Undirbúningur Til að geta notið aðventunnar betur byrjar Sigrún snemma og útbýr og frystir rétti á borð við hnetusteikur, jólaísinn, sveppasósuna, humarsúpuna. og konfektið. Þannig fær hún meiri tíma með fjölskyldunni.
Undirbúningur Til að geta notið aðventunnar betur byrjar Sigrún snemma og útbýr og frystir rétti á borð við hnetusteikur, jólaísinn, sveppasósuna, humarsúpuna. og konfektið. Þannig fær hún meiri tíma með fjölskyldunni. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í desember vill það gerast hjá mörgum að mataræðið verður ekki það heilsusamlegasta. Sigrún Þorsteinsdóttir eldar holla rétti á öllum árstímum og lumar m.a. á góðri uppskrift að jólaglögg.

Sigrún Þorsteinsdóttir heilsusálfræðingur og matarbloggari með meiru hefur haldið úti vefsíðu um mat og eldamennsku allt frá árinu 2003. Á CafeSigrun.com dælir hún út ómótstæðilegum uppskriftum með ljósmyndum sem fá fólk til að vilja hlaupa beint að eldavélinni.

Það einkennir matseldina hjá Sigrúnu að hún leggur áherslu á rétti sem eru bæði bragðgóðir og hollir. Nýlega gaf Vaka-Helgafell út bók hennnar, Café Sigrún , sem er sneisafull af uppskriftum sem eru lausar við hvítan sykur, hveiti og ger. Er líka hægt að sjá á uppskriftunum hvort réttirnir eru glútenlausir, lausir við dýraafurðir eða henta þeim sem vilja forðast egg, mjólkurvörur, fræ eða hnetur.

Sigrún er komin í jólamatarstuð strax í október. „Þá er ég byrjuð að gera jólabaksturstilraunir og setja fyrstu jólauppskriftirnar inn á vefinn. Ég geri aldrei sömu sortirnar tvö ár í röð, nema ef vera skyldi piparkökur, því alltaf er ég að prófa eitthvað nýtt,“ segir hún og ljóstrar því upp að hún baki bara litla skammta í hvert sinn, og eigi aldrei kökur í boxi því þær klárist jafnóðum. „Heimilisfólkið er orðið vant þessu fyrirkomulagi og enginn kvartar.“

Eldar snemma og frystir

Byrjar Sigrún að undirbúa jólamatinn um miðjan desember til að spara sér tíma á aðventunni. „Þetta geri ég því mér finnst algjörlega ómögulegt og ekki sangjarnt barnanna vegna að vera í stressi þegar jólin nálgast. Get ég flýtt heilmikið fyrir mér með því að útbúa mat með góðum fyrirvara og frysta. Má þar nefna mat á borð við konfekt, jólaís, hnetusteik, sveppasósu og humarsúpu. Er líka gott í október og nóvember að vera búinn að kaupa það sem jólasveinarnir geta laumað í skóinn því lúmskt mikið stress getur fylgt þeirri hefð, hvað þá þegar börnin eru orðin tvö eða fleiri.“

Sigrúnu er líka sérstaklega hugleikið að láta ekki hollustuna mæta afgangi í desember. Þó svo að réttirnir sem flestir tengja við þennan árstíma séu sykraðir, saltir, reyktir og feitir er ekkert sem segir að ekki megi finna jólalegar uppskriftir í hollari kantinum og kjörið að brjóta upp hefðbundna jólamataræðið með léttum og hollum réttum. „Það má segja að fólk detti stundum í einhvern gír alveg frá fyrsta jólahlaðborði og fram í miðjan janúar þegar líkamsræktarstöðvarnar fyllast. Miklar sveiflur eru í mataræði margra á þessu tímabili og oft mikið innbyrt af hitaeiningaríkum og söltum mat sem fólk er ekki endilega vant að borða. Er t.d. ekkert eðlilegt að borða afgang af svínahamborgarhrygg í morgunmat, og ætti ekki að koma á óvart ef líkaminn fer að þrútna út af þessum réttum og fólk byrji að finna fyrir einkennum vanlíðunar,“ segir Sigrún. „Í þessu eins og öllu er best að borða minni skammta og njóta vel, muna að hafa grænmeti eða salat með hverri máltíð og auðvitað hreyfa sig reglulega, fara í góða göngutúra, sund eða ræktina, eða skjótast út að leika í snjónum. Það gerir engum gott að hanga yfir sykri, steik og sjónvarpi.“

Jólaleg vítamínbomba

Ein af uppskriftum Sigrúnar nálgast klassískan jóladrykk á heilsusamlegri máta. Fyrir meira en 12 árum birti hún á vefsíðunni sinni prýðisgóða uppskrift að óáfengri jólaglögg sem er sneisafull af C-vítamíni. „Sjálf drekk ég ekki áfengi en þótti lyktin af glögginni alltaf afskaplega góð. Svo var það fyrir röskum áratug að ég var stödd í jólaboði hjá yfirmanni mínum sem hafði lagt sig fram um að gera veitingar sem voru þannig að allir gestir gætu fundið eitthvað við sitt hæfi. Eitt af því sem var á boðstólum var jólaglögg svipuð þeirri sem ég birti uppskriftina að á vefsíðunni. Þurfti ég að fikra mig áfram með því að skoða nokkrar uppskriftir og endaði á þessari, sem ég verð að segja að er afbragðsgóð þótt óáfeng sé.“

Að mati Sigrúnar er tvennt sem þarf að gæta vel að til að draga fram bestu eiginleikana í jólaglögginni. „Annars vegar ættu kanilstangirnar og negulnaglarnir að fá að sjóða vel í pottinum, og hins vegar ætti að sjóða glöggina aðeins niður þannig að bragðið verði þétt og sætt án þess að drykkurinn verði eins og síróp og ódrekkandi,“ segir hún. „Svo er mikið álitamál hvort setja eigi rúsínur og möndlur út í drykkinn áður eða eftir að glöggin sýður. Kosturinn við að setja möndlurnar og rúsínurnar út í áður er að þá tekur glöggin í sig bragðið af þeim. Aftur á móti þykir mörgum ólystugt að horfa á útbólgnar rúsínur í bollanum og finnst sumum betra að setja þær út í glasið eftir að glöggin hefur soðið. Millivegurinn er auðvitað að leyfa rúsínunum og möndlunum að sjóða en skilja eftir í pottinum þegar hellt er í glösin.“ ai@mbl.is

Óáfeng jólaglögg að hætti Café Sigrúnar

Sigrún segir traustvekjandi að halda utan um heitan bollann og finna ilminn af kanilnum. „Þessi glögg er það góð að mig langar alltaf upp í sofa og undir teppi með bók þegar ég bý hana til. Mikilvægt er að nota trönuberjasafa án viðbætts sykurs

Innihald

Fyrir 2-3

500 ml hreinn trönuberjasafi (cranberry juice)

500 ml hreinn eplasafi

2 kanilstangir

4 negulnaglar

1-2 dropar stevia ef þarf (eða 1-2 tsk hlynsíróp)

safi úr hálfri sítrónu

1 lófafylli heilar möndlur

1 lófafylli rúsínur

Setjið trönuberjasafa, eplasafa, kanilstangir og negulnagla í lítinn pott. Látið suðuna koma upp og leyfið blöndunni að malla í um 5-10 mínútur.

Fjarlægið negulnaglana og kanilstangirnar.

Setjið sítrónusafann út í og látið malla í 2-3 mínútur. Bætið steviadropum út í ef þarf sætara bragð.

Rétt áður en bera á drykkinn fram má bæta rúsínum og möndlum út í (einnig getur hver og einn sett í sinn bolla).