Stáss Berglind segir Erró eiga heiðurinn að fyrstu kærleikskúlunni. Jólaóróinn bættist fljótlega við.
Stáss Berglind segir Erró eiga heiðurinn að fyrstu kærleikskúlunni. Jólaóróinn bættist fljótlega við. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sumir af vinsælustu listamönnum landsins hafa lagt Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra lið með hönnun Kærleikskúlunnar. Jólaórói styrktarfélagsins sameinar íslenska hönnun, kveðskap og rammíslenskar jólahefðir.

Þeir eru ófáir sem bíða spenntir eftir Kærleikskúlu og jólaóróa Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra. Um er að ræða eigulegt jólaskraut sem þykir ómissandi á mörgum heimilum, en með kaupunum er líka verið að styðja mjög þarft og gott starf.

Berglind Sigurgeirsdóttir er markaðs- og kynningarstjóri hjá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra og segir hún að fyrsta kærleikskúlan hafi litið dagsins ljós árið 2003.

„Það var Erró sem þá reið á vaðið og hafa Kærleikskúlur verið framleiddar hver jól alla tíð síðan. Kærleikskúlan í ár er því sú þrettánda í röðinni. Jólaóróann seldum við fyrst árið 2006 svo óróinn í ár er sá tíundi,“ segir Berglind en margir af fremstu listamönnum þjóðarinnar hafa hannað jólakúlurnar og óróana. Í tilviki jólaóróans leiða hönnuður og skáld saman hesta sína: hönnuðurinn ákveður útlit óróans en skáldið semur lítið kvæði tileinkað einum af jólasveinunum. „Listasafn Reykjavíkur hefur m.a. aðstoðað okkur við val á listamönnum fyrir Kærleikskúluna og í samstarfi við Rithöfundasamband Íslands og Hönnunarmiðstöð Íslands finnum við hönnuð og skáld til að leggja okkur lið við gerð óróans.“

Þýskir handverksmenn

Kærleikskúlurnar eru mikil listasmíði, framleiddar í þýska smábænum Lauscha. Bærinn er þekktur fyrir að eiga sérlega færa glerblásara og þykir jólaskrautið sem þar er smíðað framúrskarandi í gæðum. „Hver kúla er handgerð og munnblásin og því engar tvær Kærleikskúlur nákvæmlega eins,“ útskýrir Berglind.

Í ár kostar kærleikskúlan 4.900 kr og er til sölu bæði á skrifstofu Styrktarfélagsins og í gjafavöruverslunum um land allt. Allur ágóði rennur óskiptur til starfsemi Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra þar sem fjármagnið er nýtt í þágu fatlaðra barna og ungmenna.

Jólaóróinn kostar 3.500 kr, og er gerður úr burstuðu stáli sem skorið hefur verið út með leysigeisla. „Hafa Kærleikskúlan og jólaóróinn fengið virkilega góðar viðtökur, bæði hjá einstaklingum og ekki síður hjá fyrirtækjum sem setja kúluna eða óróann í jólapakka starfsmanna og viðskiptavina. „Í hugum margra eru þessir gripir ekki bara fallegt jólaskraut heldur listaverk. Þeir listamenn sem leggja okkur lið eru í hópi okkar þekktasta listafólks og margir sem sjá kaup á jólakúlunni og jólaóróanum sem leið til að eignast verk eftir suma af eftirsóttustu listamönnum landsins. Sumir hafa Kærleikskúlurnar uppi við allan ársins hring enda geta þær alveg staðið fyrir sínu sem glerskúlptúrverk.“

Orka jarðarinnar

Ragna Róbertsdóttir á heiðurinn að Kærleikskúlunni í ár. Hefur kúlunni verið gefið nafnið Landslag og kallast verkið á við frumform og orkumynstur jarðarinnar. Er sjálf kúlan úr gagnsæju gleri en inni í kúlunni hefur verið komið fyrir ýmist rauðum eða bláum akrílögnum sem vísa í liti íslensku líparítfjallanna. Undir kúlunni er ritað nafn listamannsins og ártalið. „Kúlunni, sem og óróanum, er pakkað fallega inn á vinnustofunni Ási sem er verndaður vinnustaður, og er þetta verkefni orðið stór hluti af jólaundirbúningi þeirra sem þar starfa.“

Steinunn Sigurðardóttir og Sigurður Pálsson sameina krafta sína í túlkun á jólasveininum Skyrgámi. Steinunn hannaði óróann en Sigurður orti kvæði. „Hver hönnuður hefur fullt frelsi um það hvernig hann vill hafa óróann, svo fremi sem hönnun hans rúmast á þessari 10 cm stálskífu sem hann hefur til að vinna með. Kvæðið um Skyrgám fylgir með í öskjunni, bæði á íslensku og ensku og hjálpar til að gera jólaóróann að sniðugri leið til að kynna erlenda vini og viðskiptafélaga fyrir íslenskum jólahefðum, skáldum og hönnuðum.

Hjálpa unga fólkinu

Peningarnir sem safnast með sölu Kærleikskúlunnar og jólaóróans koma í mjög góðar þarfir. Lesendur þekkja eflaust ágætlega til starfsemi Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra en félagið hefur starfað frá árinu 1952 og opnaði æfingastöð árið 1956. Árið 1963 eignaðist félagið sínar eigin sumarbúðir í Reykjadal og er þar alltaf glatt á hjalla.

„Hjá Æfingastöðinni fer fram umfangsmikið starf við sjúkra- og iðjuþjálfun barna og ungmenna. Í Reykjadal er boðið upp á sumardvöl fyrir fötluð börn og ungmenni og helgardvöl yfir veturinn, í aðstöðu sem hefur verið sérstaklega útbúin til að mæta þörfum þessa hóps,“ útskýrir Berglind og bætir við að öll uppbygging og þróunarstarf félagsins sé fjármagnað með styrkjum og fjáröflun. ai@mbl.is