Lífeyrissjóðirnir vænta þess að ef samningar takast við slitabúið muni bankinn verða skráður á markað á næsta ári, að öllum líkindum þá um haustið.

Lífeyrissjóðirnir vænta þess að ef samningar takast við slitabúið muni bankinn verða skráður á markað á næsta ári, að öllum líkindum þá um haustið. Þar má gera ráð fyrir því að allt að 20-30 milljarða hlutur verði boðinn fjárfestum til kaups og ætti það að tryggja nægjanlega dreift eignarhald til skráningar.“

Flest bendir til þess að Arion verði þó ekki eini bankinn sem boðinn verður til kaups á komandi ári. Þannig hefur fjármála- og efnahagsráðherra falið Bankasýslu ríkisins að undirbúa sölu á allt að 30% hlut í Landsbankanum. Sé litið til eigin fjár bankans svarar 30% hlutur þess til rúmlega 75 milljarða króna.

Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar, segir að ferlið sé hafið.

„Hinn 9. september sl. sendi Bankasýsla ríkisins bréf til ráðherra, sem birt hefur verið á heimasíðu stofnunarinnar. Í bréfinu kom fram að stofnunin myndi ræða mögulega útfærslu á sölu á eignarhlut í Landsbankanum við stærstu stofnanafjárfesta innanlands og áætlar að birta opinberlega áfangaskýrslu um ferlið á næstunni. Við höfum einnig átt fundi með Landsbankanum vegna málsins. Þetta er sú vinna sem hefur átt sér stað hjá okkur frá birtingu bréfsins. Þá hefur systurstofnun Bankasýslunnar í Hollandi – Stichting administratiekantoor beheer financiële instellingen eða Netherlands Financial Investments (NLFI) – verið með eignarhlut hollenska ríkisins í ABN Amro-bankanum í sölumeðferð og við höfum verið að fylgjast náið með því.“