Bjarmi Vefja má rafhlöðu-díóðum um nánast hvað sem er.
Bjarmi Vefja má rafhlöðu-díóðum um nánast hvað sem er.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rafhlöðuknúin díóðuljós og rafmagnskerti æ meira notuð í jólaskreytingum.

Eins og í svo mörgu öðru má greina tískusveiflur í því hvernig fólk skreytir heimili sín á jólunum. Kristín Helga Gísladóttir, framkvæmdastjóri Garðheima, segir kransa og jólaskraut í ár einkennast af hvítum lit í bland við náttúrulega græna og brúna tóna. „Koparinn kom sterkur inn síðustu jól og er enn áberandi en nú bætist gullið við eftir að hafa lítið sést í mörg ár.“

Er freistandi að spyrja hvort gullni liturinn sé mögulega til marks um að góðæri sé í uppsiglingu. Kristín vill ekki taka svo djúpt í árinni en samsinnir blaðamanni í því að vinsældir jólaskrauts sem blandar saman gylltu og hvítu minni skemmtilega á Omaggio-vasann hrá Kahler sem gerði allt vitlaust fyrr á árinu. „Norrænn stíll er ríkjandi í krönsunum og skrautinu, með hlýlegum og heimilislegum blæ. Þá ber mikið á stjörnum af öllu tagi þessi jólin. Ég sé líka fram á að margir vilji nota lifandi jurtir í jólaskrautinu í ár og leiti þá í blómlauka, híasintu, amarillis og sígrænar litlar plöntur.“

Rafmögnuð jól

Ein greinilegasta breytingin í jólaskrautinu og -krönsunum er vaxandi notkun rafhlöðukerta. Segir Kristín að miklar framfarir hafi orðið í gerð þessara gervikerta. Utan um þau er vaxhjúpur og ljósið flöktir eins og á alvörukerti. „Þróunin er í þá átt að fólk noti einnig rafhlöðuseríur innanhúss, og jafnvel líka utanhúss. Batterísboxin eru farin að verða nettari svo þau taka minna pláss á því sem á að skreyta, og nú má fá rafhlöðuknúnar díóðuseríur sem eru á vír sem auðvelt er að vefja utan um kransa eða hvað annað sem skreyta þarf.“

Díóðuseríur hafa það fram yfir gömlu jólaseríurnar að nota mun minna rafmagn. Getur því logað lengi á seríunni þótt hún fái orkuna úr rafhlöðu. „Á mörgum rafhlöðukertum og -jólaseríum er tímarofi sem hægt er að stilla þannig að ljósið logi bara í tiltekinn tíma. Má þá stilla skrautið til að slökkva á sér yfir nóttina til að spara rafhlöðuna. Ætti þannig að vera hægt að láta seríuna skína í tvær til þrjár vikur áður en skipta þarf um rafhlöðu.“

Það gæti vel gerst að sala á díóðuseríum yrði meiri þessi jólin en nokkru sinni áður. „Það helst í hendur við þessa tækni að seríurnar verða sífellt betri á meðan aukin framleiðsla og sala þýðir að verðið verður hagstæðara. Það er allt annað verð á díóðuseríum núna en fyrir nokkrum árum og þá bætist við sú verðlækkun sem verður vegna afnáms 15% vörugjalda.“ ai@mbl.is