Í kjölfar hryðjuverkanna í París á föstudaginn hefur François Hollande, Frakklandsforseti, látið taka upp eftirlit á landamærum Frakklands að nýju.
Í kjölfar hryðjuverkanna í París á föstudaginn hefur François Hollande, Frakklandsforseti, látið taka upp eftirlit á landamærum Frakklands að nýju. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Schengen-samstarfið er ein birtingarmynda einingar í Evrópu og hefur stuðlað að auknum tengslum á milli landa en flóttamannavandi og hryðjuverk ógna nú þessari hugsjón.

Að ferðast án landamæra er eitt af því sem Evrópubúar hafa notið góðs af vegna Schengen-samstarfsins sem sett var á laggirnar fyrir tveimur áratugum. Með Schengen var tryggt frjálst flæði fólks milli 26 landa, sem fræðilega gerir það kleift að ferðast 3.000 kílómetra leið, frá Póllandi til Portúgal, án þess að þurfa nokkru sinni að framvísa skilríkjum. En eftir hinar skelfilegu árásir sem gerðar voru í París á föstudag er farið að þrengja að ferðafrelsinu sem íbúar Evrópu hafa getað stært sig af.

Schengen var þegar komið í erfiða stöðu, áður en atburðir helgarinnar dundu yfir. Landamærasamstarfið var farið að kikna undan flaumi innflytjenda frá Norður-Afríku og Mið-Austurlöndum, sem streyma nú að vegna félagslegs og pólitísks upplausnarástands á heimaslóðum.

Upplýsingar eru grundvöllur

Árásirnar í París hafa sett nýtt pólitískt hitamál í forgrunn: öryggi almennings. Svo virðist sem hryðjuverkin sem framin voru á götum Parísar hafi að hluta til verið skipulögð í Belgíu og falið í sér smygl á hríðskotavopnum á milli landa með bílum. Þar sem engin innri landamæri eru í Schengen, þá reiða aðildarríkin sig á gæði þeirra upplýsinga sem lögregluyfirvöld í hverju landi deila sín á milli. Í þetta skipti virðist ýmislegt hafa náð að smjúga óséð í gegn.

François Hollande, forseti Frakklands, hefur gripið til bráðabirgðaaðgerða sem eiga að auka öryggi almennings. Hann hefur látið taka upp að nýju eftirlit á landamærum Frakklands. Frönsk stjórnvöld kalla líka eftir því að fylgst verði með því hvernig fólk sem komið er til Schengen-svæðisins ferðast milli aðildarlandanna. Þetta felur í sér að teknar verði upp skrár yfir nöfn farþega sem ferðast með flugvélum, skipum og lestum innan Evrópu. Einnig er farið fram á að upplýsingakerfi Schengen verði notað í meira mæli en nú, en þar er hægt að bera upplýsingar í persónuskilríkjum saman við skrár um glæpamenn, stolin ökutæki og önnur gögn er snerta öryggismál.

Vilji til að grípa til þessara úrræða er skiljanlegur og ekkert þeirra grefur eitt og sér undan Schengen-sáttmálanum. Aðildarríkin hafa heimild til að vakta landamæri sín þegar brýna nauðsyn ber til og þá yfir skýrt tilgreint tímabil. Þetta gerðu Frakkar þegar hryðjuverkamenn stóðu fyrir sprengingum í London árið 2005. En hætta er á að eftir því sem gripið verður til fleiri af þessum úrræðum, þá muni það fara að veikja þau pólitísku bönd sem halda Schengen-svæðinu saman.

Nota öryggismál sem afsökun

Sum lönd eru nú þegar farin að tengja ferðir innflytjenda við starfsemi hryðjuverkamanna. Þegar ný ríkisstjórn Póllands lýsti því yfir að landið hygðist ekki taka við 4.500 flóttamönnum, eins og ríki ESB höfðu áður samið um sín á milli, var öryggi almennings sagt vera ástæðan. Auðvelt er að sjá hvernig öryggi almennings gæti orðið fjölnota afsökun fyrir aðildarlönd Schengen til að víkja frá þeim ákvæðum samningsins sem þeim hugnast ekki.

Ef Schengen-samstarfið á ekki að flosna upp þarf Evrópa að vinna í sameiningu að því að mæta þeim vanda sem nú er staðið frammi fyrir. Gangast þarf við því, að í veröld þar sem öryggismál eru á ábyrgð hvers lands fyrir sig, þarf ríkjasamstarfið að styrkja veikustu hlekkina. Verja þarf meiri fjármunum í að tryggja öryggi ytri landamæra Schengen, sér í lagi í suðrinu sem er svo berskjaldað. Upplýsingamiðlun í löggæslu þarf að haga þannig að hún sé ekki bara í orði heldur líka á borði. Það þarf hugsanlega að efla allt eftirlit, sem er eitthvað sem lengi hefur verið löndum eins og Þýskalandi eitur í beinum.

Skilar efnahagsávinningi

Þegar íbúarnir óttast um öryggi sitt gæti verið freistandi fyrir stjórnmálamenn í hverju landi að reisa landamæragirðingar á ný. En með því væri verið að líta framhjá raunverulegum kostnaði við að vinda til baka áratugalöngu ferli aukins samruna í Evrópu. Hér er ekki verið að tala um eitthvað sem er bara af fræðilegum toga. Rannsóknir hafa sýnt að Schengen hefur stuðlað að sterkari viðskiptasamböndum á milli aðildarríkjanna og aukið bæði inn- og útflutning. Samstarfið hefur líka eflt ferðaþjónustu verulega.

Schengen-samstarfið er ein skýrasta birtingarmynd einingar í Evrópu. Það er skotmarkið sem hryðjuverkamennirnir hafa í sigtinu. Voðaverk þeirra, sama hversu skelfileg þau eru, ættu ekki að verða til þess að hrekja það á flótta.