (best er að hnoða það í vél). Mótið litlar kúlur úr deiginu, þeim raðað á bökunarplötu og þrýst lauslega á hverja kúlu. Bakað við 200°C í 8 mín.

Rúsínukökur

2 bollar haframjöl

2 ½ bolli hveiti

2 bollar sykur

1 bolli smjörlíki

1 bolli rúsínur

1 tsk natron

½ tsk salt

2 stk egg

Blandið saman hveiti, sykri, salti, natroni, haframjöli og smátt skornum rúsínum. Núið smjörlíki saman við og vætið í með eggjunum. Hnoðið deigið og rúllið úr því fremur mjóar lengjur. Látið bíða í ísskáp yfir nótt eða þar til deigið hefur stífnað. Skerið lengjurnar í sneiðar og bakið við 200°C í ca 6-7 mín. Kælið á grind.