Þrjátíu Melissa Zornig átti stóran þátt í sigri Keflavíkurliðsins á meisturum Snæfells. Hún er þriðja stigahæst í deildinni með 27,6 stig að meðaltali.
Þrjátíu Melissa Zornig átti stóran þátt í sigri Keflavíkurliðsins á meisturum Snæfells. Hún er þriðja stigahæst í deildinni með 27,6 stig að meðaltali. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
11. umferð Ívar Benediktsson iben@mbl.is Bandaríski bakvörðurinn Melissa Zornig hefur fallið vel inn í ungt lið Keflavíkur í Dominos-deild kvenna í körfuknattleik á þessari leiktíð. Hún skoraði m.a.
11. umferð

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Bandaríski bakvörðurinn Melissa Zornig hefur fallið vel inn í ungt lið Keflavíkur í Dominos-deild kvenna í körfuknattleik á þessari leiktíð. Hún skoraði m.a. 30 stig þegar Keflavíkurliðið gerði sér lítið fyrir og lagði Íslandsmeistara Snæfells, 75:67, í TM-höllinni í Keflavík á laugardaginn.

„Zornig er ekki reynslumikil. Hún lék í Þýskalandi í fyrra þaðan sem hún kom beint úr háskólaboltanum í Bandaríkjunum,“ sagði Margrét Sturlaugsdóttir, þjálfari Keflavíkurliðsins. „Þegar við fórum að leita að erlendum leikmanni í sumar sem leið þá var markmið okkar að krækja í leikmann sem gæti verið leiðtogi í okkar unga liði. Markmiðið var ekki að fá leikmann sem tók öll skotin og hirti öll fráköstin heldur frekar leikmann sem hafði verið fyrirliði í háskólaboltanum og gæti verið leiðtogi okkar liðs inni á vellinum,“ segir Margrét og bæti við. „Að því leytinu til fengum við rétta leikmanninn í Zornig en á þessum tíma sem við vorum að velta fyrir okkur útlendingi þá var Bryndís Guðmundsdóttir ennþá með okkur en síðan skildu leiðir hennar og okkar.“

Margrét segir að Keflavíkurliðinu hafi vantað þroska. Zorning, sem er 23 ára gömul og kemur frá Kaliforníu, hafi að ýmsu leyti komið til móts við þær kröfur sem til hennar eru gerðar. „Það vantar kannski aðeins upp á þætti sem snúa ekki beint að körfuboltanum. Hún er svolítið róleg og til baka utan vallar. En hún er finn persónuleiki og hlýðir vel sínum þjálfara.“

Tekur tíma að stilla strengina

„Það tekur síðan alltaf tíma að stilla saman strengina. Zornig er ennþá svolítið að leita eftir hvað samherjarnir geta og eins eru samherjarnir svolítið að velta hennar styrkleikum fyrir sér. Svona gengur þetta fyrir þegar verið að stilla saman strengina hjá nýju liði,“ segir Margrét.

„Zornig smellur vel inn í liðið og fyrst í haust þurftu andstæðingarnir að leita að útlendingnum okkar. Hún lítur út fyrir að vera sextán ára eins og margir leikmenn liðsins.

Zornig er fín stúlka og öll af vilja gerð að leggja sitt lóð á vogarskálarnar hverju sinni. Hún er að læra eins og aðrir,“ segir Margrét.

Helsti styrkleiki Zornig sem leikmaður er að hún er frábær skotmaður, að sögn Margrétar. „Hún er að átta sig á því að hún verður að vera tilbúin til þess að taka af skarið þótt hennar hlutverk hafi ekki verið svo í upphafi. Eins og áður segir þá vorum við ekki að leita að leikmanni sem tekur öll skot og fráköst liðsins. Við erum með ungt lið og við viljum að útlendingurinn skilji eitthvað eftir sig innan leikmannahópsins að keppnistímabilinu loknu.

Sóknarleikur okkar er svolítið flókinn og ég setti mér það markmið að nýta tímann fram að áramótum til þess að vinna í því atriði. Þar leikur Zornig mikilvægt hlutverk,“ segir Margrét Sturlaugsdóttir, þjálfari kvennaliðs Keflavíkur í körfuknattleik.