Ísklukkan Einum af ísklumpunum tólf sem mynda Ice Watch, verk Ólafs Elíassonar og Minik Thorleif Rosing, komið í gám í Nuuk.
Ísklukkan Einum af ísklumpunum tólf sem mynda Ice Watch, verk Ólafs Elíassonar og Minik Thorleif Rosing, komið í gám í Nuuk. — Ljósmynd/Stúdíó Ólafs Elíassonar
Fyrirhugað er að stórri tímabundinni innsetningu, Ice Watch , eftir Ólaf Elíasson myndlistarmann og danska jarðfræðinginn Minik Thorleif Rosing, verði komið fyrir í París 29.

Fyrirhugað er að stórri tímabundinni innsetningu, Ice Watch , eftir Ólaf Elíasson myndlistarmann og danska jarðfræðinginn Minik Thorleif Rosing, verði komið fyrir í París 29. nóvember næstkomandi, degi áður en hin umfangsmikla loftslagsráðstefna hefst þar í borginni.

Innsetningin er mynduð úr tólf stórum ísblokkum sem fallið hafa af Grænlandsísnum og verið veiddir úr hafinu nærri Nuuk. Ætlunin er að raða ísstykkjunum í hring á torginu Place de la République og þar muni þau bráðna meðan á ráðstefnunni stendur.

Í samtali við breska dagblaðið The Guardian segir Ólafur að í kjölfar hryðjuverkanna í borginni muni það skýrast á næstu dögum hvort verkinu verði komið fyrir á þessu torgi eða öðru en þessa dagana er torgið þakið blómum; fólk vottar fórnarlömbum voðaverkanna virðingu með því að leggja þau þar.

„Isis hefur verið að sprengja upp hvaðeina sem getur tengst menningarlegri sjálfsmynd. Að geta tjáð sig óhindrað í opnu rými verður sífellt mikilvægara,“ segir Ólafur í samtalinu. Í yfirlýsingu um verkið segir hann að sem listamaður reyni hann að hreyfa við fólki sem geti síðan breytt einhverju sem hefur virst abstrakt í veruleika. „Listin getur breytt skynjun okkar og sýn á heiminn og með Ice Watch getum við sýnt hvaða áhrif lofslagsbreytingarnar hafa á líf okkar. Ég vona að verkið hjálpi fólki að taka ákvörðun um að takast á við vandann.“

Ísklumparnir vega um áttatíu tonn og eru fluttir í sex frystigámum frá Grænlandi til Álaborgar, hvaðan þeim verður ekið til Parísar. Verkið er kostað af Bloomberg Philanthropies, sem Michael Bloomberg, fyrrverandi borgarstjóri New York, stofnaði og Julie's Bicycle, breskri stofnun sem hefur beitt sér fyrir aukinni sjálfbærni og að virkja fyrirtæki á því sviði. Þessi stóra innsetning Ólafs og Rosing er hluti af stærra verkefni listamanna, „Artists 4 Paris Climate 2015“, sem beita sér í tengslum við loftslagsráðstefnuna.