Víkverji er grjótharður rokkari. Það er tengdasonur hans líka og fyrir skemmstu vitjuðu þeir í sameiningu leiðis Jims Morrisons í Père Lachaise-kirkjugarðinum í París.
Víkverji er grjótharður rokkari. Það er tengdasonur hans líka og fyrir skemmstu vitjuðu þeir í sameiningu leiðis Jims Morrisons í Père Lachaise-kirkjugarðinum í París. Víkverji hafði komið þar áður en tengdasonurinn ekki og komst þarna aldeilis í snertingu við rokksöguna.

Leiðið lætur svo sem ekki mikið yfir sér en búið er að girða það af vegna ágangs aðdáenda söngvarans dáða úr The Doors. Gríðarlegur fjöldi heimsækir Morrison á ári hverju enda þótt 44 ár séu liðin frá andláti hans.

Morrison heyrir til 27-klúbbnum góðkunna en aðild að honum eiga tónlistarmenn sem látist hafa 27 ára að aldri, svo sem Jimi Hendrix, Janis Joplin og Brian Jones.

Talið barst einmitt að þessum ágæta klúbbi þarna í kirkjugarðinum og tengdasonurinn lét þess getið í því sambandi að árið 1994 hefði verið afskaplega vont fyrir tónlistina.

Nú, jæja, sagði Víkverji.

„Já,“ sagði tengdasonurinn. „Við misstum Kurt Cobain og fengum Justin Bieber í staðinn.“

Einmitt það.

Père Lachaise er stórmerkilegur kirkjugarður, ríflega tvö hundruð ára gamall og heilir 44 hektarar að stærð. Hann er stærsti kirkjugarðurinn í gömlu borginni en ennþá stærri garða mun vera að finna í úthverfum Parísar. Íburðurinn er víða mikill og sumar grafir minna meira á íbúðarhús en leiði. Grafhýsi heilu fjölskyldnanna líkjast líka á köflum meira raðhúsum.

Margt stórmenna hvílir í garðinum og Morrison fyrir vikið ekki í amalegum félagsskap. Má þar nefna skáldin Oscar Wilde, Marcel Proust og Molière, tónskáldin Georges Bizet og Gioachino Rossini og söngkonuna Edith Piaf.

Molière lést raunar löngu fyrr, 1673, en jarðneskar leifar hans voru fluttar í Père Lachaise fyrsta árið sem garðurinn var opinn sem liður í markaðsátaki eigenda hans.