Fallegt Jólalegt er um að litast í litlu ævintýraversluninni hennar Regínu. Kertastjakar af mörgum gerðum, jólasveinar, fyllt og silfrað, hönnun af ýmsum tagi, gömul og nýrri.
Fallegt Jólalegt er um að litast í litlu ævintýraversluninni hennar Regínu. Kertastjakar af mörgum gerðum, jólasveinar, fyllt og silfrað, hönnun af ýmsum tagi, gömul og nýrri.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fóstri minn þar spurði mig hvað ég vildi í jólagjöf. „Bækur,“ svaraði ég og fékk ellefu bækur í jólagjöf. Ég átti Dísu ljósálf og Alfinn álfakóng, Ærslabelg og loks Mjallhvíti í litum, myndabók eftir hinni frægu Disney-mynd.

Fóstri minn þar spurði mig hvað ég vildi í jólagjöf. „Bækur,“ svaraði ég og fékk ellefu bækur í jólagjöf. Ég átti Dísu ljósálf og Alfinn álfakóng, Ærslabelg og loks Mjallhvíti í litum, myndabók eftir hinni frægu Disney-mynd. Fóstri minn kenndi mér að lesa þegar ég var fimm ára. Hann átti fjöðurstaf sem hann notaði venjulega til að stanga úr tönnunum. Með þessum fjöðurstaf benti hann á stafina og ég lærði þá fljótt og líka að kveða að og þar með varð ég læs.

Jólalegt er um að litast í litlu búðinni sem Regína Stefnisdóttir hefur verið að koma á laggirnar á Sogavegi 134. „Ég byggði yfir lagerinn,“ segir hún, spurð um tildrög þess að hún lét byggja lítið hús til að versla í með hönnunarvörur, handavinnu, silfur og eiginlega allt milli himins og jarðar sem kemst í litla verslun. Þetta er óvenjulegt framtak af konu á eftirlaunum.

„Ég hef lengi haft það áhugamál að kaupa hönnunarvörur og ýmislegt sem mér hefur fundist fallegt. Svo var lagerinn orðinn slíkur að mér datt í hug að kaupa mér lítið hús og fara að versla,“ segir Regína Stefnisdóttir. Hún starfaði sem hjúkrunarfræðingur og kennari og fór á eftirlaun fyrir tíu árum.

„Ég og eiginmaður minn sem var, Elías Ágústsson, vorum með verslanir í gamla daga, einar þrjár þegar mest lét. Þar lærði ég ýmislegt sem nú kemur mér vafalaust að gagni í minni litlu verslun. Ég er að ljúka við að koma þessu í stand fyrir jólin. Það var grunnur hér á lóðinni hjá mér og þetta litla hús skyggir ekki á neitt fyrir nágrönnunum svo ég lét slag standa og keypti þetta hús sem framleitt er í Eistlandi. Í sumar hefur verið mjög gaman, iðnaðarmenn komu og fóru og húsið reis. Ég lét byggja pall fyrir framan það og síðustu vikur hef ég verið önnum kafin við að koma öllu því sem ég hef keypt fyrir í versluninni. Það er allt frá mörgum kílóum af tölum og garni upp í stærri gripi, svo sem vasa af ýmsum gerðum og allskonar silfur- og glermuni frá þekktum hönnuðum. Ég á meira að segja nokkuð stóran kirkjuengil sem vakir yfir búðinni og mér,“ segir Regína í léttum tón.

Hvað er skemmtilegast við þetta?

„Ég hef átt marga ánægjustund við að kaupa inn í gegnum árin. Svo var orðið svo fullt hjá mér í húsinu mínu að ekki kom annað til greina en að byggja yfir allt saman. Sumir löttu mig en ég sé ekki eftir að hafa látið verða af þessu. Maður á að reyna að koma því í framkvæmd sem mann langar til ef það er hægt. Ég ætla að hafa opið þrisvar í viku, á þriðjudögum, fimmtudögum og laugardögum eftir klukkan tvö á daginn. Hina dagana er ég í sundi á þessum tíma.“

Jólatréð var skreytt með eini úr fjallinu

Ert þú mikið jólabarn?

„Já, ég hef verið það frá því ég var lítil stúlka á Seyðisfirði þar sem foreldrar mínir bjuggu í litlu húsi við árbakkann. Ég man vel eftir þegar frændi minn var að fara upp í fjall til að sækja eini sem svo var hengdur á jólatré sem var eins og kústskaft sem borað hafði verið í gegnum til þess að útbúa greinar. Þegar búið var að setja eininn á greinarnar voru settar klemmur á þær sem hægt var að setja kerti í. Jólatréð með kertaljósunum var yndislegt fannst okkur systrunum þremur. Mamma mín var búin að eiga fjögur börn þegar hún var tuttugu og eins árs. Eitt þeirra, drengur, dó í bernsku. Hún mamma var ótrúlega dugleg að sauma á okkur krakkana, hún gat búið til afskaplega fallegar flíkur úr gömlum fötum. Þegar ég var barn voru erfiðir tíma í samfélaginu og allt þurfti að nýta.

Ég átti mitt annað heimili hinum megin við ána. Þar var ég langtímum saman hjá góðri fjölskyldu sem kom fram við mig eins og prinsessu. Jólin þar voru allt öðruvísi en hjá foreldrum mínum. Þar var ekki jólatré en heimilið fallega skreytt samt sem áður. Fóstri minn þar spurði mig hvað ég vildi í jólagjöf.

„Bækur,“ svaraði ég og fékk ellefu bækur í jólagjöf. Ég átti Dísu ljósálf og Alfinn álfakóng, Ærslabelg og loks Mjallhvíti í litum, myndabók eftir hinni frægu Disney-mynd. Fóstri minn kenndi mér að lesa þegar ég var fimm ára. Hann átti fjöðurstaf sem hann notaði venjulega til að stanga úr tönnunum. Með þessum fjöðurstaf benti hann á stafina og ég lærði þá fljótt og líka að kveða að og þar með varð ég læs.“

Jólaveislan á Góðu öndinni

Hver eru eftirminnilegustu jólin þín eftir að þú varðst fullorðin?

„Jólin okkar Ella míns í Alsír 1962, þar vorum við í rösklega ár við hjálparstörf. Ég starfaði sem hjúkrunarfræðingur og hann á lager. Á jólunum fórum við á veitingastað sem hét Góða öndin. Þar var hægt að fá allskonar góðgæti þó að Alsír væri þá stríðshrjáð land. Við unnum hjá amerísku fyrirtæki sem sá vel um sína. Það voru oft samkvæmi hjá hjálparsveitarfólkinu. Nýir læknar komu og aðrir fóru á mánaðarfresti og það þurfti að taka á móti þeim nýju og kveðja hina. Ég held að ég hafi aldrei á ævinni farið í eins mörg samkvæmi á eins stuttum tíma. Á jólunum var heldur ekki slegið af, Ameríkanarnir höfðu svo gaman af hátíðahöldum. Hún var skemmtileg jólaveislan á Góðu öndinni. Seinna vorum við um tíma í Sidney og bjuggum þá í kommúnu. Það var líka skemmtilegt. Það var gaman þegar maður var ungur að pakka niður í ferðatösku og halda á vit ævintýra.“

Rjúpur eru besti jólamaturinn

Hvernig voru íslensku jólin ykkar hjóna?

„Mjög oft var ég að vinna á jólunum. Þá kom Elli stundum til mín og borðaði með mér og sjúklingunum, þannig var það til dæmis þegar ég var yfirhjúkrunarfræðingur á Sjúkrahúsinu á Seyðisfirði. Og jólamaturinn var fínn, rjúpur eins og á flestum heimilum þar í nágrenninu á aðfangadagskvöld og hangikjöt á jóladag. Rjúpur eru alltaf besti jólamaturinn.

Seinni árin vorum við oft tvö saman við Elli á jólunum, það var góður tími. Eftir lát hans árið 2013 hef ég verið hjá systkinum mínum. Það er gott að eiga góð systkini. Systir mín var dálítið uggandi um minn hag þegar ég keypti húsið og ákvað að stofna litla verslun en ég sjálf er full af bjartsýni og áhuga á að takast á við eitthvað nýtt. Öllu skiptir að vera lifandi hérna uppi,“ segir Regína og bendir á höfuð sitt. Og víst er áhugavert þegar fólk sem komið er á eftirlaun finnur hjá sér hvöt til að fara inn á nýjar ævintýraslóðir.

gudrunsg@gmail.com