Sköpun Handgerð jólakort eru ómótstæðileg.
Sköpun Handgerð jólakort eru ómótstæðileg.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Með réttu áhöldunum, efnunum og smá tilsögn er auðvelt að byrja. Hvernig væri að búa til ilmandi og litrík kerti eða sápur til að lauma í jólapakkann?

Þegar tekur að styttast í jólin vita sumir fátt betra en að sækja fönduráhöldin, setjast í rólegheitum niður við eldhúsborðið og leyfa sköpunargáfunum að fá útrás. Margt er hægt að föndra: skraut fyrir heimilið, jólakort handa vinum og ættingjum og jafnvel eitthvað fallegt í jólapakkann.

Geirþrúður Þorbjörnsdóttir á verslunina Föndurlist og segir hún að með hverju árinu aukist umferðin í búðinni í aðdraganda jóla og strax í september byrja fyrstu kúnnarnir að spyrja um vörur fyrir jólaföndrið. Verkefnin sem fólk er að fást við eru mjög fjölbreytt og eykst salan í öllum deildum, en að sögn Geirþrúðar er það ekki fyrr en stutt er í jólin að fólk kaupir vörur til að föndra með börnunum.

Að föndra með yngri kynslóðunum getur verið yndisleg samverustund og leið til að hægja ögn ferðina í jólaösinni. Segir Geirþrúður að fólk þurfi alls ekki að hafa áhyggjur af að eldhúskrókurinn verði útataður í lími og glimmeri og vel hægt að haga jólaföndrinu þannig að verði eintóm ánægja.

Kúlur á tréð

Meðal þess sem föndrurum finnst skemmtilegt að fást við þessa mánuðina er að skreyta kúlur. Í Föndurlist má finna kúlur úr gleri, frauði og öðrum efnum og hægt að lakka, lita og líma á alla mögulega vegu. „Að búa til snotrar jólakúlur er alls ekki erfitt, hvað þá ef fólk fær smá aðstoð og leiðbeiningar hjá starfsmönnum verslunarinnar,“ útskýrir Geirþrúður en hjá Föndurlist eru reglulega haldin námskeið um ýmiss konar föndurtegundir.

Eins er vinsælt að föndra jólakort og merkimiða á jólagjafirnar. „Að gera heimagerð jólakort getur verið bæði einfalt og fljótlegt, sem og flókið og tímafrekt, allt eftir því hvað fólk er tilbúið að leggja á sig. Þeir sem vilja spreyta sig á jólakortagerðinni ættu t.d. að skoða að skera út pappír í jólaleg form og líma á kortið, eða skera út stimpil og þrykkja mörg kort með hraði. Sumir láta duga að föndra kortið bara fyrir útvalda, og þeir sem fá slíkt kort vita að ekkert jafnast á við heimatilbúið jólakort.“

Sakar ekki að reyna

Í sumum lesendum blundar eflaust lítill draumur um að láta föndurhvatirnar fá útrás, en óöryggispúkinn stendur í veginum. Hvað ef útkoman er ekki falleg? Og er ekki föndur bara fyrir krakka til að leika sér í myndmenntatímum í skóla? Geirþrúður segir af og frá að láta slíkar hugsanir stoppa föndurtilraunirnar. Allt sem þarf er áhuginn, máski smá fræðsla og hugrekkið til að sjá hvernig til tekst. Þá skemmir ekki fyrir að fjárfesta í réttu áhöldunum og efnunum, svo útkoman verði sem best. ai@mbl.is

Jólalegur ilmur

Það má föndra meira en jólakort og skraut fyrir heimilið. Metnaðarfullir föndrarar fara létt með að föndra heilu jólagjafirnar, eða í það minnsta smágjafir sem má bæta við pakkann til að setja punktinn yfir i-ið. Tveir sniðugir föndurvalkostir af þessum toga eru sápugerð og kertagerð enda leitun að þeim sem ekki gleðjast við að fá vel ilmandi kerti eða snoturt sápustykki.

Segir Geirþrúður ekki mikið mál að búa til fögur ilmkerti. „Hjá okkur má kaupa tilbúið sápuefni sem auðvelt er að vinna með. Um er að ræða klump sem má bræða í potti og svo setja í mót. Á meðan sápan er heit er hægt að bæta við ilmefnum og lit til að fá þá angan og útlit sem sóst er efti.“ Svipaða sögu er að segja um kertagerðina. Þarf bara vaxefni, sem bræða má í vatnsbaði, kveik og ílát til að steypa kertið í, og svo ilmefni og lit. Segir Geirþrúður jafnvel hægt að endurvinna gömul kerti með því að skella þeim í pottinn. „Verður einkum að gæta að því að vaxið ofhitni ekki enda getur þá gerst að kvikni í því.“

Í Föndurlist er mikið úrval af ilmefnum og gerir verslunin sérstaka blöndu fyrir jólin. „Góð hugmynd að persónulegri jólagjöf er að steypa kerti í snotru gleríláti eða bolla, með jólaepla- og kanillykt eða greniangan.“