Ögmundur Pétursson fæddist á Malarrifi á Snæfellsnesi 26. apríl 1929. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Eiri í Reykjavík 5. desember 2015. Foreldrar hans voru Elínborg Björnsdóttir frá Hvítadal í Dalasýslu f. 1889, d. 1950 og Pétur Pétursson vitavörður frá Malarrifi f. 1983, d. 1960. Systkini Víglundur Möller f. 1910, d. 1987, Ragnar Magnús f. 1912, d. 1959, Pétur f. 1916, d. 1989, Þórdís f. 1918, d. 1969, Ingibjörg f. 1923, d. 2012.

Eftirlifandi eiginkona er Kristín Erla Valdemarsdóttir f. 29 apríl 1931, frá Skjaldartröð á Hellnum. Foreldrar hennar voru Guðmunda Kristín Júlíusdóttir f. 1907, d. 1995, og Tryggvi Valdimar Kristófersson f. 1903, d. 1969. Börn Ögmundar og Kristínar eru: 1) Valdimar Jörgensen f. 1950, maki Hildur Þuríður Tómasdóttir. Sonur þeirra er Pétur Þór Valdimarsson f. 1977. 2) Elínborg f. 1953, sambýlismaður Vilhjálmur B. Þorvaldsson. Börn Elínborgar eru: Ögmundur Ólafsson f. 1984 og Elín Ósk Ólafsdóttir f. 1990. 3) Guðmunda Sigrún f. 1956, maki Ragnar Ólafur Sigurðsson. Börn þeirra eru Erla f. 1984, Þóra Lilja f. 1988 og Svanberg Ingi f. 1992, d. 2006. 4) Magnea Ragna f. 1961, maki Jón Ingi Ingimarsson. Börn þeirra eru Kristín Erla f. 1986, Heiðar Ingi f. 1988, Andri Þór f. 1991 og Dagný Rut f. 1997. Fyrir átti Jón, Ingimar f. 1970 og Berglindi f. 1974. Barnabarnabörnin eru átta.

Ögmundur og Kristín bjuggu fyrstu búskaparárin á Malarrifi en fluttust 1956 að Gíslabæ á Hellnum. Þar stunduðu þau hefðbundinn búskap ásamt trilluútgerð. Árið 1966 fluttu þau til Keflavíkur og bjuggu þar til ársins 1977 er þau fluttu á Melabraut á Seltjarnarnesi. Ögmundur starfaði lengst af hjá Vita- og Hafnamálum eða til ársins 1987. Þá byggðu þau sér hús á Arnarstapa og stundaði hann trilluútgerð þaðan á meðan heilsan leyfði eða til ársins 2000. Síðustu árin bjuggu þau í Árbænum en Ögmundur dvaldist á hjúkrunarheimilinu Eiri síðustu sex mánuði og naut þar góðrar umönnunar þar til yfir lauk.

Ögmundur verður jarðsunginn frá Árbæjarkirkju í dag, 15. desember, klukkan 13.

Elsku pabbi okkar kvaddi þennan heim á sinn hægláta hátt laugardaginn 5. desember sl. Honum fannst þetta vera orðið gott enda heilsan löngu farin. Hann var ekki margorður maður en orðum hans var hægt að treysta. Traustur fjölskyldufaðir og alltaf til staðar fyrir sína. Nægjusemi og ósérhlífni einkenndi lífsferil hans eins og margra af hans kynslóð. Hið stórbrotna umhverfi æskuslóðanna á Snæfellsnesi hefur eflaust mótað hann því þrautseigja og dugnaður einkenndi hann alla tíð og kom sér vel þegar hann á seinni hluta ævinnar hóf trilluútgerð. Oftast var hann með fyrstu mönnum út úr höfninni á Arnarstapa, þótti frekar fiskinn og gjarnan haft á orði að ef Mundi væri ekki að fá hann þá væri ekkert að hafa.

Pabbi var kannski ekki ímynd þolinmæðinnar þegar við systkinin vorum að alast upp en þegar árin færðust yfir og barnabörn og ekki síst langafabörn komu til sögunnar var annað upp á teningnum. Hann hafði nægan tíma og þolinmæði fyrir þau. Það var yndislegt að sjá hvað hann ljómaði þegar litlu langafabörnin komu í heimsókn. Áður en heilsan fór að gefa sig þá tók hann að sér einn veturinn að gæta yngsta barnabarnsins þegar foreldrarnir voru við vinnu. Það starf var leyst jafn samviskusamlega og allt annað sem hann tók sér fyrir hendur. Börnin okkar allra voru þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að vera á sumrin á Arnarstapa hjá ömmu og afa. Atlætinu sem þau fengu þar munu þau búa að alla tíð. Oft var þrautin þyngri að fá þau heim úr sveitinni því helst hefðu þau viljað dveljast til frambúðar.

Pabbi var heimakær maður, sat gjarnan og las eða horfði á íþróttir og var alltaf fyrstur fyrir framan sjónvarpið þegar landsliðið í handbolta var að keppa. Þá þýddi nú lítið að trufla.

Þrátt fyrir mikið heilsuleysi síðustu árin þá var alltaf viðkvæðið hjá pabba að hann hefði það ágætt. Aldrei kvartað eða beðið um neitt og hann vissi ekki hvað það var að láta sér leiðast en það mátti finna á tali hans bjartsýni með veður og sjólag fyrir hans hinsta róður. Og nú liggja færi vel og rek gott á stórfiskablett fyrir handan.

Það er með söknuði sem við kveðjum hann en eftir standa allar góðu minningarnar til að ylja sér við.

Takk fyrir allt, elsku pabbi.

Ragna, Sigrún, Elínborg og Valdimar.

Ég man eftir stígnum sem hafði myndast í grasið við hliðina á húsinu á stapanum, gönguleiðin hans afa heim af sjónum, við fengum stundum að fara og taka á móti honum þegar hann kom í land og það var mikið sport. Ég man líka eftir græna skúrnum, hann var nú ekki stór en ég man nú samt eftir því að hafa fengið að vera hjá ömmu og afa í þessu pínulitla rými. Stóllinn hans afa á stapanum er eftirminnilegur, veglegur leðurstóll sem við sátum stundum í og snérum okkur í hringi þar til við vorum ringluð, og svo sat maður í afa fangi og hlustaði á fréttirnar á kvöldin. Afi talaði mikið um Malarrifið, lóndrangana og alla vitana og kenndi okkur að það boðar ógæfu að benda á skipin með einum fingri og þess vegna ætti að nota alla fimm fingurna. Þetta man ég alltaf og kenni mínum börnum. Takk fyrir allar góðu stundirnar, afi minn, minningunum gleymi ég aldrei.

Þetta ljóð tileinka ég þér og kalla Sjómanninn.

Skrýtið að afi sé ekki innan kalla,

sjómaðurinn sem sigldi um höfin blá.

Minning þín lifir í hjörtum okkar allra,

og hverfur okkur ekki frá.

Erla Ragnarsdóttir.

Í dag kveðjum við þig, elsku afi. Mikið rosalega er sárt og erfitt að kveðja þig, elsku afi. Eftir sitja góðar minningar sem við munum varðveita. Bestu stundirnar áttum við systkinin hjá ykkur ömmu á Arnarstapa. Á Stapanum var alltaf best að vera, fyrir okkur var þetta algjör paradís.

Á daginn var leikið og seinnipartinn var arkað niður á bryggju til að taka á móti þér koma í land á Draupni, trillunni þinni. Alltaf svaraðir þú okkur með bros á vör þegar við spurðum þig hvernig veiði dagsins hefði gengið, sama hvernig hafði gengið.

Þegar við systkinin lékum okkur meðan veðurfréttirnar voru í gangi var ekki sussað á okkur, ó nei það gerðir þú ekki. Kannski hækkað örlítið í sjónvarpinu, þó svo að veðurfréttir skipti miklu máli þegar hugað er að sjóferð næsta dags. Stundum, eftir mikið suð í ömmu, fengum við að kalla í þig út á sjó í gegnum talstöðina og alltaf svaraðir þú okkur, sama hversu litlar og ómerkilegar spurningar komu til þín og þó að allir hinir sjómennirnir væru að hlusta.

Þér var sama. Börnin þín skiptu þig svo miklu máli og það vita allir sem þig þekktu.

Þegar þið amma fluttuð í bæinn vorum við svo heppin að fá ykkur í hverfið okkar. Að stoppa hjá ykkur í Hraunbænum eftir skóla þar sem alltaf var boðið upp á góðgæti eins og pönnukökur, kleinuhringi og kleinur var svo gott. Einnig var alltaf gott að leggjast í sófann og loka augunum. Í Hraunbænum var alltaf vel tekið á móti okkur og alltaf fórum við út södd og sæl.

Góðmennska þín var svo mikil og erfitt að lýsa með orðum hversu góður maður og góður afi þú varst. Þú heilsaðir alltaf með þínu stóra faðmlagi og tveimur kossum á kinnina. Alltaf sýndir þú mikinn áhuga á því sem við systkinin og frændsystkinin tókum okkur fyrir hendur. Það skipti ekki máli hversu lítið eða stórt, hvort sem það var skóli, vinna eða bílakaup, alltaf hlustaðir þú af áhuga. Það var alltaf gaman að spjalla við þig um lífið og tilveruna.

Góðmennska þín og dugnaður kenndi okkur öllum svo mikið. Þú varst svo duglegur að sækja sjóinn og veiða fisk. Enda vildum við systkinin ekki láta fisk inn fyrir okkar varir nema hann væri veiddur af þér.

Elsku afi, mikið eigum við eftir að sakna þín, sakna þíns stóra faðmlags og að fá tvo kossa á kinnina. Við erum ákaflega þakklát fyrir allt sem þú gerðir fyrir okkur og kenndir okkur. Þú átt stóran þátt í því hver við erum í dag.

Elsku afi okkar, við vitum að þú ert kominn á betri stað núna þar sem vel er tekið á móti þér og boðið upp á pönnukökur. Þar er eflaust alltaf gott í sjóinn og Draupnir bíður eftir að þið leggið af stað í næstu sjóferð.

Takk fyrir allt, elsku afi, við elskum þig og við vitum að þú vakir yfir okkur. Minning þín mun lifa með okkur.

Kristín Erla, Heiðar Ingi,

Andri Þór og Dagný Rut.