Halldór Ásgrímsson fæddist á Vopnafirði 8. september 1947. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 18. maí 2015.

Foreldrar hans voru Ásgrímur Halldórsson, framkvæmdastjóri á Höfn í Hornafirði, f. 7.2. 1925, d. 28.3. 1996, og Guðrún Ingólfsdóttir, húsmóðir, f. 15.6. 1920, d. 14.7. 2004. Systkini Halldórs eru: 1) Ingólfur, f. 1945, maki Siggerður Aðalsteinsdóttir. 2) Anna Guðný, f. 1951, maki Þráinn Ársælsson. 3) Elín, f. 1955, maki Björgvin Valdimarsson. 4) Katrín. f. 1962, maki Gísli Guðmundsson.

Halldór kvæntist 16.9 1967 Sigurjónu Sigurðardóttur, læknaritara, f. 14.12 1947. Foreldrar hennar voru Sigurður Brynjólfsson, f. 1918, d. 2002. og Helga K. Schiöth, f. 1918, d. 2012. Börn þeirra eru: 1) Helga, f. 1969, maki Karl Ottó Schiöth. Börn þeirra: a) Linda Hrönn, f. 1988, maki Sigurjón Friðbjörn Björnsson, f. 1988. Börn þeirra: Svava Bernhard, f. 2010, og Steinarr Karl, f. 2013. b) Karl Friðrik, f. 1996. 2) Guðrún Lind, f. 1975, maki Ómar Halldórsson. Börn þeirra: Halldór Andri, f. 2008, og Hilmir Fannar, f. 2009. 3) Íris Huld, f. 1979, maki Guðmundur Halldór Björnsson. Börn þeirra: Tara Sól, f. 2005, og Hera Björk, f. 2008.

Halldór lauk prófi frá Samvinnuskólanum árið 1965, námi í endurskoðun 1970 og fékk löggildingu sem endurskoðandi árið 1972. Hann stundaði framhaldsnám við Verslunarháskólana í Björgvin og Kaupmannahöfn árin 1971-73. Hann var lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands 1973-75 en helgaði sig eftir það stjórnmálastörfum og öðrum opinberum störfum.

Halldór var alþingismaður Austurlands 1974-78 og 1979-2003, alþingismaður Reykjavíkurkjördæmis norður 2003-2006 fyrir Framsóknarflokkinn. Hann var skipaður varaformaður Framsóknarflokksins 1980-94 og var formaður hans frá 1994-2006. Halldór var sjávarútvegsráðherra 1983-91 og ráðherra norrænna samstarfsmála 1985-87 og 1995-99, dóms- og kirkjumálaráðherra 1988-89, utanríkisráðherra 1995-2004, forsætisráðherra 2004-2006. Í maí 1999 gegndi hann um tíma störfum umhverfis- og landbúnaðarráðherra og í janúar og febrúar 2001 fór hann með heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið. Halldór sat í fjölmörgum nefndum og ráðum um ævina. Hann sat í bankaráði Seðlabanka Íslands 1976-83, (formaður 1980-83). Íslandsdeild Norðurlandaráðs 1977-78, 1980-83 og 1991-95 (formaður 1982-83 og 1993-95), Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins 1976. Sjávarútvegsnefnd 1991-94, efnahags- og viðskiptanefnd 1991-94 (formaður 1993-94), utanríkismálanefnd 1994-95, sérnefnd um stjórnarskrármál 1994-95. Formaður hóps miðjuflokkanna í Norðurlandaráði 1993-95.

Halldór tók við stöðu framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar 1. janúar 2007 með aðstöðu í Kaupmannahöfn og gegndi því starfi fram á árið 2013. Eftir að opinberum embættisstörfum Halldórs lauk fluttist hann til Íslands á ný og sinnti störfum í ýmsum alþjóðlegum samtökum sem beita sér fyrir friði og mannréttindum.

Útför Halldórs fer fram frá Hallgrímskirkju í Reykjavík í dag, 28. maí 2015, og hefst athöfnin kl. 13.

Elsku pabbi, nú upplifi ég hvað lífið getur sannarlega breyst á örskotsstundu. Halldór Andri var að tala við þig í símann eins og svo oft, bara að spjalla. Þú spurðir: Hvað ertu að gera? þá svaraði hann: „Ég er að tala við þig.“ Enda sagði þessi elska þegar ég sagði honum skömmu síðar að afi væri mjög veikur: „En ég var að tala við hann í símann.“ Ég fór í næsta flug og óraði ekki fyrir hvernig næstu sólarhringar myndu þróast. Þrátt fyrir allt þá er ég þakklát fyrir að hafa fengið smá tíma við hlið þér, þú vaknaðir aldrei en ég fann vel fyrir sálu þinni og þeim ótrúlega krafti sem í þér bjó. Við systurnar höfum alltaf verið svo stoltar af þér, pabbi minn. Þú varst traustur, heiðarlegur, vinnusamur, framsýnn og gekkst í verkin án þess að kveinka þér yfir einu né neinu, vildir láta gott af þér leiða og náðir að marka stærri spor en flest okkar geta látið sig dreyma um. Það var hægt að fletta upp í þér eins og alfræðiriti og á góðum stundum varstu einstakur sögumaður. Stjórnmálin voru sannarlega stór hluti af lífi þínu, en ekki allt, þú varst mikill fjölskyldumaður og ég þakka sérstaklega fyrir síðustu ár þegar þú bjóst erlendis og síðar ég. Á þessum árum áttum við margar dýrmætar stundir saman. Þú varst strákunum mínum allt. Á hverju einasta kvöldi þegar þið mamma voruð hjá okkur sagðir þú Halldóri sögu, minn maður var heillaður og spurði mikið um hitt og þetta sem ykkur fór á milli. Það var ekkert meira sem Halldór hlakkaði til en að fara á Ingólfsfjall með afa í sumar, eitthvað sem þið ákváðuð eftir eina af sögustundunum. Þú og Hilmir áttuð alveg einstakt samband og það skarð verður aldrei fyllt. Þegar þið hittust þá ljómuðuð þið báðir og hann var aldrei eins kyrr í faðmi neins eins og þínum. Þegar ljóst var að Hilmir þyrfti að takast á við ýmsar hindranir sást greinilega að hann hefði sterkan afa sér við hlið sem myndi standa þétt með honum í gegnum lífið. Þú varst ákveðinn í að gera það besta úr þeim spilum sem höfðu verið gefin í stað þess að eyða tíma í spurningar sem ómögulegt er að svara. Nú er ég búin að átta mig á því að þetta var einn af þínum bestu kostum og líklega ein ástæða þess hve miklu þú áorkaðir á stuttum tíma. Næstum daglega þegar þú varst hjá okkur fórstu með Hilmi í langa göngutúra, taldir þetta skipta miklu máli til að styrkja hann. Þú kenndir honum á spilin og sýndir mikla þolinmæði, ástúð og hlýhug í ykkar samskiptum. Ef ég leyfi mér að vera eigingjörn þá finnst mér erfiðast að strákarnir mínir fái ekki lengri tíma með afa sínum. Nú kveð ég þig, pabbi minn, annað er víst ekki í boði þó ég óski þess heitt, ég geymi þig ávallt í hjarta mínu og bið um styrk svo ég geti eins og þú látið gott af mér leiða í þessu lífi.

Hvíldu í friði, elsku pabbi.

Guðrún Lind.

Sambönd okkar við dætur þeirra hjóna Halldórs og Sigurjónu höfðu ekki staðið yfir lengi þegar þau buðu okkur að flytja inn til sín og hefja þar búskap. Halldóri var umhugað um dætur sínar, en ekki síður tengdasyni sína sem hann tók opnum örmum og aðstoðaði sem mest hann mátti. Hann annaðhvort rétti fram hjálparhönd eða var til staðar til að leiðbeina og vísa veginn. Við getum aldrei þakkað nægilega fyrir öll ráðin, hjálpina, hugulsemina og síðast en ekki síst ástina sem hann sýndi fjölskyldum okkar og sér í lagi börnunum okkar sem hann frá fyrstu mínútu sýndi ótakmarkaðan áhuga og studdi svo ríkulega við með tíma sínum. Þær eru ófáar stundirnar sem Halldór nýtti til að segja þeim sögur, spila á spil, hjálpa til við lærdóm, kenna þeim á skíði eða fara í göngur. Þessi tími er þeim og okkur ómetanlegur.

Í okkar minningu er Halldór sami brosandi „virðulegi“ tengdapabbi okkar sem alla tíð hefur heimtað að nægur matur sé á borðum og rjúpa sé elduð á jólum. Glettinn fjölskyldufaðir sem sagði sögur við hvert tækifæri, hvort heldur af landi eða þjóð, hafsjó eða smáfuglum.

Halldóri þótti hvergi betra að njóta lífsins en í sumarhúsi sínu í Grímsnesi. Á þessum undurfallega stað gafst yfirleitt mestur tími til að kynnast hvaða mann Halldór hafði að geyma. Það lifir í minningunni brosandi kátur karl sem húkir yfir lambinu á grillinu og reynir að berja í okkur tengdasynina hvaða fjöll umlykja okkur, hvaða fugl verpir út í hólma og hvað lífið hefur upp á að bjóða.

Það er með mikilli sorg í hjarta sem við kveðjum þig, elsku Halldór. Þú hefur markað djúp spor í okkar hjörtu en við vitum að þú munt áfram vaka yfir okkur og leiðbeina.

Með hjartans þökkum,

Karl Ottó og Ómar.

Við andlátsfregn þína,

allt stöðvast í tímans ranni.

Og sorgin mig grípur,

en segja ég vil með sanni,

að ósk mín um bata þinn,

tjáð var í bænunum mínum,

en Guð vildi fá þig,

og hafa með englunum sínum.

Við getum ei breytt því

sem frelsarinn hefur að segja.

Um hver fær að lifa,

og hver á svo næstur að deyja.

Þau örlög sem við höfum hlotið,

það verður að skilja.

Svo auðmjúk og hljóð,

við lútum að frelsarans vilja.

Þó sorgin sé sár,

og erfitt er við hana að una.

Við verðum að skilja,

og alltaf við verðum að muna,

að Guð hann er góður,

og veit hvað er best fyrir sína.

Því treysti ég nú,

að hann geymi vel sálina þína.

Þótt farin þú sért,

og horfin ert burt þessum heimi.

Ég minningu þína,

þá ávallt í hjarta mér geymi.

Ástvini þína, ég bið síðan

Guð minn að styðja,

og þerra burt tárin,

ég ætíð skal fyrir þeim biðja.

(Bryndís Halldóra Jónsdóttir)

Elsku mágur, með þessu ljóði vil ég kveðja þig og þakka þér fyrir allan þann stuðning og hjálp sem þú hefur veitt mér síðan ég var barn. Og þau heilræði og hjálp sem þú gafst okkur hjónum, eftir að ég varð fullorðinn. Einnig vil ég þakka fyrir allar þær skemmtilegu ferðir sem við hjónin höfum farið með ykkur saman erlendis og víða.

Sem betur fer eigum við fullt af skemmtilegum minningum til að hugga okkur við í framtíðinni. Guð tók þig of fljótt til sín og veit ég að þar hafa margir beðið til að taka á móti þér.

Við kveðjum þig, elsku Dóri, með mikinn söknuð í hjarta. Guð varðveiti elsku systur mína, börn, tengdabörn og barnabörn og haldi sinni verndarhendi yfir þeim.

Kveðja frá okkur hjónum.

Ásta og Ellert.

Margar minningar hafa streymt um hugann síðustu daga eftir að góður vinur og kær mágur kvaddi þennan heim langt um aldur fram. Á lífsferðalagi hvers manns koma margir við sögu, oft verða kynni hvers og eins við annað fólk eins og svipmyndir sem líða framhjá. Stundum gerist það þó að snertur er strengur í brjósti manns og viðkomandi öðlast sess í hjartanu. Slíkan streng bjó Halldór til í mínu hjarta. Hann sýndi mér einlæga hlýju og alltaf þegar við hittumst var faðmurinn opinn. Halldór var einstakur öðlingur sem talaði vel um alla og sá orðstír mun lifa hjá þeim sem til hans þekktu. Ég mun aldrei gleyma hlýlegri og góðmannlegri framkomu Halldórs við mig þegar ég var að stíga mín fyrstu skref inn í hans fjölskyldu. Samverustundirnar sem ég átti með honum eru dýrmætar nú í minningu um góðan vin, því aðeins eru þrjár vikur síðan við komum heim úr skemmtilegri golfferð saman,

Elsku Sigurjóna, Helga, Karl Ottó, Guðrún Lind, Ómar, Íris Huld, Guðmundur og börn, ég sendi ykkur stórt faðmlag og megi góður Guð styrkja ykkur og leiða.

Þráinn.

Elsku afi. Það er erfitt að sætta sig við að þú sért farinn frá okkur, þó þú munir alltaf lifa í hjörtum okkar. Við erum þó þakklát fyrir að hafa verið hjá þér þegar þú kvaddir. Það eru ótal minningar sem koma upp í huga okkar þegar við hugsum um þær stundir sem við áttum saman. Þið amma voruð svo dugleg að leyfa okkur að koma með í sumarbústaðinn og við eigum margar góðar minningar þaðan með ykkur.

Þú varst mikill náttúrumaður og notaðir hvert tækifæri til að fræða okkur um kennileiti, fjöllin, vötnin og fuglana. Eins var alltaf stutt í húmorinn og stríðnina hjá þér. Ferðirnar okkar saman í fjöllin voru fjölmargar bæði í göngur og á skíði, en þú varst duglegur að hjálpa okkur að læra á skíði. Þegar við vorum yngri þá fórum við oft öll fjölskyldan í skíðaferðir þar sem þú varst alltaf búinn að smyrja nesti fyrir allan hópinn. Ein af eftirminnilegustu utanlandsferðunum okkar eru jólin sem við eyddum saman í Austurríki á skíðum.

Það er ómetanlegt hvernig þú hvattir okkur áfram í lífinu og varst alltaf tilbúinn að styðja okkur í öllu sem við tókum okkur fyrir hendur. Þú varst mjög duglegur að hjálpa okkur með heimalærdóminn og gátum við alltaf leitað til þín, enda skipti menntun þig miklu máli.

Þegar þið amma bjugguð í Danmörku nutum við þess að koma í heimsókn til ykkar og eiga góðan tíma saman þar. Fjölskyldan var þér svo mikilvæg og þú gafst okkur svo mikinn kærleik. Þú tókst svo oft utan um okkur og sagðir okkur hvað þér þætti vænt um okkur og við mættum aldrei gleyma því. Við erum svo þakklát fyrir allar þær stundir sem við áttum saman og þær munu lifa að eilífu í hjarta okkar.

Hafðu þökk fyrir öll þín spor.

Það besta, sem fellur öðrum í arf,

er endurminning um göfugt starf.

(Davíð Stefánsson)

Linda Hrönn og

Karl Friðrik Schiöth.

Heimsins besti afi.

Afi var mjög skemmtilegur, góður og stundum stríðinn. Hann vildi alltaf spila ef við spurðum og kenndi okkur kasínu. Afi þekkti mjög marga og var einu sinni forsætisráðherra. Við erum þakklátar fyrir að hafa átt svona góðan afa. Þegar við vildum prófa hlaupabrettið leyfði hann okkur það og fór með okkur. Einu sinni þegar við vorum að gista hjá ömmu og afa var nammidagur. Við fórum út í búð með afa að kaupa smá nammi. Þegar við vorum búnar að velja spurði afi hvort við vildum ekki líka fá þetta, þetta og þetta. Þegar við komum heim sagði amma að við hefðum keypt allt of mikið nammi. Þá sögðum við að afi hefði leyft okkur að velja allt sem við vildum.

Við vorum leiðar þegar afi dó.

Afi kenndi okkur mjög margt. Hann sagði okkur hvað fuglar og fjöll hétu. Við gátum spurt hann að öllu og hann gat alltaf svarað. Ef við sögðum „ógeðslega flott“ þá spurði afi, hvernig getur eitthvað verið ógeðslega flott?

Við fórum á sjúkrahúsið að heimsækja afa. Afi var í öndunarvél. Við strukum honum og biðum eftir að hann vaknaði en hann gerði það ekki.

Læknarnir hugsuðu mjög vel um hann.

Við myndum ekki vilja fá annan afa, bara þennan afa.

Hera Björk Guðmundsdóttir, 7 ára. Tara Sól Guðmundsdóttir, 9 ára.

Halldór bróðir okkar er farinn í sína hinstu för í þessum heimi. Förina inn í ljósið, förina heim til Guðs. Það ferðalag hefur örugglega ekki vafist fyrir honum. Halldór ferðaðist mikið í sínu lífi. Fyrst um stórt og samgöngulega erfitt kjördæmi sem þingmaður Austfirðinga og síðar sem ráðherra um heim allan. Þó líf bróður móti alltaf á einhvern hátt líf manns, þá mótaði líf Halldórs okkur á annan hátt vegna stöðu hans í samfélaginu. Við glöddumst með honum þegar vel gekk; stóðum við hlið hans þegar á móti blés og það reif í hjartað þegar ill orð féllu um hann. En fyrst og fremst vorum við alltaf stolt af honum

Það er sárt að missa bróður sinn í blóma lífsins. Þó er enn sárara að missa maka sinn, föður og afa. Við biðjum góðan Guð að styrkja og leiða Sigurjónu, Helgu, Guðrúnu, Írisi Huld og þeirra fjölskyldur á erfiðum tímum.

Ingólfur, Anna Guðný,

Elín og Katrín.

Minningabrot um mikilhæfan mann. Við hétum sama Halldórs-nafninu, hann var alnafni afa. Við ólumst upp hvor í sínu landshorninu, samt lágu leiðir okkar oft saman í barnæsku. Þótt bræðurnir, feður okkar, væru um margt ólíkir og á öndverðum meiði í pólitík, unnu þeir vel saman og héldu góðum tengslum milli fjölskyldna sinna.

Eitt sumar dvöldum við um hríð hjá afa og ömmu í bankanum á Egilsstöðum. Ég 14 ára vegavinnustrákur, hann 17 ára, kominn til að hjálpa til við innleiðingu nýrra vinnubragða í bankanum. Þótt aldursmunur væri ekki mikill, fannst mér við tilheyra hvor sinni kynslóðinni. Hann var barn, svo fullorðinn. Í uppreisn unglingsáranna, fannst mér Halldór vera af kynslóð feðra okkar.

Á 17 ára afmælisdaginn minn sat ég inni í stofu foreldra hans á Höfn og hlustaði á plötur Halldórs frá dvöl hans í Englandi. Ég hlustaði á Rolling Stones. Þetta var stílbrot í mynd minni af áhugamálum frænda míns. Ég tengdi hann hvorki við Stones né Bítlana, hljómsveitir sem nær kostuðu mig brottrekstur úr skóla. Í gaggó var það agabrot að láta hár sitt vaxa.

Eftir á að hyggja minnist ég atvika þar sem Halldór var fremur unglingur en fullorðinn. Slagsmál Halldórs sem þá var 15 ára og Gissurar bróður míns 14 ára eru til marks um það. Þeim sinnaðist illa heima hjá afa og ömmu og slógust af miklu afli, þessir annars dagfarsprúðu drengir.

Þegar Halldór var kosinn á þing, hittumst við hjá ömmu sumarið 1974. Hún var nýlega orðin ekkja. Við sátum þrjú að spjalli. Ég spurði hvort hann ætlaði að leggja stjórnmál fyrir sig. „Já, fyrst ég er kominn á þá braut.“ Ég man hvað amma var ánægð með svarið. Þeir sem þekktu Halldór vissu að hann kynnti sér mál vel og gat tekið snúninga í afstöðu sinni meðan hann mótaði sér skoðun, en var stefnufastur þegar ákvörðun var tekin, enda urðu stjórnmál starfsvettvangur hans. Síðar sagði Halldór mér hvað amma hafði mikil og mótandi áhrif á sig í uppvextinum. Hún var kennari alla sína starfsævi og hefur séð í honum efni í foringja.

Þegar Halldór varð sjávarútvegsráðherra var það fyrir tilstilli Ásgríms föður hans að ég fór að vinna fyrir ráðuneytið. Það varð upphaf að sjö ára samstarfi okkar á vettvangi sjávarútvegs, ég vann við verkefnastjórn á vegum ráðuneytisins og sem forstjóri einnar stofnunar þess. Þar var oft tekist á við erfið málefni, þá var gott að hafa traustan yfirmann að leita til. Eftir að stefnan var mörkuð og ákvarðanir teknar stóð hann alltaf eins og klettur á bak við okkur sem unnum verkin.

Eitt sinn leit Halldór inn hjá okkur Tótu, á Egilsstöðum, þar sem hún kynntist honum fyrst í návígi. Heimsóknin endaði með að hann bauð okkur á hátíð framsóknarmanna. Þar lék hann á als oddi og var hrókur alls fagnaðar. Þegar Tóta kvaddi Halldór að hátíðinni lokinni sagði hún: „Ég sem hélt þú værir svo leiðinlegur.“

Ég minnist góðs frænda. Ég votta Sigurjónu, dætrum þeirra og systkinum Halldórs samúð mína við fráfall góðs drengs. Missir þeirra er mikill.

Halldór Árnason.

Lífið getur verið svo ósanngjarnt. Bara ef ég hefði vitað þegar ég hitti þig síðast að það yrði okkar síðasta samtal. Ég hefði tekið svo fast utan um þig, látið þig vita hversu mikið mér þykir vænt um þig og hversu stolt ég er og hef alltaf verið að eiga þig sem frænda. Þú ert einn yndislegasti og rólegasti maður sem ég hef kynnst og það var alltaf svo þægilegt að vera í kringum þig. Ég er svo þakklát að hafa hitt ykkur Sigurjónu um daginn og ég er svo óendanlega þakklát fyrir það að mamma og pabbi fengu þennan tíma með þér úti.

Elsku frændi, ég sit hér með tárin í augunum og ég verð hálf-reið og leið við tilhugsunina að þú sért farinn. Ég vil ekki trúa þessu og á bara erfitt með að trúa þessu. Það sem er alltaf efst í huga hjá mér þegar ég hugsa til þín er hvernig þú heilsaðir í símann þegar þú hringdir heim, ég mun aldrei gleyma röddinni þinni. En vitandi að þú sért kominn til ömmu og afa veitir mér ró í hjartanu. Daginn sem þú fórst frá okkur og við enn í óvissu þá kveikti ég á kerti og sagði Vilhelm Birni hvað væri í gangi. Um leið og ég kveikti á kertinu fór hann með bæn og því mun ég aldrei gleyma og vil ég hafa hana með í kveðju minni en núna mun þessi bæn ávallt minna mig á þig, elsku frændi.

Láttu nú ljósið þitt

loga við rúmið mitt.

Hafðu þar sess og sæti,

signaði Jesús mæti.

(Höf. ók.)

Ég bið að heilsa ömmu og afa og ég knúsa þig þegar ég hitti þig næst.

Elsku Sigurjóna, Helga, Guðrún, Íris og fjölskylda, mínar dýpstu samúðarkveðjur til ykkar og megi guð og allir hans englar varðveita ykkur.

Þín frænka

Linda.

Feður okkar Halldórs Ásgrímssonar voru kunningjar, líklega vinir, Austfirðingar báðir og tengdust Hornafirði. Faðir minn var fæddur í Lónssveit austur en þar dvaldi Ásgrímur og hans fólk löngum og var báðum sveitin kær, þó ekki væru þeir þar samtímis. Þegar ég fór að vinna fyrir Halldór hringdi Ásgrímur til mín og sagði „Það er gott að þú ert að hjálpa honum Dóra mínum“. Mér þótti vænt um símtalið. Ég kynntist Halldóri Ásgrímssyni fyrst þegar hann kom til þings, kornungur maður, árið 1974 en samstarf okkar varð ekki náið fyrr en hann tók við formennsku í Framsóknarflokknum. Næstu tíu ár töluðum við saman flesta daga, stundum oft á dag. Síðustu ár hafa samtölin verið strjálli enda vík milli vina. Alltaf var þó kært á milli okkar. Í samstarfi var Halldór einstakur. Hann var sanngjarn og þakkaði fyrir hvert viðvik sem unnið var fyrir hann. Merkilegt var líka að oftast baðst hann afsökunar á að vera að trufla ef hann hringdi eða leitaði eftir aðstoð utan hefðbundins vinnutíma. „Fyrirgefðu að ég er að trufla þig frá fjölskyldunni“ sagði hann oft þegar brýn mál þurftu úrlausn utan vinnutíma.

Enginn stjórnmálamaður sem ég hef kynnst þekkti íslenskt stjórnkerfi betur en Halldór og var hann vel heima í öllum málaflokkum og þekkti öll atriði, smá og stór. Hann hafði enda stjórnað fleiri ráðuneytum en flestir og hafði mikla reynslu sem þingmaður og ráðherra.

Ég og Halldór áttum gott og farsælt samstarf og hann reyndist mér sannur vinur. Hann fylgdist vel með mér þegar ég lenti í veikindum og spurði jafnan frétta af líðan minni. Sjálfur fékk hann sinn skerf af heilsuáföllum en mér fannst einhvern veginn að hann væri svo sterkur að hann myndi alltaf ná bata. Það er sorglegt að hann skyldi ekki fá að njóta lengur samvista með fjölskyldunni, sem hann unni svo mjög.

Halldór var góður maður, réttsýnn og heiðarlegur. Það voru forréttindi að fá að vinna með honum og eiga vináttu hans. Ég kveð hann með söknuði, virðingu og djúpu þakklæti en hann hafði mikil áhrif á líf mitt.

Halldór gengur nú austur til móts við sólarupprás eilífs lífs og nýtur náðar Drottins. Konu hans Sigurjónu Sigurðardóttur, börnum þeirra og öðrum í fjölskyldunni sendum við Þrúður samúðarkveðjur.

Megi Guð styrkja þau í sárum missi.

Senn er nótt og ljósar lendur

liðins dægurs hverfa í skuggann

Rökkurtjöldin herrans hendur

hafa dregið fyrir gluggann.

(Jón Pétursson.)

Atli Ásmundsson.

Þegar ég kveð minn nána vin og samstarfsmann til margra ára með sorg og trega hrannast upp myndir og minningar. Allar minningarnar, bæði sætar og súrar, eru tengdar órjúfanlegum kærleiks- og vinaböndum sem voru fléttaðar trausti og fullkomnum trúnaði á báða bóga. Fyrir það hef ég oft þakkað og aldrei meira en í dag.

Halldór var stór maður í öllum skilningi þess orðs, upprunninn í stórbrotnu umhverfi, kominn af áræðnu og duglegu fólki sem lagði allan metnað sinn í að skila af sér góðu dagsverki á sviði atvinnulífs og aukinnar menntunnar og menningar. Þennan arf tók hann ungur með sér út í lífið og fylgdi fast eftir allt til síðasta dags. Hann taldi það ávallt skyldu sína að gera enn betur í dag en í gær.

Um fáa á hin kunna hending betur við en um Halldór „þéttir á velli og þéttir í lund, þrautgóðir á raunastund.“ – Hann var óhræddur að taka að sér stór verkefni og hlustaði ekki á úrtöluraddir né vinsældakannanir þegar hugur hans og hjarta sögðu honum annað.

Hann hafði afburðaþekkingu á undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar og erfitt var að kveða hann í kútinn þegar hann hafði tekið vel ígrundaðar ákvarðanir. Sagan mun geyma og þjóðin erfa langan og merkan stjórnmálaferil Halldórs. Hann sá oft tækifæri þar sem aðrir sáu svartnætti og það var ótrúlegt að sjá hve oft hann efldist við mótbyr en hann fékk líka oft að njóta ávaxta erfiðisins og mætti velgengni af lítillæti og auðmýkt.

Höfðingi er orð sem oft hefur komið upp í hug minn nú þegar ég rifja upp liðna daga, greiðvikinn var hann, gjafmildur og ósérhlífinn. Hann hugsaði alltaf fyrst um hag annarra en kunni alls ekki að hlífa sjálfum sér sem skyldi.

Fólki gat fundist Halldór hrjúfur og oft gat hann vissulega verið ærið þungbrýnn, en því gátum við treyst að hann var ávallt sannur og talaði eins og hugur hans bauð. Einhverju sinni hafði ég á orði við hann að það væri nú allt í fína lagi að brosa svolítið meira framan í skjáinn. Hann svaraði þá að bragði að hann gerði það ekki nema honum fyndist það eiga við og að svona pantanir yrði ég að leggja inn hjá einhverjum öðrum en sér.

Halldór var sérstaklega góður heim að sækja; þess nutum við Haraldur oft og ekki spillti Sigurjóna hans nú gleðskapnum í myndarskap sínum. Fyrir skömmu nutum við ógleymanlegrar kvöldstundar heima hjá þeim hjónum með góðum vinum. Keppst var við að rifja upp og segja sögur af skondnum og skemmtilegum atvikum og var Halldór hrókur alls fagnaðar. Hlátur og sönn kæti ómuðu um húsið. Enginn gat látið sér í hugarlund koma að þetta væri kveðjustundin okkar, dýrmæt minning sem minnir okkur hastarlega á að öllu er afmörkuð stund og allt hefur sinn tíma.

Við Haraldur þökkum af alhug trausta vináttu og biðjum Sigurjónu og börnunum allrar blessunar.

Ingibjörg Pálmadóttir.

Í hugann koma eiginleikarnir traust, festa, skyldurækni, orðheldni. Þessi voru einkenni Halldórs Ásgrímssonar. Viðhorf hans mótuðust í heimahögunum eystra, í samvinnuhreyfingunni og sjómennskunni og í námi og störfum sem endurskoðandi fyrir atvinnufyrirtæki. Honum var ljóst hvar jarðnesk verðmæti eru sköpuð og hvernig best má standa að því. Og hann vissi hvar lífsbjörgin kemur á land, og á hverju fólkið brauðfæðir sig. Áhugi hans á atvinnumálum og rekstri fyrirtækja mótaði ábyrgðartilfinningu hans sem stjórnmálamanns.

Halldór Ásgrímsson tók að sér að móta námsbraut Háskóla Íslands í endurskoðun. Hann hafði áhuga á því starfi. Með stuttum fyrirvara leituðu Framsóknarmenn á Austurlandi til hans um framboð. Hann var á báðum áttum. Þá var enn þrýst, og síðan leit hann ekki um öxl.

Sem alþingismaður og ráðherra braust Halldór í mikilvægum málum sem vöktu deilur. Ráð hans var jafnan vel ígrundað og djúpt hugsað, og honum varð sjaldnast hnikað frá því sem hann taldi hyggilegast eða sanngjarnast. Áfram var deilt um ákvarðanir í sjávarútvegsmálum og bankamálum. Hann vildi ekki halda áfram að útskýra málin eftir að hann var hættur stjórnmálastörfum, en það hefði legið létt fyrir honum. En hann var sannfærður um að smám saman hyrfi hismið og kjarni málanna kæmi betur í ljós. Því kveið hann ekki.

Halldór Ásgrímsson gerði sér snemma grein fyrir þeim samfélagsbreytingum sem orðnar voru og í vændum. Hann sá hverju þetta myndi breyta fyrir landsbyggðina, sjávarútveg og landbúnað, samvinnuhreyfinguna og Framsóknarflokkinn. Hann lagði áherslu á að þoka flokknum fram í fylkingarbrjóst. Stundum var Halldór þunghentur í þessu innan flokksins. En hugsjón hans var að Framsóknarflokkurinn gengi ferskur og skarpur inn í nýja öld. Þannig sá hann Framsóknarmenn best gegna þjóðrækilegri skyldu sinni.

Við Halldór vorum bekkjarbræður í gagnfræðaskóla og kynntumst þá svo náið að aldrei þurfti við að bæta þótt samskipti yrðu slitrótt um árabil. Þá bjó hann hjá afa sínum og alnafna alþingismanni sem var höfuð þessarar mestu kaupfélagsstjóraættar þjóðarinnar. Við vorum sumir að reyna að vera róttækir, en Halldóri varð aldrei hnikað. Mér eru minnisstæðar rökræður okkar um trúmál. Þá varð sama raunin.

Ég sendi frú Sigurjónu og fjölskyldunni innilegar kveðjur. Það voru forréttindi að eiga Halldór Ásgrímsson að vini. Tryggð hans og hollusta brugðust ekki. Hann var drengur góður. Og nú er hann of snemma farinn. Hann á góða heimvon.

Jón Sigurðsson.

Halldór Ásgrímsson var yfirvegaður maður, talaði hægt og var ekki alltaf orðmargur. Um margt fannst mér hann líkur Ólafi heitnum Jóhannessyni, forsætisráðherra og formanni Framsóknarflokksins til fjölda ára. Menn þurftu ekki að vera sammála honum en alltaf var hægt að treysta orðum hans.

Halldór var formaður bankaráðs Seðlabankans upp úr 1980 og hafði skrifstofu í húsakynnum bankans við Hafnarstræti. Ég var þá starfsmaður bankans og við byrjuðum að tala saman þar á göngunum. Nokkrum árum síðar er hann var sjávarútvegsráðherra og ég aðstoðarmaður fjármálaráðherra byrjuðum við að vinna saman.

Á Alþingi vorum við síðan lengi samstarfsmenn, sátum m.a. saman í forsætisnefnd Norðurlandaráðs 1991-95. Halldór varð snemma áberandi á vettvangi ráðsins og var valinn í forystu í flokkahópi miðjumanna. Ég minnist þess að hann varð fyrstur til að flytja tillögu í ráðinu um málefni norðurskautsins sem var samþykkt 1992 og leiddi til þess að Norðurlandaráð hóf að standa fyrir reglulegum ráðstefnum um þau málefni.

Norræn málefni voru Halldóri alltaf hugleikin og því kom mér ekki á óvart þegar hann ákvað að sækjast eftir starfi á þeim vettvangi þegar hann lét af stjórnmálaafskiptum 2006. Mér er minnisstætt hve ljúflega allir forsætisráðherrar hinna Norðurlandanna tóku umleitunum um að ráða hann til starfa sem framkvæmdastjóra norrænu ráðherranefndarinnar.

Við Halldór sátum saman í ríkisstjórn í átta ár. Lengst af var hann utanríkisráðherra en ég fjármálaráðherra. Hann þekkti afar vel til ríkisfjármála og gjörþekkti skattkerfið úr störfum sínum sem endurskoðandi. Var hann því jafnan fljótur að átta sig á öllum hugmyndum um breytingar á sköttum. Það var því auðvelt að leiða flókin mál á því sviði til niðurstöðu með honum eins og við þurftum oft að gera. Alltaf gátum við leyst úr ágreiningi og alltaf stóð hann við sinn hluta þess samkomulags sem gert var.

Eftirminnilegasta samtal mitt við Halldór var eftir sveitarstjórnarkosningarnar 2006. Þá bað hann mig að hitta sig í forsætisráðuneytinu, þar sem hann hafði verið húsráðandi í tæp tvö ár og ræddum við þar lengi saman í trúnaði. Hann hafði orðið fyrir miklum vonbrigðum með niðurstöður kosninganna og var einnig afar ósáttur með ástandið í eigin flokki. Hann vildi axla sína ábyrgð á því og láta af öllum pólitískum afskiptum. Jafnframt vildi hann að ég tæki við af sér sem forsætisráðherra, þótt svo hefði um samist milli flokkanna eftir kosningar 2003 að hann gegndi því starfi frá 2004 fram yfir kosningar 2007.

Halldór átti glæstan feril að baki á Alþingi og í ríkisstjórn og var utanríkisráðherra lengur en nokkur annar. Hann var traustur foringi flokks síns og góður fulltrúi Íslands út á við. Hið ótímabæra fráfall hans er mörgum þungbært, ekki aðeins fjölskyldu hans, vinum og samstarfsmönnum heldur einnig öllum þeim sem biðu þess að Halldór gerði upp rúmlega þrjátíu ára feril í stjórnmálum. Hann átti áreiðanlega margt ósagt.

Við Inga Jóna sendum Sigurjónu og fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur frá Washington.

Geir Hilmar Haarde.

„Sæll, þetta er Halldór Ásgrímsson, geturðu komið og hitt mig?“ Þetta símtal og fundurinn í framhaldi af því á síðustu dögum maímánaðar 1983 mótaði starfsbraut mína. Halldór var þá nýorðinn sjávarútvegsráðherra og var tilefni fundarins að bjóða mér að verða aðstoðarmaður hans, sem ég þáði. Þarna varð til sá strengur á milli okkar sem alla tíð var umvafinn vináttu og væntumþykju en sterkasta taugin í honum var það traust sem við bárum hvor til annars.

Enginn maður mér óvenslaður hefur reynst mér betur og verið mér umburðarlyndari. Halldór var drenglundaður mannkostamaður, hann var fastur fyrir, skapríkur en alltaf sanngjarn. Það var fyrir hans orð að ég ákvað á sínum tíma að helga mig stjórnmálavafstri um stund. Það var alltaf hægt að leita ráðgjafar og leiðsagnar hans í stóru sem smáu. Hann var alltaf tilbúinn til að hlusta og leggja gott til. Undirmál og svik voru hlutir sem hann fyrirleit. Halldór mat samstarfsmenn sína og pólitíska andstæðinga út frá þeirri mælistiku hversu vel hann gat treyst þeim.

Halldór var merkur stjórnmálaforingi, hann skilur eftir sig mörg af mikilvægustu stjórnmálaverkum samtímans. Hér gefst ekki tækifæri til að gera verkum Halldórs á löngum stjórnmálaferli skil. Þegar ég spurði Halldór fyrir stuttu hvaða ríkisstjórn hann hefði kunnað best við á þessum tæpu tuttugu árum sem hann sat í ríkisstjórn, svaraði hann strax: „Ég held að mér þyki vænst um fyrrihlutann í samstarfi Framsóknar og Sjálfstæðisflokks á árunum 1995 til 2006.“ Svarið kom mér ekki á óvart. Í þessu ríkisstjórnarsamstarfi náðu saman tveir mikilhæfustu stjórnmálaleiðtogar þjóðarinnar á þessum tíma, formenn þessara tveggja flokka. Ólíkir menn um margt, báðir höfðu sterkar skoðanir, voru drenglundaðir og stefnufastir. Það sem hins vegar skipti mestu var að strax í upphafi tókst með þeim sterkt trúnaðarsamband þar sem handtakið eitt var látið gilda því þeir treystu orðum hvor annars. Samstarf þeirra Halldórs og Davíðs í ríkisstjórn er eitt árangursríkasta stjórnarsamstarf á lýðveldistímanum.

Stundirnar þar sem stjórnmálunum sleppti hafa með árunum orðið enn dýrmætari en stundirnar í stjórnmálavafstrinu voru. Halldór var alvörugefinn maður en það var stutt í glensið hjá honum. Hann var afskaplega hlýr í viðmóti, sögumaður mikill og góður húmoristi. Margar áttum við stundirnar á fjöllum í okkar árlegu gönguferðum sem segja má að hafi hafist sumarið 1991 þegar við Kristín, Sigurjóna og Halldór gengum yfir Fimmvörðuháls. Sennilega var okkur báðum ferðin á Hvannadalshnjúk vorið 2004 eftirminnilegust því það stórfenglega útsýni sem opnaðist okkur þegar á toppinn var komið var tilkomumeira en orð fá lýst. Landið okkar birtist okkur alveg frá nýju sjónarhorni eftir erfiða göngu í hríðarbyl.

Komið er að kveðjustund. Samleið góð vörðuð minningum mörgum og góðum er þökkuð heilshugar í dag. Við Kristín sendum Sigurjónu, dætrum þeirra og tengdasonum svo og aðstandendum öllum innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Halldórs Ásgrímssonar.

Kristín og Finnur Ingólfsson.

Fáeinum dögum áður en fregnir bárust af alvarlegu áfalli Halldórs vatt hann sér inn á skrifstofu mína á Rauðarárstígnum, kampakátur. Það var fagnaðarfundur. Halldór hafði átt erindi við utanríkisráðherra og notaði tækifærið til innlits. Hann var að undirbúa erindi á alþjóðlegri ráðstefnu í Sjanghæ og ráðgerði einnig að þiggja boð um að flytja erindi á ráðstefnu Crans Montana-samtakanna. Þrátt fyrir að hafa yfirgefið hinn opinbera vettvang rann honum blóðið til skyldunnar. Í enskri tungu er til hugtak um einstaklinga sem skarað hafa fram úr á alþjóðavettvangi og leitað er til um ráð og sjónarmið; statesman. Í krafti yfirgripsmikillar reynslu sinnar, djúphygli og sannfæringar var Halldór Ásgrímsson slíkur maður. Hann naut virðingar, hafði margt fram að færa og eftir kröftum hans var sóst.

Halldór markaði djúp spor í íslensk utanríkismál og hefur enginn setið jafn lengi í því vandasama embætti að vera ráðherra utanríkismála. Kollegi hafði á orði að tala mætti um utanríkisþjónustuna fyrir og eftir Halldór. Hann varð utanríkisráðherra rétt eftir lok kalda stríðsins og á uppvaxtarárum EES-samningsins. Utanríkismál, staða og hlutverk Íslands í samfélagi þjóðanna var í mikilli deiglu. Halldór áttaði sig á áskorununum og var höfuðarkitektinn að því að laga utanríkisþjónustuna að þessum gerbreyttu tímum og áherslum. Hann hafði styrk og sýn til að efla hana og skerpa og skildi betur en margur nauðsyn þess fyrir lítið land að fjárfesta í öflugri utanríkisþjónustu og víðfeðmu neti ræðismanna.

Á tíma Halldórs sem utanríkisráðherra voru samskipti Íslands efld við mikilvæg samstarfsríki með opnun sendiráða í Tókýó og Ottawa. Hann sá þörfina á að efla enn frekar tengsl við Íslendingabyggðirnar í Vesturheimi með opnun aðalræðisskrifstofunnar í Winnipeg. Í tíð Halldórs var opnað fyrsta íslenska sendiráðið sunnan miðbaugs, í Mapútó í Mósambík. Auk þessara voru á árunum 1995-2004 opnaðar fastanefndir í Strassborg og Vínarborg að ógleymdri Helsinki, sem Halldór lagði mikla áherslu á enda var Finnland á þeim tíma eina norræna ríkið þar sem ekki var íslenskt sendiráð.

Að fyrirmælum Halldórs var viðskiptaþjónusta efld og sókn hafin á nýja markaði fyrir íslenskar afurðir, menningu og hugvit. Hann lagði ríka áherslu á málefni norðurslóða og var í forvígi þess að stofna Norðurskautsráðið, hann setti auðlindamál og sjálfbæra nýtingu auðlinda í forgrunn og má segja að hann hafi verið brautryðjandi á því sviði. Öryggis- og varnarmál voru Halldóri hugleikin. Lok kalda stríðsins voru tími tækifæra en jafnframt sviptist hulan af nýjum ógnum sem lýðræðisþjóðir urðu að takast á við í kjölfar hryðjuverkanna ellefta september í Bandaríkjunum. Halldór hafði skýra sýn á mikilvægi þess að Ísland sýndi samstöðu með bandamönnum sínum og lagði til rödd Íslands í hinni alþjóðlegu baráttu gegn hryðjuverkaógninni. Hann var jafnframt sannfærður um nauðsyn þess að Íslendingar, þótt fámennir væru, öxluðu sinn hluta af byrðum sem felast í öryggis- og varnarsamstarfi vestrænna ríkja og var t.a.m. forgöngumaður um stofnun íslensku friðargæslunnar.

EES-samningurinn hafði nýlega leyst landfestar þegar Halldór tók við embætti. Hann gerði sér strax grein fyrir gríðarlegu mikilvægi hans og lagði alla tíð ríka áherslu á öflug tengsl við Evrópu og skilvirka hagsmunagæslu í EES-samstarfinu. Norrænt samstarf og traust samvinna við Eystrarsaltsríkin var rauður þráður í öllu starfi Halldórs sem utanríkisráðherra. Það var því afar farsælt fyrir Norðurlandasamstarfið að Halldór réðst til að veita skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar forstöðu eftir að hann dró sig út úr íslenskum stjórnmálum.

Það vill oft gleymast að sá Íslendingur sem gegnir embætti utanríkisráðherra er jafnframt ráðherra þróunarmála, varnarmála, utanríkisviðskipta og Evrópumála. Það var því í mörg horn að líta en þrátt fyrir annir gaf hann sér ætíð tíma til að ræða málin. Hann áttaði sig á mikilvægi góðra tengsla og lagði ríka áherslu á að efla mannauð og þekkingu í röðum utanríkisþjónustunnar. Á löngum ferli byggði Halldór upp traust persónuleg tengsl við starfsbræður og -systur og aðra samferðamenn víða um lönd, sem minnast hans nú.

Ekki getum við lengur gengið í reynslubanka Halldórs Ásgrímssonar, sem féll frá alltof snemma. Hann var sviptur tækifærinu til að láta rödd sína heyrast en minnið um hann og hans góðu verk stendur óhaggað.

Að leiðarlokum vil ég fyrir hönd utanríkisþjónustunnar votta Sigurjónu, dætrum Halldórs og afkomendum dýpstu samúð á þessari sorgarstundu og jafnframt þakklæti fyrir farsæla samferð.

Stefán Haukur Jóhannesson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins.

Halldór Ásgrímsson var einn áhrifamesti stjórnmálamaður landsins um áratugaskeið. Hann þekkti vel til mála, kom að og hafði forystu um ýmsar stórar ákvarðanir sem teknar voru á hinum pólitíska vettvangi um hans daga. Við hið óvænta og ótímabæra fráfall Halldórs Ásgrímssonar á þjóðin á bak að sjá einum helsta stjórnmálaforingja sínum um áratugaskeið.

Halldór varð sjávarútvegsráðherra árið 1983, þá aðeins 36 ára að aldri, en vel undirbúinn þrátt fyrir ungan aldur. Sjávarútvegurinn stóð frammi fyrir gríðarlegum vanda. Staða ýmissa fiskistofna var veik og sóknarmáttur fiskiskipaflotans langt umfram afrakstursgetu stofnanna. Þær aðferðir sem menn höfðu fram að þessu notað til fiskveiðistjórnunar dugðu ekki lengur og niðurstaðan varð sú að úthluta aflaheimildum á fiskiskip á grundvelli veiðireynslu þeirra. Þetta var erfið og umdeild ákvörðun sem fól í sér minni rétt til sjósóknar af eðlilegum ástæðum, en var óhjákvæmileg við þessar aðstæður. Á þessum tíma talaði enginn um að þetta fæli í sér óréttmæta gjöf; kvótakerfið var einfaldlega nauðvörn við þröngar aðstæður.

Það var á þessum tíma sem ég hitti Halldór Ásgrímsson fyrst. Hann kom vestur, þar sem andstaða við kvótakerfið var býsna almenn, og stóð fyrir máli sínu á fjölmennum og háværum fundum. Maður gat ekki annað en dáðst að honum, ungum manninum, þar sem hann flutti mál sitt með sannfæringarkrafti, rökum og af yfirvegun.

Seinna, eða árið 1991, urðum við samverkamenn á Alþingi. Hann tók mér vel. Rifjaði oft upp góð kynni feðra okkar sem báðir störfuðu í sjávarútvegi og þar sem leiðir þeirra lágu saman.

Árið 1995 varð Halldór utanríkisráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. Gríðarleg reynsla og þekking hans á sjávarútvegssviðinu gerði það hins vegar að verkum að hann var oft kallaður til ráðslags og verka þegar leysa þurfti úr erfiðum viðfangsefnum á sviði sjávarútvegsmála. Þetta var á tímum mikilla umbrota í sjávarútveginum og víða í sjávarbyggðunum, í kjölfar hins frjálsa framsals sem ákveðið var árið 1990. Afleiðingar þeirrar lagasetningar kölluðu oft á torveldar og umdeildar aðgerðir þar sem reyndi á gott samstarf stjórnarflokkanna og trúnað á milli manna.

Þegar ég settist fyrst í ríkisstjórn, 27. september 2005, var Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra. Hann tók vel á móti mér. Kvaðst ánægður með að fá til verka í sjávarútvegsráðuneytinu mann með reynslu og bakgrunn á þeim vettvangi þar sem hann hafði sjálfur byrjað sinn langa og farsæla ráðherraferil. Svo ánægjuleg voru örlögin að á þessum fundi var ákveðið að hefja framkvæmdir við Bolungarvíkurgöng. Halldór studdi einbeittur við þessa framkvæmd og þótti gaman að því að svo vel hittist á að Bolvíkingur settist í ríkisstjórn þegar þessum ráðum var endanlega ráðið.

Það var ánægjulegt og gefandi að eiga Halldór að samverkamanni á hinum pólitíska vettvangi. Ótímabært andlát hans skilur eftir sig vandfyllt skarð. Sigurjónu konu hans og fjölskyldu færum við Sigrún okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Einar K. Guðfinnsson.

Góður vinur og samstarfsmaður um árabil er fallinn frá, langt um aldur fram. Löngum og farsælum starfsferli var lokið og ætlaði hann að eiga góð ár með fjölskyldu og vinum og sinna hugðarefnum en þá kemur kallið, öllum að óvörum.

Leiðir okkar Halldórs Ásgrímssonar lágu fyrst saman við kosningar til Alþingis í desember 1979. Þá vann Framsóknarflokkurinn nokkra nýja þingmenn og vorum við báðir í þeim hópi. Halldór hafði að vísu verið á þingi eitt kjörtímabil áður, en náði svo aftur kjöri í þessum kosningum. Á Alþingi störfuðum við saman í 20 ár og urðum bæði nánir samstarfsmenn og vinir. Við sátum saman í ríkisstjórnum í tvö kjörtímabil og í stjórn Framsóknarflokksins, ég sem ritari meðan hann var varaformaður og síðan sem varaformaður í nokkur ár í formannstíð Halldórs. Hann var traustur samstarfsmaður og á okkar samvinnu og vináttu bar aldrei skugga þó að vissulega kæmu upp einstök mál þar sem við vorum ekki alveg sammála.

Halldór var afar duglegur maður, vinnusamur og skoðanafastur. Því var hann fljótt valinn til trúnaðarstarfa fyrir flokkinn, á Alþingi og í ríkisstjórn. Bakgrunnur hans sem viðskiptamenntaður og löggiltur endurskoðandi leiddi til þess að hann lagði mikla áherslu á efnahagsmál og trausta efnahagsstjórnun í öllum sínum störfum. Hann sýndi einnig í mörgum öðrum málaflokkum hversu öflugur stjórnmálamaður hann var, ákveðinn og fylginn sér og hafði bæði hugrekki, styrk og þor til að fylgja sannfæringu sinni og koma í höfn málum sem til framtíðar horfðu landi og þjóð til farsældar. Sem sjávarútvegsráðherra í 8 ár átti hann sinn stóra þátt í að íslenskur sjávarútvegur er einn sá öflugasti í heimi og til fyrirmyndar öðrum þjóðum. Hann studdi sjálfbæra nýtingu auðlinda og skildi mikilvægi þess að nýta okkar endurnýjanlegu orkugjafa allt í senn í aljóðlegu samhengi, til heilla fyrir land og þjóð og til styrktar byggð sem stóð höllum fæti. Sem utanríkisráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda hafði hann sterka sýn á hlutverk og stöðu Íslands í samfélagi þjóða og hafði sérstakan áhuga á málefnum norðurslóða og mikilvægi þess að Ísland gegndi þar forystuhlutverki. Farsælum starfsferli sínum í þágu lands og þjóðar lauk Halldór sem framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar í sex ár. Margt fleira mætti telja upp af verkum Halldórs sem eins af sterkustu stjórnmálaleiðtogum þjóðarinnar á undanförnum áratugum, en þingmennsku gegndi hann í 31 ár. Sagan mun skrá það og varðveita og meta að verðleikum.

Halldór þótti á stundum nokkuð þungur á bárunni og ekki allra en átti líka sínar ljúfu og skemmtilegu hliðar. Ég minnist þess úr afmælisboði fyrir allmörgum árum þar sem saman komu bæði kunningjar innan og utan stjórnmálanna. Einn af vinum mínum sem ekki þekkti Halldór nema sem frekar þungbúinn stjórnmálamann sagði mér síðar að hann hefði kynnst alveg nýrri hlið á manninum sem allt kvöldið lék á als oddi, sagði skemmtisögur, gerði grín og hermdi eftir. Halldór var líka mikill útivistarmaður, ferðaðist og gekk um fjöll og firnindi með vinum og naut þess að fara á skíði. Við Vigga höfum átt margar ánægjulegar samverustundir með þeim hjónum, Halldóri og Sigurjónu, sem við þökkum fyrir. Við sendum Sigurjónu og fjölskyldu svo og öllum vinum og vandamönnum okkar innilegustu samúðarkveðjur og biðjum þeim blessunar guðs. Minningin um góðan dreng mun lifa.

Guðmundur Bjarnason.

Með andláti Halldórs Ásgrímssonar er höggvið skarð í spilaklúbbinn Uden Fit. Klúbburinn varð til í Kaupmannahöfn haustið 1972 og hefur verið spilað flesta þriðjudaga á veturna í nær 43 ár. Meðlimir voru námsmenn sem bjuggu á stúdentagarðinum Solbakken ásamt Pjetri, bekkjarbróður Halldórs á Bifröst, en hann starfaði hjá Flugfélaginu þar úti. Þegar heim kom bættist Gunnar, skólafélagi á Bifröst, fljótlega í hópinn. Síðan þá hefur lífið einkennst af töpum og sigrum, sorg og gleði, vonum og þrám eins og gengur í lífinu. En alltaf höfum við staðið saman og munum gera áfram.

Á Kaupmannahafnarárunum vorum við að stofna fjölskyldur, hippatíminn á fullu, vor í lofti og öllum leið vel. Þegar heim til Íslands var komið hófust menn handa við að skapa sér tilveru hver á sinn hátt. Spilaklúbburinn hélt áfram undir nafninu Uden Fit og þótti það einnig nothæft nafn fyrir gönguhóp, sem varð til með vinum og vandamönnum að frumkvæði Halldórs og Sigurjónu.

Stundum sýndu sumir úr hópnum snilld við græna borðið eins og þegar fulltrúar Uden Fit kepptu við margfaldan heimsmeistara, bridgespilarann Belladonna. Halldór sagði eitt grand af tilfinningu en Belladonna doblaði og vann þetta spil, en við unnum lotuna. Eftir það var viðkvæðið jafnan í spilamennskunni: Hvað hefði Belladonna gert núna?

Réttlæti og sanngirni ásamt metnaði í hugsun og verki voru aðalsmerki Halldórs. Hann sameinaði umsvifamikil störf og einlægni í einkalífi. Hann töfraði á sinn hátt fram hjartahlýju í nálægð ættingja og vina, var ætíð traustur vinur svo bar af og hrókur alls fagnaðar þegar sá gállinn var á honum.

Einu sinni fórum við saman til Parísar og í þeirri ferð fengum við okkur kvöldverð á djassbar. Eftir matinn var boðið upp á írskt kaffi. Allir fengu kaffi, en Halldór var temaður og þar sem hann var í góðri stemningu bað hann um afbrigði: Grand Marnier í staðinn fyrir írskt viskí, te fyrir kaffi og fromage fyrir þeyttan rjóma. Þjónninn áttaði sig ekki alveg á þessari pöntun og færði Halldóri ostaköku, sem er ,gateau au fromage‘ á frönsku. Við höfum síðan reglulega strítt honum á þessu og hafði hann jafnan lúmskt gaman af.

Halldór vann langan vinnudag og var mikið á ferðalögum vegna vinnu sinnar, bæði innanlands og erlendis. Hann reyndi þó að eiga líf fyrir utan pólitíkina, komast í spil á þriðjudagskvöldum og í göngutúra á sumrin. Við höfum gengið víða um Ísland og einnig farið nokkrum sinnum utan. En best þótti honum að ganga um íslenska náttúru og var það honum sérstök ánægja að leiða okkur um sínar heimaslóðir í Lóni og Lónsöræfum.

Okkur félögunum er brugðið við fráfall vinar okkar Halldórs Ásgrímssonar, en við munum áfram halda okkar striki í hans anda.

Við þökkum fyrir þær stundir sem við áttum saman og sendum innilegar samúðarkveðjur til Sigurjónu, dætranna og annarra aðstandenda.

Spilafélagarnir:

Skúli Jóhannsson, Benedikt Steingrímsson, Sigurður

Gils Björgvinsson, Pjetur Már Helgason og Gunnar Ólafsson.

Það er einkennileg tilfinning að skrifa minningarorð um minn góða samstarfsmann og vin Halldór Ásgrímsson. Minningarnar hrannast upp frá samstarfi okkar og kynnum síðustu fjóra áratugi. Ég hitti hann í fyrsta skipti á Kjördæmisþingi framsóknarmanna á Berufjarðarströnd árið 1974, er hann var útnefndur í framboð í Austurlandskjördæmi. Nokkru seinna bar hann að garði okkar Margrétar á Egilsstöðum, var á ferðalagi á Austurlandi og bar unga dóttur sína í burðarpoka á bakinu. Hann hafði lent í því að bíllinn bilaði á Öxi og kom við til að skipuleggja framhald ferðarinnar. Þetta var í rauninni upphaf að okkar kynnum og okkar langa ferðalagi saman um refilstigu stjórnmálanna.

Bakgrunnur Halldórs á Austurlandi var sterkur. Þar var hann fæddur og uppalinn og stundaði vinnu til sjávar og sveita frá unga aldri í Hornafirði og Suðursveit. Sem ungur drengur dvaldi hann á Vopnafirði hjá ömmu sinni og afa sem hann mat mjög mikils.

Halldóri var í upphafi falinn mikill trúnaður á sviði stjórnmálanna. Strax komu í ljós þeir eiginleikar sem einkenndu hann alla tíð. Hann var óhemju vinnusamur og mikill málafylgjumaður. Hann sagði ekki eitt í dag og annað á morgunn. Samt vildi hann komast að niðurstöðu í málum og var tilbúinn að gera málamiðlanir og standa við þær. Allan hans feril er ógjörningur að rekja í stuttum minningarorðum. Hann var í fylkingarbrjósti í nauðsynlegum breytingum í sjávarútvegi sem voru byltingarkenndar og afar umdeildar, en hann hafði ríka sannfæringu fyrir. Sömuleiðis hafði hann sannfæringu fyrir því að við ættum að hafa traust samstarf við Evrópuþjóðir, sem var einnig ofurheitt mál. Þetta og ýmislegt fleira sem upp kom í baráttu daganna var til þess að hann lenti í miklum ólgusjó umræðu sem oft var einkanlega ósanngjörn og persónuleg og féll okkur vinum hans og samstarfsmönnum þungt. Oft varð okkur hugsað til hans og fjölskyldu hans þegar þessar öldur risu sem hæst.

Halldór mat fjölskyldu sína mikils og ég veit að honum féll þungt þegar skyldfólk hans og ástvinir voru dregnir inn í stjórnmálaumræðuna. Hins vegar var hann svo lánsamur að eiga samheldna fjölskyldu að baki og einstakan lífsförunaut sem Sigurjónu sem stóð ætíð þétt við bakið á honum.

Þegar Halldór dró sig til baka úr stjórnmálum kaus hann að hverfa til starfa erlendis og sinnti málum á alþjóðavettvangi fram á síðasta dag. Hann blandaði sér ekki í stjórnmálaumræðu dagsins hérlendis og lét eftirmönnum eftir sviðið. Hann var í rauninni á heimavelli hjá Norrænu ráðherranefndinni og þekkti starfsemi hennar frá öllum hliðum.

Okkur Margréti þykir vænt um minningu Halldórs, og ekki síst hugsum við til hennar Sigurjónu, dætra hans og afkomenda. Megi þeim takast að vinna úr þessu mikla og óvænta áfalli.

Einkar vænt þykir mér um árin okkar í Austurlandskjördæmi. Samskipti við gott fólk af öllum flokkum, ferðalög sumar og vetur á nóttu og degi, í sumarblíðu og vetrarbyljum. Ekki síst minnist ég nú á þessari stundu okkar góðu félaga í þingmanna- og ráðherrahópi sem komu að austan, þeirra Vilhjálms Hjálmarssonar og Tómasar Árnasonar. Það er einkennileg tilfinning að fylgja þessum vinum sínum og samstarfsmönnum öllum til grafar á einu ári.

Halldór hafði í gegn um sinn langa feril gríðarlega reynslu og yfirgripsmikla þekkingu á landsmálum. Það er gott að minnast stjórnmálaforingjans, sem var þéttur á velli og þéttur í lund, en hlýr og góður félagi.

Jón Kristjánsson.

Það var glaðbeittur hópur ungmenna sem stefndi að Samvinnuskólanum að Bifröst á haustdögum 1963. Tveggja ára skólaganga þeirra þar var að hefjast. Fæstir þekktust nokkuð en fólk var fljótt að kynnast, enda skólastarfið byggt upp þannig að nemendur voru mikið saman bæði í námi og tómstundum. Einn af hópnum var Halldór Ásgrímsson frá Höfn í Hornafirði. Þrátt fyrir að Halldór léti námið ævinlega ganga fyrir, þá var hann einnig mjög virkur í félagslífinu og félagi í flestum þeirra tómstundaklúbba sem starfræktir voru. Hann var hrókur alls fagnaðar, gat verið mjög glettinn og hafði skemmtilega frásagnarhæfileika. Mikið var lagt uppúr því að losa nemendur við óttann við ræðustólinn og var Halldór fljótur að yfirstíga þann ótta. Það orð fór af Samvinnuskólanum á þessum tíma að hann sætu helst ekki aðrir en harðir framsóknarmenn. Það var nú reyndar öðru nær, því reglulega var tekist á um pólitík. Að loknu námi á Bifröst aflaði Halldór sér réttinda sem löggiltur endurskoðandi og hélt síðan til framhaldsnáms í verslunarháskóla í Björgvin og Kaupmannahöfn. Halldór var mikill útivistarmaður sem unni landinu og perlum þess. Hann fór fljótlega að láta til sín taka í stjórnmálum og gekk til liðs við Framsóknarflokkinn og kom sér nú vel að hafa tekið þátt í félagsstarfi og ræðukeppnum á Bifröst. Fljótt kom í ljós að Halldór var góður ræðumaður, rökfastur og drenglyndur. Hann var reiðubúinn að hlusta á rök annarra en gerði líka þær kröfur að hlustað væri á sín. Kennarar á Bifröst voru fljótir að sjá hæfileika hans og höfðu á orði að ef einhver ætti eftir að hljóta frama í pólitík, þá væri það hann. Halldór var kjörinn til setu á Alþingi árið 1974 og sat á þingi samtals í 31 ár. Hann var varaformaður Framsóknarflokksins frá árinu 1980 til 1984 er hann tók við formennsku í flokknum sem hann gegndi til ársins 2006. Halldór lét sig efnahagsmál miklu varða, var sá einstaklingur sem mótaði hvað mest stefnu til bjargar sjávarútveginum á sínum tíma, var einlægur talsmaður fyrir norrænu samstarfi og gegndi m.a. starfi framkvæmdastjóra norrænu ráðherranefndarinnar. Halldór var ekki óumdeildur, enda eru þeir það sjaldnast sem þora að taka ákvarðanir. Hópurinn frá Bifröst hélt ágætlega saman. Við vorum 38 sem lukum prófi vorið 1965 og áttum því 50 ára útskriftarafmæli fyrir nokkrum dögum. Þau okkar sem búsett eru á höfuðborgarsvæðinu hittumst helst einu sinni í mánuði yfir vetrartímann og göngum ásamt mökum okkar um áhugaverða staði okkur til skemmtunar og heilsubótar. Þegar tími Halldórs leyfði kom hann ásamt Sigurjónu eiginkonu sinn með okkur í þessar göngur. Við skólasystkinin höfum því fylgst hvert með öðru þessi ár sem liðin eru frá útskriftinni. Halldór mat kynni af þessum hópi mikils. Við bekkjarsystkini Halldórs sendum Sigurjónu eiginkonu hans, dætrum þeirra og fjölskyldum okkar dýpstu samúðarkveðjur. Við bekkjarsystkini Halldórs frá Bifröst kveðjum góðan félaga með trega, en minning um góðan dreng mun lifa og ylja okkur í framtíðinni.

Ragnar Snorri Magnusson.

Síminn hringir: „Sæl – ég heiti Halldór.“

Röddin var lágstemmd, hæversk og hlý eins og persónuleiki mannsins sjálfs, og eins og hann kom alltaf fram við okkur. Halldór hafði einlægan vilja til að fylgjast með fjölskyldunni og var alltaf til staðar þegar hann mögulega gat, með sína hlýju nærveru.

Við áttum sumarbústaði í Grímsnesinu, í nágrenni hvert við annað, og ánægjustundirnar voru margar þar með börnum og barnabörnum. Það þurfti að sinna gróðrinum og rækta, bera á pallinn og sinna viðhaldi, það var tekin inn hitaveita með tilheyrandi stússi og ráðgast um þetta allt saman yfir kaffi eða góðri máltíð. Fuglana, vini okkar í sveitinni, bar oft á góma, en Halldór var mikill fuglavinur, þekkti fuglahljóðin og má segja að fuglar hafi verið eitt af hans áhugamálum.

Minnisstæður er stóri jarðskjálftinn 17. júní 2000, en þá sátum við hjónin yfir kaffi og pönnukökum í okkar bústað. Skjálftinn var varla riðinn yfir þegar við sjáum Halldór á harða spretti niður Fljótsbakkann. Þau Sigurjóna höfðu verið á göngu, en Guðrún móðir Halldórs var í bústaðnum þeirra og þau höfðu eðlilega áhyggjur af henni. En Guðrún var æðrulaus kona, eins og sonurinn, var sallaróleg og kippti sér lítið upp við skjálftann, þrátt fyrir að hlutir hryndu úr hillum, en þarna náði Halldór spretti á mjög góðum tíma.

Það er margs að minnast. Við höfum átt góðar stundir í fríum með fjölskyldunum okkar hérlendis og erlendis, undanfarin ár höfum við hjónin notið samverustunda með Halldóri og Sigurjónu á Kanarí í janúar ár hvert. Halldór og Gísli voru bræður í Oddfellowstúkunni nr. 11, Þorgeiri, og eins er gott að minnast samveru á áskriftartónleikum Simfóníuhljómsveitar Íslands.

Þau Sigurjóna og Halldór hafa verið búsett erlendis undanfarin ár, en Halldór sinnti störfum hjá Norrænu ráðherranefndinni. Alltaf var samt stutt heim. Framundan voru árin sem við höfðum vonast til að geta notið meira saman í Grímsnesinu. Við komum til með að sakna vinar í stað.

Ég heiti Halldór, var símakveðjan hans. Halldór, við söknum þín öll. Hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gísli og Jónína Sigríður.

Liðin eru 25 ár síðan fjölskylda okkar eignaðist sumarbústað við Álftavatn í Grímsnesi. Við vorum svo heppin, að á sama tíma byggðu Halldór Ásgrímsson og Sigurjóna kona hans bústað á næstu lóð. Við það sköpuðust góð kynni, gagnkvæmt traust og náin samvinna um framkvæmdir og eftirlit með bústöðunum. Nú þegar farfuglar hópast heim og eigendur vitja bústaða sinna, ríkti gleði og vor í lofti. Við skyndilegt fráfall Halldórs grúfir nú skuggi sorgar og söknuðar yfir hverfinu. Halldóri hefur verið lýst sem kletti í ólgusjó stjórnmálanna. Í okkar augum var hann traustur og bóngóður einstaklingur, sem gott var að eiga að í nágrenninu. Á erfiðum tímum held ég, að Halldór hafi notið þess best að slaka á í faðmi náttúrunnar og með því að rækta og fegra umhverfi sitt. Við Unnur sendum Sigurjónu og fjölskyldu þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur með þökk fyrir nábýlið á liðnum árum, sem aldrei bar skugga á. Genginn er drengur góður. Blessuð sé minning Halldórs Ásgrímssonar.

Unnur og Auðólfur.

Halldór Ásgrímsson var öflugur stjórnmálamaður. Hann var kjörinn alþingismaður 27 ára gamall og eftir það starfaði hann á Alþingi samtals í 31 ár, þar af sem ráðherra í 19 ár. Hann lét þess getið í fyrstu ræðu er hann hélt sem nýkjörinn þingmaður í þingflokki framsóknarmanna að þótt hann hefði ekki reynslu á við marga í þeim hópi mundi hann ekki taka við neinum fyrirmælum. Þessi athugasemd lýsti Halldóri vel. Hann myndaði sér skoðanir og lét þær í ljósi af fullri einurð. Hann vildi ráða og hafa forystu. Honum var enda sýnt mikið traust af samstarfsmönnum. Halldór var kjörinn varaformaður Framsóknarflokksins 1980 og formaður frá 1994 til 2006.

Halldór var sjávarútvegsráðherra í átta ár. Á þeim tíma stóð sjávarútvegurinn, og þar með þjóðarbúið, frammi fyrir miklum vanda. Ofveiði ógnaði viðgangi margra fiskistofna og óhjákvæmilegt var að takmarka sókn og stýra veiðunum. Halldór réðist í þetta örðuga og viðkvæma verkefni og þrátt fyrir stöðugan ófrið hefur Íslendingum tekist að ná betri og farsælli stjórn á fiskveiðum en flestum öðrum þjóðum. Alla tíð síðan Halldór lét af embætti sjávarútvegsráðherra hefur hann í vitund þjóðarinnar verið sá sem öllu réði í þeim málaflokki, sama hver setið hefur í embættinu.

Halldór var mikill skapmaður en traustur og ákaflega orðheldinn og stórheiðarlegur. Þrátt fyrir alvarlegt viðmót var hann viðkvæmur og tók nærri sér óréttmætar árásir, sem hann fór ekki varhluta af.

Halldór lagði mikla vinnu á sig sem flokksformaður og var lengst af sigursæll í kosningum. Sem utanríkisráðherra komst hann á þá skoðun að Ísland ætti að leita aðildar að Evrópusambandinu. Það var andstætt skoðunum þorra flokksmanna og varð að alvarlegu ágreiningsefni margra okkar við formanninn. Sem betur fer er sá ágreiningur ekki lengur uppi í flokknum og einhugur um að Íslandi sé betur borgið utan sambandsins.

Halldór ákvað sjálfur árið 2006 að láta af trúnaðarstörfum í íslenskum stjórnmálum. Það reyndist vera verulegt áfall, því í kjölfarið komst Hrunstjórnin til valda árið 2007 með alkunnum afleiðingum.

Halldór varð framkvæmdastjóri norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn og leysti þar mikilvæg störf vel af hendi sem vænta mátti.

Halldór var ákaflega vel giftur. Kona hans Sigurjóna Sigurðardóttir bjó honum ómetanlegt skjól hvernig sem stormar blésu.

Hann hafði mikil áhrif á ferli sínum og vann þjóð sinni, kjördæmi og heimabyggð af alhug og einbeitni. Við sem unnum með honum áratugum saman sendum Sigurjónu og afkomendum hans innilegar samúðarkveðjur og kveðjum hann með virðingu og þökk.

Sigrún Magnúsdóttir og Páll Pétursson.

Skömmu eftir að Halldór var fyrst kjörinn á þing áttum við umsjónarmenn vikulegrar síðu viðtal við hann sem birtist „Á vettvangi“ Tímans. Það voru mín fyrstu kynni af þeim kæra vini sem hér er kvaddur, einum heilsteyptasta og traustasta manni sem ég hef kynnst. Síðan eru liðin rúm fjörutíu ár.

Þegar litið er til samverustunda okkar víða um heim er mér efst í huga þakklæti fyrir góðvildina, traustið og alla skemmtunina. Halldór heimsótti okkur hjónin til Þýskalands sem sjávarútvegsráðherra og dvaldi hjá okkur í Kína með Vigdísi forseta í opinberri heimsókn 1995, þá sem utanríkisráðherra. Báðar ferðirnar urðu síðar tilefni til kímnisagna Halldórs.

Á árunum 1998-2001 vann ég náið fyrir Halldór og ferðuðumst við um allan heim. Halldór þekkti öll flug sem komu til greina og sá út tíma og flugleiðir sem aðrir vissu ekki að væru til. Flugferðirnar voru notaðar til vinnu. Halldór kynnti sér málefnin út í hörgul og kom aldrei óundirbúinn á fundi eða í viðtöl. Hann var manna skemmtilegastur í góðra vina hópi, hafði yndi af að segja frá fólki og atvikum, einkum að austan. Græskulaus húmorinn var allsráðandi. Að lokinni hverri ferð, með tilheyrandi álagi, hellti hann sér í innanlandspólitíkina eins og ekkert væri, fór í umræður á Alþingi og fékkst við flókin þjóðþrifamál.

Oft hafði verið rætt um íslenskt sendiráð í Kanada. Einu sinni sem oftar vorum við á leið heim af utanríkisráðherrafundi NATO. Í flugvélinni töluðu Lloyd Axworthy, utanríkisráðherra Kanada, og Halldór enn um málið. Í háloftunum tókust þessir vinir svo í hendur og sögðu að nú yrði að framkvæma. Gagnkvæm opnun í Ottawa og Reykjavík og tilkynningar um það samtímis myndu greiða fyrir málinu, því hvert sendiráð skilar innkomu í hagkerfi þess lands þar sem það er staðsett. Vorið 2001 opnaði svo Halldór sendiráðið í Ottawa með einni af mörgum eftirminnilegum ræðum sínum. Þaðan lágu síðar leiðir suður til New York þangað sem þau Sigurjóna komu og síðast til Washington að Halldór kom til að ræða mannréttindamál með erlendum fyrrverandi ráðherrum.

Í Grímsnesi við Álftavatn komu Halldór og Sigurjóna sér upp sumarbústað og nutu þess ríkulega að dvelja þar, fjarri skarkala og stjórnmálaátökum. Við Anna eignuðumst sumarbústað skammt frá og nutum reynslu þeirra af gróðursetningu og umgengni við náttúruna. Við eigum ótal dýrmætar minningar þaðan, af spjalli, gönguferðum og fuglaskoðun. Saman rákum við „jeppakerrufélagið“ o.fl. skemmtilegt. Það var alltaf gott veður í Grímsnesinu! Við erum þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að hittast þar í fyrrasumar. Ekki grunaði okkur að það yrði í hinsta sinn með Halldóri. En leiðtoginn í starfi og leik hefur nú kvatt langt um aldur fram og hans er sárt saknað.

Elsku Sigurjóna: Ykkar er sorgin mest og söknuðurinn. Við Anna sendum þér, dætrunum og fjölskyldunni allri innilegustu samúðarkveðjur héðan frá Winnipeg. Megi góður Guð sefa sorg ykkar en ljúfar minningar ylja ykkur um ókomin ár. Guð blessi ykkur öll og minninguna um drenginn góða.

Hjálmar W. Hannesson.

Með Halldóri Ásgrímssyni er genginn einn mætasti maður sem ég hef kynnst á lífsleiðinni.

Halldór var nýorðinn utanríkisráðherra þegar ég réðst til starfa í ráðuneyti hans í byrjun árs 1996. Hann hafði verið sjávarútvegsráðherra í átta ár þar á undan og hafði mikinn skilning á mikilvægi hafréttar- og auðlindamála fyrir Íslendinga. Við unnum afar náið saman að hagsmunagæslu á þessu sviði á næstu árum og leiddum til lykta mörg viðkvæm og krefjandi mál. Meðal annars gengum við frá samningum við nágrannaríkin um afmörkun hafsvæða sem fólu í sér að mörk íslensku efnahagslögsögunnar voru endanlega til lykta leidd. Enn fremur lögðum við grunninn að hinu stóra landgrunnsverkefni sem miðar að því að öðlast yfirráð yfir sem víðáttumestum hafsbotnssvæðum utan efnahagslögsögunnar og enn er ekki að fullu lokið.

Halldór beitti sér mjög fyrir lausn Smugudeilunnar við Noreg og Rússland, svo og fyrir því að ná samkomulagi við nágrannaríkin um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum. Honum var einkar lagið að leita sátta, lægði öldurnar fremur en að magna deilur og ávann sér virðingu fyrir það. Hann axlaði mikla ábyrgð og sýndi pólitískan kjark með framangreindum samningum. Ýmsir urðu til þess að gagnrýna síldarsamninginn harkalega en tíminn hefur leitt í ljós að hann var Íslandi mjög hagstæður og vildu nú allir þá Lilju kveðið hafa.

Það er til marks um ábyrgðartilfinningu Halldórs og brennandi áhuga á þessum brýnu hagsmunamálum Íslendinga að hann hringdi í mig frá sjúkrahúsi daginn áður hann fór í erfiðan uppskurð haustið 2002 til að fá fréttir af stöðu mála á fundi Alþjóðahvalveiðiráðsins í Cambridge. Það hafði ekki hvarflað að mér að trufla hann við þessar aðstæður en mér þótti mjög vænt um að geta glatt hann einmitt á þessu augnabliki með því að færa honum þær fréttir að á fundinum hefði ráðið, eftir þrjár tilraunir af okkar hálfu, loks viðurkennt að Ísland væri á ný aðili að því og með fyrirvara við bann ráðsins við hvalveiðum í atvinnuskyni og því óbundið af því.

Ég er Halldóri þakklátur fyrir það mikla og óbilandi traust sem hann sýndi mér á upphafsárum mínum í utanríkisþjónustunni. Samskipti okkar voru ávallt hrein og bein og gagnkvæmur trúnaður ríkti á milli okkar. Halldór var gull af manni.

Ég votta Sigurjónu og dætrunum mína dýpstu samúð. Blessuð sé minning Halldórs Ásgrímssonar.

Tómas H. Heiðar.

Leiðir okkar Halldórs lágu saman er hann varð sjávarútvegsráðherra árið 1984. Ég var þá við störf í sendiráðinu í Washington D.C. og hvalamál voru meðal þeirra mála sem íslensk stjórnvöld þurftu að sinna á alþjóðavettvangi, ekki síst gagnvart Bandaríkjunum. Þessi kynni entust til æviloka hans og með okkur tókst vinátta sem aldrei skyggði á. Halldór flutti mál sitt af yfirvegun og þekkingu og fundir með ráðherrum og embættismönnum sýndu glöggt hversu góður fulltrúi hann var fyrir þjóð okkar. Sem ráðuneytisstjóri hans í utanríkisráðuneytinu áttum við dagleg samskipti í fjögur ár. Mörg erfið og vandasöm mál voru til umfjöllunar í ráðuneytinu í tíð hans og kom sér vel að Halldórs naut við í starfi utanríkisráðherra. Hann og Sigurjóna kona hans unnu sér strax traust og virðingu starfsfólks utanríkisþjónustunnar. Halldór var vinnusamur svo af bar, setti sig vel inn í öll mál og hlífði sér hvergi við að vinna að framgangi þeirra og hagsmunagæslu okkar. Það voru oft langir vinnudagar, ferðalög og álag sem hvíldu á Halldóri á þessum árum. Síðasta ferð okkar Halldórs til útlanda var opinber heimsókn hans til Ísrael 2002 þar sem hann átti viðræður við Shamir, forsætisráðherra og Perez, utanríkisráðherra Ísrael auk þess að eiga fund með Arafat og forystumönnum Palestínumanna. Halldór hafði góðan skilning á þessum erfiðu málum og sérstaklega er minnisstæður fundur hans í þessari ferð með Abdullah, konungi, í Amman í Jórdaníu um þau efni. Ekki var allt í alvöru slegið því við Halldór tókum lagið og sungum Öxar við ána i sönghelli í Petra í Jórdaníu fyrir sjónvarpsmenn, við nokkuð góðar undirtektir.

Við hjónin bárum gæfu til að rækta vináttu okkar við Halldór og Sigurjónu. Við áttum góðar og skemmtilegar stundir á heimili þeirra og þá ekki síst í sumarbústað þeirra við Álftavatn. Þau voru afar samhent og sérlega gestrisin og nutu vinir þeirra þess í ríkum mæli. Þau hjón eignuðust þrjár mannvænlegar dætur og nutu þess að eiga góðar stundir með börnum og barnabörnum.

Nú er genginn drengur góður. Það var gott að eiga Halldór að vini og félaga og við minnumst hans með þakklæti og virðingu.

Við Heba vottum Sigurjónu og dætrunum og fjölskyldum þeirra okkar dýpstu samúð.

Helgi Ágústsson.

Leiðir mínar og Halldórs Ásgrímssonar lágu fyrst saman þegar hann kom sem sjávarútvegsráðherra til Brussel seint á níunda áratug. Ég hafði að sjálfsögðu fylgst með ferli hans í stjórnmálum en kynntist þarna í fyrsta skipti hversu yfirgripsmikil og víðtæk þekking hans á alþjóðastjórnmálum var. Hann var eindreginn talsmaður vestrænnar samvinnu og hafði mikinn metnað fyrir Íslands hönd, vildi ekki aðeins vera þiggjandi heldur einnig axla ábyrgð. Sjávarútvegur er reyndar sá vettvangur þar sem Ísland getur helst talist til hinna stóru og held ég helst að það hafi mótað nálgun Halldórs alla tíð. Ísland var aldrei smáríki frá hans bæjardyrum séð heldur ríki sem átti fullan rétt á að láta til sín taka og láta rödd sína heyrast. Aldrei fann ég fyrir snefil af minnimáttarkennd hjá honum. Hann var fastur fyrir í hagsmunagæslu fyrir Íslands hönd enda sjóaður úr erfiðum samningaviðræðum en nálgaðist viðmælendur sína á erlendum vettvangi án yfirgangs sem jafningi. Hann stóð föstum fótum í íslensku atvinnulífi og þekkti þar hvern krók og kima en hafði jafnframt yfirsýn og glögga sýn á heildarhagsmuni. Með vinnusemi, orðheldni og þekkingu vann hann sér traust samstarfsaðila heima sem erlendis og virðingu undirmanna.

Halldór var í stjórnarandstöðu þegar EES-viðræður voru leiddar til lykta og síðar til umfjöllunar á Alþingi. Hann hélt þá uppi öflugri gagnrýni. Hann var hins vegar ævinlega með hugann við það hvernig hagsmunum Íslands væri best borgið og sagði mér síðar hvernig hann hefði hagað málflutningi sínum og gagnrýni á þann veg að það gæti styrkt þáverandi utanríkisráðherra á erlendum vettvangi fremur en veikt.

Halldór hafði lengi tekið virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi frjálslyndra stjórnmálaflokka, Liberal International. Einnig var hann á heimavelli þegar kom að norrænu samstarfi. Hann átti sér umfangsmikið tengslanet víða um Evrópu og marga vini víða í áhrifastöðum. Eftir brotthvarf Austurríkis, Finnlands og Svíþjóðar til ESB og Sviss frá EES-samstarfi var EFTA-stoðin veikari en áður og vildi Halldór kanna til hlítar hvernig mætti efla stöðu Íslands innan EES en jafnframt kanna hvaða aðrir kostir gætu verið í stöðunni. Hann velti því fyrir sér hvort aðild Íslands að ESB gæti verið kostur í stöðunni en þá og því aðeins að tryggt væri að hagsmunum landsins væri ekki teflt í voða. Hann varpaði fram hugmyndum í þessa veru, m.a. á málþingi í Berlín.

Eftir að Halldór tók að sér að leiða starf norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn var hljótt um hann heima og hann lagði sig greinilega ekki eftir því að koma því á framfæri hversu miklu hann fékk þar áorkað. Ég varð hins vegar áþreifanlega var við hvað hversu mikils metinn hann var í Þýskalandi og Póllandi.

Ég minnist mikilhæfs stjórnmálaleiðtoga, öflugs ráðherra en einnig trausts vinar og góðs drengs. Sigurjónu og dætrum sendi ég mínar hugheilu samúðarkveðjur við sviplegt fráfall.

Gunnar Snorri Gunnarsson.

Ég kynntist Halldóri Ásgrímssyni fyrst þegar ég var blaðamaður og þingfréttaritari á Morgunblaðinu. Hann naut mikillar virðingar á Alþingi, hafði komið þangað inn fyrst sem ungur maður og mér fannst einkar gott að leita til hans. Síðar kynntist ég honum og Sigurjónu betur á ferð um Bandaríkin í tilefni landafundanna, þar sem virðing og hlýja einkenndi alla þeirra framkomu.

Þegar ég hóf síðar störf á vettvangi Framsóknarflokksins varð samstarf okkar mjög náið, enda Halldór formaður flokksins. Þá kynntist maður óbilandi baráttuþreki, vinnusemi og hlýju viðmóti sem gerði það að verkum að maður vildi allt fyrir hann gera.

Árin sem ég varð þess heiðurs aðnjótandi að vera aðstoðarmaður Halldórs sem utanríkisráðherra og síðar forsætisráðherra eru ógleymanleg. Þeirri sögu mun ég gera gleggri skil á öðrum vettvangi síðar, en það var einstök reynsla að vinna svo náið með margreyndum stjórnmálaleiðtoga; ferðast með honum um allt land við hvaða aðstæður sem var og spjalla við fólkið í landinu. Að ekki sé talað um ótal ferðalög til útlanda, stundum á framandi staði. Við slíkar aðstæður kynnast menn náið og til verða bönd sem halda til langrar framtíðar.

Halldór var formaður í sögufrægum stjórnmálaflokki sem byggir ekki síst á þjóðlegum hefðum og gildum, en hann var jafnframt mikill heimsborgari og alþjóðasinni. Hann hafði skýra framtíðarsýn, naut þess að hafa búið erlendis og vissi að margt er fleira merkilegt en það sem íslenskt er. En hann unni landi sínu og þjóð sömuleiðis og vildi Íslandi allt. Sagan á eftir að dæma glæstan stjórnmálaferil hans að verðleikum.

Það var áfall að heyra af veikindum hans og þegar ljóst var í hvað stefndi setti mann hljóðan. Við höfðum rætt saman aðeins fáeinum dögum áður og ætluðum að leika golf í sumar. Halldór var þá hress og sagðist njóta þess að vera til. Við leiðarlok er ég fullur þakklætis fyrir allt sem Halldór gerði fyrir mig og kenndi mér og færi Sigurjónu frænku og öðrum í fjölskyldu Halldórs og vinum hans mínar innilegustu samúðarkveðjur. Þetta kall kom allt of fljótt, en það er líkt Halldóri að vera kallaður til brýnna verkefna á öðrum vettvangi.

Guð blessi minningu Halldórs Ásgrímssonar.

Björn Ingi Hrafnsson.

Við ótímabært og skyndilegt fráfall Halldórs Ásgrímssonar leitar margt á hugann. Vel á þriðja áratug lágu leiðir okkar saman á Alþingi, ýmist sem samherjar eða í gagnstæðum fylkingum. Um árabil vorum við nágrannar í Brekkuselinu í Breiðholti og tróðum jafnvel upp saman á skemmtunum á vegum foreldrafélags Ölduselsskóla. Við slík tækifæri kynntist maður hlið á Halldóri sem annars bar allajafnan lítið á. Það var þegar hinn þungbrýndi, alvörugefni stjórnmálamaður breyttist í spaugsaman grallara sem reyndist til í ýmislegt þegar börn hans og skólinn þeirra áttu í hlut.

Mín fyrstu alvörukynni af Halldóri voru vorið 1983, í viðræðuhópi þingflokks Alþýðubandalagsins við framsóknarmenn í stjórnarmyndunarþófi sem þá stóð að loknum valdatíma hinnar sögufrægu ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsen. Mér er minnisstætt hversu fastmótaðar skoðanir Halldór hafði á því sem gera þyrfti til að ná tökum á verðbólguvanda og óstöðugleika sem þá, eins og oft bæði fyrr og síðar, hrjáði land og þjóð.

Þarna, vorið 1983, skildi leiðir með Alþýðubandalaginu og Framsóknarflokknum en þær lágu síðan saman aftur með myndun ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar haustið 1988. Sú ríkisstjórn fékk ærinn vanda í fangið. Endurfjármagna þurfti meira og minna útflutningsatvinnuvegina eftir fastgengisstefnu sem hafði siglt í strand þannig að sem sjávarútvegsráðherra hafði Halldór ærið verk að vinna. Og ekki var róðurinn léttur heldur fyrir undirritaðan, ungan og lítt reyndan, með flestar greinar landbúnaðarins í alvarlegri kreppu. Málefni atvinnuveganna og verðlags- og kjaramál voru fyrirferðarmest í glímu þessarar ríkisstjórnar og þjóðarsáttin margumtalaða innsiglaði árangurinn af því starfi, sem var ótvíræður.

Kjörtímabilið 1991 til 1995 vorum við Halldór áfram sömu megin víglínunnar sem stjórnarandstæðingar og m.a. nefndarmenn í efnahags- og skattanefnd, að hluta til undir forustu Halldórs. Þá kynntumst við líklega best á fundum og ferðalögum sem Halldór, sem formaður nefndarinnar, var duglegur við að skipuleggja. Halldór var, eins og vel er þekkt, gjörkunnugur sjávarútveginum og mátti heita að hann þekkti hverja útgerð og þá sem að henni stóðu hvar í landinu sem borið var niður. Var oft gaman að verða vitni að því þegar Halldór tók að spyrja menn út úr um reksturinn og hafði jafnvel smáatriði um þeirra hagi á hreinu.

Frá 1995 og allt þar til Halldór hvarf af vettvangi stjórnmálanna árið 2006 vorum við í gagnstæðum fylkingum og oft var tekist hressilega á. Þannig gerast nú kaupin á eyrinni í henni pólitík. Síðustu árin lágu leiðir okkar saman á norrænum vettvangi.

Það er sjónarsviptir að Halldóri Ásgrímssyni og vel hefði hann verið að því kominn eftir sitt mikla starf að eiga náðugt ævikvöld, en þannig var örlögum ekki háttað. Ég kveð hann með virðingu og votta aðstandendum samúð mína.

Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.

Þegar Halldór Ásgrímsson tók við vandasömu embætti utanríkisráðherra árið 1995, 48 ára að aldri, bjó hann þá þegar að mikilli reynslu úr ólgusjó íslenskra stjórnmála. Hann átti að baki ríflega tveggja áratuga reynslu af Alþingi, átta ára feril sem sjávarútvegsráðherra og lagði sem slíkur grunninn að því að Íslendingar byggðu upp sjálfbært og hagkvæmt fiskveiðistjórnunarkerfi sem í dag er litið til af öðrum þjóðum. Miður tíundi áratugurinn var ekki aðeins tímabil bjartsýni heldur um leið tími áskorana og skerja sem styrka hendi þurfti til að stýra framhjá. Ísland var að þokast úr skugga kalda stríðsins og með reynslu sína, visku og staðfestu í farteskinu lagði Halldór Ásgrímsson upp í farsælan leiðangur á vettvangi utanríkis- og alþjóðamála sem varði í um áratug.

Utanríkisráðherra Íslands er málsvari og ásýnd lands og þjóðar á þeim fjölmörgu sviðum sem við beitum okkur á. Rækti Halldór það hlutverk sitt ekki aðeins af alúð og festu heldur léði hann röddu Íslands á alþjóðavettvangi mikla dýpt og varðaði þannig leiðina fram á við fyrir þá sem á eftir hafa komið. Halldór var raunsæismaður og áttaði sig vel á stöðu Íslands í alþjóðakerfinu. Að sama skapi stóð hann vörð um gildi sem grundvölluðust á samstöðu með bandamönnum okkar, mannréttindum, lýðræði og réttarríkinu og stuðningi við frelsisbaráttu þeirra sem undirokaðir hafa verið. Eystrasaltsríkin höfðu nýlega kastað af sér oki fortíðarinnar, á Balkanskaga voru djúp sár, ríki Mið- og Austur-Evrópu voru að fóta sig í gerbreyttri heimsmynd og sem utanríkisráðherra Íslands var Halldór Ásgrímsson virkur þátttakandi í að móta nýja Evrópu. Hann taldi mikilvægt fyrir íslenska hagsmuni að tengjast enn frekar mörkuðum Evrópu en einnig lagði hann áherslu á að opna Ísland fyrir samskiptum og viðskiptum langt utan Evrópu eins og Japan, Kína og Kanada. Víðsýni einkenndi heimssýn hans.

Það gefur augaleið hversu vandasamt það er að vera oddviti stjórnarflokks og ráðherra utanríkismála á sama tíma. Það er því ríkulegur vitnisburður um stjórnvisku og reynslu hversu lengi og farsællega Halldór Ásgrímsson sinnti þessum hlutverkum áður en hann tók við stjórnartaumunum í forsætisráðuneytinu. Líklega hefur það verið jarðtenging Halldórs sem gerði hann að svo farsælum og mikilvægum stjórnmálamanni. Hann lagði við hlustir og missti aldrei sjónar á því hvað var mikilvægt. Þannig gaf Halldór lungann úr ævi sinni í uppbyggingu samfélagsins og hafði ætíð trú á að hann væri að vinna landi sínu gagn.

Með Halldóri Ásgrímssyni er genginn farsæll stjórnmálaforingi sem setti mark sitt á samtímann og varðaði veginn fram á við. Votta ég eiginkonu hans og dætrum virðingu mína og samúð og færi Halldóri þakkir fyrir mikilvæg störf fyrir land og þjóð.

Gunnar Bragi Sveinsson.

Við óvænt fráfall Halldórs Ásgrímssonar vil ég í örfáum orðum minnast hans og hans rösklega framgangs við öflun fjár til að byggja miðstöð norrænnar menningar og lista í New York-borg. Tildrögin voru þau, að um miðjan 10. áratug síðustu aldar hófu nokkrir fulltrúar Íslands í stjórn American Scandinavian Foundation máls á því að stofnunin yrði að minnast á veglegan hátt, að árið 2000 yrðu 1000 ár liðin frá landafundum norrænna manna í Vesturheimi. Mörgum hugmyndum skaut upp, en lokaniðurstaðan var sú að byggja skyldi af stórhug nýja norræna menningarmiðstöð í New York, sem skyldi nefnd Scandinavia House: The Nordic Center in America. Ljóst var frá byrjun að slíkt mundi kosta ærið fé, sem að mestu mundi koma frá fyrirtækjum og einstaklingum, en einnig frá sölu húss í eigu stofnunarinnar og einhverjum framlögum frá ríkisstjórnum Norðurlanda. Vegna bókmenntahefðar Íslendinga töldum við fulltrúar Íslands að við ættum að stefna að öflun nægilegs fjár til að nefna bókasafn hins nýja húss eftir merkum Íslendingi. Skömmu eftir að Halldór varð utanríkisráðherra átti ég fund með honum í New York á skrifstofu íslensku sendinefndarinnar hjá Sameinuðu þjóðunum. Ég bar upp erindi mitt og svaraði spurningum hans eftir bestu getu. Ekki gat ég ráðið af svip hans eða öðrum viðbrögðum hvernig honum leist á málið. Stuttu seinna, þegar Halldór hafði borið málið undir samstarfsmenn sína, fékk ég jákvætt svar hans. Ísland, fyrst Norðurlandaþjóða, mundi leggja fram 250.000 bandaríkjadali til byggingar hússins. Halldór lét ekki þar við sitja, heldur talaði máli stofnunarinnar við ráðamenn hinna norrænu þjóðanna. Nokkru síðar samþykktu þær hver um sig 500.000 bandaríkjadollara fjárveitingu, samtals upphæð sem greiddi u.þ.b. 15 prósent af heildarkostnaði hússins. Það má skjóta því inn að þótt framlög Íslendinga væru hlutfallslega lítil átti engin önnur Norðurlandaþjóð jafnmarga styrktaraðila og þeirra framlag nægði til að nefna bókasafn hússins eftir Halldóri Laxness. Halldóri Ásgrímssyni verður seint fullþakkað fyrir forystu sína meðal ráðamanna Norðurlandaþjóðanna allra að svo varanlegur minnisvarði um landafundi norrænna manna var reistur í Vesturheimi. Fulltrúar Íslands hjá American Scandinavian Foundation senda Sigurjónu, eftirlifandi eiginkonu Halldórs, börnum þeirra og öðrum afkomendum innilegar samúðarkveðjur.

Kristján Tómas Ragnarsson.

Halldór Ásgrímsson verður samferðamönnum sínum minnisstæður fyrir góða mannkosti, skarpskyggni og góða greind, vinnusemi og stefnufestu, en síðast en ekki síst hlýtt viðmót, traust og tryggð. Þeir sem með Halldóri störfuðu reiddu sig á hans orð, gátu treyst því að þau stóðu.

Fyrstu kynni mín af Halldóri voru þegar hann var ungur á Alþingi og undirritaður vann við hvalrannsóknir og málefni hvalveiða voru hitamál á Alþingi. Þar var Halldór hluti af naumum meirihluta þingmanna, sem töldu að ekki ætti að mótmæla ákvörðun Alþjóðahvalveiðiráðsins um tímabundna stöðvun veiða í atvinnuskyni. Nokkrum mánuðum síðar var Halldóri falið að leiða ráðuneyti sjávarútvegsmála. Á sama tíma kom í ljós það sem sumir höfðu óttast að hinni tímabundnu veiðistöðvun var ætlað að vara um ókomin ár. Halldór áttaði sig fljótt á þessu og taldi að þar með gengi þessi ákvörðun gegn þeirri almennu stefnu Íslendinga að nýta auðlindir með sjálfbærum hætti. Er Halldór var nýtekinn við ráðherraembætti og kom að heimsækja starfsfólk Hafrannsóknastofnunar í byrjun árs 1983, taldi hann að hvalveiðimálin þyrfti að endurskoða. Upp frá þessu urðum við Halldór nánir samverkamenn og síðar traustir vinir enda um árabil að vinna saman að málefnum hafsins innanlands sem utan.

Skemmtilegar minningar koma í hugann um samveruna með Halldóri, þar sem leikurinn barst m.a. inn í helgustu vé höfuðborgar Bandaríkja Norður-Ameríku. Þar gátum við býsnast yfir ofríki heimamanna í deiluefnum, en tókum því raunar létt, við ættum eftir að fá okkur væna steik að kveldi og það væri nú mikilvægt líka. Þótt unnið væri mikið var líka notið góðra samvista og hvílst frá amstrinu.

Halldór Ásgrímsson var sjávarútvegsráðherra um átta ára skeið og hafði ávallt ríkan skilning á mikilvægi traustra fiskirannsókna og sýndi það margvíslega í verki. Þegar hann tók við ráðherraembætti var staða sjávarútvegs afar veik, fiskistofnar ofveiddir og í raun ekki mjög fýsilegt að starfa í þessari atvinnugrein. Halldór vissi að gera þyrfti grundvallarbreytingu á stjórn veiðanna þannig að veiðar yrðu takmarkaðar við veiðiþol fiskistofnanna og að Hafrannsóknastofnun þyrfti þar að gegna lykilhlutverki, góð vísindi væru undirstaða öflugs sjávarútvegs.

Árið 1996 voru fiskveiðimál okkar á alþjóðavettvangi í nokkru uppnámi þar sem deilur um veiðar Íslendinga í Barentshafi og stjórn síldveiða utan lögsögu ríkja setti samstarf nágrannaþjóða í uppnám. Þá var Halldór kominn til starfa í utanríkisráðuneytinu og hafði áhyggjur af þróun mála. Átti ég þess kost að vinna á ný náið með Halldóri að lausn þessara mála sem var í senn spennandi og skemmtilegt verkefni. Undir lok dags lágu á borðinu lausnir í erfiðum ágreiningsmálum, sem ekki síst komu til vegna traustsins sem Halldór naut erlendis, en líka vegna þess andrúmslofts sem hann skapaði sínum samverkamönnum – allir gátu reitt sig á Halldór.

Nú kveðjum við góðan dreng alltof snemma. Sigurjónu og fjölskyldu sendum við Helga okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Jóhann Sigurjónsson.

Þollyndi var ein af dyggðum Halldórs Ásgrímssonar. En í honum bjó líka atorka, ráðdeild og framsýni. Af mælgi var hann snauður en af drengskap ríkur.

Ekki er of djúpt í árinni tekið þótt sagt sé að hann hafi verið í hópi fárra manna sem í senn voru jafnir að áhrifum og heilindum. Það er ekki öllum gefið að flétta saman áhrif í stjórnmálum og falsleysi. En ég hygg að flestir þeir sem hann átti í skiptum við hafi fundið að þetta voru eiginleikar hans, hvort heldur þeir voru meðhaldsmenn eða móthaldsmenn.

Fyrsta samtal okkar er mér enn í fersku minni. Við vorum þá báðir á þrítugsaldri; hann nýsestur á Alþingi og ég rétt tekinn við ritstjórn á dagblaði. Hann lyfti símtóli til að andmæla gagnrýni í ritstjórnargrein á þingmál sem hann hafði flutt. Ég keypti rök hans. Þau voru einfaldlega þyngri en mín.

Í þessu samtali varð til lögmál sem réð öllu um skipti okkar æ síðan. Fyrir okkur átti að liggja að sitja saman í þremur ríkisstjórnum. Og báðir þurftum við að glíma við hinn af bekkjum stjórnarandstöðunnar. En það lýsir Halldóri Ásgrímssyni best að það breytti ekki eðli samskiptanna hvar við sátum í það og það sinnið.

Halldór Ásgrímsson markaði djúp spor á ferli sínum. Það er öðru fremur fyrir þrautseigju hans og málafylgju á Alþingi að sjávarútvegurinn stendur nú fyrst, hundrað árum eftir að hann ruddi sér til rúms í þjóðarbúskapnum, svo sterkum fótum að landsmenn geta með réttu kallað eftir auðlindaarði.

Hann skildi líka gildi þess að fámenn þjóð kæmi ár sinni fyrir borð í alþjóðasamfélaginu. Þar réð sýn til langs tíma. En umfram allt annað sá hann styrk Íslands liggja í staðfestu, trausti og heilindum. Metnaður hans stóð til þess að Ísland gæti staðið jafnfætis öðrum og stærri bandalagsþjóðum og borið sömu skyldur og notið sömu réttinda.

Ísland átti ekki í huga hans að festast í gömlu fari heldur sækja fram.

Á löngum tíma á Alþingi og í ríkisstjórn kynntist Halldór Ásgrímsson hvoru tveggja að standa sólar megin og skugga megin í almenningsálitinu. Undan því komast fáir og síst þeir sem eitthvað munar um. Hann kaus svo að ganga frá átakavettvangi stjórnmálanna nokkru fyrr en áform stóðu til.

En það sem gerði hann að meiri manni var sú lyndiseinkunn að freistast aldrei til að fara hjáleið um eigin orð. Orðheldnin var hans mikla eign. Hún var eins og stöpull sem lyfti honum yfir margan samtímamanninn.

Halldór Ásgrímsson gat verið fullsæmdur af því sem hann áorkaði. Hann kvaddi stjórnmálin skjótt og óvænt. Nú hefur hann kvatt fyrir fullt og allt skjótt og óvænt. Hann kveður með reisn sakir eðliskosta sinna og málafylgju.

Þeir sem næst honum standa eru ekki einir í tómarúmi. Það eru líka svo ótal margir aðrir sem voru samferða honum um lengri eða skemmri veg. Þakklætið er efst í huga þegar leiðir skilja. En því fylgir sú von að tómarúmið megi fyllast af þeim mannkostum sem í honum bjuggu svo ríkulega.

Þorsteinn Pálsson.

Samhugur, samkennd og vinátta eru aðalsmerki og einkenni margra þeirra hópa sem brautskráðust frá Samvinnuskólanum Bifröst á sínum tíma. Þessi félagsandi einkennir enn nemendur og skólastarf á Bifröst. Bekkjarfélagar hittast reglulega, rifja upp gömul kynni og treysta vináttubönd. Við sem gengum glöð út í vorið 1. maí 1964, og um leið út í atvinnulífið, höfðum átt góða daga um veturinn og m.a. kynnst nýjum skólafélögum sem halda myndu Bifrastarkyndlinum á lofti. Einn þeirra var ungur Hornfirðingur, Halldór Ásgrímsson.

Samverustund áttum við bekkjarfélagarnir 19. maí sl., en að morgni þess dags hafði okkur borist sú sorgarfregn að þessi mæti skólabróðir okkar hefði látist kvöldið áður. Stundin, sem boðuð hafði verið löngu áður, varð minningarstund og við 15, sem þarna hittumst, risum úr sætum og minntumst góðs samferðamanns. Jafnframt hugsuðum við til fallinna skólafélaga, fjögurra úr okkar bekk og nú níu úr bekk Halldórs.

Leiðir okkar Halldórs lágu alloft saman eftir Bifrastardvölina. Ber þar einna hæst ár hans í dómsmálaráðuneytinu, en þá heyrðu umferðarmálefni til þess ágæta ráðuneytis. Öll samskipti okkar voru með miklum ágætum og á ég honum mikið að þakka. Hann gat verið maður gleðinnar í góðra vina hópi og þá hlið þekktum við skólasystkin hans. Þess vegna gat ég aldrei fellt mig við þá mynd sem þekktur grínistahópur dró upp af honum, fannst raunar jaðra við einelti. En þátttaka í stjórnmálum er víst ekki alltaf dans á rósum.

Ég minnist góðs skólabróður og vinar með mikilli virðingu og eftirsjá.

Kæra Sigurjóna og fjölskylda ykkar öll. Innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra.

Óli H. Þórðarson.

„Við viljum ekki missa þig, en ég heyri á þér að þú ert búinn að gera upp hug þinn. Og ég trúi því að maður eigi aldrei að reyna að telja ungum manni hughvarf, þegar hann er búinn að gera upp hug sinn.“ Svona svaraði Halldór Ásgrímsson mér, þegar ég ungur embættismaður óskaði eftir að fá leyfi frá störfum í utanríkisþjónustunni til að láta reyna á aðra drauma. Svarið lýsir honum vel: Einfalt, skýrt og sanngjarnt. Maður vissi alltaf hvar maður hafði Halldór Ásgrímsson.

Ég kynntist Halldóri sem embættismaður og starfaði fyrir hann sem slíkur og sem ráðgjafi árum saman. Það var hreinasta unun að vinna fyrir hann. Halldór kom sér beint að efninu, sóttist eftir faglegri ráðgjöf og nálgaðist mál með opinn huga. Eftir að hann gerði upp hug sinn um leiðina áfram veitti hann manni umboð til verka og því umboði fékk síðan ekkert haggað. Það þýddi ekkert að róta í Halldóri og reyna að fá hann til að afneita verkamanninum eða svipta hann umboði. Ef hann treysti manni, þá var það bara þannig.

Þótt við Halldór værum ekki samskipa á vettvangi stjórnmálanna, fóru skoðanir okkar saman í ýmsum framfaramálum. Þar bar Evrópumálin hæst. Það var gaman að vinna með Halldóri að þeim málum. Halldór var frá upphafi ráðherratíðar sinnar í utanríkisráðuneytinu með opinn huga í Evrópumálum og setti sér að nýta til fulls allt svigrúm til að styrkja stöðu Íslands innan Evrópusamstarfsins, án aðildar að ESB. Honum varð fljótt ljóst að það svigrúm væri ekki nægjanlegt. Hann var metnaðarmaður fyrir Íslands hönd og vildi að Ísland væri fullgildur þátttakandi í samstarfi Evrópuþjóða, en var líka raunsær svo af bar. Þess vegna tók hann að leita lausna á þeim vandkvæðum sem hann sá við fulla aðild og þróaði til dæmis hugmyndina um lausn í sjávarútvegsmálum sem hann setti fram í hinni frægu Berlínarræðu árið 2002. Enn þann dag í dag er sú aðferðafræði grunnurinn að hugmyndum okkar áhugamanna um aðild Íslands að ESB um farsæla lausn í aðildarsamningum um sjávarútveg. Árið 2006 setti hann fram þann spádóm að Ísland yrði fullgildur aðili að ESB árið 2015. Ég man að mér þótti það þá heldur hægfara og metnaðarlaus spásýn. Hún hefur reynst allt annað en það.

Halldór var bráðskemmtilegur maður í viðkynningu, þvert á þá ímynd sem þjóðin hafði af honum. Hann kunni urmul sagna af fjölskyldu sinni og frændgarði fyrir austan og hafði lag á að nota þær til að sýna hliðstæður eða andstæður við viðfangsefni dagsins. Hann var mikill fjölskyldumaður og það fór ekki á milli mála að Sigurjóna og dæturnar voru honum afar kærar. Mikill harmur er nú kveðinn að þeim og fjölskyldunni allri við skyndilegt fráfall hans.

Ég kveð með hlýju Halldór Ásgrímsson og þakka kynnin og allt það traust og þau tækifæri sem hann veitti mér. Við Sigrún vottum Sigurjónu og fjölskyldunni allri okkar dýpstu samúð.

Fyrir hönd Samfylkingarinnar þakka ég að leiðarlokum samfylgdina með Halldóri Ásgrímssyni í áratugastarfi á vettvangi íslenskra stjórnmála.

Árni Páll Árnason.

Genginn er mætur maður sem hafði gríðarlega þekkingu á íslensku samfélagi, maður sem unni þjóð sinni og varði nær allri ævi sinni til starfa í hennar þágu. Halldór Ásgrímsson var okkur þremenningunum afar kær. Ung byrjuðum við að starfa í stjórnmálum og sýndi Halldór starfi ungs fólks í flokknum ávallt áhuga, virðingu og mikið liðsinni. Fyrir okkur, unga þingmenn, var gott að leita til hans því hann var í senn ráðagóður auk þess að vera vel að sér um ótrúlega mörg mál. Halldór var orðheldinn maður og því naut hann trausts langt út fyrir raðir síns flokks. Ef hann lofaði einhverju þá varð því ekki breytt, það vissu allir. Hann var drengskaparmaður.

Halldór var maður morgundagsins, ekki gærdagsins. Á þessari stundu er þakklæti efst í huga okkar, þakklæti fyrir að hafa starfað með Halldóri og fyrir að hafa átt hann að sem vin og félaga eftir að leiðir okkar lágu í mismunandi áttir. Orðin sem lýsa Halldóri best í okkar huga eru traust, heiðarleiki og vinátta. Við vottum Sigurjónu, Helgu, Guðrúnu, Írisi og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúð.

Birkir Jón Jónsson, Dagný

Jónsdóttir, Sæunn Stefánsdóttir.

Sumarið 1965 hóf ég, ásamt Heiðrúnu eiginkonu minni, störf á skrifstofu Kaupfélags Austur-Skaftfellinga á Höfn í Hornafirði. Meðal samstarfsmanna okkar þar var ungur maður, sem lokið hafði námi frá Samvinnuskólanum í Bifröst þá um vorið. Þetta var Halldór Ásgrímsson, en hann vann á skrifstofu kaupfélagsins um tíma þetta sumar. Þarna hófust kynni okkar, sem áttu eftir að leiða til góðra samskipta og samstarfs á ýmsum sviðum næstu áratugina.

Þegar kosningar til Alþingis voru boðaðar vorið 1974 lágu fyrir yfirlýsingar tveggja reyndra þingmanna Framsóknarflokksins í Austurlandskjördæmi, þeirra Eysteins Jónssonar og Páls Þorsteinssonar, að þeir mundu ekki oftar gefa kost á sér í framboð. Austur- Skaftfellingum var mikið í mun að geta boðið fram fulltrúa úr sýslunni í stað Páls Þorsteinssonar. Leitað var til Halldórs um að hann tæki sæti Páls á lista flokksins. Mér er í minni fundur Kjördæmasambands framsóknarmanna, sem haldinn var í Hamraborg í Berufirði, þar sem framboðslistinn skyldi ákveðinn. Þar hélt hinn ungi frambjóðandi skörulega ræðu og hreif fundarmenn með sér. Enginn var í vafa um að vel hefði tekist til um val á fulltrúa úr Austur-Skaftafellssýslu á listann. Ég er stoltur af því að hafa þá og æ síðan fengið að vera í hópi stuðningsmanna Halldórs Ásgrímssonar.

Í alþingiskosningunum 1978 fékk Framsóknarflokkurinn slæma útkomu og Halldór náði ekki kjöri. Það var honum nokkurt áfall, en við kosningar í desember 1979 náði hann aftur kjöri og æ síðan þar til hann sagði af sér þingmennsku sumarið 2006.

Þegar það kom í hlut Halldórs að taka að sér embætti sjávarútvegsráðherra í maí 1983 steðjaði mikill vandi að íslenskum sjávarútvegi. Við blasti allt of mikil sókn í fiskistofnana, stór fiskiskipafloti og taprekstur í greininni. Ekki lék vafi á að nauðsynlegt var að bregðast við af festu og öryggi. Kallað var til samráðs allra helstu hagsmunaaðila og á grundvelli þess samráðs voru sett fyrstu lög um fiskveiðistjórnunina og lagður grundvöllur að því kerfi sem síðan hefur verið þróað og leitt til eflingar fiskistofnanna og bættrar afkomu í sjávarútvegi. Fólkinu í landinu og atvinnulífinu til hagsbóta. Flestir viðurkenna að það fiskveiðistjórnunarkerfi sem hér er við lýði sé með því besta og árangursríkasta sem þekkist.

Þarna komu fram allir bestu eiginleikar Halldórs sem stjórnmálamanns. Vandaður undirbúningur, skýr framtíðarsýn, stefnufesta, örugg eftirfylgni, heiðarleiki og orðheldni. Þessir eiginleikar hans reyndust honum dýrmætir á rösklega þrjátíu ára stjórnmálaferli og í mínum huga leikur ekki vafi á því að hans mun í framtíðinni verða minnst sem eins og mikilhæfustu stjórnmálamönnum Íslands á tuttugustu öldinni.

Við kveðjum í dag mann, sem lagði á farsælum stjórnmálaferli sínum áherslu á bættan hag lands og þjóðar og hafði jafnan í huga heildarhagsmuni umfram sérhagsmuni, en síst af öllu eigin hagsmuni.

Við Heiðrún minnumst Halldórs með hlýhug og virðingu og sendum Sigurjónu, dætrum þeirra og fjölskyldum innilegar samúðarkveðjur.

Hermann Hansson.

Að föstudagsmorgni hringdi ég í símanúmer Halldórs Ásgrímssonar – númerið fékk ég hjá Atla. Ég ætlaði að biðja Halldór að leiðbeina mér um stuðning við menningaratriði norrænna þjóða á heimsmóti íslenskra hesta sem verður í Herning, Danmörku, næsta sumar. Dóttir Halldórs kom í símann og þá kom í ljós hvað gerst hafði; hjartaáfall. Halldór í hættu. Þessa sögu segi ég hér í kveðjugrein til marks um það að við reiknuðum alltaf hvor með öðrum ef eitthvað þurfti að gera af þessu tagi; við kunnum báðir á kerfið hvor með sínum hætti. Þannig varð ég var við öflugan stuðning Halldórs við þýðingar og útgáfu Íslendingasagnanna á norrænum málum.

Nú voru þau nýlega komin heim, Sigurjóna og Halldór, eftir alllanga útivist og pólitísk sviptingaár sem voru þeim hjónum ekki alltaf auðveld. Ég hitti þau í Hörpu fyrir stuttu; þau báru það með sér að þau ætluðu að fara að finna tíma til að lifa lífinu á sínum forsendum. Á snöggu augabragði af skorið verður fljótt, kallið varð grimmt og harkalegt. Með þessum línum flytjum við Guðrún Sigurjónu og fjölskyldu þeirra Halldórs samúðarkveðjur.

Við Halldór vissum hvor af öðrum í áratugi. Fyrst á alþingi þar sem við vorum eiginlega aldrei sammála í stórum málum. Ég var talsmaður Alþýðubandalagsins, hann Framsóknarflokksins. Sátum saman í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar 1988-1991. Ætli við höfum ekki verið endamennirnir í þeirri stjórn, ekki vegna þess að annar væri langt til hægri og hinn langt til vinstri, heldur vegna þess, að mati þeirra sem fylgdust með okkur, að annar var talinn stundum nokkuð róttækur en hinn full-jarðbundinn. Halldór hafði sem stjórnmálamaður þrjú megineinkenni: Hann var að austan og fylgdi hagsmunum byggðarlagsins eftir. Í annan stað var hann miðjumaður og leitaði alltaf lausna ýmist til hægri eða vinstri en alltaf lausna. Í þriðja lagi var hægt að treysta samningum við hann. Það er eiginleiki sem er mikilvægur í samskiptum í stjórnmálum, einnig við þá sem þú ert algerlega ósammála.

Svo skipaði hann mig sendiherra beint úr stjórnarandstöðunni um leið og ég leitaði eftir því. Þar áttum við heilt samstarf uns hann lét af starfi ráðherra. Þá vildi svo til að hann flutti sig um set til Kaupmannahafnar; þar hittumst við í embættisnafni aftur og aftur. Og Sigurjóna. Þar vorum við öll í sama flokki, Íslandsflokknum.

Margt það sem Halldór tók sér fyrir hendur á lífsleiðinni sem stjórnmálamaður var umdeilt, að ekki sé meira sagt. Að eitthvað sé umdeilt þýðir að margir eru sáttir en sumir ósáttir. En það er orðheldnin sem ég vil hugsa um á þessari kveðjustundu.

Það er ekki slæmur minnisvarði.

Svavar Gestsson.

Halldór var einstakur maður. Hann kom víða við á sínum farsæla stjórnmálaferli og var einn áhrifamesti stjórnmálamaður á Íslandi um langt skeið. Hann hafði yfirgripsmikla þekkingu á þjóðmálum, atvinnu-, skatta- og efnahagsmálun og var eindæma talnaglöggur og fljótur að átta sig á aðalatriðum og því sem máli skipti.

Ungur kynntist Halldór samvinnuhreyfingunni og gekk í Samvinnuskólann. Kom sá bakgrunnur glöggt í ljós í störfum hans og viðhorfum. Hann lagði áherslu á samvinnu manna, sveitarfélaga, landshluta, stjórnmálaflokka, ríkja á Norðurlöndum, á norðurslóðum, í vestrænni samvinnu, EES, ESB og Sameinuðu þjóðanna – hann var víðsýnn alþjóðasinni og um leið samvinnumaður í orðsins fyllstu merkingu.

Vinnusemi var Halldóri í blóð borin. Hann var afkastamikill og ósérhlífinn og samhliða réttsýnn og óeigingjarn. Ætíð unnt að teysta orðum hans og athöfnum. Hann var rólyndur, raunsær og yfirvegaður þegar kom að töku ákvarðana, tamdi sér sjálfstæða rökhugsun, vó og mat erfið úrlausnarefni frá ólíkum sjónarhornum, aflaði álita annarra og var óragur við að taka erfiða ákvörðun þegar hann sjálfur var sannfærður um að hún væri rétt og unnt að standa við hana og verja með sanngjörnum rökum og sjónarmiðum, þó vitað væri stundum fyrirfram að umdeild yrði. Nægir að nefna innleiðingu kvótakerfisins í sjávarútvegi og byggingu Kárahnjúkavirkjunar, sem Halldór á stóran þátt í, en hvorutveggja hefur reynst þjóðinni vel. Hann tók óvæginni og stundum ósanngjarnri gagnrýni með ró og tómlæti og fyrirgaf. Hann var fastur fyrir en gætti þess að haga máli sínu með málefnalegum, hófsömum og upplýsandi hætti, þrátt fyrir yfirburði á viðkomandi sviði í rökræðum. Hann var maður góðra gilda og þjóðlegra íslenskra hefða, fastheldinn um sumt en um leið frjálslyndur, bjartsýnn og áræðinn um mál sem honum fannst horfa til bættrar framtíðar fyrir þjóðina.

Þó að Halldór þætti alvörugefinn var hann á góðum stundum og þegar við átti skemmtilegur sögumaður. Sagði sögur, frá Vopnafirði, Höfn, Reykjavík og landinu öllu, Noregi og Danmörku, ferðum og fundum um allan heim, fjalla- og gönguferðum, um menn og málefni, sögu og náttúru landsins, menningu, listir og skáldskap – ljúfar skemmti- og gleðisögur sem allir höfðu unun og gaman af sem á hlýddu. Gætti þess vel að halla ekki á neinn. Á slíkum stundum var hann hrókur alls fagnaðar.

Þrátt fyrir mikið annríki var Halldór ræktarsamur við vini sína og umhugað um velferð þeirra, sérstaklega ef um erfiðleika eða veikindi var að ræða. Kunni hann og vissi hve mikilvægt er að virða vini sína, heyra í þeim, hitta þá og spjalla, þó að ekki gæfist alltaf langur tími vegna anna, og rækta með því vináttuna rétt. Nefndi, ef ekki gafst tími til að hitta hann eða heyra á leið um Kaupmannahöfn, þegar hann starfaði þar, að því yrðu vinir að sinna. Sannur og traustur vinur sem naut á móti virðingar og stuðnings vina sinna.

Það eru forréttindi að hafa fengið að kynnast manni eins og Halldóri á lífsleiðinni og eiga hann sem vin. Fyrir það verður ekki fullþakkað.

Jón Sveinsson.

Fregnin um veikindi og í kjölfarið andlát Halldórs Ásgrímssonar kom sannarlega eins og þruma úr heiðskíru lofti. Aðeins nokkrum dögum fyrr höfðum við hist í góðra vina hópi. Halldór var venju fremur kátur og lék raunar á als oddi. Síst af öllu hefði mig grunað að fundir okkar yrðu ekki fleiri.

Ég kynntist Halldóri lauslega þegar ég byrjaði að starfa fyrir Framsóknarflokkinn í kosningabaráttunni 1995. Hann var þá nýorðinn formaður flokksins og voru þetta fyrstu alþingiskosningarnar sem hann leiddi flokkinn gegnum. Hann kom mér fyrir sjónir sem afburða dugmikill, réttsýnn og kröftugur leiðtogi, sem hann sannarlega var.

Kynni mín af honum jukust svo ár frá ári næstu árin á eftir og samskiptin voru töluverð, á vettvangi flokksins. Seinna, eða haustið 1999, skipuðust mál með þeim hætti að ég réðst til starfa sem aðstoðarmaður Halldórs í utanríkisráðuneytinu, síðar störfuðum við saman í flokksstarfinu þar sem hann var formaður en ég framkvæmdastjóri og enn síðar í ríkisstjórn.

Samstarf okkar var alla tíð traust og Halldór reyndist hafa þann mann að geyma sem mér virtist í upphafi kynna okkar. Hann var traustur og orðheldinn, ósérhlífinn og vandvirkur. Hann var bæði framsýnn og víðsýnn og aldrei varð ég var við annað en hann bæri hag þjóðar sinnar fyrir brjósti, umfram allt.

Halldór var venju fremur vandvirkur maður sem gat sökkt sér niður í smæstu atriði þeirra viðfangsefna sem uppi voru á hverjum tíma. Hann vílaði heldur ekki fyrir sér að „taka slaginn“ ef svo bar undir. Best virtist mér honum líða á krefjandi fundum þar sem hann tókst á um málefni, færði rök sín fram af mikilli festu og ákveðni.

Hann var maður ákvarðana og framkvæmda. Einhverju sinni sagði hann við mig af slíku tilefni í föðurlegum tón: „Það þýðir ekkert að segja að af tveimur slæmum kostum velji maður hvorugan. Annan hvorn þarf að velja og standa með því.“

Þannig var Halldór í mínum huga. Maður sem gerði sér far um að skilja viðfangsefni sín á hverjum tíma í smáatriðum, undirbjó sig afar vel fyrir hvert það verkefni sem hann tókst á hendur, tók þær ákvarðanir sem hann taldi réttastar án þess að kvíða viðbrögðunum og fylgdi sannfæringu sinni alla leið.

Ég fann oft og veit að Halldór unni fjölskyldu sinni mjög. Það var einnig greinilegt að nú, þegar starfsævinni var að ljúka, hlakkaði hann til að njóta aukinna samvista við hana. En enginn ræður sínum næturstað og sannast það nú. Sorgin sem kveður dyra hjá Sigurjónu, dætrunum og fjölskyldum þeirra er mikil. Hugur okkar er hjá ykkur.

Minningin um traustan og trúan vin lifir í huga okkar sem fengum að vera Halldóri samferða um skeið.

Árni Magnússon.

Við skyndilegt og ótímabært fráfall Halldórs Ásgrímssonar þykir mér hlýða að flytja fáein kveðju- og þakkarorð. Á tæpu ári hafa þrír af þingmönnum Framsóknarflokksins eystra sem sátu um leið og ég á Alþingi horfið yfir móðuna miklu. Að þeim er sönn eftirsjá.

Við Halldór sátum á Alþingi saman í á annan áratug og eðlilega voru samskipti okkar mikil og þeirra minnist ég í mætri þökk. Við þingmenn Austurlands héldum sameiginlega fundi um hagsmunamál okkar kjördæmis, nokkuð sem þeir Eysteinn og Lúðvík komu á við kjördæmabreytinguna 1959. Það var góður vettvangur og þar lagði Halldór margt ágætt til mála og einu mátti treysta: Eftir að hafa oft tekist á um málefnin var gjarnan komist að samkomulagi, þó menn væru missáttir eins og gengur og með gleði get ég vottað um það að ævinlega stóð Halldór við sitt, hans loforð var loforð. Á ferðum okkar um kjördæmið, fjórtán funda lota, fór ekki hjá því að menn kynntust bærilega, þó fundina einkenndu allmikil átök, þar var Halldór hinn bezti ferðafélagi og sagði bæði skemmtilega frá og lumaði á smellnum tilsvörum, gat verið léttfyndinn ef því var að skipta, græskulaus með öllu. Hann var fastur fyrir eins og alþjóð veit, fylgdi sínum málum vel eftir, en þó oft hvessti á fundum var Halldór alltaf málefnalegur og það kunni ég vel að meta. Hann var skapfestumaður og rökfastur vel í allri málafylgju svo sem öll þjóðmálaafskipti hans sanna, enda þar lengi í forystusveit fyrir sinn flokk.

Halldór var hlýr í eðli sínu og ætíð gott að hitta á hann í dagsins önn, síðast nú í fyrrasumar. Með þökk fyrir góð kynni kveð ég Halldór Ásgrímsson og við Hanna færum konu hans Sigurjónu einlægar samúðarkveðjur. Það er hryggilegt að Halldór skyldi ekki fá notið efri ára svo sem hann átti skilið. Blessuð sé minning hans.

Helgi Seljan.

„Þú veist að þú getur alltaf leitað til mín – ef þú vilt. Það er of lítið spjallað“, sagði Halldór Ásgrímsson við mig í upphafi árs 2004 eða stuttu eftir minn fyrsta ríkisstjórnarfund. Og það var reyndar hárrétt honum, samtöl geta verið dýrmæt og ráð þeirra eldri og reyndari eru oft þakkarverð. Það var gott að vinna með Halldóri þau ár sem við sátum saman á þingi og í ríkisstjórn. Samskiptin einkenndust af hlýju, virðingu og ánægjulegu glensi.

Hann tók mér opnum örmum í þau skipti sem ég leitaði til hans með ýmis mál, hvort sem þau voru á sviði mennta- og menningarmála, kjördæmisins eða annarra verkefnasviða.

Þegar Halldór settist í stól forsætisráðherra gerði hann sér far um að kynna sér helstu mál sem voru á dagskrá þess ráðuneytis sem ég bar ábyrgð á án þess að vera með afskiptasemi. Eftirminnilegur er fundur okkar í Ráðherrabústaðnum þar sem við fórum vítt og breitt yfir sviðið. Þar á meðal var stytting námstíma til stúdentsprófs sem Halldór sýndi verulegan áhuga. Sagðist hann aldrei hafa skilið af hverju við Íslendingar gætum ekki klárað stúdentsprófið á sama tíma og vinaþjóðir okkar. Hvatti hann mig áfram með málið sem á endanum lauk með því að Alþingi samþykkti þvert á flokka og eftir víðtækt samráð heildstæða skólalöggjöf frá leikskóla til háskóla. Fyrir mig var það dýrmætt fyrir framgang málsins að finna fyrir einlægum stuðningi hans. Það vissi Halldór.

Er talið beindist að uppvexti hans og skólagöngu fór hann á flug. Þá skynjaði ég auðveldlega ást Halldórs á landinu okkar og hví dyggur stuðningur til setu hans á Alþingi var til staðar hjá kjósendum í áratugi. Þegar Austurlandið bar á góma ljómaði Halldór allur og sagði sögur af mönnum og málefnum á eftirminnilegan hátt. Halldór var vel lesinn og snjall ræðumaður, hann var áhugasamur um fólk og hin ýmsu litbrigði lífsins og var kappsamur um að gera íslenskt samfélag enn betra. Á erlendri grundu hélt hann merki landsins okkar vel á lofti. Þau mörgu ár sem ég sat fundi með honum á vettvangi Eftanefndar þingsins var gott að vita af Halldóri í stóli utanríkisráðherra. Á þeim fundum sem öðrum var hann góður fulltrúi og talsmaður okkar Íslendinga. Hann leyfði sér að setja fram mikilvæga framtíðarsýn um málefni Íslands, tækifæri landsins og stöðu þess í alþjóðasamfélaginu. Svör hans um margs konar málefni voru yfirveguð og skýr og ekki var verra að iðulega var stutt í húmorinn, sem gerði á stundum þunglamalega fundi bærilega.

Með Halldóri er genginn góður maður og það er með hlýju og þakklæti sem ég horfi til baka á samvinnu og samskipti við hann. Sigurjónu, dætrum þeirra og öðrum afkomendum sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur. Megi hið eilífa ljós lýsa Halldóri Ásgrímssyni.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Leiðir okkar Halldórs Ásgrímssonar lágu saman í stjórnmálum og störfum fyrir lýðveldið í aldarfjórðung. Við vorum ýmist samherjar í stuðningi við ríkisstjórn eða mótherjar. Aldrei andstæðingar. Það var alltaf hlýtt á milli okkar. Þráður vinarþels, leyfi ég mér að segja. Póltíkin var þá dálítið önnur en nú – séð frá hliðarlínunni. Þá var bróðir minn, Sverrir Brimar, á Höfn í Hornafirði trúnaðarmaður Halldórs á heimaslóð. Við bræður vorum ekki alveg sammála í pólitík, en við vorum aldrei ósammála um Halldór Ásgrímsson.

Minnisstætt er þegar Halldór náði ekki kjöri 1978. Þá fór hann til sjós. Hvað skyldu margir þingmenn hafa gert það? Annað kemur einnig í hugann. Var hann ekki sá fyrsti sem gegndi lektorsstöðu við Háskóla Íslands án þess að hafa hið hefðbundna stúdentspróf? Hann var virtur og vel látinn kennari. Vel menntaður í sínum fræðum.

Forysta og trúnaðarstörf í samfélaginu felast ekki síst í að taka ákvarðanir, – oft erfiðar. Svo lengi sem Halldór Ásgrímsson gegndi leiðtogahlutverki í flokki og í þágu þjóðar urðu ákvarðanirnar margar. Sumar umdeildar, – að sjálfsögðu. Við Alþýðuflokksmenn vorum oft ,– ekki alltaf, samstiga Halldóri og hans mönnum. Ekki skal þar skorast undan ábyrgð. Eftir á er oft auðvelt að segja að vinna hefði átt á annan veg.

Flokkar okkar voru greinar á sama meiði. Fyrir löngu sátum við Halldór saman á leið af flugvelli á norrænan fund. Í spjalli okkar sagði Halldór: – Það er leitt Eiður, að flokkar okkar skuli ekki geta átt nánara samstarf. – Það var rétt. Samstarf flokkanna var oft gott. Kannski ekki nógu oft.

Halldór var skoðanafastur og fljótur að átta sig á flóknum málum. Yfirvegun og raunsæi voru aðalsmerki hans sem stjórnmálamanns. Margt kemur upp í hugann úr samstarfinu í utanríkisráðuneytinu. – Ágreiningur var meðal fulltrúa Íslendinga á fundi vestanhafs þegar mælst var til að halda vinnufund um loftslagsmál á Íslandi. Það þurfti að taka af skarið, – fljótt. Ég hringdi til Halldórs. Hann svaraði. – Það hefur aldrei verið hættulegt að halda fundi! – Fundurinn var haldinn í Reykjavík með ágætum árangri. Í annað skipti var ágreiningur milli ráðuneyta á Íslandi um mál sem varðaði laxveiðar í sjó. Fyrir dyrum var samningafundur á Írlandi. Ég vildi vita hvort afstaða utanríkisráðuneytis væri ekki óbreytt og ræddi við minn ráðherra. Hann sagði: – Þeir sem halda að ég hafi skyndilega skipt um skoðun í þessu máli, – þeir bara þekkja mig ekki!

Halldór var fastur fyrir. Hann var orðheldinn, traustur. Það var gott að vinna undir hans stjórn. Sumum þótti hann alvörugefinn, en manna glaðastur var hann í góðum hópi, sjór af skemmtisögum, ef því var að skipta.

Það eru ekki nema fáeinar vikur síðan við röbbuðum saman í tónleikahléi í Hörpu. Hann lék á als oddi. Glaður og reifur. Enginn má sköpum renna.

Halldór Ásgrímsson var vænn maður. Mér reyndist hann drengur góður. Margir munu sakna hans. Það gerum við gömlu Alþýðuflokksmennirnir, sem unnum með honum.

Sigurjónu og fjölskyldunni allri er vottuð einlæg samúð.

Eiður Svanberg Guðnason.

Halldór Ásgrímsson, fv. forsætisráðherra, er látinn, fyrsta frétt er ég opnaði Morgunblaðið í morgun.

Minningar leita á hugann um Halldór og fjölskyldu hans; alla tíð var vinátta með þeim og föður mínum sem vert er að minnast. Mér var sagt frá fráfalli afa míns í Mýnesi, Björns Antoníussonar, frá konu og börnum á unga aldri, 1928. Þá tíðkaðist ekki að konan héldi áfram búskap, venjan að tvístra fjölskyldunni og flytja þau brott. Guðrún amma mín lét ekki undan síga, sendi son sinn, Einar Örn, fimmtán ára gamlan, gangandi að vetrarlagi til Borgarfjarðar eystra, að leita stuðnings til Halldórs Ásgrímssonar, kaupfélagsstjóra afa Halldórs; það átti að ganga að skuld hjá Kaupfélagi Héraðsbúa.

Halldór Ásgrímsson eldri leysti málið og amma bjó áfram með börnum sínum. Síðan liðu árin, ég komin með fjölskyldu í Borgarfirði vestra. Þá birtist faðir minn til að biðja mig um að koma með sér um Austurland því hann ætlaði að styðja ungan mann til framboðs fyrir Framsóknarflokkinn – faðir minn hafði ekki löngu áður verið í pólitík og boðið sig fram utanflokka; nú ætlaði hann fylgi sitt til Halldórs Ásgrímssonar yngra í komandi kosningum. Það varð úr að við Einar Örn, sonur minn, um tíu ára gamall, fórum með honum. Varð eftirminnileg ferð, víða komið við, allt úr Hornafirði norður á Bakkafjörð. Halldór komst að, varð farsæll þingmaður og ráðherra fyrir sitt kjördæmi, átti einn stærsta þátt í Kárahnjúkavirkjun er nú stendur undir atvinnulífi á Austurlandi.

Síðast hittumst við Halldór á leið til Spánar fyrir tæpu ári, það urðu fagnaðarfundir, áttum við gott samtal, sagði hann mér að bréf Guðrúnar ömmu minnar væri í bréfasafni afa síns og þætti sér vænt um þá heimild. Það var okkar síðasti fundur, við kvöddumst með virktum, hvorugt vissi að það var í síðasta sinn.

Innilegar samúðarkveðjur til Sigurjónu og fjölskyldu.

Sigríður Laufey Einarsdóttir.

Halldór Ásgrímsson er einhver öflugasti og traustasti einstaklingur og stjórnmálamaður sem ég hef kynnst. Það þarf því ekki að fara mörgum orðum um hvílíkur missir andlát hans er öllum þeim sem hann þekktu.

Okkar leiðir lágu fyrst saman þegar Halldór var nýkjörinn á þing 1974 og ég nýbyrjaður minn starfsferil sem hagfræðingur á Þjóðhagsstofnun. Ég man ekki nákvæmrlega hvenær við hittumst fyrst en það var alla vega ekki langt liðið á hans þingmannsferil þegar hann var kominn í hlutverk þess þingmanns Framsóknarflokksins sem mest lét til sín taka á sviði fjármála og efnahagsmála. Halldór var tíður gestur á Þjóðhagsstofnun og hann var ekki sáttur fyrr en hann hafði fengið nákvæmar skýringar á stöðu efnahags- og fjármála og áhrifum og afleiðingum hugsanlegra efnahagsaðgerða sem voru nánast daglegt brauð á þeim árum. Honum dugðu ekki einhverjar hagfræðiklisjur heldur vildi hann fá ítarlegar útlistanir á öllum mögulegum og jafnvel ómögulegum áhrifum slíkra aðgerða.

Hans sérsvið voru þó skattamálin. Þar stóðust fáir honum snúning enda birtist þar endurskoðandinn Halldór í öllu sínu veldi sem þekkti hvern krók og kima á þessu sviði. Ég man eftir ótal fundum með Halldóri um skattamál, sérstaklega eftir að ég var kominn yfir í fjármálaráðuneytið. Það var ótrúlegt hvað hann gat verið fundvís á veilur og vafaatriði í skattalöggjöfinni sem jafnvel reyndustu skattasérfræðingum ráðuneytisins hafði yfirsést.

Samskipti okkar Halldórs urðu enn nánari haustið 2004 þegar Halldór, þá nýtekinn við sem forsætisráðherra, óskaði eftir því að ég yrði ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu. Sá tími sem í hönd fór var í senn bæði ótrúlega gefandi og áhugaverður en um leið krefjandi þar sem þá voru að koma fram fyrstu merki um þá óheillaþróun í fjármálakerfinu sem á endanum leiddi til bankahrunsins haustið 2008.

Á þessum tíma kynntist ég enn betur, ekki aðeins stjórnmálamanninum, heldur ekki síður persónunni Halldóri. Fyrir mig sem embættismann var ótrúlega gott að vinna með Halldóri. Hann var fljótur og óragur við að taka ákvarðanir sem voru þó alltaf vel ígrundaðar og rökstuddar. Það er draumur allra embættismanna að fá ráðherra til að taka ákvarðanir, á hvorn veginn sem er, bara að fá ákvarðanir.

Halldór var ákaflega vel liðinn af starfsmönnum forsætisráðuneytisins. Það kom því öllum starfsmönnum ráðuneytisins í opna skjöldu þegar Halldór ákvað að láta af embætti forsætisráðherra eftir slæma útkomu Framsóknarflokksins í sveitarstjórnarkosningunum vorið 2006. Eftir á að hyggja þá lýsir þetta kannski vel bæði persónunni og stjórnmálamanninum Halldóri. Hann var maður sannfæringar og ábyrgðar og taldi þetta hið eina rétta í stöðunni. Við samstarfsmenn hans söknuðum hins vegar góðs félaga.

Kæra Sigurjóna. Fyrir hönd fyrrverandi samstarfsmanna í forsætisráðuneytinu og okkar Hrefnu sendi ég þér og dætrunum ykkar og öðrum aðstandendum okkar innilegustu samúðarkveðjur með minningum um góða manneskju og góðan félaga.

Bolli Þór Bollason.

Halldór Ásgrímsson var framsýnn maður, réttlátur og góður leiðtogi. Fyrir hartnær aldarfjórðungi var ég nýútskrifaður lögfræðingur ráðinn framkvæmdastjóri þingflokks framsóknarmanna. Þetta voru lærdómsríkir tímar fyrir ungan mann. Í þingflokknum var mikið einvalalið og margir litríkir persónuleikar og bardagamenn. Stærsta ágreiningsmálið var sem löngum fyrr og síðar, Evrópumálin. Þingflokkurinn var í þetta sinn klofinn í tvennt í aðstöðu til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

Í starfi mínu hjá þingflokknum kynntist ég fyrst af einhverju viti Halldóri heitnum. Hann fór fyrir frjálslyndum sem nú eru lítt áberandi í Framsóknarflokknum. Fannst mér hann jafnan tala spaklega, af yfirvegun og skynsemi, og færa rök fyrir máli sínu. Það var líka iðulega hlustað þegar Halldór talaði.

Á næstu árum áttum við Halldór í margs konar pólitísku samstarfi á vegum Framsóknarflokksins. Sérstaklega eru eftirminnilegar ferðir sem ég fór með Halldóri meðan ég starfaði hjá þingflokknum og síðar á fundi og kjördæmisþing sem formaður Sambands ungra framsóknarmanna. Þá var Halldór í essinu sínu, ók um héruð, sagði mér sögur og lék á als oddi. Í lok starfstíma míns sem aðstoðarmaður umhverfisráðherra 1995-1999 var ég svo heppinn að fá að vera aðstoðarmaður Halldórs, þó líklega meira að nafninu til enda stutt til kosninga. Ég var síðar varaþingmaður Halldórs í Reykjavíkurkjördæmi norður og enn síðar vorum við tveir þingmenn flokksins í því kjördæmi þó stutt væri.

Ég var eitt sinn kallaður húskarl Halldórs. Mér þótti vænt um það viðurnefni og enn frekar nú þegar ég kveð þennan góða dreng. Við áttum oft gott samstarf meðan ég var meðal forystumanna framsóknarmanna í Reykjavík, m.a. í alþingiskosningunum 1995 og aftur 2003, en í síðari kosningunum fékk Framsóknarflokkurinn kjörna þrjá þingmenn í Reykjavík. Ég var oft foringjahollur í pólitík og það var ekki vandkvæðum háð meðan Halldór Ásgrímsson var formaður flokksins, þó auðvitað værum við ekki sammála um alla hluti.

Halldór var hvorki sérhlífinn né sérdrægur, ólíkt mörgum öðrum sem vasast í pólitík. Honum var annt um almannahagsmuni og hugsaði jafnan til langs tíma í þeim efnum. Oft dáðist ég að orku og krafti Halldórs, þó vafalaust hafi hann átt sínar þungu og erfiðu stundir þar sem lengra virtist vera í gleðina. Lífið er ekki alltaf dans á rósum.

Ég minnist Halldórs Ásgrímssonar með mikilli hlýju og þakklæti. Ég bið góðan Guð um að blessa minningu hans og vaka yfir og styrkja hans góðu konu, Sigurjónu, dætur og fjölskyldu í þeirra miklu sorg.

Guðjón Ólafur Jónsson.

HINSTA KVEÐJA

Mín ættjörð, mitt æskuland

á órafjöll og víðan sand

– en sólin græðir teig og tún

sem tengja byggð við byggð,

þar hlúð er bæ við heiðarbarm,

þar hvíld er gnoð við fjarðararm,

þar undir jökulbjartri brún

er brjóst með þrek og tryggð.

(Einar Benediktsson)

Broddi og Sóley.

Sambönd okkar við dætur þeirra hjóna Halldórs og Sigurjónu höfðu ekki staðið yfir lengi þegar þau buðu okkur að flytja inn til sín og hefja þar búskap. Halldóri var umhugað um dætur sínar, en ekki síður tengdasyni sína sem hann tók opnum örmum og aðstoðaði sem mest hann mátti. Hann annaðhvort rétti fram hjálparhönd eða var til staðar til að leiðbeina og vísa veginn. Við getum aldrei þakkað nægilega fyrir öll ráðin, hjálpina, hugulsemina og síðast en ekki síst ástina sem hann sýndi fjölskyldum okkar og sér í lagi börnunum okkar sem hann frá fyrstu mínútu sýndi ótakmarkaðan áhuga og studdi svo ríkulega við með tíma sínum. Þær eru ófáar stundirnar sem Halldór nýtti til að segja þeim sögur, spila á spil, hjálpa til við lærdóm, kenna þeim á skíði eða fara í göngur. Þessi tími er þeim og okkur ómetanlegur.

Í okkar minningu er Halldór sami brosandi „virðulegi“ tengdapabbi okkar sem alla tíð hefur heimtað að nægur matur sé á borðum og rjúpa sé elduð á jólum. Glettinn fjölskyldufaðir sem sagði sögur við hvert tækifæri, hvort heldur af landi eða þjóð, hafsjó eða smáfuglum.

Halldóri þótti hvergi betra að njóta lífsins en í sumarhúsi sínu í Grímsnesi. Á þessum undurfallega stað gafst yfirleitt mestur tími til að kynnast hvaða mann Halldór hafði að geyma. Það lifir í minningunni brosandi kátur karl sem húkir yfir lambinu á grillinu og reynir að berja í okkur tengdasynina hvaða fjöll umlykja okkur, hvaða fugl verpir út í hólma og hvað lífið hefur upp á að bjóða.

Það er með mikilli sorg í hjarta sem við kveðjum þig, elsku Halldór. Þú hefur markað djúp spor í okkar hjörtu en við vitum að þú munt áfram vaka yfir okkur og leiðbeina.

Með hjartans þökkum,

Karl Ottó og Ómar.

Við andlátsfregn þína,

allt stöðvast í tímans ranni.

Og sorgin mig grípur,

en segja ég vil með sanni,

að ósk mín um bata þinn,

tjáð var í bænunum mínum,

en Guð vildi fá þig,

og hafa með englunum sínum.

Við getum ei breytt því

sem frelsarinn hefur að segja.

Um hver fær að lifa,

og hver á svo næstur að deyja.

Þau örlög sem við höfum hlotið,

það verður að skilja.

Svo auðmjúk og hljóð,

við lútum að frelsarans vilja.

Þó sorgin sé sár,

og erfitt er við hana að una.

Við verðum að skilja,

og alltaf við verðum að muna,

að Guð hann er góður,

og veit hvað er best fyrir sína.

Því treysti ég nú,

að hann geymi vel sálina þína.

Þótt farin þú sért,

og horfin ert burt þessum heimi.

Ég minningu þína,

þá ávallt í hjarta mér geymi.

Ástvini þína, ég bið síðan

Guð minn að styðja,

og þerra burt tárin,

ég ætíð skal fyrir þeim biðja.

(Bryndís Halldóra Jónsdóttir)

Elsku mágur, með þessu ljóði vil ég kveðja þig og þakka þér fyrir allan þann stuðning og hjálp sem þú hefur veitt mér síðan ég var barn. Og þau heilræði og hjálp sem þú gafst okkur hjónum, eftir að ég varð fullorðinn. Einnig vil ég þakka fyrir allar þær skemmtilegu ferðir sem við hjónin höfum farið með ykkur saman erlendis og víða.

Sem betur fer eigum við fullt af skemmtilegum minningum til að hugga okkur við í framtíðinni. Guð tók þig of fljótt til sín og veit ég að þar hafa margir beðið til að taka á móti þér.

Við kveðjum þig, elsku Dóri, með mikinn söknuð í hjarta. Guð varðveiti elsku systur mína, börn, tengdabörn og barnabörn og haldi sinni verndarhendi yfir þeim.

Kveðja frá okkur hjónum.

Ásta og Ellert.

Margar minningar hafa streymt um hugann síðustu daga eftir að góður vinur og kær mágur kvaddi þennan heim langt um aldur fram. Á lífsferðalagi hvers manns koma margir við sögu, oft verða kynni hvers og eins við annað fólk eins og svipmyndir sem líða framhjá. Stundum gerist það þó að snertur er strengur í brjósti manns og viðkomandi öðlast sess í hjartanu. Slíkan streng bjó Halldór til í mínu hjarta. Hann sýndi mér einlæga hlýju og alltaf þegar við hittumst var faðmurinn opinn. Halldór var einstakur öðlingur sem talaði vel um alla og sá orðstír mun lifa hjá þeim sem til hans þekktu. Ég mun aldrei gleyma hlýlegri og góðmannlegri framkomu Halldórs við mig þegar ég var að stíga mín fyrstu skref inn í hans fjölskyldu. Samverustundirnar sem ég átti með honum eru dýrmætar nú í minningu um góðan vin, því aðeins eru þrjár vikur síðan við komum heim úr skemmtilegri golfferð saman,

Elsku Sigurjóna, Helga, Karl Ottó, Guðrún Lind, Ómar, Íris Huld, Guðmundur og börn, ég sendi ykkur stórt faðmlag og megi góður Guð styrkja ykkur og leiða.

Þráinn.

Elsku afi. Það er erfitt að sætta sig við að þú sért farinn frá okkur, þó þú munir alltaf lifa í hjörtum okkar. Við erum þó þakklát fyrir að hafa verið hjá þér þegar þú kvaddir. Það eru ótal minningar sem koma upp í huga okkar þegar við hugsum um þær stundir sem við áttum saman. Þið amma voruð svo dugleg að leyfa okkur að koma með í sumarbústaðinn og við eigum margar góðar minningar þaðan með ykkur.

Þú varst mikill náttúrumaður og notaðir hvert tækifæri til að fræða okkur um kennileiti, fjöllin, vötnin og fuglana. Eins var alltaf stutt í húmorinn og stríðnina hjá þér. Ferðirnar okkar saman í fjöllin voru fjölmargar bæði í göngur og á skíði, en þú varst duglegur að hjálpa okkur að læra á skíði. Þegar við vorum yngri þá fórum við oft öll fjölskyldan í skíðaferðir þar sem þú varst alltaf búinn að smyrja nesti fyrir allan hópinn. Ein af eftirminnilegustu utanlandsferðunum okkar eru jólin sem við eyddum saman í Austurríki á skíðum.

Það er ómetanlegt hvernig þú hvattir okkur áfram í lífinu og varst alltaf tilbúinn að styðja okkur í öllu sem við tókum okkur fyrir hendur. Þú varst mjög duglegur að hjálpa okkur með heimalærdóminn og gátum við alltaf leitað til þín, enda skipti menntun þig miklu máli.

Þegar þið amma bjugguð í Danmörku nutum við þess að koma í heimsókn til ykkar og eiga góðan tíma saman þar. Fjölskyldan var þér svo mikilvæg og þú gafst okkur svo mikinn kærleik. Þú tókst svo oft utan um okkur og sagðir okkur hvað þér þætti vænt um okkur og við mættum aldrei gleyma því. Við erum svo þakklát fyrir allar þær stundir sem við áttum saman og þær munu lifa að eilífu í hjarta okkar.

Hafðu þökk fyrir öll þín spor.

Það besta, sem fellur öðrum í arf,

er endurminning um göfugt starf.

(Davíð Stefánsson)

Linda Hrönn og Karl Friðrik Schiöth.

Heimsins besti afi.

Afi var mjög skemmtilegur, góður og stundum stríðinn. Hann vildi alltaf spila ef við spurðum og kenndi okkur kasínu. Afi þekkti mjög marga og var einu sinni forsætisráðherra. Við erum þakklátar fyrir að hafa átt svona góðan afa. Þegar við vildum prófa hlaupabrettið leyfði hann okkur það og fór með okkur. Einu sinni þegar við vorum að gista hjá ömmu og afa var nammidagur. Við fórum út í búð með afa að kaupa smá nammi. Þegar við vorum búnar að velja spurði afi hvort við vildum ekki líka fá þetta, þetta og þetta. Þegar við komum heim sagði amma að við hefðum keypt allt of mikið nammi. Þá sögðum við að afi hefði leyft okkur að velja allt sem við vildum.

Við vorum leiðar þegar afi dó.

Afi kenndi okkur mjög margt. Hann sagði okkur hvað fuglar og fjöll hétu. Við gátum spurt hann að öllu og hann gat alltaf svarað. Ef við sögðum „ógeðslega flott“ þá spurði afi, hvernig getur eitthvað verið ógeðslega flott?

Við fórum á sjúkrahúsið að heimsækja afa. Afi var í öndunarvél. Við strukum honum og biðum eftir að hann vaknaði en hann gerði það ekki.

Læknarnir hugsuðu mjög vel um hann.

Við myndum ekki vilja fá annan afa, bara þennan afa.

Hera Björk Guðmundsdóttir, 7 ára. Tara Sól Guðmundsdóttir, 9 ára.

Halldór bróðir okkar er farinn í sína hinstu för í þessum heimi. Förina inn í ljósið, förina heim til Guðs. Það ferðalag hefur örugglega ekki vafist fyrir honum. Halldór ferðaðist mikið í sínu lífi. Fyrst um stórt og samgöngulega erfitt kjördæmi sem þingmaður Austfirðinga og síðar sem ráðherra um heim allan. Þó líf bróður móti alltaf á einhvern hátt líf manns, þá mótaði líf Halldórs okkur á annan hátt vegna stöðu hans í samfélaginu. Við glöddumst með honum þegar vel gekk; stóðum við hlið hans þegar á móti blés og það reif í hjartað þegar ill orð féllu um hann. En fyrst og fremst vorum við alltaf stolt af honum

Það er sárt að missa bróður sinn í blóma lífsins. Þó er enn sárara að missa maka sinn, föður og afa. Við biðjum góðan Guð að styrkja og leiða Sigurjónu, Helgu, Guðrúnu, Írisi Huld og þeirra fjölskyldur á erfiðum tímum.

Ingólfur, Anna Guðný, Elín og Katrín.

Minningabrot um mikilhæfan mann. Við hétum sama Halldórs-nafninu, hann var alnafni afa. Við ólumst upp hvor í sínu landshorninu, samt lágu leiðir okkar oft saman í barnæsku. Þótt bræðurnir, feður okkar, væru um margt ólíkir og á öndverðum meiði í pólitík, unnu þeir vel saman og héldu góðum tengslum milli fjölskyldna sinna.

Eitt sumar dvöldum við um hríð hjá afa og ömmu í bankanum á Egilsstöðum. Ég 14 ára vegavinnustrákur, hann 17 ára, kominn til að hjálpa til við innleiðingu nýrra vinnubragða í bankanum. Þótt aldursmunur væri ekki mikill, fannst mér við tilheyra hvor sinni kynslóðinni. Hann var barn, svo fullorðinn. Í uppreisn unglingsáranna, fannst mér Halldór vera af kynslóð feðra okkar.

Á 17 ára afmælisdaginn minn sat ég inni í stofu foreldra hans á Höfn og hlustaði á plötur Halldórs frá dvöl hans í Englandi. Ég hlustaði á Rolling Stones. Þetta var stílbrot í mynd minni af áhugamálum frænda míns. Ég tengdi hann hvorki við Stones né Bítlana, hljómsveitir sem nær kostuðu mig brottrekstur úr skóla. Í gaggó var það agabrot að láta hár sitt vaxa.

Eftir á að hyggja minnist ég atvika þar sem Halldór var fremur unglingur en fullorðinn. Slagsmál Halldórs sem þá var 15 ára og Gissurar bróður míns 14 ára eru til marks um það. Þeim sinnaðist illa heima hjá afa og ömmu og slógust af miklu afli, þessir annars dagfarsprúðu drengir.

Þegar Halldór var kosinn á þing, hittumst við hjá ömmu sumarið 1974. Hún var nýlega orðin ekkja. Við sátum þrjú að spjalli. Ég spurði hvort hann ætlaði að leggja stjórnmál fyrir sig. „Já, fyrst ég er kominn á þá braut.“ Ég man hvað amma var ánægð með svarið. Þeir sem þekktu Halldór vissu að hann kynnti sér mál vel og gat tekið snúninga í afstöðu sinni meðan hann mótaði sér skoðun, en var stefnufastur þegar ákvörðun var tekin, enda urðu stjórnmál starfsvettvangur hans. Síðar sagði Halldór mér hvað amma hafði mikil og mótandi áhrif á sig í uppvextinum. Hún var kennari alla sína starfsævi og hefur séð í honum efni í foringja.

Þegar Halldór varð sjávarútvegsráðherra var það fyrir tilstilli Ásgríms föður hans að ég fór að vinna fyrir ráðuneytið. Það varð upphaf að sjö ára samstarfi okkar á vettvangi sjávarútvegs, ég vann við verkefnastjórn á vegum ráðuneytisins og sem forstjóri einnar stofnunar þess. Þar var oft tekist á við erfið málefni, þá var gott að hafa traustan yfirmann að leita til. Eftir að stefnan var mörkuð og ákvarðanir teknar stóð hann alltaf eins og klettur á bak við okkur sem unnum verkin.

Eitt sinn leit Halldór inn hjá okkur Tótu, á Egilsstöðum, þar sem hún kynntist honum fyrst í návígi. Heimsóknin endaði með að hann bauð okkur á hátíð framsóknarmanna. Þar lék hann á als oddi og var hrókur alls fagnaðar. Þegar Tóta kvaddi Halldór að hátíðinni lokinni sagði hún: „Ég sem hélt þú værir svo leiðinlegur.“

Ég minnist góðs frænda. Ég votta Sigurjónu, dætrum þeirra og systkinum Halldórs samúð mína við fráfall góðs drengs. Missir þeirra er mikill.

Halldór Árnason.

Lífið getur verið svo ósanngjarnt. Bara ef ég hefði vitað þegar ég hitti þig síðast að það yrði okkar síðasta samtal. Ég hefði tekið svo fast utan um þig, látið þig vita hversu mikið mér þykir vænt um þig og hversu stolt ég er og hef alltaf verið að eiga þig sem frænda. Þú ert einn yndislegasti og rólegasti maður sem ég hef kynnst og það var alltaf svo þægilegt að vera í kringum þig. Ég er svo þakklát að hafa hitt ykkur Sigurjónu um daginn og ég er svo óendanlega þakklát fyrir það að mamma og pabbi fengu þennan tíma með þér úti.

Elsku frændi, ég sit hér með tárin í augunum og ég verð hálf-reið og leið við tilhugsunina að þú sért farinn. Ég vil ekki trúa þessu og á bara erfitt með að trúa þessu. Það sem er alltaf efst í huga hjá mér þegar ég hugsa til þín er hvernig þú heilsaðir í símann þegar þú hringdir heim, ég mun aldrei gleyma röddinni þinni. En vitandi að þú sért kominn til ömmu og afa veitir mér ró í hjartanu. Daginn sem þú fórst frá okkur og við enn í óvissu þá kveikti ég á kerti og sagði Vilhelm Birni hvað væri í gangi. Um leið og ég kveikti á kertinu fór hann með bæn og því mun ég aldrei gleyma og vil ég hafa hana með í kveðju minni en núna mun þessi bæn ávallt minna mig á þig, elsku frændi.

Láttu nú ljósið þitt

loga við rúmið mitt.

Hafðu þar sess og sæti,

signaði Jesús mæti.

(Höf. ók.)

Ég bið að heilsa ömmu og afa og ég knúsa þig þegar ég hitti þig næst.

Elsku Sigurjóna, Helga, Guðrún, Íris og fjölskylda, mínar dýpstu samúðarkveðjur til ykkar og megi guð og allir hans englar varðveita ykkur.

Þín frænka

Linda.

Alþingiskosningar fóru fram 8. apríl 1995. Kannanir bentu til að úrslitin kynnu að verða tvísýn. Þannig fór. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks hélt velli en með tæpasta meirihluta. Frá stofnun lýðveldis 1944 hafði það aðeins gerst tvisvar áður að ríkisstjórn héldi meirihluta sínum eftir kosningar. Steingrímur Hermannsson lét af störfum formanns Framsóknarflokksins ári fyrir kosningar og Halldór Ásgrímsson tók við. Jóhanna Sigurðardóttir hafði klofið Alþýðuflokkinn og stofnað Þjóðvaka og fékk sá flokkur 4 þingmenn og 7% atkvæða. Samkvæmt séríslenskri túlkun var því haldið fram í sjónvarpssal að Jóhanna væri sigurvegari kosninganna. Sjálfstæðisflokkurinn fékk þó fimm sinnum meira fylgi í kosningunum eða 37 prósent, missti 1,5 prósent og einn þingmann. Framsóknarflokkur hins nýja formanns, Halldórs Ásgrímssonar, fékk 15 þingmenn, bætti við sig tveimur þingmönnum og 4,4 prósentustigum. Kostirnir í stjórnmálunum voru þessir: Áframhaldandi stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks með naumasta meirihluta; Sjálfstæðisflokkur myndaði aðra tveggja flokka stjórn, annaðhvort með Alþýðubandalagi eða Framsóknarflokki. Að öðrum kosti yrði mynduð meirihlutastjórn fjögurra eða fimm flokka án Sjálfstæðisflokksins.

Formenn stjórnarflokkanna fengu víðtækt umboð frá sínum þingflokkum til aðkomu að stjórnarmyndun. Á ríkisstjórnarfundi 11. apríl var óvænt upplýst að formaður Alþýðuflokksins hefði átt viðræður við formann Framsóknarflokksins. Forsætisráðherra áréttaði þá að viðræðum stjórnarflokkanna um samstarf skyldi haldið áfram, en hann áskildi sér þó rétt til að ræða við forystumenn annarra flokka „ef ástæða þætti til“ og var það bókað í fundargerð ríkisstjórnarinnar.

Páskahátíð fór í hönd. Eftir milligöngu aðila, sem þekktu til beggja, var ákveðið að formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks myndu hittast ásamt mökum sínum í sumarbústað forsætisráðherra á Þingvöllum á páskadag, 16. apríl.

Þar fóru fram notalegar samræður fólks sem lengi hafði vitað hvað af öðru en þekktist þó í rauninni lítið. Flokksformennirnir settust svo tveir á fund og fóru vítt og breitt yfir svið stjórnmálanna. Fyrst fjölluðu þeir um yfirlýsingar sem fallið höfðu í aðdraganda kosninga, helstu áhersluatriði í stefnuskrám flokkanna tveggja og reyndu að meta hvað kynni að verða snúið að ná saman um hæfu flokkarnir viðræður um myndun stjórnar. Loks var hugað að því, hvort líklegt væri að þessir tveir einstaklingar gætu starfað sæmilega saman.

Að kvöldi páskadags var handsalað að gengið skyldi til formlegra viðræðna og jafnframt að það væri persónulegur vilji beggja að þeim viðræðum lyki með stjórnarsáttmála. Allt gekk það eftir.

Í kosningum 1999 og 2003 fengu þessir flokkar enn meirihluta á þingi til áframhaldandi samstarfs og raunar einnig í kosningunum 2007, þótt sá meirihluti væri tæpur.

Flokksformennirnir tveir sem handsöluðu samstarf sitt að kvöldi páskadags 1995 áttu eftir að starfa samfellt lengur saman í ríkisstjórn en nokkrir formenn aðrir, eða vel á 11. ár. Þeir vissu það ekki þá, en þeir voru einnig þetta kvöld að handsala vináttu sem stóð á meðan báðir lifðu.

Það breytir ekki því, að oft var tekist á þennan langa tíma. Flokkarnir eru ólíkir og hafa stundum verið helstu andstæðingar íslenskra stjórnmála. Forystumennirnir tveir voru einnig um margt ólíkir og nálguðust lausnir hvor með sinni aðferðinni. Annar þeirra var árrisull mjög en hinn síður. Og margt annað var ólíkt og óþarft upp að telja.

Margir mismunandi þættir settu sinn svip á persónu Halldórs Ásgrímssonar. En eðliseinkennið sem mestu skipti um farsælt og síbatnandi samstarf við hann var hversu heill hann var og traustur. Sem stjórnmálamaður hafði hann mörg vopn í sínu búri. Hann gat haldið hugsunum sínum, áætlunum og áformum hjá sér ekki síður en hver annar. Leiðtogi flokks eða þjóðar gerir hvorki sjálfum sér né öðrum gagn sýni hann ótæpilega á spilin sín. Gætni í slíkum efnum er ekki óheilindamerki. Halldór var fyrst og síðast heilindamaður og mat þann eiginleika hvað mest í fari annarra. Ég varð ekki var við að Halldór væri hefnigjarn í þeim skilningi sem stundum er lagður í það orð. En sá sem farið hafði á bak við Halldór, leikið tveim skjöldum og gengið á bak orða sinna, þurfti ekki að ætla að Halldór gleymdi því auðveldlega. Og sá sem kom til samningafundar við Halldór Ásgrímsson þurfti að vita, að hann mætti vel undirbúnum manni. Halldór sökkti sér niður í viðfangsefnin, vildi þekkja alla þætti út í hörgul og kunni skil á talnalegu efni umfram aðra menn. Eiginleikarnir góð greind og stálminni réðu miklu um þetta. En tveir aðrir þættir komu einnig til. Halldór var samviskusamur maður sem tók sín verkefni alvarlega og hann var atorkusamur og ósérhlífinn.

Halldór hafði hæga framgöngu og stundum allt að því varfærnislega. En í brjósti hans var stutt í skap sem hann hafði þó allajafna góða stjórn á. Það kom örsjaldan fyrir að umræddir samstarfsmenn misstu stjórn á skapi sínu samtímis. Þessar fáu uppákomur voru vísast tilþrifamiklar, en áhrif þeirra lágu aldrei lengi í loftinu, og enn síður skildu þær eftir sig varanleg ör.

En hin tilvikin voru margfalt fleiri þar sem samkomulag tókst um viðkvæm og erfið mál; línur voru lagðar um næstu skref ríkisstjórna og staðið var upp að loknu góðu dagsverki og það handsalað. Og allt stóð.

Stundum var dregin upp sú mynd af Halldóri að hann væri þykkjuþungur, gott ef ekki drumbur. Það sást vissulega ef honum mislíkaði. En aðrir þættir í skapferli Halldórs eru miklu eftirminnilegri. Hann var viðkvæmur maður með ríka samúð gagnvart náunga sínum. Á góðri stund var hann ljúfur og kátur, fróður um margt, ekki síst landið sitt, nær og fjær, og kunni sögur af fjölda manna og sagði þær með sínum hætti, kersknislaust og eftirminnilega.

Á kveðjustund fyrirgefst manni vonandi fyrir að horfa einkum til náins samstarfs tveggja manna, þegar annar er kvaddur. En allir vita, að þegar rætt er um ríkisstjórnarsamstarf, sem lengi stendur, þá koma margir aðrir að málefnastarfinu, í stóru og smáu. Andinn í ríkisstjórnum var góður. Einstakir ráðherrar störfuðu farsællega saman og þeir náðu sjálfir miklum árangri í sínum ráðuneytum, án þess að það, sem þeir voru að fást við, kæmi endilega til kasta formanna stjórnarflokkanna. Það styrkti alla í starfinu að þingflokkarnir stóðu langoftast heilir að baki hópsins sem skipaði ríkisstjórnina hverju sinni. En lögmálið er engu að síður það, að ekkert af slíku lukkast til fulls, ef fyrirliðarnir ná ekki nægilega vel saman. En á hinn bóginn smitast það niður um allar æðar flokkanna, sem eiga aðild að stjórnarsamstarfi, ef vitað er fyrir víst að oddvitarnir séu samhentir og gagnkvæmt traust ríkir á milli þeirra.

Það var eitt einkenni þess, hversu mikil samheldni ríkti í þessu stjórnarsamstarfi, að makar ráðherranna hittust reglubundið án þeirra í sérstöku „vinafélagi“. Það hefði ekki gerst í stjórnarsamstarfi þar sem tortryggni yfirskyggði samstarfsviljann.

Eftir kosningarnar 2003 var í þriðja sinn samið um stjórnarsamstarf, en jafnframt um það, að Halldór Ásgrímsson skyldi nú taka við forsætisráðuneytinu þann 15. september 2004. Ég sat frá þeim degi í rúmt ár sem utanríkisráðherra í stjórn Halldórs. Kunni ég prýðilega við mig í ríkisstjórninni sem hann veitti forystu. Hann gerði það auðvitað af festu og öryggi, enda hafði enginn þálifandi maður setið lengur en hann við ríkisstjórnarborðið í landinu.

Við Ástríður áttum margar góðar stundir með þeim Halldóri og Sigurjónu og mátum þau æ meir eftir því sem árin liðu.

Við Halldór Ásgrímsson hittumst í síðasta sinn fyrir fáeinum mánuðum og það fyrir tilviljun á Bernhöftstorfunni, fáeina tugi metra frá litla Stjórnarráðshúsinu, sem hafði svo lengi verið miðpunktur okkar samstarfs. Halldór var kátur, glaðbeittur og hraustlegur.

Við föðmuðumst þegar við kvöddumst. Við vorum ekki vanir því endranær. En við gerðum það í þetta sinn.

Guð geymi góðan mann.

Davíð Oddsson.

Feður okkar Halldórs Ásgrímssonar voru kunningjar, líklega vinir, Austfirðingar báðir og tengdust Hornafirði. Faðir minn var fæddur í Lónssveit austur en þar dvaldi Ásgrímur og hans fólk löngum og var báðum sveitin kær, þó ekki væru þeir þar samtímis. Þegar ég fór að vinna fyrir Halldór hringdi Ásgrímur til mín og sagði „Það er gott að þú ert að hjálpa honum Dóra mínum“. Mér þótti vænt um símtalið. Ég kynntist Halldóri Ásgrímssyni fyrst þegar hann kom til þings, kornungur maður, árið 1974 en samstarf okkar varð ekki náið fyrr en hann tók við formennsku í Framsóknarflokknum. Næstu tíu ár töluðum við saman flesta daga, stundum oft á dag. Síðustu ár hafa samtölin verið strjálli enda vík milli vina. Alltaf var þó kært á milli okkar. Í samstarfi var Halldór einstakur. Hann var sanngjarn og þakkaði fyrir hvert viðvik sem unnið var fyrir hann. Merkilegt var líka að oftast baðst hann afsökunar á að vera að trufla ef hann hringdi eða leitaði eftir aðstoð utan hefðbundins vinnutíma. „Fyrirgefðu að ég er að trufla þig frá fjölskyldunni“ sagði hann oft þegar brýn mál þurftu úrlausn utan vinnutíma.

Enginn stjórnmálamaður sem ég hef kynnst þekkti íslenskt stjórnkerfi betur en Halldór og var hann vel heima í öllum málaflokkum og þekkti öll atriði, smá og stór. Hann hafði enda stjórnað fleiri ráðuneytum en flestir og hafði mikla reynslu sem þingmaður og ráðherra.

Ég og Halldór áttum gott og farsælt samstarf og hann reyndist mér sannur vinur. Hann fylgdist vel með mér þegar ég lenti í veikindum og spurði jafnan frétta af líðan minni. Sjálfur fékk hann sinn skerf af heilsuáföllum en mér fannst einhvern veginn að hann væri svo sterkur að hann myndi alltaf ná bata. Það er sorglegt að hann skyldi ekki fá að njóta lengur samvista með fjölskyldunni, sem hann unni svo mjög.

Halldór var góður maður, réttsýnn og heiðarlegur. Það voru forréttindi að fá að vinna með honum og eiga vináttu hans. Ég kveð hann með söknuði, virðingu og djúpu þakklæti en hann hafði mikil áhrif á líf mitt.

Halldór gengur nú austur til móts við sólarupprás eilífs lífs og nýtur náðar Drottins. Konu hans Sigurjónu Sigurðardóttur, börnum þeirra og öðrum í fjölskyldunni sendum við Þrúður samúðarkveðjur.

Megi Guð styrkja þau í sárum missi.

Senn er nótt og ljósar lendur

liðins dægurs hverfa í skuggann

Rökkurtjöldin herrans hendur

hafa dregið fyrir gluggann.

(Jón Pétursson.)

Atli Ásmundsson.

Þegar ég kveð minn nána vin og samstarfsmann til margra ára með sorg og trega hrannast upp myndir og minningar. Allar minningarnar, bæði sætar og súrar, eru tengdar órjúfanlegum kærleiks- og vinaböndum sem voru fléttaðar trausti og fullkomnum trúnaði á báða bóga. Fyrir það hef ég oft þakkað og aldrei meira en í dag.

Halldór var stór maður í öllum skilningi þess orðs, upprunninn í stórbrotnu umhverfi, kominn af áræðnu og duglegu fólki sem lagði allan metnað sinn í að skila af sér góðu dagsverki á sviði atvinnulífs og aukinnar menntunnar og menningar. Þennan arf tók hann ungur með sér út í lífið og fylgdi fast eftir allt til síðasta dags. Hann taldi það ávallt skyldu sína að gera enn betur í dag en í gær.

Um fáa á hin kunna hending betur við en um Halldór „þéttir á velli og þéttir í lund, þrautgóðir á raunastund.“ – Hann var óhræddur að taka að sér stór verkefni og hlustaði ekki á úrtöluraddir né vinsældakannanir þegar hugur hans og hjarta sögðu honum annað.

Hann hafði afburðaþekkingu á undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar og erfitt var að kveða hann í kútinn þegar hann hafði tekið vel ígrundaðar ákvarðanir. Sagan mun geyma og þjóðin erfa langan og merkan stjórnmálaferil Halldórs. Hann sá oft tækifæri þar sem aðrir sáu svartnætti og það var ótrúlegt að sjá hve oft hann efldist við mótbyr en hann fékk líka oft að njóta ávaxta erfiðisins og mætti velgengni af lítillæti og auðmýkt.

Höfðingi er orð sem oft hefur komið upp í hug minn nú þegar ég rifja upp liðna daga, greiðvikinn var hann, gjafmildur og ósérhlífinn. Hann hugsaði alltaf fyrst um hag annarra en kunni alls ekki að hlífa sjálfum sér sem skyldi.

Fólki gat fundist Halldór hrjúfur og oft gat hann vissulega verið ærið þungbrýnn, en því gátum við treyst að hann var ávallt sannur og talaði eins og hugur hans bauð. Einhverju sinni hafði ég á orði við hann að það væri nú allt í fína lagi að brosa svolítið meira framan í skjáinn. Hann svaraði þá að bragði að hann gerði það ekki nema honum fyndist það eiga við og að svona pantanir yrði ég að leggja inn hjá einhverjum öðrum en sér.

Halldór var sérstaklega góður heim að sækja; þess nutum við Haraldur oft og ekki spillti Sigurjóna hans nú gleðskapnum í myndarskap sínum. Fyrir skömmu nutum við ógleymanlegrar kvöldstundar heima hjá þeim hjónum með góðum vinum. Keppst var við að rifja upp og segja sögur af skondnum og skemmtilegum atvikum og var Halldór hrókur alls fagnaðar. Hlátur og sönn kæti ómuðu um húsið. Enginn gat látið sér í hugarlund koma að þetta væri kveðjustundin okkar, dýrmæt minning sem minnir okkur hastarlega á að öllu er afmörkuð stund og allt hefur sinn tíma.

Við Haraldur þökkum af alhug trausta vináttu og biðjum Sigurjónu og börnunum allrar blessunar.

Ingibjörg Pálmadóttir.

Í hugann koma eiginleikarnir traust, festa, skyldurækni, orðheldni. Þessi voru einkenni Halldórs Ásgrímssonar. Viðhorf hans mótuðust í heimahögunum eystra, í samvinnuhreyfingunni og sjómennskunni og í námi og störfum sem endurskoðandi fyrir atvinnufyrirtæki. Honum var ljóst hvar jarðnesk verðmæti eru sköpuð og hvernig best má standa að því. Og hann vissi hvar lífsbjörgin kemur á land, og á hverju fólkið brauðfæðir sig. Áhugi hans á atvinnumálum og rekstri fyrirtækja mótaði ábyrgðartilfinningu hans sem stjórnmálamanns.

Halldór Ásgrímsson tók að sér að móta námsbraut Háskóla Íslands í endurskoðun. Hann hafði áhuga á því starfi. Með stuttum fyrirvara leituðu Framsóknarmenn á Austurlandi til hans um framboð. Hann var á báðum áttum. Þá var enn þrýst, og síðan leit hann ekki um öxl.

Sem alþingismaður og ráðherra braust Halldór í mikilvægum málum sem vöktu deilur. Ráð hans var jafnan vel ígrundað og djúpt hugsað, og honum varð sjaldnast hnikað frá því sem hann taldi hyggilegast eða sanngjarnast. Áfram var deilt um ákvarðanir í sjávarútvegsmálum og bankamálum. Hann vildi ekki halda áfram að útskýra málin eftir að hann var hættur stjórnmálastörfum, en það hefði legið létt fyrir honum. En hann var sannfærður um að smám saman hyrfi hismið og kjarni málanna kæmi betur í ljós. Því kveið hann ekki.

Halldór Ásgrímsson gerði sér snemma grein fyrir þeim samfélagsbreytingum sem orðnar voru og í vændum. Hann sá hverju þetta myndi breyta fyrir landsbyggðina, sjávarútveg og landbúnað, samvinnuhreyfinguna og Framsóknarflokkinn. Hann lagði áherslu á að þoka flokknum fram í fylkingarbrjóst. Stundum var Halldór þunghentur í þessu innan flokksins. En hugsjón hans var að Framsóknarflokkurinn gengi ferskur og skarpur inn í nýja öld. Þannig sá hann Framsóknarmenn best gegna þjóðrækilegri skyldu sinni.

Við Halldór vorum bekkjarbræður í gagnfræðaskóla og kynntumst þá svo náið að aldrei þurfti við að bæta þótt samskipti yrðu slitrótt um árabil. Þá bjó hann hjá afa sínum og alnafna alþingismanni sem var höfuð þessarar mestu kaupfélagsstjóraættar þjóðarinnar. Við vorum sumir að reyna að vera róttækir, en Halldóri varð aldrei hnikað. Mér eru minnisstæðar rökræður okkar um trúmál. Þá varð sama raunin.

Ég sendi frú Sigurjónu og fjölskyldunni innilegar kveðjur. Það voru forréttindi að eiga Halldór Ásgrímsson að vini. Tryggð hans og hollusta brugðust ekki. Hann var drengur góður. Og nú er hann of snemma farinn. Hann á góða heimvon.

Jón Sigurðsson.

Halldór Ásgrímsson var yfirvegaður maður, talaði hægt og var ekki alltaf orðmargur. Um margt fannst mér hann líkur Ólafi heitnum Jóhannessyni, forsætisráðherra og formanni Framsóknarflokksins til fjölda ára. Menn þurftu ekki að vera sammála honum en alltaf var hægt að treysta orðum hans.

Halldór var formaður bankaráðs Seðlabankans upp úr 1980 og hafði skrifstofu í húsakynnum bankans við Hafnarstræti. Ég var þá starfsmaður bankans og við byrjuðum að tala saman þar á göngunum. Nokkrum árum síðar er hann var sjávarútvegsráðherra og ég aðstoðarmaður fjármálaráðherra byrjuðum við að vinna saman.

Á Alþingi vorum við síðan lengi samstarfsmenn, sátum m.a. saman í forsætisnefnd Norðurlandaráðs 1991-95. Halldór varð snemma áberandi á vettvangi ráðsins og var valinn í forystu í flokkahópi miðjumanna. Ég minnist þess að hann varð fyrstur til að flytja tillögu í ráðinu um málefni norðurskautsins sem var samþykkt 1992 og leiddi til þess að Norðurlandaráð hóf að standa fyrir reglulegum ráðstefnum um þau málefni.

Norræn málefni voru Halldóri alltaf hugleikin og því kom mér ekki á óvart þegar hann ákvað að sækjast eftir starfi á þeim vettvangi þegar hann lét af stjórnmálaafskiptum 2006. Mér er minnisstætt hve ljúflega allir forsætisráðherrar hinna Norðurlandanna tóku umleitunum um að ráða hann til starfa sem framkvæmdastjóra norrænu ráðherranefndarinnar.

Við Halldór sátum saman í ríkisstjórn í átta ár. Lengst af var hann utanríkisráðherra en ég fjármálaráðherra. Hann þekkti afar vel til ríkisfjármála og gjörþekkti skattkerfið úr störfum sínum sem endurskoðandi. Var hann því jafnan fljótur að átta sig á öllum hugmyndum um breytingar á sköttum. Það var því auðvelt að leiða flókin mál á því sviði til niðurstöðu með honum eins og við þurftum oft að gera. Alltaf gátum við leyst úr ágreiningi og alltaf stóð hann við sinn hluta þess samkomulags sem gert var.

Eftirminnilegasta samtal mitt við Halldór var eftir sveitarstjórnarkosningarnar 2006. Þá bað hann mig að hitta sig í forsætisráðuneytinu, þar sem hann hafði verið húsráðandi í tæp tvö ár og ræddum við þar lengi saman í trúnaði. Hann hafði orðið fyrir miklum vonbrigðum með niðurstöður kosninganna og var einnig afar ósáttur með ástandið í eigin flokki. Hann vildi axla sína ábyrgð á því og láta af öllum pólitískum afskiptum. Jafnframt vildi hann að ég tæki við af sér sem forsætisráðherra, þótt svo hefði um samist milli flokkanna eftir kosningar 2003 að hann gegndi því starfi frá 2004 fram yfir kosningar 2007.

Halldór átti glæstan feril að baki á Alþingi og í ríkisstjórn og var utanríkisráðherra lengur en nokkur annar. Hann var traustur foringi flokks síns og góður fulltrúi Íslands út á við. Hið ótímabæra fráfall hans er mörgum þungbært, ekki aðeins fjölskyldu hans, vinum og samstarfsmönnum heldur einnig öllum þeim sem biðu þess að Halldór gerði upp rúmlega þrjátíu ára feril í stjórnmálum. Hann átti áreiðanlega margt ósagt.

Við Inga Jóna sendum Sigurjónu og fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur frá Washington.

Geir Hilmar Haarde.

Kveðja frá formanni Framsóknarflokksins

Halldór Ásgrímsson var einn af áhrifamestu stjórnmálamönnum lýðveldistímans á Íslandi. Hann var þingmaður í meira en þrjá áratugi, ráðherra í samanlagt 19 ár og varaformaður og svo formaður Framsóknarflokksins frá 1980 til 2006. Áhrif hans byggðust þó ekki aðeins á löngum ferli í áhrifastöðum. Einstök vinnusemi, ósérhlífni og áræði einkenndu stjórnmálaferil Halldórs auk kjarks við að fylgja eftir stórum og oft umdeildum málum sem hann var sannfærður um að skiptu miklu máli fyrir framþróun samfélagsins.

Halldór var fyrst kjörinn þingmaður árið áður en ég fæddist. Ég man því ekki eftir íslenskri þjóðmálaumræðu öðruvísi en að Halldór Ásgrímsson hafi leikið þar stórt hlutverk. Þegar ég hóf þátttöku í stjórnmálum hafði Halldór haldið til starfa erlendis sem framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar. Sem stjórnmálamaður kynntist ég honum því fyrst af afspurn á vettvangi norræns samstarfs. Það var ákaflega ánægjulegt að heyra hversu mikið álit norrænir stjórnmálamenn höfðu á þessum fyrrverandi forsætisráðherra Íslands. Það átti jafnt við um þá sem höfðu kynnst honum sem ráðherra og þingmanni og þá sem sáu ástæðu til að hafa sérstaklega orð á því hversu mikils metinn hann væri í hlutverki framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar. Þegar kom að því að endurnýja ráðningu í starfið stóð enda ekki á samstarfsþjóðum okkar að falast eftir því að Halldór gegndi starfinu áfram.

Í störfum Halldórs á Norðurlöndum hafði birst sú eljusemi og traustvekjandi ásýnd sem einkenndi stjórnmálaferil mannsins sem oft var líkt við klett í hafinu.

Halldór hafði sterkar rætur í heimahögunum. Uppvöxturinn á Vopnafirði og svo í hinu ægifagra umhverfi Vatnajökuls hafði mótandi áhrif á hann. Fjölskrúðugt lífríki, stórfenglegt landslag, kraftur jökulsins, nálægðin við hafið og þrautseigt og samheldið fólk ófu saman þau þéttu og órjúfanlegu bönd sem tengdu hann við heimaslóðir alla tíð. Bönd sem veittu honum festu í ólgusjó stjórnmálanna. Halldór naut þess að ferðast um landið og unni íslenskri náttúru mjög. Gönguferðirnar um óbyggðir Íslands urðu margar í góðra vina hópi og aldrei var komið að tómum kofunum þegar rætt var við Halldór um náttúrufar, landslag og jarðfræði landsins.

Ungur vakti Halldór eftirtekt forystumanna í stjórnmálum. Að loknu námi í endurskoðun og framhaldsnámi við verslunarháskólana í Björgvin og Kaupmannahöfn varð hann lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands en skömmu síðar var leitað til hans um að taka sæti á lista Framsóknarflokksins við alþingiskosningar sumarið 1974. Hann var með yngstu mönnum sem tekið höfðu sæti á þingi en hlaut snemma traust og trúnað samstarfsmanna sinna, bæði innan flokks og utan. Frá upphafi stjórnmálaferilsins gegndi hann því margvíslegum trúnaðarstörfum sem ekki þótti sjálfgefið fyrir svo ungan mann.

Halldór hafði yfirgripsmikla þekkingu á efnahags- og atvinnumálum og naut þar sterkrar tengingar við landið og atvinnuvegina. Í stjórnmálastörfum sínum og langri ráðherratíð var hann afkastamikill og dró aldrei af sér við vinnu, reyndist glöggur, réttsýnn og áreiðanlegur.

Halldór var maður sem leitaði sífellt leiða til að bæta samfélagið. Hann hikaði aldrei við að takast á við erfið mál eða taka umdeildar ákvarðanir ef hann taldi þær réttar og mikilvægar. Honum varð ekki auðveldlega hnikað, nema með sterkum rökum, ef hann hafði gert upp hug sinn. Þó var honum ljóst að til að koma góðum málum í verk þyrfti stundum að miðla málum milli ólíkra sjónarmiða og hann gekk óhikað í að leysa ágreining þegar á þurfti að halda.

Halldór reyndist Framsóknarflokknum sterkur og stefnufastur foringi. Undir forystu hans var Framsóknarflokkurinn í ríkisstjórn um margra ára skeið og leiðandi í mótun margra af mikilvægustu og stærstu málum samtímans. Framsóknarmenn um allt land kunna Halldóri miklar þakkir fyrir ósérhlífni og dugnað í flokksstarfinu og árangursríka vinnu í þágu samfélagsins.

Halldóri var ætíð efst í huga að vinna Íslandi gagn. Margir samstarfsmenn hans erlendis höfðu enda orð á því hve stoltur hann væri af landi sínu og þjóð og gæti talað endalaust um ágæti þess. En samstarf við aðrar þjóðir var honum jafnframt mikilvægt og sem utanríkisráðherra og forsætisráðherra var Halldór óþreytandi við að beita áhrifum og þekkingu Íslendinga í alþjóðasamstarfi, ekki hvað síst í þágu fátækra þjóða og annarra sem þurftu á stuðningi að halda.

Þau framfaramál sem Halldór Ásgrímsson vann að á löngum stjórnmálaferli eru svo mörg að þeim verða ekki gerð skil í stuttri grein og fjölbreytilegri en svo að hægt sé að nefna einn málaflokk umfram aðra. Halldór vann að stórstígum framförum á öllum sviðum stjórnmálanna, í jafnréttis- og mannréttindamálum jafnt sem samgöngu- og byggðamálum. Það er vart hægt að finna stjórnmálamann sem hefur verið betur meðvitaður um samspil velferðar og verðmætasköpunar. Sú vitund ásamt innsæinu og þrautseigjunni sem hann beitti við að efla atvinnulíf og verðmætasköpun í landinu hefur aukið velferð og haft mikil og jákvæð áhrif á samfélag okkar. Íslendingar allir munu lengi njóta góðs af farsælu ævistarfi Halldórs Ásgrímssonar.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

„Sæll, þetta er Halldór Ásgrímsson, geturðu komið og hitt mig?“ Þetta símtal og fundurinn í framhaldi af því á síðustu dögum maímánaðar 1983 mótaði starfsbraut mína. Halldór var þá nýorðinn sjávarútvegsráðherra og var tilefni fundarins að bjóða mér að verða aðstoðarmaður hans, sem ég þáði. Þarna varð til sá strengur á milli okkar sem alla tíð var umvafinn vináttu og væntumþykju en sterkasta taugin í honum var það traust sem við bárum hvor til annars.

Enginn maður mér óvenslaður hefur reynst mér betur og verið mér umburðarlyndari. Halldór var drenglundaður mannkostamaður, hann var fastur fyrir, skapríkur en alltaf sanngjarn. Það var fyrir hans orð að ég ákvað á sínum tíma að helga mig stjórnmálavafstri um stund. Það var alltaf hægt að leita ráðgjafar og leiðsagnar hans í stóru sem smáu. Hann var alltaf tilbúinn til að hlusta og leggja gott til. Undirmál og svik voru hlutir sem hann fyrirleit. Halldór mat samstarfsmenn sína og pólitíska andstæðinga út frá þeirri mælistiku hversu vel hann gat treyst þeim.

Halldór var merkur stjórnmálaforingi, hann skilur eftir sig mörg af mikilvægustu stjórnmálaverkum samtímans. Hér gefst ekki tækifæri til að gera verkum Halldórs á löngum stjórnmálaferli skil. Þegar ég spurði Halldór fyrir stuttu hvaða ríkisstjórn hann hefði kunnað best við á þessum tæpu tuttugu árum sem hann sat í ríkisstjórn, svaraði hann strax: „Ég held að mér þyki vænst um fyrrihlutann í samstarfi Framsóknar og Sjálfstæðisflokks á árunum 1995 til 2006.“ Svarið kom mér ekki á óvart. Í þessu ríkisstjórnarsamstarfi náðu saman tveir mikilhæfustu stjórnmálaleiðtogar þjóðarinnar á þessum tíma, formenn þessara tveggja flokka. Ólíkir menn um margt, báðir höfðu sterkar skoðanir, voru drenglundaðir og stefnufastir. Það sem hins vegar skipti mestu var að strax í upphafi tókst með þeim sterkt trúnaðarsamband þar sem handtakið eitt var látið gilda því þeir treystu orðum hvor annars. Samstarf þeirra Halldórs og Davíðs í ríkisstjórn er eitt árangursríkasta stjórnarsamstarf á lýðveldistímanum.

Stundirnar þar sem stjórnmálunum sleppti hafa með árunum orðið enn dýrmætari en stundirnar í stjórnmálavafstrinu voru. Halldór var alvörugefinn maður en það var stutt í glensið hjá honum. Hann var afskaplega hlýr í viðmóti, sögumaður mikill og góður húmoristi. Margar áttum við stundirnar á fjöllum í okkar árlegu gönguferðum sem segja má að hafi hafist sumarið 1991 þegar við Kristín, Sigurjóna og Halldór gengum yfir Fimmvörðuháls. Sennilega var okkur báðum ferðin á Hvannadalshnjúk vorið 2004 eftirminnilegust því það stórfenglega útsýni sem opnaðist okkur þegar á toppinn var komið var tilkomumeira en orð fá lýst. Landið okkar birtist okkur alveg frá nýju sjónarhorni eftir erfiða göngu í hríðarbyl.

Komið er að kveðjustund. Samleið góð vörðuð minningum mörgum og góðum er þökkuð heilshugar í dag. Við Kristín sendum Sigurjónu, dætrum þeirra og tengdasonum svo og aðstandendum öllum innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Halldórs Ásgrímssonar.

Kristín og Finnur Ingólfsson.

Fáeinum dögum áður en fregnir bárust af alvarlegu áfalli Halldórs vatt hann sér inn á skrifstofu mína á Rauðarárstígnum, kampakátur. Það var fagnaðarfundur. Halldór hafði átt erindi við utanríkisráðherra og notaði tækifærið til innlits. Hann var að undirbúa erindi á alþjóðlegri ráðstefnu í Sjanghæ og ráðgerði einnig að þiggja boð um að flytja erindi á ráðstefnu Crans Montana-samtakanna. Þrátt fyrir að hafa yfirgefið hinn opinbera vettvang rann honum blóðið til skyldunnar. Í enskri tungu er til hugtak um einstaklinga sem skarað hafa fram úr á alþjóðavettvangi og leitað er til um ráð og sjónarmið; statesman. Í krafti yfirgripsmikillar reynslu sinnar, djúphygli og sannfæringar var Halldór Ásgrímsson slíkur maður. Hann naut virðingar, hafði margt fram að færa og eftir kröftum hans var sóst.

Halldór markaði djúp spor í íslensk utanríkismál og hefur enginn setið jafn lengi í því vandasama embætti að vera ráðherra utanríkismála. Kollegi hafði á orði að tala mætti um utanríkisþjónustuna fyrir og eftir Halldór. Hann varð utanríkisráðherra rétt eftir lok kalda stríðsins og á uppvaxtarárum EES-samningsins. Utanríkismál, staða og hlutverk Íslands í samfélagi þjóðanna var í mikilli deiglu. Halldór áttaði sig á áskorununum og var höfuðarkitektinn að því að laga utanríkisþjónustuna að þessum gerbreyttu tímum og áherslum. Hann hafði styrk og sýn til að efla hana og skerpa og skildi betur en margur nauðsyn þess fyrir lítið land að fjárfesta í öflugri utanríkisþjónustu og víðfeðmu neti ræðismanna.

Á tíma Halldórs sem utanríkisráðherra voru samskipti Íslands efld við mikilvæg samstarfsríki með opnun sendiráða í Tókýó og Ottawa. Hann sá þörfina á að efla enn frekar tengsl við Íslendingabyggðirnar í Vesturheimi með opnun aðalræðisskrifstofunnar í Winnipeg. Í tíð Halldórs var opnað fyrsta íslenska sendiráðið sunnan miðbaugs, í Mapútó í Mósambík. Auk þessara voru á árunum 1995-2004 opnaðar fastanefndir í Strassborg og Vínarborg að ógleymdri Helsinki, sem Halldór lagði mikla áherslu á enda var Finnland á þeim tíma eina norræna ríkið þar sem ekki var íslenskt sendiráð.

Að fyrirmælum Halldórs var viðskiptaþjónusta efld og sókn hafin á nýja markaði fyrir íslenskar afurðir, menningu og hugvit. Hann lagði ríka áherslu á málefni norðurslóða og var í forvígi þess að stofna Norðurskautsráðið, hann setti auðlindamál og sjálfbæra nýtingu auðlinda í forgrunn og má segja að hann hafi verið brautryðjandi á því sviði. Öryggis- og varnarmál voru Halldóri hugleikin. Lok kalda stríðsins voru tími tækifæra en jafnframt sviptist hulan af nýjum ógnum sem lýðræðisþjóðir urðu að takast á við í kjölfar hryðjuverkanna ellefta september í Bandaríkjunum. Halldór hafði skýra sýn á mikilvægi þess að Ísland sýndi samstöðu með bandamönnum sínum og lagði til rödd Íslands í hinni alþjóðlegu baráttu gegn hryðjuverkaógninni. Hann var jafnframt sannfærður um nauðsyn þess að Íslendingar, þótt fámennir væru, öxluðu sinn hluta af byrðum sem felast í öryggis- og varnarsamstarfi vestrænna ríkja og var t.a.m. forgöngumaður um stofnun íslensku friðargæslunnar.

EES-samningurinn hafði nýlega leyst landfestar þegar Halldór tók við embætti. Hann gerði sér strax grein fyrir gríðarlegu mikilvægi hans og lagði alla tíð ríka áherslu á öflug tengsl við Evrópu og skilvirka hagsmunagæslu í EES-samstarfinu. Norrænt samstarf og traust samvinna við Eystrarsaltsríkin var rauður þráður í öllu starfi Halldórs sem utanríkisráðherra. Það var því afar farsælt fyrir Norðurlandasamstarfið að Halldór réðst til að veita skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar forstöðu eftir að hann dró sig út úr íslenskum stjórnmálum.

Það vill oft gleymast að sá Íslendingur sem gegnir embætti utanríkisráðherra er jafnframt ráðherra þróunarmála, varnarmála, utanríkisviðskipta og Evrópumála. Það var því í mörg horn að líta en þrátt fyrir annir gaf hann sér ætíð tíma til að ræða málin. Hann áttaði sig á mikilvægi góðra tengsla og lagði ríka áherslu á að efla mannauð og þekkingu í röðum utanríkisþjónustunnar. Á löngum ferli byggði Halldór upp traust persónuleg tengsl við starfsbræður og -systur og aðra samferðamenn víða um lönd, sem minnast hans nú.

Ekki getum við lengur gengið í reynslubanka Halldórs Ásgrímssonar, sem féll frá alltof snemma. Hann var sviptur tækifærinu til að láta rödd sína heyrast en minnið um hann og hans góðu verk stendur óhaggað.

Að leiðarlokum vil ég fyrir hönd utanríkisþjónustunnar votta Sigurjónu, dætrum Halldórs og afkomendum dýpstu samúð á þessari sorgarstundu og jafnframt þakklæti fyrir farsæla samferð.

Stefán Haukur Jóhannesson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins.

Halldór Ásgrímsson var einn áhrifamesti stjórnmálamaður landsins um áratugaskeið. Hann þekkti vel til mála, kom að og hafði forystu um ýmsar stórar ákvarðanir sem teknar voru á hinum pólitíska vettvangi um hans daga. Við hið óvænta og ótímabæra fráfall Halldórs Ásgrímssonar á þjóðin á bak að sjá einum helsta stjórnmálaforingja sínum um áratugaskeið.

Halldór varð sjávarútvegsráðherra árið 1983, þá aðeins 36 ára að aldri, en vel undirbúinn þrátt fyrir ungan aldur. Sjávarútvegurinn stóð frammi fyrir gríðarlegum vanda. Staða ýmissa fiskistofna var veik og sóknarmáttur fiskiskipaflotans langt umfram afrakstursgetu stofnanna. Þær aðferðir sem menn höfðu fram að þessu notað til fiskveiðistjórnunar dugðu ekki lengur og niðurstaðan varð sú að úthluta aflaheimildum á fiskiskip á grundvelli veiðireynslu þeirra. Þetta var erfið og umdeild ákvörðun sem fól í sér minni rétt til sjósóknar af eðlilegum ástæðum, en var óhjákvæmileg við þessar aðstæður. Á þessum tíma talaði enginn um að þetta fæli í sér óréttmæta gjöf; kvótakerfið var einfaldlega nauðvörn við þröngar aðstæður.

Það var á þessum tíma sem ég hitti Halldór Ásgrímsson fyrst. Hann kom vestur, þar sem andstaða við kvótakerfið var býsna almenn, og stóð fyrir máli sínu á fjölmennum og háværum fundum. Maður gat ekki annað en dáðst að honum, ungum manninum, þar sem hann flutti mál sitt með sannfæringarkrafti, rökum og af yfirvegun.

Seinna, eða árið 1991, urðum við samverkamenn á Alþingi. Hann tók mér vel. Rifjaði oft upp góð kynni feðra okkar sem báðir störfuðu í sjávarútvegi og þar sem leiðir þeirra lágu saman.

Árið 1995 varð Halldór utanríkisráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. Gríðarleg reynsla og þekking hans á sjávarútvegssviðinu gerði það hins vegar að verkum að hann var oft kallaður til ráðslags og verka þegar leysa þurfti úr erfiðum viðfangsefnum á sviði sjávarútvegsmála. Þetta var á tímum mikilla umbrota í sjávarútveginum og víða í sjávarbyggðunum, í kjölfar hins frjálsa framsals sem ákveðið var árið 1990. Afleiðingar þeirrar lagasetningar kölluðu oft á torveldar og umdeildar aðgerðir þar sem reyndi á gott samstarf stjórnarflokkanna og trúnað á milli manna.

Þegar ég settist fyrst í ríkisstjórn, 27. september 2005, var Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra. Hann tók vel á móti mér. Kvaðst ánægður með að fá til verka í sjávarútvegsráðuneytinu mann með reynslu og bakgrunn á þeim vettvangi þar sem hann hafði sjálfur byrjað sinn langa og farsæla ráðherraferil. Svo ánægjuleg voru örlögin að á þessum fundi var ákveðið að hefja framkvæmdir við Bolungarvíkurgöng. Halldór studdi einbeittur við þessa framkvæmd og þótti gaman að því að svo vel hittist á að Bolvíkingur settist í ríkisstjórn þegar þessum ráðum var endanlega ráðið.

Það var ánægjulegt og gefandi að eiga Halldór að samverkamanni á hinum pólitíska vettvangi. Ótímabært andlát hans skilur eftir sig vandfyllt skarð. Sigurjónu konu hans og fjölskyldu færum við Sigrún okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Einar K. Guðfinnsson.

Góður vinur og samstarfsmaður um árabil er fallinn frá, langt um aldur fram. Löngum og farsælum starfsferli var lokið og ætlaði hann að eiga góð ár með fjölskyldu og vinum og sinna hugðarefnum en þá kemur kallið, öllum að óvörum.

Leiðir okkar Halldórs Ásgrímssonar lágu fyrst saman við kosningar til Alþingis í desember 1979. Þá vann Framsóknarflokkurinn nokkra nýja þingmenn og vorum við báðir í þeim hópi. Halldór hafði að vísu verið á þingi eitt kjörtímabil áður, en náði svo aftur kjöri í þessum kosningum. Á Alþingi störfuðum við saman í 20 ár og urðum bæði nánir samstarfsmenn og vinir. Við sátum saman í ríkisstjórnum í tvö kjörtímabil og í stjórn Framsóknarflokksins, ég sem ritari meðan hann var varaformaður og síðan sem varaformaður í nokkur ár í formannstíð Halldórs. Hann var traustur samstarfsmaður og á okkar samvinnu og vináttu bar aldrei skugga þó að vissulega kæmu upp einstök mál þar sem við vorum ekki alveg sammála.

Halldór var afar duglegur maður, vinnusamur og skoðanafastur. Því var hann fljótt valinn til trúnaðarstarfa fyrir flokkinn, á Alþingi og í ríkisstjórn. Bakgrunnur hans sem viðskiptamenntaður og löggiltur endurskoðandi leiddi til þess að hann lagði mikla áherslu á efnahagsmál og trausta efnahagsstjórnun í öllum sínum störfum. Hann sýndi einnig í mörgum öðrum málaflokkum hversu öflugur stjórnmálamaður hann var, ákveðinn og fylginn sér og hafði bæði hugrekki, styrk og þor til að fylgja sannfæringu sinni og koma í höfn málum sem til framtíðar horfðu landi og þjóð til farsældar. Sem sjávarútvegsráðherra í 8 ár átti hann sinn stóra þátt í að íslenskur sjávarútvegur er einn sá öflugasti í heimi og til fyrirmyndar öðrum þjóðum. Hann studdi sjálfbæra nýtingu auðlinda og skildi mikilvægi þess að nýta okkar endurnýjanlegu orkugjafa allt í senn í aljóðlegu samhengi, til heilla fyrir land og þjóð og til styrktar byggð sem stóð höllum fæti. Sem utanríkisráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda hafði hann sterka sýn á hlutverk og stöðu Íslands í samfélagi þjóða og hafði sérstakan áhuga á málefnum norðurslóða og mikilvægi þess að Ísland gegndi þar forystuhlutverki. Farsælum starfsferli sínum í þágu lands og þjóðar lauk Halldór sem framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar í sex ár. Margt fleira mætti telja upp af verkum Halldórs sem eins af sterkustu stjórnmálaleiðtogum þjóðarinnar á undanförnum áratugum, en þingmennsku gegndi hann í 31 ár. Sagan mun skrá það og varðveita og meta að verðleikum.

Halldór þótti á stundum nokkuð þungur á bárunni og ekki allra en átti líka sínar ljúfu og skemmtilegu hliðar. Ég minnist þess úr afmælisboði fyrir allmörgum árum þar sem saman komu bæði kunningjar innan og utan stjórnmálanna. Einn af vinum mínum sem ekki þekkti Halldór nema sem frekar þungbúinn stjórnmálamann sagði mér síðar að hann hefði kynnst alveg nýrri hlið á manninum sem allt kvöldið lék á als oddi, sagði skemmtisögur, gerði grín og hermdi eftir. Halldór var líka mikill útivistarmaður, ferðaðist og gekk um fjöll og firnindi með vinum og naut þess að fara á skíði. Við Vigga höfum átt margar ánægjulegar samverustundir með þeim hjónum, Halldóri og Sigurjónu, sem við þökkum fyrir. Við sendum Sigurjónu og fjölskyldu svo og öllum vinum og vandamönnum okkar innilegustu samúðarkveðjur og biðjum þeim blessunar guðs. Minningin um góðan dreng mun lifa.

Guðmundur Bjarnason.

Með andláti Halldórs Ásgrímssonar er höggvið skarð í spilaklúbbinn Uden Fit. Klúbburinn varð til í Kaupmannahöfn haustið 1972 og hefur verið spilað flesta þriðjudaga á veturna í nær 43 ár. Meðlimir voru námsmenn sem bjuggu á stúdentagarðinum Solbakken ásamt Pjetri, bekkjarbróður Halldórs á Bifröst, en hann starfaði hjá Flugfélaginu þar úti. Þegar heim kom bættist Gunnar, skólafélagi á Bifröst, fljótlega í hópinn. Síðan þá hefur lífið einkennst af töpum og sigrum, sorg og gleði, vonum og þrám eins og gengur í lífinu. En alltaf höfum við staðið saman og munum gera áfram.

Á Kaupmannahafnarárunum vorum við að stofna fjölskyldur, hippatíminn á fullu, vor í lofti og öllum leið vel. Þegar heim til Íslands var komið hófust menn handa við að skapa sér tilveru hver á sinn hátt. Spilaklúbburinn hélt áfram undir nafninu Uden Fit og þótti það einnig nothæft nafn fyrir gönguhóp, sem varð til með vinum og vandamönnum að frumkvæði Halldórs og Sigurjónu.

Stundum sýndu sumir úr hópnum snilld við græna borðið eins og þegar fulltrúar Uden Fit kepptu við margfaldan heimsmeistara, bridgespilarann Belladonna. Halldór sagði eitt grand af tilfinningu en Belladonna doblaði og vann þetta spil, en við unnum lotuna. Eftir það var viðkvæðið jafnan í spilamennskunni: Hvað hefði Belladonna gert núna?

Réttlæti og sanngirni ásamt metnaði í hugsun og verki voru aðalsmerki Halldórs. Hann sameinaði umsvifamikil störf og einlægni í einkalífi. Hann töfraði á sinn hátt fram hjartahlýju í nálægð ættingja og vina, var ætíð traustur vinur svo bar af og hrókur alls fagnaðar þegar sá gállinn var á honum.

Einu sinni fórum við saman til Parísar og í þeirri ferð fengum við okkur kvöldverð á djassbar. Eftir matinn var boðið upp á írskt kaffi. Allir fengu kaffi, en Halldór var temaður og þar sem hann var í góðri stemningu bað hann um afbrigði: Grand Marnier í staðinn fyrir írskt viskí, te fyrir kaffi og fromage fyrir þeyttan rjóma. Þjónninn áttaði sig ekki alveg á þessari pöntun og færði Halldóri ostaköku, sem er ,gateau au fromage‘ á frönsku. Við höfum síðan reglulega strítt honum á þessu og hafði hann jafnan lúmskt gaman af.

Halldór vann langan vinnudag og var mikið á ferðalögum vegna vinnu sinnar, bæði innanlands og erlendis. Hann reyndi þó að eiga líf fyrir utan pólitíkina, komast í spil á þriðjudagskvöldum og í göngutúra á sumrin. Við höfum gengið víða um Ísland og einnig farið nokkrum sinnum utan. En best þótti honum að ganga um íslenska náttúru og var það honum sérstök ánægja að leiða okkur um sínar heimaslóðir í Lóni og Lónsöræfum.

Okkur félögunum er brugðið við fráfall vinar okkar Halldórs Ásgrímssonar, en við munum áfram halda okkar striki í hans anda.

Við þökkum fyrir þær stundir sem við áttum saman og sendum innilegar samúðarkveðjur til Sigurjónu, dætranna og annarra aðstandenda.

Spilafélagarnir:

Skúli Jóhannsson, Benedikt Steingrímsson, Sigurður Gils Björgvinsson, Pjetur Már Helgason og Gunnar Ólafsson.

Það er einkennileg tilfinning að skrifa minningarorð um minn góða samstarfsmann og vin Halldór Ásgrímsson. Minningarnar hrannast upp frá samstarfi okkar og kynnum síðustu fjóra áratugi. Ég hitti hann í fyrsta skipti á Kjördæmisþingi framsóknarmanna á Berufjarðarströnd árið 1974, er hann var útnefndur í framboð í Austurlandskjördæmi. Nokkru seinna bar hann að garði okkar Margrétar á Egilsstöðum, var á ferðalagi á Austurlandi og bar unga dóttur sína í burðarpoka á bakinu. Hann hafði lent í því að bíllinn bilaði á Öxi og kom við til að skipuleggja framhald ferðarinnar. Þetta var í rauninni upphaf að okkar kynnum og okkar langa ferðalagi saman um refilstigu stjórnmálanna.

Bakgrunnur Halldórs á Austurlandi var sterkur. Þar var hann fæddur og uppalinn og stundaði vinnu til sjávar og sveita frá unga aldri í Hornafirði og Suðursveit. Sem ungur drengur dvaldi hann á Vopnafirði hjá ömmu sinni og afa sem hann mat mjög mikils.

Halldóri var í upphafi falinn mikill trúnaður á sviði stjórnmálanna. Strax komu í ljós þeir eiginleikar sem einkenndu hann alla tíð. Hann var óhemju vinnusamur og mikill málafylgjumaður. Hann sagði ekki eitt í dag og annað á morgunn. Samt vildi hann komast að niðurstöðu í málum og var tilbúinn að gera málamiðlanir og standa við þær. Allan hans feril er ógjörningur að rekja í stuttum minningarorðum. Hann var í fylkingarbrjósti í nauðsynlegum breytingum í sjávarútvegi sem voru byltingarkenndar og afar umdeildar, en hann hafði ríka sannfæringu fyrir. Sömuleiðis hafði hann sannfæringu fyrir því að við ættum að hafa traust samstarf við Evrópuþjóðir, sem var einnig ofurheitt mál. Þetta og ýmislegt fleira sem upp kom í baráttu daganna var til þess að hann lenti í miklum ólgusjó umræðu sem oft var einkanlega ósanngjörn og persónuleg og féll okkur vinum hans og samstarfsmönnum þungt. Oft varð okkur hugsað til hans og fjölskyldu hans þegar þessar öldur risu sem hæst.

Halldór mat fjölskyldu sína mikils og ég veit að honum féll þungt þegar skyldfólk hans og ástvinir voru dregnir inn í stjórnmálaumræðuna. Hins vegar var hann svo lánsamur að eiga samheldna fjölskyldu að baki og einstakan lífsförunaut sem Sigurjónu sem stóð ætíð þétt við bakið á honum.

Þegar Halldór dró sig til baka úr stjórnmálum kaus hann að hverfa til starfa erlendis og sinnti málum á alþjóðavettvangi fram á síðasta dag. Hann blandaði sér ekki í stjórnmálaumræðu dagsins hérlendis og lét eftirmönnum eftir sviðið. Hann var í rauninni á heimavelli hjá Norrænu ráðherranefndinni og þekkti starfsemi hennar frá öllum hliðum.

Okkur Margréti þykir vænt um minningu Halldórs, og ekki síst hugsum við til hennar Sigurjónu, dætra hans og afkomenda. Megi þeim takast að vinna úr þessu mikla og óvænta áfalli.

Einkar vænt þykir mér um árin okkar í Austurlandskjördæmi. Samskipti við gott fólk af öllum flokkum, ferðalög sumar og vetur á nóttu og degi, í sumarblíðu og vetrarbyljum. Ekki síst minnist ég nú á þessari stundu okkar góðu félaga í þingmanna- og ráðherrahópi sem komu að austan, þeirra Vilhjálms Hjálmarssonar og Tómasar Árnasonar. Það er einkennileg tilfinning að fylgja þessum vinum sínum og samstarfsmönnum öllum til grafar á einu ári.

Halldór hafði í gegn um sinn langa feril gríðarlega reynslu og yfirgripsmikla þekkingu á landsmálum. Það er gott að minnast stjórnmálaforingjans, sem var þéttur á velli og þéttur í lund, en hlýr og góður félagi.

Jón Kristjánsson.

Það var glaðbeittur hópur ungmenna sem stefndi að Samvinnuskólanum að Bifröst á haustdögum 1963. Tveggja ára skólaganga þeirra þar var að hefjast. Fæstir þekktust nokkuð en fólk var fljótt að kynnast, enda skólastarfið byggt upp þannig að nemendur voru mikið saman bæði í námi og tómstundum. Einn af hópnum var Halldór Ásgrímsson frá Höfn í Hornafirði. Þrátt fyrir að Halldór léti námið ævinlega ganga fyrir, þá var hann einnig mjög virkur í félagslífinu og félagi í flestum þeirra tómstundaklúbba sem starfræktir voru. Hann var hrókur alls fagnaðar, gat verið mjög glettinn og hafði skemmtilega frásagnarhæfileika. Mikið var lagt uppúr því að losa nemendur við óttann við ræðustólinn og var Halldór fljótur að yfirstíga þann ótta. Það orð fór af Samvinnuskólanum á þessum tíma að hann sætu helst ekki aðrir en harðir framsóknarmenn. Það var nú reyndar öðru nær, því reglulega var tekist á um pólitík. Að loknu námi á Bifröst aflaði Halldór sér réttinda sem löggiltur endurskoðandi og hélt síðan til framhaldsnáms í verslunarháskóla í Björgvin og Kaupmannahöfn. Halldór var mikill útivistarmaður sem unni landinu og perlum þess. Hann fór fljótlega að láta til sín taka í stjórnmálum og gekk til liðs við Framsóknarflokkinn og kom sér nú vel að hafa tekið þátt í félagsstarfi og ræðukeppnum á Bifröst. Fljótt kom í ljós að Halldór var góður ræðumaður, rökfastur og drenglyndur. Hann var reiðubúinn að hlusta á rök annarra en gerði líka þær kröfur að hlustað væri á sín. Kennarar á Bifröst voru fljótir að sjá hæfileika hans og höfðu á orði að ef einhver ætti eftir að hljóta frama í pólitík, þá væri það hann. Halldór var kjörinn til setu á Alþingi árið 1974 og sat á þingi samtals í 31 ár. Hann var varaformaður Framsóknarflokksins frá árinu 1980 til 1984 er hann tók við formennsku í flokknum sem hann gegndi til ársins 2006. Halldór lét sig efnahagsmál miklu varða, var sá einstaklingur sem mótaði hvað mest stefnu til bjargar sjávarútveginum á sínum tíma, var einlægur talsmaður fyrir norrænu samstarfi og gegndi m.a. starfi framkvæmdastjóra norrænu ráðherranefndarinnar. Halldór var ekki óumdeildur, enda eru þeir það sjaldnast sem þora að taka ákvarðanir. Hópurinn frá Bifröst hélt ágætlega saman. Við vorum 38 sem lukum prófi vorið 1965 og áttum því 50 ára útskriftarafmæli fyrir nokkrum dögum. Þau okkar sem búsett eru á höfuðborgarsvæðinu hittumst helst einu sinni í mánuði yfir vetrartímann og göngum ásamt mökum okkar um áhugaverða staði okkur til skemmtunar og heilsubótar. Þegar tími Halldórs leyfði kom hann ásamt Sigurjónu eiginkonu sinn með okkur í þessar göngur. Við skólasystkinin höfum því fylgst hvert með öðru þessi ár sem liðin eru frá útskriftinni. Halldór mat kynni af þessum hópi mikils. Við bekkjarsystkini Halldórs sendum Sigurjónu eiginkonu hans, dætrum þeirra og fjölskyldum okkar dýpstu samúðarkveðjur. Við bekkjarsystkini Halldórs frá Bifröst kveðjum góðan félaga með trega, en minning um góðan dreng mun lifa og ylja okkur í framtíðinni.

Ragnar Snorri Magnusson.

Síminn hringir: „Sæl – ég heiti Halldór.“

Röddin var lágstemmd, hæversk og hlý eins og persónuleiki mannsins sjálfs, og eins og hann kom alltaf fram við okkur. Halldór hafði einlægan vilja til að fylgjast með fjölskyldunni og var alltaf til staðar þegar hann mögulega gat, með sína hlýju nærveru.

Við áttum sumarbústaði í Grímsnesinu, í nágrenni hvert við annað, og ánægjustundirnar voru margar þar með börnum og barnabörnum. Það þurfti að sinna gróðrinum og rækta, bera á pallinn og sinna viðhaldi, það var tekin inn hitaveita með tilheyrandi stússi og ráðgast um þetta allt saman yfir kaffi eða góðri máltíð. Fuglana, vini okkar í sveitinni, bar oft á góma, en Halldór var mikill fuglavinur, þekkti fuglahljóðin og má segja að fuglar hafi verið eitt af hans áhugamálum.

Minnisstæður er stóri jarðskjálftinn 17. júní 2000, en þá sátum við hjónin yfir kaffi og pönnukökum í okkar bústað. Skjálftinn var varla riðinn yfir þegar við sjáum Halldór á harða spretti niður Fljótsbakkann. Þau Sigurjóna höfðu verið á göngu, en Guðrún móðir Halldórs var í bústaðnum þeirra og þau höfðu eðlilega áhyggjur af henni. En Guðrún var æðrulaus kona, eins og sonurinn, var sallaróleg og kippti sér lítið upp við skjálftann, þrátt fyrir að hlutir hryndu úr hillum, en þarna náði Halldór spretti á mjög góðum tíma.

Það er margs að minnast. Við höfum átt góðar stundir í fríum með fjölskyldunum okkar hérlendis og erlendis, undanfarin ár höfum við hjónin notið samverustunda með Halldóri og Sigurjónu á Kanarí í janúar ár hvert. Halldór og Gísli voru bræður í Oddfellowstúkunni nr. 11, Þorgeiri, og eins er gott að minnast samveru á áskriftartónleikum Simfóníuhljómsveitar Íslands.

Þau Sigurjóna og Halldór hafa verið búsett erlendis undanfarin ár, en Halldór sinnti störfum hjá Norrænu ráðherranefndinni. Alltaf var samt stutt heim. Framundan voru árin sem við höfðum vonast til að geta notið meira saman í Grímsnesinu. Við komum til með að sakna vinar í stað.

Ég heiti Halldór, var símakveðjan hans. Halldór, við söknum þín öll. Hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gísli og Jónína Sigríður.

Liðin eru 25 ár síðan fjölskylda okkar eignaðist sumarbústað við Álftavatn í Grímsnesi. Við vorum svo heppin, að á sama tíma byggðu Halldór Ásgrímsson og Sigurjóna kona hans bústað á næstu lóð. Við það sköpuðust góð kynni, gagnkvæmt traust og náin samvinna um framkvæmdir og eftirlit með bústöðunum. Nú þegar farfuglar hópast heim og eigendur vitja bústaða sinna, ríkti gleði og vor í lofti. Við skyndilegt fráfall Halldórs grúfir nú skuggi sorgar og söknuðar yfir hverfinu. Halldóri hefur verið lýst sem kletti í ólgusjó stjórnmálanna. Í okkar augum var hann traustur og bóngóður einstaklingur, sem gott var að eiga að í nágrenninu. Á erfiðum tímum held ég, að Halldór hafi notið þess best að slaka á í faðmi náttúrunnar og með því að rækta og fegra umhverfi sitt. Við Unnur sendum Sigurjónu og fjölskyldu þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur með þökk fyrir nábýlið á liðnum árum, sem aldrei bar skugga á. Genginn er drengur góður. Blessuð sé minning Halldórs Ásgrímssonar.

Unnur og Auðólfur.

Halldór Ásgrímsson var öflugur stjórnmálamaður. Hann var kjörinn alþingismaður 27 ára gamall og eftir það starfaði hann á Alþingi samtals í 31 ár, þar af sem ráðherra í 19 ár. Hann lét þess getið í fyrstu ræðu er hann hélt sem nýkjörinn þingmaður í þingflokki framsóknarmanna að þótt hann hefði ekki reynslu á við marga í þeim hópi mundi hann ekki taka við neinum fyrirmælum. Þessi athugasemd lýsti Halldóri vel. Hann myndaði sér skoðanir og lét þær í ljósi af fullri einurð. Hann vildi ráða og hafa forystu. Honum var enda sýnt mikið traust af samstarfsmönnum. Halldór var kjörinn varaformaður Framsóknarflokksins 1980 og formaður frá 1994 til 2006.

Halldór var sjávarútvegsráðherra í átta ár. Á þeim tíma stóð sjávarútvegurinn, og þar með þjóðarbúið, frammi fyrir miklum vanda. Ofveiði ógnaði viðgangi margra fiskistofna og óhjákvæmilegt var að takmarka sókn og stýra veiðunum. Halldór réðist í þetta örðuga og viðkvæma verkefni og þrátt fyrir stöðugan ófrið hefur Íslendingum tekist að ná betri og farsælli stjórn á fiskveiðum en flestum öðrum þjóðum. Alla tíð síðan Halldór lét af embætti sjávarútvegsráðherra hefur hann í vitund þjóðarinnar verið sá sem öllu réði í þeim málaflokki, sama hver setið hefur í embættinu.

Halldór var mikill skapmaður en traustur og ákaflega orðheldinn og stórheiðarlegur. Þrátt fyrir alvarlegt viðmót var hann viðkvæmur og tók nærri sér óréttmætar árásir, sem hann fór ekki varhluta af.

Halldór lagði mikla vinnu á sig sem flokksformaður og var lengst af sigursæll í kosningum. Sem utanríkisráðherra komst hann á þá skoðun að Ísland ætti að leita aðildar að Evrópusambandinu. Það var andstætt skoðunum þorra flokksmanna og varð að alvarlegu ágreiningsefni margra okkar við formanninn. Sem betur fer er sá ágreiningur ekki lengur uppi í flokknum og einhugur um að Íslandi sé betur borgið utan sambandsins.

Halldór ákvað sjálfur árið 2006 að láta af trúnaðarstörfum í íslenskum stjórnmálum. Það reyndist vera verulegt áfall, því í kjölfarið komst Hrunstjórnin til valda árið 2007 með alkunnum afleiðingum.

Halldór varð framkvæmdastjóri norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn og leysti þar mikilvæg störf vel af hendi sem vænta mátti.

Halldór var ákaflega vel giftur. Kona hans Sigurjóna Sigurðardóttir bjó honum ómetanlegt skjól hvernig sem stormar blésu.

Hann hafði mikil áhrif á ferli sínum og vann þjóð sinni, kjördæmi og heimabyggð af alhug og einbeitni. Við sem unnum með honum áratugum saman sendum Sigurjónu og afkomendum hans innilegar samúðarkveðjur og kveðjum hann með virðingu og þökk.

Sigrún Magnúsdóttir og Páll Pétursson.

Skömmu eftir að Halldór var fyrst kjörinn á þing áttum við umsjónarmenn vikulegrar síðu viðtal við hann sem birtist „Á vettvangi“ Tímans. Það voru mín fyrstu kynni af þeim kæra vini sem hér er kvaddur, einum heilsteyptasta og traustasta manni sem ég hef kynnst. Síðan eru liðin rúm fjörutíu ár.

Þegar litið er til samverustunda okkar víða um heim er mér efst í huga þakklæti fyrir góðvildina, traustið og alla skemmtunina. Halldór heimsótti okkur hjónin til Þýskalands sem sjávarútvegsráðherra og dvaldi hjá okkur í Kína með Vigdísi forseta í opinberri heimsókn 1995, þá sem utanríkisráðherra. Báðar ferðirnar urðu síðar tilefni til kímnisagna Halldórs.

Á árunum 1998-2001 vann ég náið fyrir Halldór og ferðuðumst við um allan heim. Halldór þekkti öll flug sem komu til greina og sá út tíma og flugleiðir sem aðrir vissu ekki að væru til. Flugferðirnar voru notaðar til vinnu. Halldór kynnti sér málefnin út í hörgul og kom aldrei óundirbúinn á fundi eða í viðtöl. Hann var manna skemmtilegastur í góðra vina hópi, hafði yndi af að segja frá fólki og atvikum, einkum að austan. Græskulaus húmorinn var allsráðandi. Að lokinni hverri ferð, með tilheyrandi álagi, hellti hann sér í innanlandspólitíkina eins og ekkert væri, fór í umræður á Alþingi og fékkst við flókin þjóðþrifamál.

Oft hafði verið rætt um íslenskt sendiráð í Kanada. Einu sinni sem oftar vorum við á leið heim af utanríkisráðherrafundi NATO. Í flugvélinni töluðu Lloyd Axworthy, utanríkisráðherra Kanada, og Halldór enn um málið. Í háloftunum tókust þessir vinir svo í hendur og sögðu að nú yrði að framkvæma. Gagnkvæm opnun í Ottawa og Reykjavík og tilkynningar um það samtímis myndu greiða fyrir málinu, því hvert sendiráð skilar innkomu í hagkerfi þess lands þar sem það er staðsett. Vorið 2001 opnaði svo Halldór sendiráðið í Ottawa með einni af mörgum eftirminnilegum ræðum sínum. Þaðan lágu síðar leiðir suður til New York þangað sem þau Sigurjóna komu og síðast til Washington að Halldór kom til að ræða mannréttindamál með erlendum fyrrverandi ráðherrum.

Í Grímsnesi við Álftavatn komu Halldór og Sigurjóna sér upp sumarbústað og nutu þess ríkulega að dvelja þar, fjarri skarkala og stjórnmálaátökum. Við Anna eignuðumst sumarbústað skammt frá og nutum reynslu þeirra af gróðursetningu og umgengni við náttúruna. Við eigum ótal dýrmætar minningar þaðan, af spjalli, gönguferðum og fuglaskoðun. Saman rákum við „jeppakerrufélagið“ o.fl. skemmtilegt. Það var alltaf gott veður í Grímsnesinu! Við erum þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að hittast þar í fyrrasumar. Ekki grunaði okkur að það yrði í hinsta sinn með Halldóri. En leiðtoginn í starfi og leik hefur nú kvatt langt um aldur fram og hans er sárt saknað.

Elsku Sigurjóna: Ykkar er sorgin mest og söknuðurinn. Við Anna sendum þér, dætrunum og fjölskyldunni allri innilegustu samúðarkveðjur héðan frá Winnipeg. Megi góður Guð sefa sorg ykkar en ljúfar minningar ylja ykkur um ókomin ár. Guð blessi ykkur öll og minninguna um drenginn góða.

Hjálmar W. Hannesson.

Með Halldóri Ásgrímssyni er genginn einn mætasti maður sem ég hef kynnst á lífsleiðinni.

Halldór var nýorðinn utanríkisráðherra þegar ég réðst til starfa í ráðuneyti hans í byrjun árs 1996. Hann hafði verið sjávarútvegsráðherra í átta ár þar á undan og hafði mikinn skilning á mikilvægi hafréttar- og auðlindamála fyrir Íslendinga. Við unnum afar náið saman að hagsmunagæslu á þessu sviði á næstu árum og leiddum til lykta mörg viðkvæm og krefjandi mál. Meðal annars gengum við frá samningum við nágrannaríkin um afmörkun hafsvæða sem fólu í sér að mörk íslensku efnahagslögsögunnar voru endanlega til lykta leidd. Enn fremur lögðum við grunninn að hinu stóra landgrunnsverkefni sem miðar að því að öðlast yfirráð yfir sem víðáttumestum hafsbotnssvæðum utan efnahagslögsögunnar og enn er ekki að fullu lokið.

Halldór beitti sér mjög fyrir lausn Smugudeilunnar við Noreg og Rússland, svo og fyrir því að ná samkomulagi við nágrannaríkin um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum. Honum var einkar lagið að leita sátta, lægði öldurnar fremur en að magna deilur og ávann sér virðingu fyrir það. Hann axlaði mikla ábyrgð og sýndi pólitískan kjark með framangreindum samningum. Ýmsir urðu til þess að gagnrýna síldarsamninginn harkalega en tíminn hefur leitt í ljós að hann var Íslandi mjög hagstæður og vildu nú allir þá Lilju kveðið hafa.

Það er til marks um ábyrgðartilfinningu Halldórs og brennandi áhuga á þessum brýnu hagsmunamálum Íslendinga að hann hringdi í mig frá sjúkrahúsi daginn áður hann fór í erfiðan uppskurð haustið 2002 til að fá fréttir af stöðu mála á fundi Alþjóðahvalveiðiráðsins í Cambridge. Það hafði ekki hvarflað að mér að trufla hann við þessar aðstæður en mér þótti mjög vænt um að geta glatt hann einmitt á þessu augnabliki með því að færa honum þær fréttir að á fundinum hefði ráðið, eftir þrjár tilraunir af okkar hálfu, loks viðurkennt að Ísland væri á ný aðili að því og með fyrirvara við bann ráðsins við hvalveiðum í atvinnuskyni og því óbundið af því.

Ég er Halldóri þakklátur fyrir það mikla og óbilandi traust sem hann sýndi mér á upphafsárum mínum í utanríkisþjónustunni. Samskipti okkar voru ávallt hrein og bein og gagnkvæmur trúnaður ríkti á milli okkar. Halldór var gull af manni.

Ég votta Sigurjónu og dætrunum mína dýpstu samúð. Blessuð sé minning Halldórs Ásgrímssonar.

Tómas H. Heiðar.

Leiðir okkar Halldórs lágu saman er hann varð sjávarútvegsráðherra árið 1984. Ég var þá við störf í sendiráðinu í Washington D.C. og hvalamál voru meðal þeirra mála sem íslensk stjórnvöld þurftu að sinna á alþjóðavettvangi, ekki síst gagnvart Bandaríkjunum. Þessi kynni entust til æviloka hans og með okkur tókst vinátta sem aldrei skyggði á. Halldór flutti mál sitt af yfirvegun og þekkingu og fundir með ráðherrum og embættismönnum sýndu glöggt hversu góður fulltrúi hann var fyrir þjóð okkar. Sem ráðuneytisstjóri hans í utanríkisráðuneytinu áttum við dagleg samskipti í fjögur ár. Mörg erfið og vandasöm mál voru til umfjöllunar í ráðuneytinu í tíð hans og kom sér vel að Halldórs naut við í starfi utanríkisráðherra. Hann og Sigurjóna kona hans unnu sér strax traust og virðingu starfsfólks utanríkisþjónustunnar. Halldór var vinnusamur svo af bar, setti sig vel inn í öll mál og hlífði sér hvergi við að vinna að framgangi þeirra og hagsmunagæslu okkar. Það voru oft langir vinnudagar, ferðalög og álag sem hvíldu á Halldóri á þessum árum. Síðasta ferð okkar Halldórs til útlanda var opinber heimsókn hans til Ísrael 2002 þar sem hann átti viðræður við Shamir, forsætisráðherra og Perez, utanríkisráðherra Ísrael auk þess að eiga fund með Arafat og forystumönnum Palestínumanna. Halldór hafði góðan skilning á þessum erfiðu málum og sérstaklega er minnisstæður fundur hans í þessari ferð með Abdullah, konungi, í Amman í Jórdaníu um þau efni. Ekki var allt í alvöru slegið því við Halldór tókum lagið og sungum Öxar við ána i sönghelli í Petra í Jórdaníu fyrir sjónvarpsmenn, við nokkuð góðar undirtektir.

Við hjónin bárum gæfu til að rækta vináttu okkar við Halldór og Sigurjónu. Við áttum góðar og skemmtilegar stundir á heimili þeirra og þá ekki síst í sumarbústað þeirra við Álftavatn. Þau voru afar samhent og sérlega gestrisin og nutu vinir þeirra þess í ríkum mæli. Þau hjón eignuðust þrjár mannvænlegar dætur og nutu þess að eiga góðar stundir með börnum og barnabörnum.

Nú er genginn drengur góður. Það var gott að eiga Halldór að vini og félaga og við minnumst hans með þakklæti og virðingu.

Við Heba vottum Sigurjónu og dætrunum og fjölskyldum þeirra okkar dýpstu samúð.

Helgi Ágústsson.

Leiðir mínar og Halldórs Ásgrímssonar lágu fyrst saman þegar hann kom sem sjávarútvegsráðherra til Brussel seint á níunda áratug. Ég hafði að sjálfsögðu fylgst með ferli hans í stjórnmálum en kynntist þarna í fyrsta skipti hversu yfirgripsmikil og víðtæk þekking hans á alþjóðastjórnmálum var. Hann var eindreginn talsmaður vestrænnar samvinnu og hafði mikinn metnað fyrir Íslands hönd, vildi ekki aðeins vera þiggjandi heldur einnig axla ábyrgð. Sjávarútvegur er reyndar sá vettvangur þar sem Ísland getur helst talist til hinna stóru og held ég helst að það hafi mótað nálgun Halldórs alla tíð. Ísland var aldrei smáríki frá hans bæjardyrum séð heldur ríki sem átti fullan rétt á að láta til sín taka og láta rödd sína heyrast. Aldrei fann ég fyrir snefil af minnimáttarkennd hjá honum. Hann var fastur fyrir í hagsmunagæslu fyrir Íslands hönd enda sjóaður úr erfiðum samningaviðræðum en nálgaðist viðmælendur sína á erlendum vettvangi án yfirgangs sem jafningi. Hann stóð föstum fótum í íslensku atvinnulífi og þekkti þar hvern krók og kima en hafði jafnframt yfirsýn og glögga sýn á heildarhagsmuni. Með vinnusemi, orðheldni og þekkingu vann hann sér traust samstarfsaðila heima sem erlendis og virðingu undirmanna.

Halldór var í stjórnarandstöðu þegar EES-viðræður voru leiddar til lykta og síðar til umfjöllunar á Alþingi. Hann hélt þá uppi öflugri gagnrýni. Hann var hins vegar ævinlega með hugann við það hvernig hagsmunum Íslands væri best borgið og sagði mér síðar hvernig hann hefði hagað málflutningi sínum og gagnrýni á þann veg að það gæti styrkt þáverandi utanríkisráðherra á erlendum vettvangi fremur en veikt.

Halldór hafði lengi tekið virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi frjálslyndra stjórnmálaflokka, Liberal International. Einnig var hann á heimavelli þegar kom að norrænu samstarfi. Hann átti sér umfangsmikið tengslanet víða um Evrópu og marga vini víða í áhrifastöðum. Eftir brotthvarf Austurríkis, Finnlands og Svíþjóðar til ESB og Sviss frá EES-samstarfi var EFTA-stoðin veikari en áður og vildi Halldór kanna til hlítar hvernig mætti efla stöðu Íslands innan EES en jafnframt kanna hvaða aðrir kostir gætu verið í stöðunni. Hann velti því fyrir sér hvort aðild Íslands að ESB gæti verið kostur í stöðunni en þá og því aðeins að tryggt væri að hagsmunum landsins væri ekki teflt í voða. Hann varpaði fram hugmyndum í þessa veru, m.a. á málþingi í Berlín.

Eftir að Halldór tók að sér að leiða starf norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn var hljótt um hann heima og hann lagði sig greinilega ekki eftir því að koma því á framfæri hversu miklu hann fékk þar áorkað. Ég varð hins vegar áþreifanlega var við hvað hversu mikils metinn hann var í Þýskalandi og Póllandi.

Ég minnist mikilhæfs stjórnmálaleiðtoga, öflugs ráðherra en einnig trausts vinar og góðs drengs. Sigurjónu og dætrum sendi ég mínar hugheilu samúðarkveðjur við sviplegt fráfall.

Gunnar Snorri Gunnarsson.

Ég kynntist Halldóri Ásgrímssyni fyrst þegar ég var blaðamaður og þingfréttaritari á Morgunblaðinu. Hann naut mikillar virðingar á Alþingi, hafði komið þangað inn fyrst sem ungur maður og mér fannst einkar gott að leita til hans. Síðar kynntist ég honum og Sigurjónu betur á ferð um Bandaríkin í tilefni landafundanna, þar sem virðing og hlýja einkenndi alla þeirra framkomu.

Þegar ég hóf síðar störf á vettvangi Framsóknarflokksins varð samstarf okkar mjög náið, enda Halldór formaður flokksins. Þá kynntist maður óbilandi baráttuþreki, vinnusemi og hlýju viðmóti sem gerði það að verkum að maður vildi allt fyrir hann gera.

Árin sem ég varð þess heiðurs aðnjótandi að vera aðstoðarmaður Halldórs sem utanríkisráðherra og síðar forsætisráðherra eru ógleymanleg. Þeirri sögu mun ég gera gleggri skil á öðrum vettvangi síðar, en það var einstök reynsla að vinna svo náið með margreyndum stjórnmálaleiðtoga; ferðast með honum um allt land við hvaða aðstæður sem var og spjalla við fólkið í landinu. Að ekki sé talað um ótal ferðalög til útlanda, stundum á framandi staði. Við slíkar aðstæður kynnast menn náið og til verða bönd sem halda til langrar framtíðar.

Halldór var formaður í sögufrægum stjórnmálaflokki sem byggir ekki síst á þjóðlegum hefðum og gildum, en hann var jafnframt mikill heimsborgari og alþjóðasinni. Hann hafði skýra framtíðarsýn, naut þess að hafa búið erlendis og vissi að margt er fleira merkilegt en það sem íslenskt er. En hann unni landi sínu og þjóð sömuleiðis og vildi Íslandi allt. Sagan á eftir að dæma glæstan stjórnmálaferil hans að verðleikum.

Það var áfall að heyra af veikindum hans og þegar ljóst var í hvað stefndi setti mann hljóðan. Við höfðum rætt saman aðeins fáeinum dögum áður og ætluðum að leika golf í sumar. Halldór var þá hress og sagðist njóta þess að vera til. Við leiðarlok er ég fullur þakklætis fyrir allt sem Halldór gerði fyrir mig og kenndi mér og færi Sigurjónu frænku og öðrum í fjölskyldu Halldórs og vinum hans mínar innilegustu samúðarkveðjur. Þetta kall kom allt of fljótt, en það er líkt Halldóri að vera kallaður til brýnna verkefna á öðrum vettvangi.

Guð blessi minningu Halldórs Ásgrímssonar.

Björn Ingi Hrafnsson.

Við ótímabært og skyndilegt fráfall Halldórs Ásgrímssonar leitar margt á hugann. Vel á þriðja áratug lágu leiðir okkar saman á Alþingi, ýmist sem samherjar eða í gagnstæðum fylkingum. Um árabil vorum við nágrannar í Brekkuselinu í Breiðholti og tróðum jafnvel upp saman á skemmtunum á vegum foreldrafélags Ölduselsskóla. Við slík tækifæri kynntist maður hlið á Halldóri sem annars bar allajafnan lítið á. Það var þegar hinn þungbrýndi, alvörugefni stjórnmálamaður breyttist í spaugsaman grallara sem reyndist til í ýmislegt þegar börn hans og skólinn þeirra áttu í hlut.

Mín fyrstu alvörukynni af Halldóri voru vorið 1983, í viðræðuhópi þingflokks Alþýðubandalagsins við framsóknarmenn í stjórnarmyndunarþófi sem þá stóð að loknum valdatíma hinnar sögufrægu ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsen. Mér er minnisstætt hversu fastmótaðar skoðanir Halldór hafði á því sem gera þyrfti til að ná tökum á verðbólguvanda og óstöðugleika sem þá, eins og oft bæði fyrr og síðar, hrjáði land og þjóð.

Þarna, vorið 1983, skildi leiðir með Alþýðubandalaginu og Framsóknarflokknum en þær lágu síðan saman aftur með myndun ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar haustið 1988. Sú ríkisstjórn fékk ærinn vanda í fangið. Endurfjármagna þurfti meira og minna útflutningsatvinnuvegina eftir fastgengisstefnu sem hafði siglt í strand þannig að sem sjávarútvegsráðherra hafði Halldór ærið verk að vinna. Og ekki var róðurinn léttur heldur fyrir undirritaðan, ungan og lítt reyndan, með flestar greinar landbúnaðarins í alvarlegri kreppu. Málefni atvinnuveganna og verðlags- og kjaramál voru fyrirferðarmest í glímu þessarar ríkisstjórnar og þjóðarsáttin margumtalaða innsiglaði árangurinn af því starfi, sem var ótvíræður.

Kjörtímabilið 1991 til 1995 vorum við Halldór áfram sömu megin víglínunnar sem stjórnarandstæðingar og m.a. nefndarmenn í efnahags- og skattanefnd, að hluta til undir forustu Halldórs. Þá kynntumst við líklega best á fundum og ferðalögum sem Halldór, sem formaður nefndarinnar, var duglegur við að skipuleggja. Halldór var, eins og vel er þekkt, gjörkunnugur sjávarútveginum og mátti heita að hann þekkti hverja útgerð og þá sem að henni stóðu hvar í landinu sem borið var niður. Var oft gaman að verða vitni að því þegar Halldór tók að spyrja menn út úr um reksturinn og hafði jafnvel smáatriði um þeirra hagi á hreinu.

Frá 1995 og allt þar til Halldór hvarf af vettvangi stjórnmálanna árið 2006 vorum við í gagnstæðum fylkingum og oft var tekist hressilega á. Þannig gerast nú kaupin á eyrinni í henni pólitík. Síðustu árin lágu leiðir okkar saman á norrænum vettvangi.

Það er sjónarsviptir að Halldóri Ásgrímssyni og vel hefði hann verið að því kominn eftir sitt mikla starf að eiga náðugt ævikvöld, en þannig var örlögum ekki háttað. Ég kveð hann með virðingu og votta aðstandendum samúð mína.

Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.

Þegar Halldór Ásgrímsson tók við vandasömu embætti utanríkisráðherra árið 1995, 48 ára að aldri, bjó hann þá þegar að mikilli reynslu úr ólgusjó íslenskra stjórnmála. Hann átti að baki ríflega tveggja áratuga reynslu af Alþingi, átta ára feril sem sjávarútvegsráðherra og lagði sem slíkur grunninn að því að Íslendingar byggðu upp sjálfbært og hagkvæmt fiskveiðistjórnunarkerfi sem í dag er litið til af öðrum þjóðum. Miður tíundi áratugurinn var ekki aðeins tímabil bjartsýni heldur um leið tími áskorana og skerja sem styrka hendi þurfti til að stýra framhjá. Ísland var að þokast úr skugga kalda stríðsins og með reynslu sína, visku og staðfestu í farteskinu lagði Halldór Ásgrímsson upp í farsælan leiðangur á vettvangi utanríkis- og alþjóðamála sem varði í um áratug.

Utanríkisráðherra Íslands er málsvari og ásýnd lands og þjóðar á þeim fjölmörgu sviðum sem við beitum okkur á. Rækti Halldór það hlutverk sitt ekki aðeins af alúð og festu heldur léði hann röddu Íslands á alþjóðavettvangi mikla dýpt og varðaði þannig leiðina fram á við fyrir þá sem á eftir hafa komið. Halldór var raunsæismaður og áttaði sig vel á stöðu Íslands í alþjóðakerfinu. Að sama skapi stóð hann vörð um gildi sem grundvölluðust á samstöðu með bandamönnum okkar, mannréttindum, lýðræði og réttarríkinu og stuðningi við frelsisbaráttu þeirra sem undirokaðir hafa verið. Eystrasaltsríkin höfðu nýlega kastað af sér oki fortíðarinnar, á Balkanskaga voru djúp sár, ríki Mið- og Austur-Evrópu voru að fóta sig í gerbreyttri heimsmynd og sem utanríkisráðherra Íslands var Halldór Ásgrímsson virkur þátttakandi í að móta nýja Evrópu. Hann taldi mikilvægt fyrir íslenska hagsmuni að tengjast enn frekar mörkuðum Evrópu en einnig lagði hann áherslu á að opna Ísland fyrir samskiptum og viðskiptum langt utan Evrópu eins og Japan, Kína og Kanada. Víðsýni einkenndi heimssýn hans.

Það gefur augaleið hversu vandasamt það er að vera oddviti stjórnarflokks og ráðherra utanríkismála á sama tíma. Það er því ríkulegur vitnisburður um stjórnvisku og reynslu hversu lengi og farsællega Halldór Ásgrímsson sinnti þessum hlutverkum áður en hann tók við stjórnartaumunum í forsætisráðuneytinu. Líklega hefur það verið jarðtenging Halldórs sem gerði hann að svo farsælum og mikilvægum stjórnmálamanni. Hann lagði við hlustir og missti aldrei sjónar á því hvað var mikilvægt. Þannig gaf Halldór lungann úr ævi sinni í uppbyggingu samfélagsins og hafði ætíð trú á að hann væri að vinna landi sínu gagn.

Með Halldóri Ásgrímssyni er genginn farsæll stjórnmálaforingi sem setti mark sitt á samtímann og varðaði veginn fram á við. Votta ég eiginkonu hans og dætrum virðingu mína og samúð og færi Halldóri þakkir fyrir mikilvæg störf fyrir land og þjóð.

Gunnar Bragi Sveinsson.

Við óvænt fráfall Halldórs Ásgrímssonar vil ég í örfáum orðum minnast hans og hans rösklega framgangs við öflun fjár til að byggja miðstöð norrænnar menningar og lista í New York-borg. Tildrögin voru þau, að um miðjan 10. áratug síðustu aldar hófu nokkrir fulltrúar Íslands í stjórn American Scandinavian Foundation máls á því að stofnunin yrði að minnast á veglegan hátt, að árið 2000 yrðu 1000 ár liðin frá landafundum norrænna manna í Vesturheimi. Mörgum hugmyndum skaut upp, en lokaniðurstaðan var sú að byggja skyldi af stórhug nýja norræna menningarmiðstöð í New York, sem skyldi nefnd Scandinavia House: The Nordic Center in America. Ljóst var frá byrjun að slíkt mundi kosta ærið fé, sem að mestu mundi koma frá fyrirtækjum og einstaklingum, en einnig frá sölu húss í eigu stofnunarinnar og einhverjum framlögum frá ríkisstjórnum Norðurlanda. Vegna bókmenntahefðar Íslendinga töldum við fulltrúar Íslands að við ættum að stefna að öflun nægilegs fjár til að nefna bókasafn hins nýja húss eftir merkum Íslendingi. Skömmu eftir að Halldór varð utanríkisráðherra átti ég fund með honum í New York á skrifstofu íslensku sendinefndarinnar hjá Sameinuðu þjóðunum. Ég bar upp erindi mitt og svaraði spurningum hans eftir bestu getu. Ekki gat ég ráðið af svip hans eða öðrum viðbrögðum hvernig honum leist á málið. Stuttu seinna, þegar Halldór hafði borið málið undir samstarfsmenn sína, fékk ég jákvætt svar hans. Ísland, fyrst Norðurlandaþjóða, mundi leggja fram 250.000 bandaríkjadali til byggingar hússins. Halldór lét ekki þar við sitja, heldur talaði máli stofnunarinnar við ráðamenn hinna norrænu þjóðanna. Nokkru síðar samþykktu þær hver um sig 500.000 bandaríkjadollara fjárveitingu, samtals upphæð sem greiddi u.þ.b. 15 prósent af heildarkostnaði hússins. Það má skjóta því inn að þótt framlög Íslendinga væru hlutfallslega lítil átti engin önnur Norðurlandaþjóð jafnmarga styrktaraðila og þeirra framlag nægði til að nefna bókasafn hússins eftir Halldóri Laxness. Halldóri Ásgrímssyni verður seint fullþakkað fyrir forystu sína meðal ráðamanna Norðurlandaþjóðanna allra að svo varanlegur minnisvarði um landafundi norrænna manna var reistur í Vesturheimi. Fulltrúar Íslands hjá American Scandinavian Foundation senda Sigurjónu, eftirlifandi eiginkonu Halldórs, börnum þeirra og öðrum afkomendum innilegar samúðarkveðjur.

Kristján Tómas Ragnarsson.

Halldór Ásgrímsson verður samferðamönnum sínum minnisstæður fyrir góða mannkosti, skarpskyggni og góða greind, vinnusemi og stefnufestu, en síðast en ekki síst hlýtt viðmót, traust og tryggð. Þeir sem með Halldóri störfuðu reiddu sig á hans orð, gátu treyst því að þau stóðu.

Fyrstu kynni mín af Halldóri voru þegar hann var ungur á Alþingi og undirritaður vann við hvalrannsóknir og málefni hvalveiða voru hitamál á Alþingi. Þar var Halldór hluti af naumum meirihluta þingmanna, sem töldu að ekki ætti að mótmæla ákvörðun Alþjóðahvalveiðiráðsins um tímabundna stöðvun veiða í atvinnuskyni. Nokkrum mánuðum síðar var Halldóri falið að leiða ráðuneyti sjávarútvegsmála. Á sama tíma kom í ljós það sem sumir höfðu óttast að hinni tímabundnu veiðistöðvun var ætlað að vara um ókomin ár. Halldór áttaði sig fljótt á þessu og taldi að þar með gengi þessi ákvörðun gegn þeirri almennu stefnu Íslendinga að nýta auðlindir með sjálfbærum hætti. Er Halldór var nýtekinn við ráðherraembætti og kom að heimsækja starfsfólk Hafrannsóknastofnunar í byrjun árs 1983, taldi hann að hvalveiðimálin þyrfti að endurskoða. Upp frá þessu urðum við Halldór nánir samverkamenn og síðar traustir vinir enda um árabil að vinna saman að málefnum hafsins innanlands sem utan.

Skemmtilegar minningar koma í hugann um samveruna með Halldóri, þar sem leikurinn barst m.a. inn í helgustu vé höfuðborgar Bandaríkja Norður-Ameríku. Þar gátum við býsnast yfir ofríki heimamanna í deiluefnum, en tókum því raunar létt, við ættum eftir að fá okkur væna steik að kveldi og það væri nú mikilvægt líka. Þótt unnið væri mikið var líka notið góðra samvista og hvílst frá amstrinu.

Halldór Ásgrímsson var sjávarútvegsráðherra um átta ára skeið og hafði ávallt ríkan skilning á mikilvægi traustra fiskirannsókna og sýndi það margvíslega í verki. Þegar hann tók við ráðherraembætti var staða sjávarútvegs afar veik, fiskistofnar ofveiddir og í raun ekki mjög fýsilegt að starfa í þessari atvinnugrein. Halldór vissi að gera þyrfti grundvallarbreytingu á stjórn veiðanna þannig að veiðar yrðu takmarkaðar við veiðiþol fiskistofnanna og að Hafrannsóknastofnun þyrfti þar að gegna lykilhlutverki, góð vísindi væru undirstaða öflugs sjávarútvegs.

Árið 1996 voru fiskveiðimál okkar á alþjóðavettvangi í nokkru uppnámi þar sem deilur um veiðar Íslendinga í Barentshafi og stjórn síldveiða utan lögsögu ríkja setti samstarf nágrannaþjóða í uppnám. Þá var Halldór kominn til starfa í utanríkisráðuneytinu og hafði áhyggjur af þróun mála. Átti ég þess kost að vinna á ný náið með Halldóri að lausn þessara mála sem var í senn spennandi og skemmtilegt verkefni. Undir lok dags lágu á borðinu lausnir í erfiðum ágreiningsmálum, sem ekki síst komu til vegna traustsins sem Halldór naut erlendis, en líka vegna þess andrúmslofts sem hann skapaði sínum samverkamönnum – allir gátu reitt sig á Halldór.

Nú kveðjum við góðan dreng alltof snemma. Sigurjónu og fjölskyldu sendum við Helga okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Jóhann Sigurjónsson.

Þollyndi var ein af dyggðum Halldórs Ásgrímssonar. En í honum bjó líka atorka, ráðdeild og framsýni. Af mælgi var hann snauður en af drengskap ríkur.

Ekki er of djúpt í árinni tekið þótt sagt sé að hann hafi verið í hópi fárra manna sem í senn voru jafnir að áhrifum og heilindum. Það er ekki öllum gefið að flétta saman áhrif í stjórnmálum og falsleysi. En ég hygg að flestir þeir sem hann átti í skiptum við hafi fundið að þetta voru eiginleikar hans, hvort heldur þeir voru meðhaldsmenn eða móthaldsmenn.

Fyrsta samtal okkar er mér enn í fersku minni. Við vorum þá báðir á þrítugsaldri; hann nýsestur á Alþingi og ég rétt tekinn við ritstjórn á dagblaði. Hann lyfti símtóli til að andmæla gagnrýni í ritstjórnargrein á þingmál sem hann hafði flutt. Ég keypti rök hans. Þau voru einfaldlega þyngri en mín.

Í þessu samtali varð til lögmál sem réð öllu um skipti okkar æ síðan. Fyrir okkur átti að liggja að sitja saman í þremur ríkisstjórnum. Og báðir þurftum við að glíma við hinn af bekkjum stjórnarandstöðunnar. En það lýsir Halldóri Ásgrímssyni best að það breytti ekki eðli samskiptanna hvar við sátum í það og það sinnið.

Halldór Ásgrímsson markaði djúp spor á ferli sínum. Það er öðru fremur fyrir þrautseigju hans og málafylgju á Alþingi að sjávarútvegurinn stendur nú fyrst, hundrað árum eftir að hann ruddi sér til rúms í þjóðarbúskapnum, svo sterkum fótum að landsmenn geta með réttu kallað eftir auðlindaarði.

Hann skildi líka gildi þess að fámenn þjóð kæmi ár sinni fyrir borð í alþjóðasamfélaginu. Þar réð sýn til langs tíma. En umfram allt annað sá hann styrk Íslands liggja í staðfestu, trausti og heilindum. Metnaður hans stóð til þess að Ísland gæti staðið jafnfætis öðrum og stærri bandalagsþjóðum og borið sömu skyldur og notið sömu réttinda.

Ísland átti ekki í huga hans að festast í gömlu fari heldur sækja fram.

Á löngum tíma á Alþingi og í ríkisstjórn kynntist Halldór Ásgrímsson hvoru tveggja að standa sólar megin og skugga megin í almenningsálitinu. Undan því komast fáir og síst þeir sem eitthvað munar um. Hann kaus svo að ganga frá átakavettvangi stjórnmálanna nokkru fyrr en áform stóðu til.

En það sem gerði hann að meiri manni var sú lyndiseinkunn að freistast aldrei til að fara hjáleið um eigin orð. Orðheldnin var hans mikla eign. Hún var eins og stöpull sem lyfti honum yfir margan samtímamanninn.

Halldór Ásgrímsson gat verið fullsæmdur af því sem hann áorkaði. Hann kvaddi stjórnmálin skjótt og óvænt. Nú hefur hann kvatt fyrir fullt og allt skjótt og óvænt. Hann kveður með reisn sakir eðliskosta sinna og málafylgju.

Þeir sem næst honum standa eru ekki einir í tómarúmi. Það eru líka svo ótal margir aðrir sem voru samferða honum um lengri eða skemmri veg. Þakklætið er efst í huga þegar leiðir skilja. En því fylgir sú von að tómarúmið megi fyllast af þeim mannkostum sem í honum bjuggu svo ríkulega.

Þorsteinn Pálsson.

Samhugur, samkennd og vinátta eru aðalsmerki og einkenni margra þeirra hópa sem brautskráðust frá Samvinnuskólanum Bifröst á sínum tíma. Þessi félagsandi einkennir enn nemendur og skólastarf á Bifröst. Bekkjarfélagar hittast reglulega, rifja upp gömul kynni og treysta vináttubönd. Við sem gengum glöð út í vorið 1. maí 1964, og um leið út í atvinnulífið, höfðum átt góða daga um veturinn og m.a. kynnst nýjum skólafélögum sem halda myndu Bifrastarkyndlinum á lofti. Einn þeirra var ungur Hornfirðingur, Halldór Ásgrímsson.

Samverustund áttum við bekkjarfélagarnir 19. maí sl., en að morgni þess dags hafði okkur borist sú sorgarfregn að þessi mæti skólabróðir okkar hefði látist kvöldið áður. Stundin, sem boðuð hafði verið löngu áður, varð minningarstund og við 15, sem þarna hittumst, risum úr sætum og minntumst góðs samferðamanns. Jafnframt hugsuðum við til fallinna skólafélaga, fjögurra úr okkar bekk og nú níu úr bekk Halldórs.

Leiðir okkar Halldórs lágu alloft saman eftir Bifrastardvölina. Ber þar einna hæst ár hans í dómsmálaráðuneytinu, en þá heyrðu umferðarmálefni til þess ágæta ráðuneytis. Öll samskipti okkar voru með miklum ágætum og á ég honum mikið að þakka. Hann gat verið maður gleðinnar í góðra vina hópi og þá hlið þekktum við skólasystkin hans. Þess vegna gat ég aldrei fellt mig við þá mynd sem þekktur grínistahópur dró upp af honum, fannst raunar jaðra við einelti. En þátttaka í stjórnmálum er víst ekki alltaf dans á rósum.

Ég minnist góðs skólabróður og vinar með mikilli virðingu og eftirsjá.

Kæra Sigurjóna og fjölskylda ykkar öll. Innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra.

Óli H. Þórðarson.

„Við viljum ekki missa þig, en ég heyri á þér að þú ert búinn að gera upp hug þinn. Og ég trúi því að maður eigi aldrei að reyna að telja ungum manni hughvarf, þegar hann er búinn að gera upp hug sinn.“ Svona svaraði Halldór Ásgrímsson mér, þegar ég ungur embættismaður óskaði eftir að fá leyfi frá störfum í utanríkisþjónustunni til að láta reyna á aðra drauma. Svarið lýsir honum vel: Einfalt, skýrt og sanngjarnt. Maður vissi alltaf hvar maður hafði Halldór Ásgrímsson.

Ég kynntist Halldóri sem embættismaður og starfaði fyrir hann sem slíkur og sem ráðgjafi árum saman. Það var hreinasta unun að vinna fyrir hann. Halldór kom sér beint að efninu, sóttist eftir faglegri ráðgjöf og nálgaðist mál með opinn huga. Eftir að hann gerði upp hug sinn um leiðina áfram veitti hann manni umboð til verka og því umboði fékk síðan ekkert haggað. Það þýddi ekkert að róta í Halldóri og reyna að fá hann til að afneita verkamanninum eða svipta hann umboði. Ef hann treysti manni, þá var það bara þannig.

Þótt við Halldór værum ekki samskipa á vettvangi stjórnmálanna, fóru skoðanir okkar saman í ýmsum framfaramálum. Þar bar Evrópumálin hæst. Það var gaman að vinna með Halldóri að þeim málum. Halldór var frá upphafi ráðherratíðar sinnar í utanríkisráðuneytinu með opinn huga í Evrópumálum og setti sér að nýta til fulls allt svigrúm til að styrkja stöðu Íslands innan Evrópusamstarfsins, án aðildar að ESB. Honum varð fljótt ljóst að það svigrúm væri ekki nægjanlegt. Hann var metnaðarmaður fyrir Íslands hönd og vildi að Ísland væri fullgildur þátttakandi í samstarfi Evrópuþjóða, en var líka raunsær svo af bar. Þess vegna tók hann að leita lausna á þeim vandkvæðum sem hann sá við fulla aðild og þróaði til dæmis hugmyndina um lausn í sjávarútvegsmálum sem hann setti fram í hinni frægu Berlínarræðu árið 2002. Enn þann dag í dag er sú aðferðafræði grunnurinn að hugmyndum okkar áhugamanna um aðild Íslands að ESB um farsæla lausn í aðildarsamningum um sjávarútveg. Árið 2006 setti hann fram þann spádóm að Ísland yrði fullgildur aðili að ESB árið 2015. Ég man að mér þótti það þá heldur hægfara og metnaðarlaus spásýn. Hún hefur reynst allt annað en það.

Halldór var bráðskemmtilegur maður í viðkynningu, þvert á þá ímynd sem þjóðin hafði af honum. Hann kunni urmul sagna af fjölskyldu sinni og frændgarði fyrir austan og hafði lag á að nota þær til að sýna hliðstæður eða andstæður við viðfangsefni dagsins. Hann var mikill fjölskyldumaður og það fór ekki á milli mála að Sigurjóna og dæturnar voru honum afar kærar. Mikill harmur er nú kveðinn að þeim og fjölskyldunni allri við skyndilegt fráfall hans.

Ég kveð með hlýju Halldór Ásgrímsson og þakka kynnin og allt það traust og þau tækifæri sem hann veitti mér. Við Sigrún vottum Sigurjónu og fjölskyldunni allri okkar dýpstu samúð.

Fyrir hönd Samfylkingarinnar þakka ég að leiðarlokum samfylgdina með Halldóri Ásgrímssyni í áratugastarfi á vettvangi íslenskra stjórnmála.

Árni Páll Árnason.

Genginn er mætur maður sem hafði gríðarlega þekkingu á íslensku samfélagi, maður sem unni þjóð sinni og varði nær allri ævi sinni til starfa í hennar þágu. Halldór Ásgrímsson var okkur þremenningunum afar kær. Ung byrjuðum við að starfa í stjórnmálum og sýndi Halldór starfi ungs fólks í flokknum ávallt áhuga, virðingu og mikið liðsinni. Fyrir okkur, unga þingmenn, var gott að leita til hans því hann var í senn ráðagóður auk þess að vera vel að sér um ótrúlega mörg mál. Halldór var orðheldinn maður og því naut hann trausts langt út fyrir raðir síns flokks. Ef hann lofaði einhverju þá varð því ekki breytt, það vissu allir. Hann var drengskaparmaður.

Halldór var maður morgundagsins, ekki gærdagsins. Á þessari stundu er þakklæti efst í huga okkar, þakklæti fyrir að hafa starfað með Halldóri og fyrir að hafa átt hann að sem vin og félaga eftir að leiðir okkar lágu í mismunandi áttir. Orðin sem lýsa Halldóri best í okkar huga eru traust, heiðarleiki og vinátta. Við vottum Sigurjónu, Helgu, Guðrúnu, Írisi og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúð.

Birkir Jón Jónsson, Dagný Jónsdóttir, Sæunn Stefánsdóttir.

Sumarið 1965 hóf ég, ásamt Heiðrúnu eiginkonu minni, störf á skrifstofu Kaupfélags Austur-Skaftfellinga á Höfn í Hornafirði. Meðal samstarfsmanna okkar þar var ungur maður, sem lokið hafði námi frá Samvinnuskólanum í Bifröst þá um vorið. Þetta var Halldór Ásgrímsson, en hann vann á skrifstofu kaupfélagsins um tíma þetta sumar. Þarna hófust kynni okkar, sem áttu eftir að leiða til góðra samskipta og samstarfs á ýmsum sviðum næstu áratugina.

Þegar kosningar til Alþingis voru boðaðar vorið 1974 lágu fyrir yfirlýsingar tveggja reyndra þingmanna Framsóknarflokksins í Austurlandskjördæmi, þeirra Eysteins Jónssonar og Páls Þorsteinssonar, að þeir mundu ekki oftar gefa kost á sér í framboð. Austur- Skaftfellingum var mikið í mun að geta boðið fram fulltrúa úr sýslunni í stað Páls Þorsteinssonar. Leitað var til Halldórs um að hann tæki sæti Páls á lista flokksins. Mér er í minni fundur Kjördæmasambands framsóknarmanna, sem haldinn var í Hamraborg í Berufirði, þar sem framboðslistinn skyldi ákveðinn. Þar hélt hinn ungi frambjóðandi skörulega ræðu og hreif fundarmenn með sér. Enginn var í vafa um að vel hefði tekist til um val á fulltrúa úr Austur-Skaftafellssýslu á listann. Ég er stoltur af því að hafa þá og æ síðan fengið að vera í hópi stuðningsmanna Halldórs Ásgrímssonar.

Í alþingiskosningunum 1978 fékk Framsóknarflokkurinn slæma útkomu og Halldór náði ekki kjöri. Það var honum nokkurt áfall, en við kosningar í desember 1979 náði hann aftur kjöri og æ síðan þar til hann sagði af sér þingmennsku sumarið 2006.

Þegar það kom í hlut Halldórs að taka að sér embætti sjávarútvegsráðherra í maí 1983 steðjaði mikill vandi að íslenskum sjávarútvegi. Við blasti allt of mikil sókn í fiskistofnana, stór fiskiskipafloti og taprekstur í greininni. Ekki lék vafi á að nauðsynlegt var að bregðast við af festu og öryggi. Kallað var til samráðs allra helstu hagsmunaaðila og á grundvelli þess samráðs voru sett fyrstu lög um fiskveiðistjórnunina og lagður grundvöllur að því kerfi sem síðan hefur verið þróað og leitt til eflingar fiskistofnanna og bættrar afkomu í sjávarútvegi. Fólkinu í landinu og atvinnulífinu til hagsbóta. Flestir viðurkenna að það fiskveiðistjórnunarkerfi sem hér er við lýði sé með því besta og árangursríkasta sem þekkist.

Þarna komu fram allir bestu eiginleikar Halldórs sem stjórnmálamanns. Vandaður undirbúningur, skýr framtíðarsýn, stefnufesta, örugg eftirfylgni, heiðarleiki og orðheldni. Þessir eiginleikar hans reyndust honum dýrmætir á rösklega þrjátíu ára stjórnmálaferli og í mínum huga leikur ekki vafi á því að hans mun í framtíðinni verða minnst sem eins og mikilhæfustu stjórnmálamönnum Íslands á tuttugustu öldinni.

Við kveðjum í dag mann, sem lagði á farsælum stjórnmálaferli sínum áherslu á bættan hag lands og þjóðar og hafði jafnan í huga heildarhagsmuni umfram sérhagsmuni, en síst af öllu eigin hagsmuni.

Við Heiðrún minnumst Halldórs með hlýhug og virðingu og sendum Sigurjónu, dætrum þeirra og fjölskyldum innilegar samúðarkveðjur.

Hermann Hansson.

Að föstudagsmorgni hringdi ég í símanúmer Halldórs Ásgrímssonar – númerið fékk ég hjá Atla. Ég ætlaði að biðja Halldór að leiðbeina mér um stuðning við menningaratriði norrænna þjóða á heimsmóti íslenskra hesta sem verður í Herning, Danmörku, næsta sumar. Dóttir Halldórs kom í símann og þá kom í ljós hvað gerst hafði; hjartaáfall. Halldór í hættu. Þessa sögu segi ég hér í kveðjugrein til marks um það að við reiknuðum alltaf hvor með öðrum ef eitthvað þurfti að gera af þessu tagi; við kunnum báðir á kerfið hvor með sínum hætti. Þannig varð ég var við öflugan stuðning Halldórs við þýðingar og útgáfu Íslendingasagnanna á norrænum málum.

Nú voru þau nýlega komin heim, Sigurjóna og Halldór, eftir alllanga útivist og pólitísk sviptingaár sem voru þeim hjónum ekki alltaf auðveld. Ég hitti þau í Hörpu fyrir stuttu; þau báru það með sér að þau ætluðu að fara að finna tíma til að lifa lífinu á sínum forsendum. Á snöggu augabragði af skorið verður fljótt, kallið varð grimmt og harkalegt. Með þessum línum flytjum við Guðrún Sigurjónu og fjölskyldu þeirra Halldórs samúðarkveðjur.

Við Halldór vissum hvor af öðrum í áratugi. Fyrst á alþingi þar sem við vorum eiginlega aldrei sammála í stórum málum. Ég var talsmaður Alþýðubandalagsins, hann Framsóknarflokksins. Sátum saman í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar 1988-1991. Ætli við höfum ekki verið endamennirnir í þeirri stjórn, ekki vegna þess að annar væri langt til hægri og hinn langt til vinstri, heldur vegna þess, að mati þeirra sem fylgdust með okkur, að annar var talinn stundum nokkuð róttækur en hinn full-jarðbundinn. Halldór hafði sem stjórnmálamaður þrjú megineinkenni: Hann var að austan og fylgdi hagsmunum byggðarlagsins eftir. Í annan stað var hann miðjumaður og leitaði alltaf lausna ýmist til hægri eða vinstri en alltaf lausna. Í þriðja lagi var hægt að treysta samningum við hann. Það er eiginleiki sem er mikilvægur í samskiptum í stjórnmálum, einnig við þá sem þú ert algerlega ósammála.

Svo skipaði hann mig sendiherra beint úr stjórnarandstöðunni um leið og ég leitaði eftir því. Þar áttum við heilt samstarf uns hann lét af starfi ráðherra. Þá vildi svo til að hann flutti sig um set til Kaupmannahafnar; þar hittumst við í embættisnafni aftur og aftur. Og Sigurjóna. Þar vorum við öll í sama flokki, Íslandsflokknum.

Margt það sem Halldór tók sér fyrir hendur á lífsleiðinni sem stjórnmálamaður var umdeilt, að ekki sé meira sagt. Að eitthvað sé umdeilt þýðir að margir eru sáttir en sumir ósáttir. En það er orðheldnin sem ég vil hugsa um á þessari kveðjustundu.

Það er ekki slæmur minnisvarði.

Svavar Gestsson.

Halldór var einstakur maður. Hann kom víða við á sínum farsæla stjórnmálaferli og var einn áhrifamesti stjórnmálamaður á Íslandi um langt skeið. Hann hafði yfirgripsmikla þekkingu á þjóðmálum, atvinnu-, skatta- og efnahagsmálun og var eindæma talnaglöggur og fljótur að átta sig á aðalatriðum og því sem máli skipti.

Ungur kynntist Halldór samvinnuhreyfingunni og gekk í Samvinnuskólann. Kom sá bakgrunnur glöggt í ljós í störfum hans og viðhorfum. Hann lagði áherslu á samvinnu manna, sveitarfélaga, landshluta, stjórnmálaflokka, ríkja á Norðurlöndum, á norðurslóðum, í vestrænni samvinnu, EES, ESB og Sameinuðu þjóðanna – hann var víðsýnn alþjóðasinni og um leið samvinnumaður í orðsins fyllstu merkingu.

Vinnusemi var Halldóri í blóð borin. Hann var afkastamikill og ósérhlífinn og samhliða réttsýnn og óeigingjarn. Ætíð unnt að teysta orðum hans og athöfnum. Hann var rólyndur, raunsær og yfirvegaður þegar kom að töku ákvarðana, tamdi sér sjálfstæða rökhugsun, vó og mat erfið úrlausnarefni frá ólíkum sjónarhornum, aflaði álita annarra og var óragur við að taka erfiða ákvörðun þegar hann sjálfur var sannfærður um að hún væri rétt og unnt að standa við hana og verja með sanngjörnum rökum og sjónarmiðum, þó vitað væri stundum fyrirfram að umdeild yrði. Nægir að nefna innleiðingu kvótakerfisins í sjávarútvegi og byggingu Kárahnjúkavirkjunar, sem Halldór á stóran þátt í, en hvorutveggja hefur reynst þjóðinni vel. Hann tók óvæginni og stundum ósanngjarnri gagnrýni með ró og tómlæti og fyrirgaf. Hann var fastur fyrir en gætti þess að haga máli sínu með málefnalegum, hófsömum og upplýsandi hætti, þrátt fyrir yfirburði á viðkomandi sviði í rökræðum. Hann var maður góðra gilda og þjóðlegra íslenskra hefða, fastheldinn um sumt en um leið frjálslyndur, bjartsýnn og áræðinn um mál sem honum fannst horfa til bættrar framtíðar fyrir þjóðina.

Þó að Halldór þætti alvörugefinn var hann á góðum stundum og þegar við átti skemmtilegur sögumaður. Sagði sögur, frá Vopnafirði, Höfn, Reykjavík og landinu öllu, Noregi og Danmörku, ferðum og fundum um allan heim, fjalla- og gönguferðum, um menn og málefni, sögu og náttúru landsins, menningu, listir og skáldskap – ljúfar skemmti- og gleðisögur sem allir höfðu unun og gaman af sem á hlýddu. Gætti þess vel að halla ekki á neinn. Á slíkum stundum var hann hrókur alls fagnaðar.

Þrátt fyrir mikið annríki var Halldór ræktarsamur við vini sína og umhugað um velferð þeirra, sérstaklega ef um erfiðleika eða veikindi var að ræða. Kunni hann og vissi hve mikilvægt er að virða vini sína, heyra í þeim, hitta þá og spjalla, þó að ekki gæfist alltaf langur tími vegna anna, og rækta með því vináttuna rétt. Nefndi, ef ekki gafst tími til að hitta hann eða heyra á leið um Kaupmannahöfn, þegar hann starfaði þar, að því yrðu vinir að sinna. Sannur og traustur vinur sem naut á móti virðingar og stuðnings vina sinna.

Það eru forréttindi að hafa fengið að kynnast manni eins og Halldóri á lífsleiðinni og eiga hann sem vin. Fyrir það verður ekki fullþakkað.

Jón Sveinsson.

Fregnin um veikindi og í kjölfarið andlát Halldórs Ásgrímssonar kom sannarlega eins og þruma úr heiðskíru lofti. Aðeins nokkrum dögum fyrr höfðum við hist í góðra vina hópi. Halldór var venju fremur kátur og lék raunar á als oddi. Síst af öllu hefði mig grunað að fundir okkar yrðu ekki fleiri.

Ég kynntist Halldóri lauslega þegar ég byrjaði að starfa fyrir Framsóknarflokkinn í kosningabaráttunni 1995. Hann var þá nýorðinn formaður flokksins og voru þetta fyrstu alþingiskosningarnar sem hann leiddi flokkinn gegnum. Hann kom mér fyrir sjónir sem afburða dugmikill, réttsýnn og kröftugur leiðtogi, sem hann sannarlega var.

Kynni mín af honum jukust svo ár frá ári næstu árin á eftir og samskiptin voru töluverð, á vettvangi flokksins. Seinna, eða haustið 1999, skipuðust mál með þeim hætti að ég réðst til starfa sem aðstoðarmaður Halldórs í utanríkisráðuneytinu, síðar störfuðum við saman í flokksstarfinu þar sem hann var formaður en ég framkvæmdastjóri og enn síðar í ríkisstjórn.

Samstarf okkar var alla tíð traust og Halldór reyndist hafa þann mann að geyma sem mér virtist í upphafi kynna okkar. Hann var traustur og orðheldinn, ósérhlífinn og vandvirkur. Hann var bæði framsýnn og víðsýnn og aldrei varð ég var við annað en hann bæri hag þjóðar sinnar fyrir brjósti, umfram allt.

Halldór var venju fremur vandvirkur maður sem gat sökkt sér niður í smæstu atriði þeirra viðfangsefna sem uppi voru á hverjum tíma. Hann vílaði heldur ekki fyrir sér að „taka slaginn“ ef svo bar undir. Best virtist mér honum líða á krefjandi fundum þar sem hann tókst á um málefni, færði rök sín fram af mikilli festu og ákveðni.

Hann var maður ákvarðana og framkvæmda. Einhverju sinni sagði hann við mig af slíku tilefni í föðurlegum tón: „Það þýðir ekkert að segja að af tveimur slæmum kostum velji maður hvorugan. Annan hvorn þarf að velja og standa með því.“

Þannig var Halldór í mínum huga. Maður sem gerði sér far um að skilja viðfangsefni sín á hverjum tíma í smáatriðum, undirbjó sig afar vel fyrir hvert það verkefni sem hann tókst á hendur, tók þær ákvarðanir sem hann taldi réttastar án þess að kvíða viðbrögðunum og fylgdi sannfæringu sinni alla leið.

Ég fann oft og veit að Halldór unni fjölskyldu sinni mjög. Það var einnig greinilegt að nú, þegar starfsævinni var að ljúka, hlakkaði hann til að njóta aukinna samvista við hana. En enginn ræður sínum næturstað og sannast það nú. Sorgin sem kveður dyra hjá Sigurjónu, dætrunum og fjölskyldum þeirra er mikil. Hugur okkar er hjá ykkur.

Minningin um traustan og trúan vin lifir í huga okkar sem fengum að vera Halldóri samferða um skeið.

Árni Magnússon.

Við skyndilegt og ótímabært fráfall Halldórs Ásgrímssonar þykir mér hlýða að flytja fáein kveðju- og þakkarorð. Á tæpu ári hafa þrír af þingmönnum Framsóknarflokksins eystra sem sátu um leið og ég á Alþingi horfið yfir móðuna miklu. Að þeim er sönn eftirsjá.

Við Halldór sátum á Alþingi saman í á annan áratug og eðlilega voru samskipti okkar mikil og þeirra minnist ég í mætri þökk. Við þingmenn Austurlands héldum sameiginlega fundi um hagsmunamál okkar kjördæmis, nokkuð sem þeir Eysteinn og Lúðvík komu á við kjördæmabreytinguna 1959. Það var góður vettvangur og þar lagði Halldór margt ágætt til mála og einu mátti treysta: Eftir að hafa oft tekist á um málefnin var gjarnan komist að samkomulagi, þó menn væru missáttir eins og gengur og með gleði get ég vottað um það að ævinlega stóð Halldór við sitt, hans loforð var loforð. Á ferðum okkar um kjördæmið, fjórtán funda lota, fór ekki hjá því að menn kynntust bærilega, þó fundina einkenndu allmikil átök, þar var Halldór hinn bezti ferðafélagi og sagði bæði skemmtilega frá og lumaði á smellnum tilsvörum, gat verið léttfyndinn ef því var að skipta, græskulaus með öllu. Hann var fastur fyrir eins og alþjóð veit, fylgdi sínum málum vel eftir, en þó oft hvessti á fundum var Halldór alltaf málefnalegur og það kunni ég vel að meta. Hann var skapfestumaður og rökfastur vel í allri málafylgju svo sem öll þjóðmálaafskipti hans sanna, enda þar lengi í forystusveit fyrir sinn flokk.

Halldór var hlýr í eðli sínu og ætíð gott að hitta á hann í dagsins önn, síðast nú í fyrrasumar. Með þökk fyrir góð kynni kveð ég Halldór Ásgrímsson og við Hanna færum konu hans Sigurjónu einlægar samúðarkveðjur. Það er hryggilegt að Halldór skyldi ekki fá notið efri ára svo sem hann átti skilið. Blessuð sé minning hans.

Helgi Seljan.

„Þú veist að þú getur alltaf leitað til mín – ef þú vilt. Það er of lítið spjallað“, sagði Halldór Ásgrímsson við mig í upphafi árs 2004 eða stuttu eftir minn fyrsta ríkisstjórnarfund. Og það var reyndar hárrétt honum, samtöl geta verið dýrmæt og ráð þeirra eldri og reyndari eru oft þakkarverð. Það var gott að vinna með Halldóri þau ár sem við sátum saman á þingi og í ríkisstjórn. Samskiptin einkenndust af hlýju, virðingu og ánægjulegu glensi.

Hann tók mér opnum örmum í þau skipti sem ég leitaði til hans með ýmis mál, hvort sem þau voru á sviði mennta- og menningarmála, kjördæmisins eða annarra verkefnasviða.

Þegar Halldór settist í stól forsætisráðherra gerði hann sér far um að kynna sér helstu mál sem voru á dagskrá þess ráðuneytis sem ég bar ábyrgð á án þess að vera með afskiptasemi. Eftirminnilegur er fundur okkar í Ráðherrabústaðnum þar sem við fórum vítt og breitt yfir sviðið. Þar á meðal var stytting námstíma til stúdentsprófs sem Halldór sýndi verulegan áhuga. Sagðist hann aldrei hafa skilið af hverju við Íslendingar gætum ekki klárað stúdentsprófið á sama tíma og vinaþjóðir okkar. Hvatti hann mig áfram með málið sem á endanum lauk með því að Alþingi samþykkti þvert á flokka og eftir víðtækt samráð heildstæða skólalöggjöf frá leikskóla til háskóla. Fyrir mig var það dýrmætt fyrir framgang málsins að finna fyrir einlægum stuðningi hans. Það vissi Halldór.

Er talið beindist að uppvexti hans og skólagöngu fór hann á flug. Þá skynjaði ég auðveldlega ást Halldórs á landinu okkar og hví dyggur stuðningur til setu hans á Alþingi var til staðar hjá kjósendum í áratugi. Þegar Austurlandið bar á góma ljómaði Halldór allur og sagði sögur af mönnum og málefnum á eftirminnilegan hátt. Halldór var vel lesinn og snjall ræðumaður, hann var áhugasamur um fólk og hin ýmsu litbrigði lífsins og var kappsamur um að gera íslenskt samfélag enn betra. Á erlendri grundu hélt hann merki landsins okkar vel á lofti. Þau mörgu ár sem ég sat fundi með honum á vettvangi Eftanefndar þingsins var gott að vita af Halldóri í stóli utanríkisráðherra. Á þeim fundum sem öðrum var hann góður fulltrúi og talsmaður okkar Íslendinga. Hann leyfði sér að setja fram mikilvæga framtíðarsýn um málefni Íslands, tækifæri landsins og stöðu þess í alþjóðasamfélaginu. Svör hans um margs konar málefni voru yfirveguð og skýr og ekki var verra að iðulega var stutt í húmorinn, sem gerði á stundum þunglamalega fundi bærilega.

Með Halldóri er genginn góður maður og það er með hlýju og þakklæti sem ég horfi til baka á samvinnu og samskipti við hann. Sigurjónu, dætrum þeirra og öðrum afkomendum sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur. Megi hið eilífa ljós lýsa Halldóri Ásgrímssyni.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Leiðir okkar Halldórs Ásgrímssonar lágu saman í stjórnmálum og störfum fyrir lýðveldið í aldarfjórðung. Við vorum ýmist samherjar í stuðningi við ríkisstjórn eða mótherjar. Aldrei andstæðingar. Það var alltaf hlýtt á milli okkar. Þráður vinarþels, leyfi ég mér að segja. Póltíkin var þá dálítið önnur en nú – séð frá hliðarlínunni. Þá var bróðir minn, Sverrir Brimar, á Höfn í Hornafirði trúnaðarmaður Halldórs á heimaslóð. Við bræður vorum ekki alveg sammála í pólitík, en við vorum aldrei ósammála um Halldór Ásgrímsson.

Minnisstætt er þegar Halldór náði ekki kjöri 1978. Þá fór hann til sjós. Hvað skyldu margir þingmenn hafa gert það? Annað kemur einnig í hugann. Var hann ekki sá fyrsti sem gegndi lektorsstöðu við Háskóla Íslands án þess að hafa hið hefðbundna stúdentspróf? Hann var virtur og vel látinn kennari. Vel menntaður í sínum fræðum.

Forysta og trúnaðarstörf í samfélaginu felast ekki síst í að taka ákvarðanir, – oft erfiðar. Svo lengi sem Halldór Ásgrímsson gegndi leiðtogahlutverki í flokki og í þágu þjóðar urðu ákvarðanirnar margar. Sumar umdeildar, – að sjálfsögðu. Við Alþýðuflokksmenn vorum oft ,– ekki alltaf, samstiga Halldóri og hans mönnum. Ekki skal þar skorast undan ábyrgð. Eftir á er oft auðvelt að segja að vinna hefði átt á annan veg.

Flokkar okkar voru greinar á sama meiði. Fyrir löngu sátum við Halldór saman á leið af flugvelli á norrænan fund. Í spjalli okkar sagði Halldór: – Það er leitt Eiður, að flokkar okkar skuli ekki geta átt nánara samstarf. – Það var rétt. Samstarf flokkanna var oft gott. Kannski ekki nógu oft.

Halldór var skoðanafastur og fljótur að átta sig á flóknum málum. Yfirvegun og raunsæi voru aðalsmerki hans sem stjórnmálamanns. Margt kemur upp í hugann úr samstarfinu í utanríkisráðuneytinu. – Ágreiningur var meðal fulltrúa Íslendinga á fundi vestanhafs þegar mælst var til að halda vinnufund um loftslagsmál á Íslandi. Það þurfti að taka af skarið, – fljótt. Ég hringdi til Halldórs. Hann svaraði. – Það hefur aldrei verið hættulegt að halda fundi! – Fundurinn var haldinn í Reykjavík með ágætum árangri. Í annað skipti var ágreiningur milli ráðuneyta á Íslandi um mál sem varðaði laxveiðar í sjó. Fyrir dyrum var samningafundur á Írlandi. Ég vildi vita hvort afstaða utanríkisráðuneytis væri ekki óbreytt og ræddi við minn ráðherra. Hann sagði: – Þeir sem halda að ég hafi skyndilega skipt um skoðun í þessu máli, – þeir bara þekkja mig ekki!

Halldór var fastur fyrir. Hann var orðheldinn, traustur. Það var gott að vinna undir hans stjórn. Sumum þótti hann alvörugefinn, en manna glaðastur var hann í góðum hópi, sjór af skemmtisögum, ef því var að skipta.

Það eru ekki nema fáeinar vikur síðan við röbbuðum saman í tónleikahléi í Hörpu. Hann lék á als oddi. Glaður og reifur. Enginn má sköpum renna.

Halldór Ásgrímsson var vænn maður. Mér reyndist hann drengur góður. Margir munu sakna hans. Það gerum við gömlu Alþýðuflokksmennirnir, sem unnum með honum.

Sigurjónu og fjölskyldunni allri er vottuð einlæg samúð.

Eiður Svanberg Guðnason.

Halldór Ásgrímsson, fv. forsætisráðherra, er látinn, fyrsta frétt er ég opnaði Morgunblaðið í morgun.

Minningar leita á hugann um Halldór og fjölskyldu hans; alla tíð var vinátta með þeim og föður mínum sem vert er að minnast. Mér var sagt frá fráfalli afa míns í Mýnesi, Björns Antoníussonar, frá konu og börnum á unga aldri, 1928. Þá tíðkaðist ekki að konan héldi áfram búskap, venjan að tvístra fjölskyldunni og flytja þau brott. Guðrún amma mín lét ekki undan síga, sendi son sinn, Einar Örn, fimmtán ára gamlan, gangandi að vetrarlagi til Borgarfjarðar eystra, að leita stuðnings til Halldórs Ásgrímssonar, kaupfélagsstjóra afa Halldórs; það átti að ganga að skuld hjá Kaupfélagi Héraðsbúa.

Halldór Ásgrímsson eldri leysti málið og amma bjó áfram með börnum sínum. Síðan liðu árin, ég komin með fjölskyldu í Borgarfirði vestra. Þá birtist faðir minn til að biðja mig um að koma með sér um Austurland því hann ætlaði að styðja ungan mann til framboðs fyrir Framsóknarflokkinn – faðir minn hafði ekki löngu áður verið í pólitík og boðið sig fram utanflokka; nú ætlaði hann fylgi sitt til Halldórs Ásgrímssonar yngra í komandi kosningum. Það varð úr að við Einar Örn, sonur minn, um tíu ára gamall, fórum með honum. Varð eftirminnileg ferð, víða komið við, allt úr Hornafirði norður á Bakkafjörð. Halldór komst að, varð farsæll þingmaður og ráðherra fyrir sitt kjördæmi, átti einn stærsta þátt í Kárahnjúkavirkjun er nú stendur undir atvinnulífi á Austurlandi.

Síðast hittumst við Halldór á leið til Spánar fyrir tæpu ári, það urðu fagnaðarfundir, áttum við gott samtal, sagði hann mér að bréf Guðrúnar ömmu minnar væri í bréfasafni afa síns og þætti sér vænt um þá heimild. Það var okkar síðasti fundur, við kvöddumst með virktum, hvorugt vissi að það var í síðasta sinn.

Innilegar samúðarkveðjur til Sigurjónu og fjölskyldu.

Sigríður Laufey Einarsdóttir.

Halldór Ásgrímsson er einhver öflugasti og traustasti einstaklingur og stjórnmálamaður sem ég hef kynnst. Það þarf því ekki að fara mörgum orðum um það hvílíkur missir andlát hans er öllum þeim sem hann þekktu.

Okkar leiðir lágu fyrst saman þegar Halldór var nýkjörinn á þing 1974 og ég nýbyrjaður minn starfsferil sem hagfræðingur á Þjóðhagsstofnun. Ég man ekki nákvæmlega hvenær við hittumst fyrst en það var alla vega ekki langt liðið á hans þingmannsferil þegar hann var kominn í hlutverk þess þingmanns Framsóknarflokksins sem mest lét til sín taka á sviði fjármála og efnahagsmála. Halldór var tíður gestur á Þjóðhagsstofnun og hann var ekki sáttur fyrr en hann hafði fengið nákvæmar skýringar á stöðu efnahags- og fjármála og áhrifum og afleiðingum hugsanlegra efnahagsaðgerða sem voru nánast daglegt brauð á þeim árum. Honum dugðu ekki einhverjar hagfræðiklisjur heldur vildi hann fá ítarlegar útlistanir á öllum mögulegum og jafnvel ómögulegum áhrifum slíkra aðgerða.

Hans sérsvið voru þó skattamálin. Þar stóðust fáir honum snúning enda birtist þar endurskoðandinn Halldór í öllu sínu veldi sem þekkti hvern krók og kima á þessu sviði. Ég man eftir ótal fundum með Halldóri um skattamál, sérstaklega eftir að ég var kominn yfir í fjármálaráðuneytið. Það var ótrúlegt hvað hann gat verið fundvís á veilur og vafaatriði í skattalöggjöfinni sem jafnvel reyndustu skattasérfræðingum ráðuneytisins hafði yfirsést.

Samskipti okkar Halldórs urðu enn nánari haustið 2004 þegar Halldór, þá nýtekinn við sem forsætisráðherra, óskaði eftir því að ég yrði ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu. Sá tími sem í hönd fór var í senn bæði ótrúlega gefandi og áhugaverður en um leið krefjandi þar sem þá voru að koma fram fyrstu merki um þá óheillaþróun í fjármálakerfinu sem á endanum leiddi til bankahrunsins haustið 2008.

Á þessum tíma kynntist ég enn betur, ekki aðeins stjórnmálamanninum, heldur ekki síður persónunni Halldóri. Fyrir mig sem embættismann var ótrúlega gott að vinna með Halldóri. Hann var fljótur og óragur við að taka ákvarðanir sem voru þó alltaf vel ígrundaðar og rökstuddar. Það er draumur allra embættismanna að fá ráðherra til að taka ákvarðanir, á hvorn veginn sem er, bara að fá ákvarðanir.

Halldór var ákaflega vel liðinn af starfsmönnum forsætisráðuneytisins. Það kom því öllum starfsmönnum ráðuneytisins í opna skjöldu þegar Halldór ákvað að láta af embætti forsætisráðherra eftir slæma útkomu Framsóknarflokksins í sveitarstjórnarkosningunum vorið 2006. Eftir á að hyggja þá lýsir þetta kannski vel bæði persónunni og stjórnmálamanninum Halldóri. Hann var maður sannfæringar og ábyrgðar og taldi þetta hið eina rétta í stöðunni. Við samstarfsmenn hans söknuðum hins vegar góðs félaga.

Kæra Sigurjóna. Fyrir hönd fyrrverandi samstarfsmanna í forsætisráðuneytinu og okkar Hrefnu sendi ég þér og dætrum ykkar og öðrum aðstandendum okkar innilegustu samúðarkveðjur með minningum um góða manneskju og góðan félaga.

Bolli Þór Bollason.

Halldór Ásgrímsson var framsýnn maður, réttlátur og góður leiðtogi. Fyrir hartnær aldarfjórðungi var ég nýútskrifaður lögfræðingur ráðinn framkvæmdastjóri þingflokks framsóknarmanna. Þetta voru lærdómsríkir tímar fyrir ungan mann. Í þingflokknum var mikið einvalalið og margir litríkir persónuleikar og bardagamenn. Stærsta ágreiningsmálið var sem löngum fyrr og síðar, Evrópumálin. Þingflokkurinn var í þetta sinn klofinn í tvennt í aðstöðu til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

Í starfi mínu hjá þingflokknum kynntist ég fyrst af einhverju viti Halldóri heitnum. Hann fór fyrir frjálslyndum sem nú eru lítt áberandi í Framsóknarflokknum. Fannst mér hann jafnan tala spaklega, af yfirvegun og skynsemi, og færa rök fyrir máli sínu. Það var líka iðulega hlustað þegar Halldór talaði.

Á næstu árum áttum við Halldór í margs konar pólitísku samstarfi á vegum Framsóknarflokksins. Sérstaklega eru eftirminnilegar ferðir sem ég fór með Halldóri meðan ég starfaði hjá þingflokknum og síðar á fundi og kjördæmisþing sem formaður Sambands ungra framsóknarmanna. Þá var Halldór í essinu sínu, ók um héruð, sagði mér sögur og lék á als oddi. Í lok starfstíma míns sem aðstoðarmaður umhverfisráðherra 1995-1999 var ég svo heppinn að fá að vera aðstoðarmaður Halldórs, þó líklega meira að nafninu til enda stutt til kosninga. Ég var síðar varaþingmaður Halldórs í Reykjavíkurkjördæmi norður og enn síðar vorum við tveir þingmenn flokksins í því kjördæmi þó stutt væri.

Ég var eitt sinn kallaður húskarl Halldórs. Mér þótti vænt um það viðurnefni og enn frekar nú þegar ég kveð þennan góða dreng. Við áttum oft gott samstarf meðan ég var meðal forystumanna framsóknarmanna í Reykjavík, m.a. í alþingiskosningunum 1995 og aftur 2003, en í síðari kosningunum fékk Framsóknarflokkurinn kjörna þrjá þingmenn í Reykjavík. Ég var oft foringjahollur í pólitík og það var ekki vandkvæðum háð meðan Halldór Ásgrímsson var formaður flokksins, þó auðvitað værum við ekki sammála um alla hluti.

Halldór var hvorki sérhlífinn né sérdrægur, ólíkt mörgum öðrum sem vasast í pólitík. Honum var annt um almannahagsmuni og hugsaði jafnan til langs tíma í þeim efnum. Oft dáðist ég að orku og krafti Halldórs, þó vafalaust hafi hann átt sínar þungu og erfiðu stundir þar sem lengra virtist vera í gleðina. Lífið er ekki alltaf dans á rósum.

Ég minnist Halldórs Ásgrímssonar með mikilli hlýju og þakklæti. Ég bið góðan Guð um að blessa minningu hans og vaka yfir og styrkja hans góðu konu, Sigurjónu, dætur og fjölskyldu í þeirra miklu sorg.

Guðjón Ólafur Jónsson.

HINSTA KVEÐJA

Mín ættjörð, mitt æskuland

á órafjöll og víðan sand

– en sólin græðir teig og tún

sem tengja byggð við byggð,

þar hlúð er bæ við heiðarbarm,

þar hvíld er gnoð við fjarðararm,

þar undir jökulbjartri brún

er brjóst með þrek og tryggð.

(Einar Benediktsson)

Broddi og Sóley.