„...og oft hana að finna karl skýst“ – Svo segir í sígildu jólalagi með Ríó tríó sem fjallar um nágrannann hann Jón sem er heldur önugur árið um kring en gerist ljúfur í lund og jólabarn hið mesta þegar hátíð gengur í garð.

„...og oft hana að finna karl skýst“ – Svo segir í sígildu jólalagi með Ríó tríó sem fjallar um nágrannann hann Jón sem er heldur önugur árið um kring en gerist ljúfur í lund og jólabarn hið mesta þegar hátíð gengur í garð. Bruggmeistarar Ölgerðarinnar eiga það sammerkt með Jóni að vera í jólaskapi og einn afrakstur þess er Jólabrennivínið sem kemur nú á markað í annað sinn.

Menn vissu vart hvaðan á sig stóð veðrið þegar tunnuþroskað Jólabrennivín rataði í hillurnar fyrir síðustu jól. Þessi jólasnafs spurðist hinsvegar út með leifturhraða og kláraðist samstundis. „Sérstök jólaútgáfa af Brennivíni hefur verið fáanleg um árabil, og lengi vel var um að ræða Brennivín með eplabragði,“ útskýrir Óli Rúnar Þórsson hjá Ölgerðinni. „En í fyrra kvað við nýjan tón þegar tunnuþroskað Brennivín mætti í hillur Vínbúðanna fyrir jólin. Brennivín hafði þá legið í notuðum sérrítunnum annarsvegar og bourbon-tunnum hinsvegar í 6 mánuði.“

Nýjung sem hitti í mark

„Þessu tvennu var svo blandað saman og úr varð einstök vara sem sló í gegn hjá Íslendingum og seldist upp strax í byrjun desember,“ bætir Óli Rúnar við.

Valgeir Valgeirsson, bruggmeistari hjá Borg Brugghúsi, leiðir vöruþróun á íslenska Brennivíninu þessi misserin og var „Jólabrennivín 2014“ fyrsta nýjungin sem kom á markað eftir að hann hóf afskipti af þessu sögufræga vörumerki. „Brennivín Jólin 2015“ er svo byggt á grunni þess.

„Það var mikil ánægja með Jóla-Brennivínið í fyrra og við höldum því áfram þróun í sömu átt. Líkt og í fyrra þá þroskum við Brennivín á sérrítunnum og Bourbon-tunnum og blöndum þessu svo saman. Það sem við gerðum svo aukalega í ár var að þroska einnig á ónotuðum eða „ferskum“ tunnum sem brenndar höfðu verið til Bourbon-þroskunar. Það gaf heitari karakter með meira biti og blönduðum við minniháttar magni af þessu við gömlu uppskriftina sem frískar upp á blönduna og gerir hana mjög skemmtilega,“ bætir Valgeir við.

jonagnar@mbl.is