Maraþon Á þeim þrjátíu árum sem Sigvaldi Júlíusson hefur verið þulur hjá RÚV hefur jólakveðjunum fjölgað svo mjög að lesturinn hefur farið úr átta í sautján stundir.
Maraþon Á þeim þrjátíu árum sem Sigvaldi Júlíusson hefur verið þulur hjá RÚV hefur jólakveðjunum fjölgað svo mjög að lesturinn hefur farið úr átta í sautján stundir. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigvaldi þarf að sneiða hjá kæstu skötunni á Þorláksmessu til að halda framburðinum í lagi. Þulirnir hjá RÚV lesa jólakveðjur í samtals um 17 tíma og skipta fjórir til fimm með sér verkinu.

Sigvaldi Júlíusson leikur stórt hlutverk í jólaundirbúningi margra landsmanna. Samt er það hlutskipti hans að hafa í nærri þrjátíu ár verið bundinn við hljóðnemann einmitt á þeim tíma þegar allir aðrir eru að kaupa síðustu jólagjafirnar og undirbúa heimilið fyrir hátíðina. Sigvaldi hefur verið þulur hjá RÚV frá árinu 1987 og hefur það aðeins gerst einu sinni á löngum ferlinum að hann hefur ekki tekið þátt í lestri jólakveðjanna.

Jólakveðjur Ríkisútvarpsins eiga sér rúmlega 80 ára sögu. Segir Sigvaldi að fyrst hafi kveðjurnar verið lesnar á aðfangadag, síðan á jóladag og loks að lesturinn færðist yfir á Þorláksmessu árið 1943. Fjölgaði kveðjunum ár frá ári svo að lesturinn tók að teygja sig langt fram á nótt. „Þegar jólakveðjulesturinn var farinn að vara til kl. 2.30 aðfaranótt aðfangadags var ákveðið að skipta lestrinum upp í tvo hluta og byrja kl. 20 hinn 22. desember. Við lesum þá fram til miðnættis og byrjum svo aftur frá kl. 8 að morgni á Þorláksmessu og erum búin áður en aðfangadagur gengur í garð. Í fyrra var þetta samtals 17 tíma lestur, sem er tvöföldun frá árinu 1987 þegar lestur jólakveðjanna tók átta stundir,“ útskýrir Sigvaldi.

Netið eykur vinsældirnar

Nú þegar hægt er að senda vinum og ættingjum jólakveðjurnar í gegnum Facebook með nokkrum músarsmellum mætti halda að „gamaldags“ miðill eins og útvarpið ætti undir högg að sækja. Sigvaldi segir að þvert á móti virðist kveðjunum halda áfram að fjölga og ef eitthvað er hefur netið hjálpað til að yngja upp þann hóp sem sendir jólakveðju yfir útvarpið. „Það varð mikil endurnýjun þegar byrjað var að bjóða upp á þann möguleika að panta kveðju á vefnum, á Ruv.is, og yngra fólkið duglegt að nota þessa þjónustu. Er nú þegar búið að opna fyrir pantanir á netinu en móttaka í gegnum síma byrjar ekki fyrr en 15. desember, í númerinu 515-3940.“

Sumir kaupa tvo eða þrjá lestra svo að þeir sem kveðjan er ætluð missi örugglega ekki af henni. Sigvaldi segir erfitt að haga pöntununum þannig að kaupandinn viti nákvæmlega hvenær kveðjan fer í loftið en þó er í boði að senda kveðjurnar í sýslur landsins. „Á ákveðnum tímum sem við auglýsum fyrirfram tökum við kveðjur í tilteknar sýslur og förum þannig hringinn í kringum landið,“ útskýrir hann.

Jólakveðjurnar eru ódýrari en aðrar auglýsingar í útvarpinu en Sigvaldi segir að sú óskrifaða regla hafi myndast að fyrirtæki og stjórnmálaflokkar kaupi frekar pláss í almennum auglýsingatímum á meðan fólkið í landinu fær að hafa sitt fyrir sig. Yfirbragð kveðjanna hefur haldist óbreytt í áranna rás. „Það er smá rýni og yfirlestur í gangi og fær ekki hvað sem er að fara í jólakveðjurnar. Má vænta þess að það verði ekki liðið að sendandinn sé með einhvern fíflagang,“ segir Sigvaldi og bendir t.d. á að ekki sé tekið við kveðjum í bundnu máli.

Krefjandi maraþon

Þulirnir þurfa að vera í góðu formi fyrir svona maraþonlestur. Segir Sigvaldi að að jafnaði skipti fjórir til fimm með sér lestrinum hverju sinni, þar sem hver þulur tekur að sér 10-15 mínútna skorpu á hverri klukkustund en jólatónlist leikin inn á milli. Hefur þulum verið fækkað hjá RÚV og þarf þess vegna að kalla til starfa gamla reynslubolta úr greininni. Hluti jólakveðjanna er tekinn upp fyrirfram en stærstur hlutinn lesinn í beinni útsendingu. Hefur stundum komið sér vel að kveðjurnar eru lesnar í beinni, eins og þegar hjúkrunarkona af dvalarheimili aldraðra hringdi í hljóðverið ein jólin:

„Hún sagði mér að hjá sér væri fjörgamall maður sem bæri sig mjög illa því hann hefði ekki heyrt kveðjuna sína. Ég spurði nánar út í kveðjuna, fletti henni upp í bunkanum og spurði hvort maðurinn væri nálægur, sem hann var, og sagði þá að kveðjan kæmi eftir fimm mínútur. Svo las ég kveðjuna aftur og fékk seinna annað símtal frá hjúkrunarkonunni sem sagði þetta viðvik hafa bjargað jólunum hjá þessum gamla manni.“

Varar sig á skötunni

Til að halda þulunum gangandi – og til að ekki slái á jólaskapið – er súkkulaði, konfekt og annað fínerí á boðstólum í stúdíóinu. Sigvaldi segir að þulir verði að fara vel með sig á þessum tíma árs því auk jólakveðjanna sé mikið um auglýsingalestur í desember. Sjálfur hefur Sigvaldi mikla trú á heitu tei með hunangi, engiferrót, sítrónu og hvítlauk til að halda röddinni góðri. Hann reynir að næra sig skynsamlega og hvíla sig vel eftir vinnu á mestu álagsdögunum. „Í mötuneyti RÚV er vaninn að bjóða upp á kæsta skötu á Þorláksmessu en eins góð og mér þykir skatan má ég ekki borða hana þennan dag því það er eitthvað við þennan mat sem virðist rugla efnafræðinni í munninum á mér sem svo bitnar á framburðinum.“

Vinnan kallar á það að Sigvaldi fórni fleiri hlutum sem okkur hinum þykja sjálfsagðir. Hann kveðst sakna þess að hafa ekki í 30 ár fengið að upplifa jólastemninguna á Laugaveginum á Þorláksmessu og svo getur jólakveðjulesturinn líka komið í veg fyrir heimsóknir til ættingja utanbæjar. „Ég er frá Dalvík en þar hefur fjölskyldan komið saman hjá foreldrum mínum á jólunum, á þeim tíma sem erfiðast er fyrir mig að komast frá vinnunni.“ ai@mbl.is