Illugi Gunnarsson
Illugi Gunnarsson
Eftir Illuga Gunnarsson: "Að mínu mati er löngu orðið tímabært að taka ákvörðun um að Ríkisútvarpið fari af auglýsingamarkaði."

Umræður um stöðu Ríkisútvarpsins, umfang þess og hlutverk eru ekki nýjar af nálinni hér á landi enda eðlilegt að misjafnar skoðanir séu uppi um jafn mikilvægt mál eins og rekstur ríkisvaldsins á fjölmiðli. En þrátt fyrir slíkan ágreining má fullyrða að bærileg sátt sé um þau markmið sem Ríkisútvarpinu er ætlað að ná. Lengstum hefur það reyndar verið svo að færa mátti fyrir því rök að rekstur ríkisfjölmiðils í því formi sem við þekkjum, hafi verið eina raunhæfa leiðin til að ná þeim markmiðum sem sett höfðu verið með slíkum rekstri.

En allt frá því að einkaaðilar hófu rekstur á ljósvakamiðlum hefur þróunin verið sú að þeim fjölgar stöðugt sem bjóða upp á margs konar þjónustu við áhorfendur og hlustendur í landinu. Þar með hefur þeim líka fjölgað sem efast um að aðkoma ríkisvaldsins sé nauðsynleg forsenda þess að hægt sé að ná þeim markmiðum sem ríkisrekna fjölmiðlinum er ætlað að ná.

Ríkisútvarpið er mikilvægt

Tæknibreytingar sem orðið hafa undanfarin ár og misseri hafa breytt og reyndar gjörbreytt öllu umhverfi ljósvakamiðla. Þetta nýja fjölmiðlaumhverfi sem stjórnast af þörfum og aðstæðum áhorfenda gerir aðrar og meiri kröfur til fjölmiðla og mikilvægi þess að framleiða íslenskt gæðaefni er nú meira en nokkru sinni áður. Við þessar aðstæður er óhjákvæmilegt að við ræðum það hvert hlutverk opinbers fjölmiðils á að vera, það er hvernig hann nýtist okkur til að ná þeim menningar- og samfélagslegu markmiðum sem við setjum okkur. Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að það sé þörf fyrir ríkisrekinn ljósvakamiðill og fært fyrir þeirri skoðun minni rök. En um leið tel ég fráleitt að ætla að það fyrirkomulag sem nú er á starfsemi Ríkisútvarpsins sé óbreytanlegt. Allir fjölmiðlar eru í óðaönn að breyta starfsemi sinni, uppbyggingu og áherslum, bæði hér á landi og annars staðar. Ríkisútvarpið er óhjákvæmilega hluti af þeirri þróun.

Því miður er það svo að þegar ræða á um Ríkisútvarpið og hlutverk þess vill umræðan gjarnan fara ofan í djúpar flokkpólitískar víggrafir. Vitanlega skipta pólitískar lífsskoðanir manna hér máli, annað væri óeðlilegt. En sökum þess að sátt má teljast um markmiðin sem Ríkisútvarpinu er ætlað að ná, þá má lýsa þeirri von að hægt sé að leiða fram, þannig að gagn sé að, opinbera umræðu um hvernig aðkomu ríkisins á að vera háttað á fjölmiðlamarkaði í nánustu framtíð. Það ætti að hjálpa til að við Íslendingar stöndum ekki ein í þessum sporum, aðrar þjóðir Evrópu standa frammi fyrir sömu áskorunum og nærtækt fyrir okkur að líta til dæmis til frændþjóða okkar á Norðurlöndum í þessum efnum.

Verkefni dönsku sérfræðinefndarinnar

Danski menningarmálaráðherrann skipaði fyrir nokkru sérfræðinefnd sem vinnur að stefnumótun um hlutverk opinberra fjölmiðla á næstu árum. Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að rétt sé að setja slíka vinnu af stað hér á landi. Í erindsbréfi dönsku nefndarinnar eru reifuð nokkur álitaefni sem þeirri nefnd er gert að svara og ég held að það fari vel á því að sambærilegum spurningum eða verkefnum verði beint til þeirrar nefndar sem ég hef í hyggju að stofna.

1. Greina þær áskoranir og þau tækifæri sem ríkisrekinn fjölmiðill stendur frammi fyrir í breyttu umhverfi á komandi árum.

2. Draga upp sviðsmyndir af þeim veruleika sem ríkisrekinn fjölmiðill getur staðið frammi fyrir í framtíð sem einkennist af einstaklingsbundnum og dreifðum fjölmiðlaheimi.

3. Hvaða leiðir eru vænlegar við skipulagningu ríkisrekinnar fjölmiðlaþjónustu í nánustu framtíð.

4. Hvaða skilyrði á að setja hinum ríkisrekna fjölmiðli í framtíðinni þannig að hann nái til sem breiðasts hóps landsmanna, þar með talið til barna og ungmenna, með framboði á efni í þeim miðlum eða tækjum sem aðgengileg eru almenningi.

5. Greina samspilið á milli ríkis- og einkarekinna miðla og sameiginleg áhrif þeirra á upplýsingagjöf, þróun aukinnar samheldni í samfélaginu, með það fyrir augum að draga fram á hvaða sviðum tækifæri til nánara samstarfs milli einkaaðila og ríkisrekins fjölmiðils liggja. Nefndin skal þar að auki kanna þau grundvallarskilyrði sem gilda um framleiðslu fjölmiðlanna á fréttatengdu efni.

Dönsku nefndinni er ætlað að taka mið af reynslu og þróun fjölmiðlunar í öðrum Evrópulöndum og þeim atriðum sem máli geta skipt til að varpa ljósi á þær spurningar sem til hennar er beint. Nefndinni dönsku er einnig falið að taka til skoðunar hver þau efnisatriði önnur sem máli geta skipt um framtíðarfyrirkomulag aðkomu ríkisins að fjölmiðlamarkaði.

Til viðbótar þessum spurningum tel ég rétt að nefndin sem ég hyggst skipa ræði sérstaklega eftirfarandi spurningar:

6. Hvernig er best að standa að því að Ríkisútvarpið fari af auglýsingamarkaði? Hvaða áhrif hefði slík ákvörðun á starfsemi annarra fjölmiðla, hver yrðu áhrifin á auglýsingamarkaðinn og hver yrðu áhrifin á starfsemi Ríkisútvarpsins?

7. Hver er reynslan af ohf.-væðingu Ríkisútvarpsins? Eru aðrar leiðir en ohf.-fyrirkomulagið mögulegar til að mæta þeim skilyrðum sem þátttaka okkar í EES-samstarfinu markar okkur?

8. Hvernig er best háttað til framtíðar samstarfi Ríkisútvarpsins og annarra sem koma að framleiðslu íslensks kvikmynda- og sjónvarpsefnis.

Að mínu mati er löngu orðið tímabært að taka ákvörðun um að Ríkisútvarpið fari af auglýsingamarkaði. Ef ríkið telur nauðsynlegt að standa í fjölmiðlarekstri þá hljótum við að geta orðið sammála um það að ríkisvaldið greiði fyrir þá ákvörðun með skattfé en sé ekki í samkeppni við einkarekna fjölmiðla á hinum örsmáa auglýsingamarkaði sem svo mjög markar frjálsu fjölmiðlunum vaxtarmöguleika. Ákvörðun um hversu mikla fjármuni við viljum veita úr sameiginlegum sjóðum verður síðan að endurspegla þau markmið sem við ætlum Ríkisútvarpinu að ná með rekstri sínum. Þar á milli þarf að vera fullt samræmi.

Verklag nefndarinnar og aðkoma Alþingis

Ég sé fyrir mér að nefndin taki til starfa í byrjun desembermánaðar og starfi fram á vormánuði 2017. Vitanlega mun sitt sýnast hverjum um hverjir eigi að taka þar sæti, en leitast verður við að þar sitji einstaklingar sem hafa þekkingu á fjölmiðlum, eðli þeirra og rekstri, tækni þeim tengdri og menningar- og félagslegu hlutverki þeirra. Nefndin á í störfum sínum að hafa samráð m.a. við stjórn Ríkisútvarpsins, stjórnendur annarra fjölmiðlafyrirtækja og þá innan háskólasamfélagsins sem einkum fjalla um málefni fjölmiðla.

Fyrsta verk hennar væri að líta til þeirra spurninga og viðfangsefna sem fyrr eru nefnd, einkum þess hvernig staðið skuli að því að Ríkisútvarpið hverfi af auglýsingamarkaði og skila áfangaskýrslu þar um. Efni þeirrar áfangaskýrslu getum við síðan nýtt sem grunn að þingsályktunartillögu sem lögð yrði fram, helst á vormánuðum 2016 og þar með gæfist Alþingi kostur á að ræða þau álitaefni sem hér hafa verið nefnd. Nefndin héldi áfram störfum sínum og eftir atvikum væri til ráðgjafar ef umræður á Alþingi gefa tilefni til að ætla að vilji sé til að breyta lögum um starfsemi Ríkisútvarpsins, áherslur þess og uppbyggingu.

Höfundur er mennta- og menningarmálaráðherra.