Stemning Gerður Kristný: „Á Jólakveðju syngur Sigríður Thorlacius ákaflega fallegt djassað lag við kvæðið Jólakvöld sem Davíð Stefánsson birti í Svörtum fjöðrum árið 1919.“
Stemning Gerður Kristný: „Á Jólakveðju syngur Sigríður Thorlacius ákaflega fallegt djassað lag við kvæðið Jólakvöld sem Davíð Stefánsson birti í Svörtum fjöðrum árið 1919.“ — Morgunblaðið/Styrmir Kári
Textarnir skipta mig miklu máli.

Ég hlakka til jólanna allt árið. Mér finnst dásamlegt að velja jólagjafir handa fjölskyldu og vinum, bráðskemmtilegt að pakka þeim inn og jólakortaskrifin eru þakkargjörðarhátíðin mín. Þá fer ég yfir árið, rifja upp samverustundirnar með vinum mínum og þakka fyrir þær. Synir mínir eiga báðir afmæli um jólaleytið svo þetta er tími margfaldrar gleði.“

Tónlistin sem kemur þér í jólaskap?

„Diskurinn Jólakveðja kom út fyrir tveimur árum og er mikill dýrgripur. Þar syngur Sigríður Thorlacius lög eftir þá Guðmund Óskar Guðmundsson og Bjarna Frímann Bjarnason við yndisleg ljóð eftir Jakobínu Sigurðardóttur, Davíð Stefánsson, Jóhannes úr Kötlum, Þorstein Erlingsson og fleiri.

Kvæðin sem þau Sigríður, Guðmundur Óskar og Bjarni völdu eru svo mikið afbragð og áttu sannarlega skilið að eðaltónlistarfólk semdi eðallög við þau. Þess vegna eiga þau líka eftir að lifa lengur en ella. Á Jólakveðju syngur Sigríður ákaflega fallegt djassað lag við kvæðið Jólakvöld sem Davíð Stefánsson birti í Svörtum fjöðrum árið 1919. Ég held mikið upp á þetta lag. Það er svo mikil stemning í því.“

Páfugl og perutré

Lagið sem vekur ljúfar minningar?

„Í Betlehem er barn oss fætt minnir mig á jólaböll í Álftamýrarskóla. Þau voru tekin afar alvarlega, gengið í kringum tré og jólalögin sungin fullum hálsi þar sem ekki aðeins var vaggað brúðu, heldur líka sparkað bolta og gengið kirkjugólf. Loks var endað á sálmunum.“

Sígilt jólalag?

„Skrámur skrifar jólasveininum með Ladda er alltaf fyndið! Páfugl, perutré og fuglar sem kúka ofan á hausinn á húsmóðurinni geta ekki klikkað.“

Bestu jólalögin?

„Snemma á aðventunni tóku jólakort að berast inn á æskuheimili mitt frá vinkonum mömmu í Noregi. Síðan hefur mér fundist jólin koma þaðan og líklega er það þess vegna sem ég held upp á jóladiskinn Glade jul með Sissel Kyrkjebö. Það er ekki ónýtt að heyra hana syngja „Deilig er jorden“ og „O helga natt“.“

Fljúgandi hreindýr

Lögin sem best er að gleyma?

„Textarnir skipta mig miklu máli og ég verð að geta tengt mig við stemninguna sem þar er brugðið upp. Þess vegna á ég eilítið erfitt með lög þar sem sungið er um logandi arineld, fljúgandi hreindýr eða yfirvofandi kossa undir mistilteini. Annars á ég bara góðar jólaplötur, allt frá Hauki Morthens og Elly og Vilhjálmi til Jólakveðju Sigríðar Thorlacius.“

Fallegasti jóladúettinn?

„Ég held óskaplega mikið upp á jóladiska systkinanna KK og Ellenar. Flutningurinn er svo ljúfur og fallegur. Í fyrra fór ég á jólatónleika með þeim í Salnum í Kópavogi og skemmti mér hið besta.“

Jólalagið sem heyrist fulloft, til dæmis í útvarpi eða á almannafæri?

„Ég vel sjálf hvað ég hlusta á yfir hátíðarnar og fer sjaldan í verslunarmiðstöðvar á aðventunni. Á Laugaveginum getur maður lent í lifandi tónlistarflutningi, jafnvel kórum sem fúmfúmfúm-a á mann í hríðinni, og það er gaman.“

Klárir krakkar

Jólatónleikar eða annar tónlistarflutningur á jólum sem þú mátt helst ekki missa af?

„Það er föst hefð hjá okkur eiginmanni og sonum að fara á jólatónleika Sinfóníunnar þar sem við hlustum á fallega jólatónlist leikna af besta tónlistarfólki landsins en líka klárum krökkum. Í lok tónleikanna standa allir upp og syngja saman Heims um ból á meðan við fyllumst helgum friði.

Svo er alltaf hátíðlegt að hlusta á Ríkisútvarpið hringja inn jólin. Það olli reyndar eilitlum misskilningi hjá yngri syninum fyrir fáeinum árum sem hrópaði glaður um leið og klukknahringingin heyrðist: „Ísbíllinn er kominn!“ Þótt mörgum í hverfinu mínu finnist ísbíllinn koma fulloft getum við verið viss um að hann birtist ekki klukkan sex á aðfangadagskvöld.“ beggo@mbl.is