Oliver Kristófersson fæddist í Hjarðarholti í Sandgerði 26. september 1928. Hann lést á LSH 25. nóvember 2015.

Foreldrar hans voru Kristófer Oliversson skipstjóri og útgerðarmaður, f. 22.8. 1894, d. 21.3. 1983, og Þuríður Gísladóttir frá Sandgerði, f. 3.7. 1900, d. 21.8. 1983. Systkini Olivers eru Kristinn Sveinbjörn, f. 29.1. 1920, d. 4.6. 1943, Ólína Helga, f. 31.5. 1927, d. 12.11. 2004, Guðlaug, f. 28.1. 1930, og Helgi, f. 18.4. 1937, d. 29.11. 1963.

Oliver kvæntist 17. júní 1953 Ingibjörgu Söru Jónsdóttur frá Hnífsdal, f. 27.10. 1931, d. 30.9. 1986. Hún var dóttir hjónanna Jóns Elíasar Ólafssonar og Steindóru Rebekku Steindórsdóttur frá Bæjum á Snæfjallaströnd. Börn þeirra eru 1) Steindór Kristinn Oliversson útgerðarmaður, f. 5.3. 1953, kvæntur Ingu Björgu Sigurðardóttur, f. 1953. Börn þeirra eru a) Birna, f. 1971. Börn hennar eru Sólon Kristinn, f. 1991, og Sara Rebekka Björg, f. 2003. b) Óli Valur, f. 1973, kvæntur Ragnheiði Þengilsdóttur, f. 1974. Börn Óla Vals eru Steindór Snær, f. 1995, Ísak, f. 1999, Oliver Snær, f. 2003, Steinunn Eva, f. 2007, og Sunna, f. 2012. c) Tinna, f. 1983, unnusti hennar er Valdimar Þór Guðmundsson, f. 1983. Börn Tinnu eru Anna Valgerður, f. 2007, Arnór Dagur, f. 2010, og Guðmundur Hrafn, f. 2015.

2) Helga Ólöf Oliversdóttir sjúkraliði, f. 18.3. 1954, gift Pálma Pálmasyni, f. 1951. Börn þeirra eru a) Oliver, f. 1971, kvæntur Nönnu Guðbergsdóttur, f. 1974. Dætur Olivers eru Eva, f. 1991, Nadja, f. 2002, og Sonja, f. 2004. b) Pálmi Sveinn Pálmason, f. 1976, kvæntur Ana Maria Chacon Pálmason, f. 1976. Synir þeirra eru Pálmi Sveinn, f. 2008, og Magnús Oliver, f. 2012. c) Matthildur Vala Pálmadóttir, f. 1980, gift Ingólfi Bjarna Sveinssyni, f. 1980. Dóttir þeirra er Helena Kristín, f. 2008.

3) Kristófer Oliversson framkvæmdastjóri, f. 30.6. 1955, kvæntur Svanfríði Jónsdóttur, f. 1955. Börn þeirra eru a) Maron, f. 1975, kvæntur Unni Gyðu Magnúsdóttur, f. 1976. Börn Marons eru Kristófer Már, f. 1993, Thelma Kristín, f. 2001, Elísa Björk, f. 2007, og Magnús Andri, f. 2009. b) Sara, f. 1979, gift David McGuinness, f. 1975. c) Anna Ólöf, f. 1984.

Oliver ólst upp til sex ára aldurs í Sandgerði en fluttist þá til föðursystur sinnar, Helgu Oliversdóttur, og eiginmanns hennar, Ólafs Ásmundssonar frá Háteigi á Akranesi. Þeim varð ekki barna auðið og ólst Oliver upp hjá þeim. Hann hóf ungur störf hjá Þórði Ásmundssyni útgerðarmanni, bróður Ólafs, og starfaði við verslunarstörf o.fl. Þaðan lá leiðin í Verslunarskóla Íslands og útskrifaðist hann þaðan 1950. Oliver starfaði mestan sinn starfsaldur sem aðalbókari Akraneskaupstaðar en einnig starfaði hann um skeið á hafnarvoginni á Akranesi og á Akraborginni. Þá starfaði hann um nokkurra ára skeið á endurskoðunarskrifstofu Ragnars Á. Magnússonar í Reykjavík. Eftir að Oliver komst á eftirlaunaaldur hóf hann störf sem næturvörður á Gistiheimilinu Flókagötu 1 í Reykjavík og vann við það í tæpan áratug.

Útför Olivers fer fram frá Akraneskirkju í dag, 15. desember 2015, og hefst athöfnin klukkan 14.

Elsku pabbi minn er farinn til Guðs. Ég samgleðst honum en sakna hans strax. Við höfum verið virkir þátttakendur, hvort í annars lífi, í meira en sextíu ár. Pabbi og mamma gáfu mér og bræðrum mínum vandað og gott uppeldi.

Fyrir það er ég afar þakklát. Þau voru heiðarleg og lítillát. Betra veganesti er ekki hægt að gefa börnum sínum.

Pabbi fékk vandað uppeldi sjálfur og góða menntun í Verslunarskóla Íslands. Mikið fannst mér gaman að skoða Verslunarskólabókina hans þegar ég var lítil. Þar höfðu samnemendur hans sett myndir af sér og skrifað ýmsa speki. Sumir skrifuðu um Bakkus, hver varð því miður förunautur pabba því hann var með sjúkdóminn alkóhólisma.

Fjölskyldulíf okkar var oft undirlagt af þessum sjúkdóm og ég lærði snemma á hann. Ég var nefnilega pabbastelpa og stundum ef pabbi var einn að drekka, sat ég hjá honum og las Verslunarskólabókina.

Ég erfði sjúkdóminn hans. Komin hátt á fertugsaldur fór ég að fikta við áfengi og missti fljótt tökin. Innst inni þekkti ég einkennin því ég hafði alist upp með þeim.

Pabbi var óendanlega góð og ljúf manneskja og ég bar gæfu til að greina á milli, hver var hann og hver var Bakkus.

Mamma var ung þegar hún fór til Guðs. Við vorum lömuð af sorg og grétum saman fyrstu jólin sem pabbi var einn. Síðan eru 29 ár.

Mamma hafði verið kletturinn í lífi hans og stýrt heimilinu af alúð og ábyrgð.

Mamma var húsmæðrraskólagengin eins og sagt var í gamla daga. Það þótti góð menntun fyrir ungar stúlkur. Hún var svo velvirk. Pabbi hafði alltaf getað treyst á hana.

Hann drekkti sorgum sínum í nokkur ár og missti tökin á tilverunni. En kraftaverkin gerast og hann náði að snúa við blaðinu með hjálp SÁÁ. Hann eignaðist innihaldsríkt líf síðustu 20 árin og einbeitti sér að afahlutverkinu og öðlaðist ást og virðingu barnahópsins síns.

Hann varð mín fyrirmynd sem AA maður og við vorum nánir vinir til æviloka hans.

Ég trúi því að foreldrar mínir séu í ljósinu fagra hjá Guði og njóti jólanna saman.

Helga Ólöf Oliversdóttir.

Guð, gefðu mér æðruleysi

til að sætta mig við það

sem ég fæ ekki breytt,

kjark til að breyta því

sem ég get breytt

og vit til að greina þar á milli.

Að lifa einn dag í einu,

njóta hvers andartaks fyrir sig,

...

(Reinhold Niebuhr)

Það má segja að þegar Oliver kúventi sínu lífi samfara röð tilviljana, þá hafi þessi hluti æðruleysisbænarinnar orðið honum vegvísir það sem eftir var ævi. Oliver var miklum hæfileikum gæddur sem sneri að stærðfræði, með mikið og gott talnaminni sem nýttist afar vel sem aðalbókari Akranesbæjar um áratugaskeið. Þá ekki síður sem bridge-spilari allt til hinsta dags þar sem Oliver var jafnan vikulega með verðlaunasæti þar sem hann spilaði á þrem stöðum vikulega á höfuðborgarsvæðinu við góðan orðstír. Framan af langri ævi var Bakkus meðreiðarsveinn. Er það dapur allt of stór kafli þar sem allt það vænsta fór forgörðum, hin glæsilega eiginkona, veraldlegar eignir og tiltrú barnanna sem og annarra. Öllu þessu tvístraði Bakkus og eirði engu fyrr en auðnin sjálf var framundan. Það var þá sem ekki varð lengra haldið og það góða í manninum náði yfirhöndinni og yfirbugaði óvættinn í sálinni. Skyndilega eignuðust barnabörnin sinn afa sem var ávallt til í að gera greiða þegar á þurfti að halda. Oliver var ferðaglaður og sjálfstæður þótt einmanakenndin gerði oft vart við sig í daglega lífinu þar sem hann var oftast einn á ferð eða í íbúðinni á Dalbraut. Hans besti vinur var Gulla systir hans sem vakti yfir velferð Olivers svo eftir vara tekið af mikilli einlægni. Sjálfur kynntist ég Oliver fyrst þegar við dóttir hans gengum í hjónaband og þakka ég þau kynni sem alltaf héldust þrátt fyrir margháttaðar breytingar, þá ekki síst að þakka fyrir þann góða afa og langafa sem hann að lokum gaf af sér til fjölskyldunnar og mun lifa í minningunni.

Pálmi Pálmason.

Elsku afi Olli.

Nú ertu farinn frá okkur og þegar ég hugsa til baka er svo margs að minnast og margt til að vera þakklát fyrir.

Þó að ég hefði eytt barnsárunum í Svíþjóð þá koma upp yndislegar minningar um þig úr sumarfríunum á Íslandi þegar þú varst að basla við að kenna mér stærðfræði fjögurra ára gamalli svo að ég væri með smá forskot þegar ég byrjaði í skóla. Rúntarnir á bögglaberanum á svarta hjólinu með þér og rabarbarauppskeran við Háteiginn svo amma Inga gæti gert rabarbarasultuna sína góðu, allt eru þetta ljúfar minningar sem ég hef hugsað mikið til undanfarið.

Fyrir rúmum 20 árum fluttirðu frá Akranesi til Reykjavíkur og málin æxluðust þannig að þú varðst næturvörður á gistiheimilinu á Flókagötu 1 og það átti heldur betur eftir að hafa áhrif á æviskeið okkar allra. Um ári eftir að þú byrjaðir á Flókagötunni lét Kristín þig vita að hún væri komin á þann aldur að hún vildi hætta í rekstrinum og úr varð að mamma og pabbi tóku við þeim rekstri af henni og þar upphófst fjölskylduævintýrið okkar.

Þú varst án efa skemmtilegasti maðurinn sem hefur tekið við vakt af mér á nokkrum vinnustað og aldrei hef ég hangið tímunum saman með vinnufélaga á vakt eftir vaktaskipti. Það var nú bara nokkuð reglulegt hjá okkur að fá okkur einn sjálfstæðan Íslending saman í kvöldmat og sitja svo bara og spjalla þangað til allir gestir voru mættir í hús. Þarna á ég svo endalaust margar góðar minningar um þig að það fyllir í heila bók.

Þú varst mikill fjölskyldumaður og fannst gaman að segja sögur af fjölskyldunni og hélst allri stórfjölskyldunni alveg ótrúlega vel upplýstri um stöðuna hjá öllum alveg fram á síðasta dag. Þú varst alveg einstaklega hjartahlýr og svo duglegur að hugsa um þína. Ég man alltaf eftir því þegar Olli og Pálmi voru í Þýskalandi, þá var það regluleg venja að þú mættir með kort og dagblaðabúnt og jafnvel íslenskt súkkulaði inn í glerskála og svo föndruðum við það saman í pakka og skrifuðum á kortið svo þú gætir sent þeim smá glaðning frá Íslandi. Ég er alveg viss um að þeim hafi þótt jafn óendanlega vænt um það og mér þótti að fá glaðningana og kortin frá þér þegar ég var flutt til Írlands. Það voru alltaf bestu sendingarnar.

Bestu minningarnar tengjast nú samt sem áður flottasta bíl í heimi, E-10. Þú hafðir alveg einstakt lag á að finna það á þér ef einhverju okkar leið eitthvað illa og varst fljótt mættur á E-10 í smá afarúnt þar sem keypt var pulsa og kók, alltaf bara ein kók í gleri og svo sagðir þú alltaf „þú drekkur fyrri helminginn og ég seinni“. Svona varstu ljúfur og deildir alltaf svo fallega með okkur. Það fór bara eftir tímanum hvert rúntað var, Grindavík, Garður og Sandgerði var vinsæll rúntur hjá okkur og mikið spjallað um gamla tíma í leiðinni.

Takk, afi, fyrir samveruna og að hafa kennt mér verðmætustu lexíu í heiminum. Það skiptir engu máli hversu slæm staðan er, ef þú vaknar á morgnana og heldur áfram að vinna í öllum þínum málum þá endarðu sem sigurvegari.

Hvíl í friði, elsku vinur og afi.

Ástarkveðja, þín

Sara.

Það er komið að því, elsku afi Olli. Þriðjudaginn 15. desember verður nafnið þitt líkast til ritað eitt hinsta sinni á síður Morgunblaðsins. Þú varst alltaf duglegur að benda okkur, sposkur á svip, á nafnið þitt í Mogganum, sem oftar en ekki skipaði efsta sætið í brids eða „spilamennskunni“ eins og þú kallaðir það.

Þú varst alltaf svo hress, kátur og sagðir gamansögur milli konfektmola í fjölskylduboðum.

Ég man þegar ég sat á spítalanum daginn sem þú veiktist, hinn 16. nóvember síðastliðinn, og hlustaði á starfsfólkið ræða sín á milli. Aldur þinn bar á góma og ég hugsaði með mér: „Já, afi er orðinn 87 ára gamall.“ Það er skrítið hvað aldur getur verið afstæður, ekki síst þegar maður er eins ungur í anda og þú, afi Olli.

Ég fann hvernig öryggið sem ég bar með mér inn á Landspítalann í Fossvogi um að þú myndir mæta þessum skyndilegu veikindum með hnefanum og hafa ótvíræðan sigur minnkaði og raunveruleikinn og hræðslan við að þurfa að kveðja þig tók völdin.

Eitt var þó rétt og næsta víst þegar þú áttir í hlut. Þú mættir veikindunum galvaskur og barðist hetjulega gegn ofjörlum þínum til þess að koma aftur til okkar. Lífslöngunin leyndi sér ekki og baráttan fordæmi sem er okkur öllum til eftirbreytni í framtíðinni.

Kveðjustundin þín, afi, endurspeglaði svo sannarlega þann sterka mann og karakter sem þú hafðir að geyma. Þú barðist fyrir því sem mestu skipti og nýttir þinn tíma vel.

Í veikindunum gerðir þú akkúrat nóg. Þú komst í gegnum miklar ógöngur sem flestir sögðu ómögulegt. En þú hélst áfram og með þinni eljusemi veittir þú okkur, sem eftir sitjum, ómetanlegan tíma með þér. Sá tími er haldreipið í dag og fleytir okkur áfram í sorginni. Fyrir það verð ég ævinlega þakklát.

Söknuðurinn er sár, en minningarnar eru lifandi ljós í hjartanu og varðveitast þar um ókomna tíð. Takk, elsku afi, fyrir allt sem þú varst. Guð geymi þig og varðveiti um alla tíð og tíma. Það eru forréttindi að hafa þig vakandi yfir sér og fjölskyldunni sinni. Góða ferð áfram.

Þegar ég leystur verð þrautunum frá,

þegar ég sólfagra landinu á

lifi og verð mínum lausnara hjá –

það verður dásamleg dýrð handa mér.

Dásöm það er, dýrð handa mér,

dýrð handa mér, dýrð handa mér,

er ég skal fá Jesú auglit að sjá,

það verður dýrð, verður dýrð handa mér.

Og þegar hann, er mig elskar svo heitt,

indælan stað mér á himni' hefur veitt,

svo að hans ásjónu' ég augum fæ leitt –

það verður dásamleg dýrð handa mér.

Ástvini sé ég, sem unni ég hér,

árstraumar fagnaðar berast að mér,

blessaði frelsari, brosið frá þér,

það verður dásamleg dýrð handa mér.

(Þýð. Lárus Halldórsson)

Matthildur Vala Pálmadóttir.