Lengi hefur verið viðurkennt að lýðræðið, og er þá átt við framkvæmd þess, er fjarri því að vera gallalaust. Skárri stjórnskipun hefur þó ekki fundist. Færa má fyrir því rök að við tiltekin skilyrði væri einveldi skilvirkara, t.d.
Lengi hefur verið viðurkennt að lýðræðið, og er þá átt við framkvæmd þess, er fjarri því að vera gallalaust. Skárri stjórnskipun hefur þó ekki fundist.

Færa má fyrir því rök að við tiltekin skilyrði væri einveldi skilvirkara, t.d. þegar þjóð stendur frammi fyrir miklum háska, t.d. innrásarher við landamærin.

En vandinn við einveldið er sá að það kann sér aldrei hóf, þekkir ekki sinn vitjunartíma og jafnvel í höndum „menntaðs einvalds“ er harðstjórnin á næstu grösum.

Atkvæðisrétturinn, helsta tæki lýðræðisins, birtist með ýmsum hætti í lýðræðisríkjum. Með honum er lýðræðislegt vald framselt til afmarkaðs tíma. Sumir vilja takmarka framsalið með „beinu lýðræði“. Stóra spurningin um framkvæmd þess snýst einmitt um „spurninguna“. Sá sem henni ræður, ræður miklu. En þátttaka í beina lýðræðinu hefur reynst slök.

Svo er það „rafræna lýðræðið“. Það er auðvelt að misnota eins og dæmin sanna, en ekki er alltaf auðvelt að sanna misnotkunina eins og dæmin sanna líka. En svo virðast handhafar rafræna lýðræðisins ekki spenntir fyrir því.

Þriðjungur kjósenda í bústnu bæjarfélagi krafðist rafrænnar kosningar um álitamál. Þeir höfðu það í gegn. Eftir tilheyrandi kosingabaráttu ákváðu 8% þeirra sem voru á kjörskrá að kjósa. Hvað varð um þriðjunginn?