Langförull Hnúfubakurinn sem í fyrravetur dvaldi um tíma í Karíbahafinu.
Langförull Hnúfubakurinn sem í fyrravetur dvaldi um tíma í Karíbahafinu. — Morgunblaðið/Sigurður Ægisson
Tvær steypireyðar verða merktar næsta sumar, en steypireyður er stærsta dýrategund sem lifað hefur á jörðinni og getur náð allt að 190 tonna þyngd.
Tvær steypireyðar verða merktar næsta sumar, en steypireyður er stærsta dýrategund sem lifað hefur á jörðinni og getur náð allt að 190 tonna þyngd. Steypireyðar voru merktar við landið 2009, 2013 og 2014 og tókst fyrsta árið að fylgjast með steypireyði í 80 daga. Þann tíma dvaldi dýrið á hafsvæðinu milli Íslands og Grænlands.

Margt er óljóst varðandi stofngerð og far steypireyðar í Norður-Atlantshafi og eru t.d. vetrarstöðvarnar óþekktar. Þó hefur sama dýrið greinst af ljósmyndum við Ísland að sumri og undan ströndum Máritaníu að vetri.

Tveir þeirra þriggja hnúfubaka sem merktir voru með gervihnattasendum í Eyjafirði um mánaðamótin október-nóvember halda enn kyrru fyrir fyrir norðan land. Þeir hafa ferðast á milli fjarða, frá Húnaflóa í vestri og Öxarfjarðar í austri.

Þriðji hvalurinn lagði hins vegar fljótlega af stað vestur með landinu og út af Vestfjörðum tók hann strikið suður á bóginn. Merki hættu hins vegar að berast þegar hann var kominn rúmlega 500 sjómílur (950 km) suðvestur af Reykjanesi.

Í fyrravetur var fylgst með hnúfubak í fimm mánuði frá því að starfsmenn Hafrannsóknastofnunar merktu hann í Eyjafirði 10. nóvember. Fylgst var með ferðum dýrsins suður á bóginn og um miðjan mars hélt það kyrru fyrir í Karíbahafinu í tæpar tvær vikur, en þar eru þekktar æxlunarstöðvar hvala. Síðasta skeyti barst frá hnúfubaknum 12. apríl og samkvæmt ljósmyndum er talið víst að hann hafi skilað sér í Skjálfandaflóa síðasta vor. aij@mbl.is