Smásala Sala á skóm hefur aukist en ekki að sama skapi á fatnaði.
Smásala Sala á skóm hefur aukist en ekki að sama skapi á fatnaði. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
Skósala jókst um 9,3% í nóvember frá sama tíma í fyrra jafnvel þó að verð á skóm hafi hækkað lítillega. Hins vegar hefur sala á fatnaði minnkað um 3,1% þó að verð á fötum hafi verið 3,1% lægra.
Skósala jókst um 9,3% í nóvember frá sama tíma í fyrra jafnvel þó að verð á skóm hafi hækkað lítillega. Hins vegar hefur sala á fatnaði minnkað um 3,1% þó að verð á fötum hafi verið 3,1% lægra. Þetta kemur fram í nýrri samantekt Rannsóknarseturs verslunarinnar. Það virðist því sem aðgerðir ýmissa fataverslana, sem fólust í verðlækkun á fötum til að hvetja til aukinna kaupa, hafi ekki skilað sér og bendir rannsóknarsetrið á að skýringuna megi ef til vill rekja til aukinna kaupa á fötum frá útlöndum, ýmist í gegnum netverslanir eða í ferðum til útlanda.

Sala á minni raftækjum jókst um 39,5% og 19,8% aukning varð á sölu stórra raftækja. Velta í dagvöruverslun jókst um 0,4% á breytilegu verðlagi í nóvember miðað við sama mánuð í fyrra og minnkaði um 2,8% á föstu verðlagi. 10% aukning varð í veltu byggingarvöruverslana og segir í samantektinni að að baki þessari aukningu séu bæði nýbyggingar og endurnýjun á eldra húsnæði.

Velta húsgagnaverslana var 20% meiri og velta sérverslana með rúm jókst um 22% frá því í fyrra. Sala á farsímum dróst saman um 1,4% frá nóvember í fyrra en þá varð reyndar sprenging í sölu farsíma þegar salan jókst um 141% frá árinu þar á undan.

Tilboðsdagurinn „svartur föstudagur“ sem var í lok nóvember virðist hafa skilað mismikilli veltuaukningu eftir tegundum verslana. Í samantektinni kemur fram að heimilistæki og húsbúnaður hafi selst í miklum mæli en ekki hafi verið sama ris í sölu á nauðsynjum eins og matvöru og fatnaði.